04.05.1976
Efri deild: 95. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3529 í B-deild Alþingistíðinda. (2910)

243. mál, áfengislög

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hér er fjallað um mál sem furðu lítið eru rædd í sölum hins háa Alþ., þess háttar vandamál að miklu meira er um það vert heldur en ýmis önnur sem mjög löngum tíma er varið í umfjöllun á. Í þessu frv. finnst mér 1. gr. og 4. gr. horfa til nokkurra bóta og raunar mikilla bóta, en aftur á móti eru 2. og 3. gr. alveg fráleitar og bera vott um ákaflega takmarkaðan eða jafnvel öndhverfan skilning á eðli þessa vandamáls. Hér er ekki verið að þrengja kosti þeirra sem selja áfengi, síst af öllu sprúttsalans stærsta, Áfengisverslunar ríkisins, og jafnvel ekki heldur kosti leynivínsalanna. Svo vill til að mennirnir, rosknu mennirnir sem hv. þm. Oddur Ólafsson talaði um, sem sniglast í kringum vínbúðirnar og gera unglingum þann greiða að kaupa fyrir þá áfengi gegn því að fá sopa í staðinn, þetta eru ekki fjárplógsmenn, þetta eru menn sem sjálfir eru áfengissjúklingar.

2. gr. þessa lagafrv. ber vott um svo ómannúðlegt og óeðlilegt viðhorf til áfengissjúklinganna sem hugsast getur, sprottið upp af sama hugarfari og sú ráðstöfun hjá forustumönnum áfengisvarnamála hér á landi, sem þótt undarlegt megi virðast eru gjarnan forustumenn áfengissölunnar líka, byggt á sams konar hugarfari og sú ráðstöfun að blanda ólyfjan í þær tegundir af ódýrum vinanda sem fáanlegar eru á frjálsum markaði. Er þar nokkur vandi á höndum því ekki má þessi ólyfjan verða þess háttar að drykkurinn verði banvænn beinlínis. En þá er valin sú tegundin af ólyfjan sem helst er til þess fallinn að lítillækka þessa menn sem ríkið er búið að gera að ofdrykkjumönnum með áfengissölu, samtímis því sem þetta sama hæstv. ríki hefur svo forustu um baráttu gegn drykkjuskap, — ólyfjan sem er til þess fallin að smán þessara manna verði sem mest, með því að þeir fái niðurgang, óstöðvandi niðurgang með skjótum hætti, þar sem bæði er um að ræða brennslusprittið og ýmsar tegundir af svokölluðum hárspíritus.

Dæmin um meðferð áfengissjúklinga og drukkinna manna, um það með hvaða hætti þeir eru sviptir þegnréttindum, ekki með dómi, heldur raunverulega í samfélaginu á opinberan hátt, dæmin um meðferð þeirra af hálfu lögreglu, hversu oft höfum við ekki lesið það í dagblöðunum að maður finnst liggjandi meðvitundarlaus á götu og hann er drifinn tafarlaust í fangageymslu lögreglunnar, honum er hent þangað inn, látinn liggja þar um nóttina og svo eru menn steinhissa á því morguninn eftir að maðurinn er látinn, og það reyndist ekki vera af völdum ofneyslu áfengis, heldur vegna þess að hann hafði reyndar fengið slag og legið þarna. Jafnvel þó að hann hefði legið barna ofurölvi og sýktur af ofneyslu áfengis, þá er hann sjúkur fyrir því. Þetta er náttúrlega ekki beinlínis geðsleg meðferð á sjúkum manni þó að af ofneyslu áfengis sé, að henda honum umsvifalaust í fangageymslu. Hvar er stoð fyrir því í almennri siðgæðisvitund íslendinga eða í lögum að maður, sem kaupir með löglegum hætti og á löglegum aldri áfengi í vínbúð ríkisins, ef hann verður veikur af neyslu þess, hvort sem það er meira eða minna, hann glati rétti sínum til sæmilegrar meðferðar af hálfu samborgara sinna og löggæslumanna?

Ég skyldi með glöðu geði greiða atkv. með algjöru vínbanni ef til þess kæmi, en ég er því gjörsamlega mótfallinn að gerðar séu ráðstafanir til þess að lítillækka þá menn sem kaupa hér áfengi og neyta lögum samkv., að lítillækka þá sem einstaklinga á einn eða annan hátt. Sú hugmynd að skrá nafnnúmer hvers kaupanda, hafa nafnnúmer hvers kaupanda við áfengiskaup hans, halda skrá yfir slíkt, með hvaða hætti ætti þetta að koma í veg fyrir að rosknu mennirnir, sem ekki eiga fyrir einni, sniglast þarna í kring og reyna að komast yfir sjúss með fyrrgreindum hætti, — hvernig á það að koma í veg fyrir að þeir haldi þessu áfram? Á að takmarka það magn sem menn mega kaupa af áfengi? Þessir menn, sem hv. síðasti ræðumaður gat um áðan, eru þekktir. Löggæslumenn, ef þeir vilja sinna þessu, þá væru þeir í engum vandræðum með að sanna á þá sekt — ekki neinum.

Ég hef grun um það, ég er ekki alveg viss um það að vísu, en ég hef grun um það að í lögum mæli ekkert gegn því að hver ríkisborgari kaupi nokkrar áfengisflöskur á dag og fari með heim til sín ef honum býður svo við að horfa. Ég er kunnugur því að fyrirhyggjusamir fésýslumenn hafa jafnvel lagt peningana sína í að koma sér upp svolitlum lager í kjallaranum hjá sér af brennivíni fremur en að setja þetta í ríkistryggð skuldabréf eða gull og silfur. Einn lést fyrir nokkrum árum sem skildi eftir sig, að því er mér skilst, 5.6 tonn af gömlu áfengi. En hann lést nú frá þessu öllu saman.

Það er engin trygging fyrir því að menn stundi ekki leynivinsölu þó að áfengiskaup þeirra séu skráð. Það væri engin sönnun fyrir því að ég stundaði leynivínsölu þó að ég keypti sem samsvaraði 5 flöskum á dag 365 daga ársins. Hugsunin á bak við þessa skráningu er lítillækkun, að ýta undir sektarkenndina, þá sektarkennd sem m.a. hefur gert ýmsa menn að ofdrykkjumönnum. Það verður svo gjarnan með þann verknað sem menn fremja illu heilli, með slæmri samvisku, að honum er ennþá gjarnara að verða árátta og árátta af verstu tegund.

En ég sem sagt felli mig vel við 1. gr. og 2. gr. frv. og 4. gr. frv., sem mér finnst vera til þess fallnar að bæta nokkuð úr slæmu ástandi. Ég ítreka það, að með glöðu geði skyldi ég greiða atkv. með algjöru vínbanni, en ekki með neinni þeirri ráðstöfun sem er til þess fallin að minnka þá sem kaupa á löglegan hátt þessa vöru, og allra síst þá sem eru nú komnir í svaðið.