04.05.1976
Neðri deild: 96. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3540 í B-deild Alþingistíðinda. (2923)

209. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Þetta frv. var lagt fyrir hv. Ed. og hefur verið afgr. þaðan. Efni þess er tvíþætt: Annars vegar er að afnema það hámark sem nú er varðandi lán til kaupa á eldri íbúðum. Sú breyting var gerð á síðasta þingi að hækka hámark þess, sem árlega mætti nota í þessu skyni, úr 80 millj. í 160 millj. Hins vegar er eftirspurnin og þörfin svo mikil og svo margt sem mælir með því að rýmka heimild til þess að veita lán til kaupa á eldri íbúðum að rétt þykir að gera þá breyt. sem lagt er til með þessu frv. að gerð verði, en hún er á þá lund, að í stað þess að binda hámarksupphæðina í lögum sé svo ákveðið að húsnæðismálastjórn skuli árlega gera till. til ráðh. um heildarfjárhæð sem heimilt sé að veita á ári hverju í þessu skyni, þannig að það verði mat húsnæðismálastjórnar og félmrn. árlega hversu háa upphæð skuli heimilt að nota í þessu skyni.

Hin breytingin er í 2. gr. Hún er varðandi leiguíbúðir, en á árinu 1973 var ákveðið að heimilt skyldi á næstu 5 árum að veita sérstök lán til byggingar allt að 1000 leiguíbúða sveitarfélaga. Hafa komið fram eindregnar óskir frá sveitarfélögum, og hefur Samband ísl. sveitarfélaga tekið eindregið undir þær óskir, að hlutaðeigandi sveitarfélögum verði heimilað án tímaskilyrða að selja umræddar íbúðir einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Við meðferð málsins í Ed. voru gerðar tvær breytingar á frv. Önnur er sú að auk heimildar til að veita lán til kaupa á eldri íbúðum og til endurbúta á eigin húsnæði öryrkja komi: „til endurbóta á eigin húsnæði öryrkja og ellilífeyrisþega“. Þessi breyting var samþ.till. hv. 2. þm. Reykn., Odds Ólafssonar. — Síðari breyt. er varðandi leiguíbúðirnar og var hún flutt af félmn. Ed. Hún er á þá leið að á næstu 5 árum skuli veita slík lán sem þar um ræðir út á eigi færri en 150 íbúðir ár hvert eða samtals 750 íbúðir, m.ö.o. að í stað heimildar sé húsnæðismálastjórn nú lögð á herðar sú skylda að á ári hverju skuli veita lán út á eigi færri en 150 íbúðir.

Ég tel að þessar breyt. báðar eigi fullkominn rétt á sér og legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og félmn.