04.05.1976
Neðri deild: 96. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3541 í B-deild Alþingistíðinda. (2924)

209. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. alveg sérstaklega fyrir þetta frv. sem ég tel að sé mjög til bóta. Ég vil enn fremur og ekki síður þakka félmn. Ed. fyrir að breyta frv. eða auka inn í frv. skylduákvæðinu. Um það ákvæði leyfði ég mér að flytja þáltill. á síðasta þingi. Hún náði ekki fram að ganga. En ég get ekki annað en lýst sérstakri ánægju minni yfir því að málið skuli nú vera leyst, að það skuli nú vera komið í höfn. Jafnvel þó að ég hefði kosið að boginn hefði verið spenntur ofurlítið fastar, þannig að um væri að tefla fleiri íbúðir, þá sætti ég mig eftir atvikum vel við það þó ekki verði nema 150 íbúðir á ári sem skylda verði að lána út á. En það er algert meginatriði að þessar leiguíbúðir verði ekki hornrekur í húsnæðismálakerfinu, eins og þær því miður hafa verið, því þær hafa ekki orðið þær forgangsframkvæmdir sem þeim var ætlað að verða, svo sem Breiðholtsframkvæmdirnar voru á sínum tíma. Og það byggist að mínu mati fyrst og fremst á mismunandi orðalagi laga og reglugerða. Þar sem talað var um heimild í lögunum um leiguíbúðirnar var talað um skyldur í reglugerðinni um Breiðholtsíbúðirnar. Þess vegna er þessi brtt. mikilsverð og góð.

Sveitarfélögin þurftu að fá heimild til þess að selja eitthvað af þessum íbúðum, því þetta er mikil fjárfesting fyrir þau og þær aðstæður geta skapast að þeim sé ofraun að sitja með þær allar. Ég legg áherslu á að það er nauðsyn að setja skorður við að þau megi selja þær allar, en það er sjálfsagt að lofa þeim að selja eitthvað af þeim þegar svo vill verkast. Það er nauðsyn fyrir sveitarfélögin allra hluta vegna að geta boðið upp á leiguhúsnæði, og það ákvæði frv. er enn fremur mjög til bóta. En ég vil þó leyfa mér að kynna örstutta brtt. eða viðbótartill. við þetta frv., því að það er einn annmarki enn á leiguíbúðarlögunum sem ekki hefur verið lagaður. Hann var þó ekki bundinn í lögum í byrjuninni. Hann skapast í reglugerð um 1000 leiguíbúðir sem er frá 26. febr. 1974. Þetta er reglugerð nr. 45 og er í B-deild Stjórnartíðinda. Þar segir í 3. gr. í reglugerðinni: „Þegar húsnæðismálastjórn hefur samþ. að veita lán til að byggja leiguíbúðir samkv. reglugerð þessari skal húsnæðismálastjórn annast eða láta annast allan tæknilegan undirbúning framkvæmda, könnun aðstæðna á byggingarstað, gerð teikninga, verklýsinga og kostnaðaráætlana, eftirlit og tæknilega aðstoð á byggingartímanum.“

Það er ekkert smáræði sem tæknideildinni er ætlað að færast þarna í fang. Ég vil ekki draga úr því að það sé nauðsynjamál að þetta sé vandlega undirbúin framkvæmd á hverjum stað. En reynslan hefur sýnt að þegar kostnaðarreikningar tæknideildar Húsnæðismálastofnunar hafa borist viðkomandi sveitarfélögum, þá hafa þeir reynst geysiháir og forráðamönnum sveitarfélaga hefur ekki lítist á að þeir réðu við að greiða þá. Það hefur sem sagt komið í ljós að það er of dýrt að stjórna þessu alfarið frá Reykjavík, framkvæmdum sem gjarnan eru í fjarlægum landshlutum, í svo ríkum mæli sem gert hefur verið og það er ráðlegra að nýta betur starfskrafta heimamanna, enda sé fyllstu ráðdeildar gætt og hönnun verksins og æðsta yfirstjórn að sjálfsögðu í höndum Húsnæðismálastofnunar. Þess vegna vil ég leyfa mér að flytja svo hljóðandi brtt., að aftan við 3. gr. frv. bætist: „Skal Húsnæðismálastofnun annast eða láta annast gerð teikninga og láta í té tæknilega aðstoð á byggingartímanum í samráði við viðkomandi sveitarfélög“. Sem sagt er fellt niður þarna það sem segir í reglugerð: „allan tæknilegan undirbúning framkvæmda og könnun aðstæðna á byggingarstað og gerð verklýsinga og kostnaðaráætlana og eftirlit“. Þetta er sem sagt orðað vægilegar, sú krafa sem gerð er til tæknideildar, heldur en gert er í reglugerðinni. Mér sýnist að þetta sé einföld aðferð til þess að fá reglugerðinni breytt, að binda það í lögum að Húsnæðismálastofnun eigi að annast eða láta annast gerð teikninga, láta í té tæknilega aðstoð á byggingartímanum í samráði við viðkomandi sveitarfélög. Ég held að það yrði öllu þessu leiguíbúðaplani til framdráttar ef hægt væri að nýta betur starfskrafta heimamanna og ná niður þessum líð í kostnaðinum.