04.05.1976
Neðri deild: 96. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3544 í B-deild Alþingistíðinda. (2929)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur gert grein fyrir frv. um Búnaðarbanka Íslands á þskj. 411 sem þegar hefur verið samþ. í Ed. svo ég þarf ekki mörgu við að bæta og skal vera mjög stuttorður.

Seðlabanki Íslands var stofnaður 1961 og lög um hann eru nr. 10 frá því ári. Í framhaldi af setningu þeirra laga voru lög um Landsbanka Íslands endurskoðuð og umsamin. Þau eru nr. 11 frá 1961. Jafnframt voru endurskoðuð lög um Útvegsbanka Íslands og samræmd löggjöfinni um Landsbankann. Þau eru nr. 12 frá 1961. Við lögum um þriðja ríkisviðskiptabankann, Búnaðarbanka Íslands, var ekki hreyft að því sinni, Þau eru nr. 115 frá 1941 og þó raunar eldri að stofni til, svo sem 1. gr. þeirra laga ber með sér, en þar segir: „Banka skal stofna er nefnist Búnaðarbanki Íslands.“ Þannig hefjast lögin um Búnaðarbankann enn í dag þó hann hafi lifað og starfað í hálfan fimmta áratug og sé nú annar stærsti banki þjóðarinnar. „Tilgangur bankans er að styðja landbúnaðinn og greiða fyrir fjármálaviðskiptum þeirra er stunda landbúnaðarframleiðslu,“ segir í lögum hans. Þessu hlutverki hefur bankinn jafnan reynt að gegna af fremsta megni og gerir enn í dag. En jafnframt er hann fyrir löngu orðinn alhliða viðskiptabanki sem rekur almenna bankastarfsemi og á viðskiptavini í öllum stéttum þjóðfélagsins.

Frv. þetta miðar að því að samræma löggjöf um Búnaðarbankann lögum hinna ríkisbankanna svo og kröfum tímans. Eðlilegt er að viðskiptabankarnir þrír í eigu ríkisins njóti svipaðra réttinda og beri skyldur samkv. því. Með þessu frv. er þó ekki gert ráð fyrir því að Búnaðarbankinn fái gjaldeyrisréttindi, sem hann hefur þó lengi barist fyrir, en að öðru leyti leyfi ég mér að vitna til orða hæstv. landbrh. sem hann viðhafði um þetta atriði.

Með þessu frv., ef samþ. verður, næst að öðru leyti allnáið samræmi við lög Landsbankans og Útvegsbankans. Það verður því að teljast eðlilegt og sjálfsagt að það nái fram að ganga á þessu þingi.