04.05.1976
Neðri deild: 96. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3544 í B-deild Alþingistíðinda. (2930)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki við þessa 1. umr. hafa mörg orð um þetta frv. Ég vil aðeins láta það koma fram að sú skoðun okkar þm. Alþb. að það sé í sjálfu sér eðlilegt og síður en svo neitt við það að athuga að svipuð löggjöf gildi um Búnaðarbanka Íslands og aðra ríkisbanka. Þetta út af fyrir sig teljum við í alla staði eðlilegt og höfum síður en svo neitt við að athuga, en erum fúsir til að styðja.

Hins vegar hljótum við að leggja á það nokkra áherslu að við getum ekki séð, a.m.k. ekki eins og nú horfir í fjármálum þjóðarinnar, að það geti verið um að ræða brýna nauðsyn að fjölga bankastjórum við Búnaðarbankann. Við teljum að það hafi á engan hátt veríð rökstutt að þarna sé um neina sérstaka nauðsyn að ræða og teljum að hún sé í rauninni ekki fyrir hendi.

Það er rétt að minna á það í sambandi við þetta mál, endurskoðun á löggjöf um Búnaðarbankann, að fyrrv. ríkisstj., þar sem Framsfl. var öflugasti flokkurinn, — fyrrverandi ríkisstj. hafði þá stefnu í málefnum ríkisbankanna að sameina a.m.k. tvo þeirra og undirbúningur hafði farið fram í sambandi við það mál, og það var a.m.k. á tímabili ekki annað vitað en að fyrrv. ríkisstj. ætlaði að láta verða af því, að úr þessari sameiningu yrði. Því miður reyndist veruleg andstaða gegn þessu máli og það fórst þess vegna fyrir að fyrrv. ríkisstj. kæmi því fram sem þó virtist vera a.m.k. á tímabili stefna hennar og þeirra flokka sem að fyrrv. ríkisstj. stóðu.

Nú er sem sagt komið hér fram frv. um ýmsar breytingar, sumar allmiklar, en að mörgu leyti heldur minni háttar breytingar á löggjöfinni um Búnaðarbanka Íslands, og eins og ég sagði áðan, að því leyti sem um er að ræða samræmingu við aðra hliðstæða ríkisbanka, þá er í sjálfu sér ekkert við það mál að athuga. Fyrst þessi leið var farin, en hætt við allar hugmyndir, a.m.k. í bili, um sameiningu og fækkun ríkisbanka, þá er ekkert við þetta að athuga. En ég hef ekki enn séð þau rök sem liggja til þess að einmitt nú þurfi endilega að fjölga bankastjórum við þennan ríkisbanka. Ég hygg að margur muni telja að þörf sé á ýmsu öðru en því að fjölga bankastjórum.