10.11.1975
Neðri deild: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

12. mál, orkulög

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég var á mælendaskrá þegar umr. um þetta mál var frestað s. l. fimmtudag. Það voru nokkur atriði í ræðum þriggja hv. þm. sem ég held ég komist ekki hjá að gera nokkrar aths. við. Annars kom mér á óvart hvað tveir þeirra voru önugir í sínum málflutningi, þeir hv. þm. Gils Guðmundsson og Benedikt Gröndal, og mest þótti mér þeir æsa sig upp þegar þeir mistúlkuðu það sem ég hafði sagt í minni ræðu. Annars vil ég þakka fyrir einkunnina sem ég fékk hjá hv. þm. Gils Guðmundssyni, að önnur eins íhaldsræða um eignarréttindi hefði ekki verið haldin á Alþ. síðan 1914. Minna mátti það nú ekki vera. Það var þá kominn tími til að talsmaður eignarréttarins kæmist á þing. En því miður held ég að ég eigi ekki þessa einkunn. Raunverulega er það svo að á Alþ. hafa, sem betur fer, ætið átt sæti menn sem hafa verið talsmenn þess að eignarréttur einstaklinga væri virtur. Þ. á m. mætti nefna þá sem flm. þessa frv. eru sífellt að nugga sér utan í, svo sem þá Jón Þorláksson og Bjarna Benediktsson. Já, og eftir að hv. 3. þm. Reykn. hafði gefið ræðu minni þessa einkunn, þá bauðst hann til að koma fréttum af ræðunni til suðurnesjamanna eftir eðlilegum leiðum, eins og hann kallaði það. Það stóð ekki heldur á því. Ég held að það sé gagnlegt að frásögnin, sem birtist í Þjóðviljanum daginn eftir, komist líka í Alþt. til þess að menn geti borið saman það sem sagt var í ræðunni og svo frásögn Þjóðviljans. Með leyfi hæstv. forseta, les ég þennan kafla. Fyrirsögnin er svona og er innan tilvitnunarmerkja í Þjóðviljanum og feitletrað líka:

„Það er óleyfilegt að skerða í nokkru eignarrétt mannanna sem eiga háhitasvæðið Svartsengi við Grindavík. Þeir gætu auðveldlega sjálfir hagnýtt jarðhitann þar ef þeir fengju að vera í friði fyrir ríkinu. Það er skylda þeirra og okkar gagnvart eignarréttinum að skattleggja atmenning duglega við virkjun háhitans úr Svartsengi, og það skal koma fram í hitakostnaði hjá suðurnesjabúum um ókomin ár.“

En síðan kemur svo aftur með smærra letri fyrir neðan, að þetta sé nú að vísu ekki rétt tilvitnun í ræðu mína, en innihaldið hafi verið þetta.

Kannast menn e. t. v. við þessa tegund blaðamennsku, eða er þetta kannske skrifað af hv. 3. þm. Reykn. svona í framhaldi af því boði hans að koma fréttunum til Suðurnesja?

Röksemdir hv. flm. fyrir þessu frv. eru hinar fjölbreytilegustu, ekki vantar það. Sumar þeirra sýnist mér að komi málinu ekkert við, aðrar byggjast á tilfinningalífi hv. flm. og enn aðrar eru út í bláinn og í beinu ósamræmi við það sem þessir sömu menn láta frá sér fara í öðrum en hliðstæðum málum. Það, sem helst er lögð áhersla á í röksemdafærslunni, er að hér sé um mikil náttúruauðæfi að ræða og koma verði í veg fyrir að með þau verði braskað.

Það, sem er aðalatriðið í þessu sambandi, er að jarðhitaréttindi hafa fylgt landareignum frá fyrstu tíð og meira að segja verið óheimilt að skilja þau frá þeim. Ríkið getur því ekki kastað eign sinni á þau án bóta. Um þetta er fyrst og fremst deilt. Það er ekki deilt um það hvort ríkið hafi heimild til að takmarka eignarréttindi manna. Slíkt er löngu viðurkennt. Og það er heldur ekki deilt um, að bætur verði að greiða fyrir land sem tekið yrði af einstaklingum. Og ég get ekki séð að ríkið þurfi yfirleitt að óttast neitt brask með þessi réttindi. Þau eru ekki þess eðlis að menn standi í röðum og vilji kaupa. Notendur réttinda þessara yrðu að sjálfsögðu fyrst og fremst ríki og sveitarfélög. Það er því þarflaust og út í bláinn að vera að tala um að þessi réttindi lendi í braski.

Þá er af flm. lögð áhersla á að það sé ríkið sem kosti rannsóknir og tilraunaboranir. Rétt er það. En ég get ekki séð að það út af fyrir sig skapi ríkinu rétt til að sölsa hitaréttindin undir sig. Það ætti að vera regla að ríkið léti engar tilraunaboranir fara fram á landi í einkaeign nema áður hafi verið samið við eigandann eða þá að viðkomandi eigandi kostaði rannsóknir og boranir að fullu. Ég fagna þessu vegna þeirrar yfirlýsingu sem hæstv. orkumrh. gaf áðan um að hann hafi þegar lagt fyrir Orkustofnun að framkvæma ekki boranir fyrr en gengið hafi verið tryggilega frá slíkum samningum.

Þá er ein röksemdin fyrir þessari þjóðnýtingu að hvert háhitasvæði sé sjálfstætt rennsliskerfi og því geti vinnsla á einum stað raskað rennsli á öðrum stöðum í kerfinu, af þessum sökum sé mikilvægt að vinnsla jarðhita á hverju svæði sé í höndum eins aðila. Þetta er alveg rétt. En halda menn virkilega að enginn aðill ráði við þetta nema ríkið. Það er gagnlegt og þá sérstaklega fyrir þm. Reykn. að vita að um þetta atriði hefur t. d. þegar verið samið við eigendur Svartsengis, þ. e. að Hitaveita Suðurnesja kaupi öll jarðhitaróttindi við Svartsengi. Hættan að þessu leyti er því liðin hjá og ég vona að a. m. k. sumir geti andað léttar þess vegna, þeir sem hafa haft þyngstar áhyggjurnar til þessa.

Að lokum komum við svo að tilfinningalífinu hjá hv. flm., en þá fer að vísu að verða miklu erfiðara að rökræða við þá. Það stríðir gegn réttlætiskennd að einstaklingar geti kastað eign sinni á slík réttindi, segja þeir, þau eigi að vera almenningseign, ekkert síður en fallvötnin. Það, sem ég hef við þessa röksemd að athuga, er í fyrsta lagi að einstaklingar eru ekkert að kasta eign sinni á eitt eða neitt núna. Þeir hafa átt þessi réttindi. Þau hafa fylgt landinu um aldir og þar með yfirfærst frá manni til manns. Þetta er meginmálið, og af því að þjóðnýtingarmenn sjá nú að þessi réttindi kunni að gefa eigendum þeirra einhvern arð, þá á að lýsa því yfir að þau séu eign ríkisins og hafi víst alltaf verið það.

Ég hef spurt hvar þessir menn ætli sér að draga mörkin í þessum þjóðnýtingaráformum, en ég hef ekki fengið svar. Það hefur verið spurt að vísu á móti hvort þeir menn, sem eigi landið, eigi líka að eiga hitann og vatnið. Ég svara því hiklaust játandi að svo skuli vera áfram sem hingað til. En afstaða Alþb. til eignarréttinda virðist fara nokkuð eftir vindáttinni í það og það skiptið. Mér sýnist t. d. að þeir leggi ekki sama mat á það, hvort um sé að ræða virkjun jarðhita eða virkjun fallvatns, þótt þeir segi í ræðum sínum nú að jarðhitinn eigi að vera almenningseign eins og fallvötnin. Mér sýnist það nánast fara eftir því hvort tiltekin náttúrugæði séu á Reykjanesi eða hvort þau eru í Þingeyjarsýslu. (Gripið fram í.) Í Þingeyjarsýslu, já. Kannski gætu hv. flm., sem jafnframt eru þm. Reykn., skýrt þetta út fyrir þingheimi. Mér sýnist vera brýn nauðsyn á því, annars getur verið að það verði svo talið að sumir menn séu ósamkvæmir sjálfum sér.

Afstaða Alþfl. í þessu máli er hins vegar miklu ljósari. Alþfl. vill lýsa yfir eignaráðum ríkisins á landinu öllu, gögnum þess og gæðum. Minna mátti það nú ekki vera. En þetta er þó stefna. En fyrst ég minntist á Alþfl. langar mig að biðja form. hans, þó að hann sé því miður ekki hér í þd., hv. þm. Benedikt Gröndal, að skýra út fyrir mér og öðrum hvað það eru mörg hundruð millj. kr. sem það munar suðurnesjamenn hvort þetta frv. nær fram að ganga. Hann viðhafði þau orð hér í ræðu á fimmtudaginn var að þetta munaði suðurnesjamenn mörg hundruð millj. kr. Mig langar til þess að fá svar við þessu og jafnframt vildi ég vita hvernig þetta dæmi er sett upp, svo að ég geti þá betur áttað mig á útkomunni. (Gripið fram í: Hvað með Framsókn?) Ég kem að því síðar. Annars gladdi það mig að heyra hjá hv. form. Alþfl. að hann hefði ekki mælt með því að eignir manna væru teknar án bóta. Ég hélt það bara af því að það stendur í grg. frv. og hv. ræðumaður var einn af flm. þess.

Svo var það þetta, að ég hefði háðslega gagnrýnt flm. fyrir að hugsa um fólkið sem ekki á land. Ég held ég verði að endurtaka það sem ég sagði um þetta, með leyfi hæstv. forseta. Það var svona:

„Auðvelt er að tala til hins fjölmenna hóps í þjóðfélaginu sem ekki ræður yfir öðru landi en því sem húsið hans stendur á, og smáskika umhverfis það. Það er til þessa hóps sem flm. þessa frv. tala í von um kjörfylgi.“

Þetta sagði ég og ég ítreka það hér og nú, en í þessu er bara ekkert háð. Menn mega vita það að mér þykir svona frv.-flutningur heldur ómerkilegur og einkum þegar slíkt kjördæmisbragð er af honum eins og í þessu tilviki.

Um ræðu hv. þm. Jóns Skaftasonar þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Mér fannst hann vera hálfpartinn að afsaka veru sína á þessu frv. með því að hann sagði að það væri öndvert hugsun hans að þau réttindi sem væru svona sérstaks eðlis, væru í eigu einstaklinga. Þetta var önnur ástæðan, en hin var sú að það væri ekki á færi nema opinberra aðila að virkja jarðhitann. Það atriði kemur því að sjálfsögðu ekkert við hvort menn viðurkenna slíka aðild eignarréttarins. Jafnframt kvaðst hann ekki vera sérstakur aðdáandi ríkisafskipta og ekki væri hægt að svipta menn rétti án bóta með einfaldri lagasetningu hvað sem stæði í frv. Þá fer ég nú að hætta að skilja hvers vegna hann er flm. Þá þótti honum vanta rökstuðning fyrir þeirri fullyrðingu minni að Alþ. færi inn á varhugaverða braut með því að samþ. þetta frv. Ég veit að hann hlýtur að skilja það nú, af því að við erum sammála, að það, sem ég var að segja, var einmitt þetta: Alþ. getur ekki með einfaldri samþykkt svipt menn eignum sínum án bóta. Ef það gerir það, þá fer það inn á varhugaverða braut.

Að lokum vil ég segja þetta og vil þá gjarnan að hv. 3. þm. Reykn. leggi sér það á minnið. Ég hef ekki talað í þessu máli fyrir hönd jarðhitafurstanna, eins og hann komst svo smekklega að orði í ræðu sinni á fimmtudaginn. Það fólk, sem fær þessa nafngift, er ósköp venjulegt fólk, að ég held. Að því er varðar eigendur Svartsengis, þá eru þetta liðlega 40 manns, fólk sem er búandi víða á Suðurnesjum og kannske víðar um land. Ég veit ekki um stjórnmálaskoðanir þess. Ég er þó viss um að ekki hefur það allt kosið Sjálfstfl., en ég ætla hins vegar engum þeirra að hafa kosið Alþb., því að gegn þessu fólki hefur verið haldið uppi alveg dæmalausum rógi. Það er látið að því liggja að það sé að notfæra sér hækkun olíuverðs úti í heimi með kröfugerð sinni á hendur Hitaveitu Suðurnesja, og því er, held ég, enn haldið fram að kröfur þess fyrir hitaréttindin hafi numið 800 millj. kr. Þessi málflutningur og annar hliðstæður er hafður uppi í blekkingarskyni, og mér sýnist að það séu ákveðnir menn sem nota þennan málflutning í von um pólitískan ávinning í kjördæmi sínu.

Það er enn talað um að framkvæmdir við Hitaveitu Suðurnesja hafi stórlega tafist vegna þess að landið og hitaréttindin séu í einkaeign. Þetta er rangt og ég skora á þá, sem þessu halda fram, að sanna mál sitt.