04.05.1976
Neðri deild: 97. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3564 í B-deild Alþingistíðinda. (2941)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Í þeim orðum, sem ég sagði hér við i. umr. málsins í gær, dró ég fram þá höfuðgagnrýni, sem Alþýðusamband Íslands hefur látið frá sér fara um þetta frv. Hún var í höfuðatriðum tvíþætt. Sambandið taldi að hér væri um of mikla skattlagningu að ræða, og í öðru lagi, og á það lagði miðstjórn Alþýðusambandsins mikla áherslu, að með frv. þessu væri verið að rifta grundvelli nýgerðra kjarasamninga með því að láta ekki þær verðhækkanir á vörum, sem af frv. leiddi, hafa áhrif á kaupið, þannig að hin svokölluðu „rauðu strik“ áttu ekki að breytast af þeirra völdum. Í meðferð málsins nú í hv. fjh.- og viðskn. hefur þessum síðara þætti verið breytt, þannig að hækkun á vöruverði mun nú koma inn í vísitöluna til áhrifa á „rauðu striks“-samningana á sama hátt og aðrar verðlagsbreytingar í landinu. Ég fagna því að þessi breyting hefur orðið, og ég vona að þetta boði að ríkisvaldið láti af þeim gjörðum sínum, sem hafa verið því miður allt of oft viðhafðar, að grundvelli kjarasamninga hefur verið rift með lagaboði. Ég endurtek að ég fagna því, sem hér hefur nú gerst, og hefði ekki þurft að hafa þessi orð mín fleiri ef ekki hefði komið til nokkur allþung orð af hálfu frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, í garð alþýðusamtakanna sem ég ekki get látið ómótmælt og hlýt að svara.

Hann sagði í fyrsta lagi að afstaða sú, sem komið hefði fram í ályktun Alþýðusambandsins, hefði valdið miklum vonbrigðum. Síðan gerði hann grein fyrir því hvað hér væri um að ræða í fjármunum, um það bil 0.4% í kaupi 1. júlí og síðar annað eins, eða samtals 0.8% í kaupi á þessu ári, og sagði, þegar um slíkt smáræði væri að ræða, þá hefði mjög ljóslega komið í ljós hjá Alþýðusambandinu og alþýðusamtökunum hver hugur fylgdi máli þegar talað er um þjóðarsamstöðu um landhelgismálið, eins og hann komst a.m.k. efnislega að orði. Ég tók það ákaflega skýrt, held ég, fram í gær í minni ræðu að það væru ekki þessi prósentubrot sem máli skiptu og afstaða Alþýðusambandsins hefði verið nákvæmlega hin sama til þessa þáttar frv., hvort sem um 0.1% í kaupi hefði verið að ræða eða 10% í kaupi. Hér er um „prinsip“-afstöðu að ræða, afstöðu til málanna, en ekki hvort um er að ræða eitthvað meiri eða minni röskun á kaupgjaldinu. Að sjálfsögðu verður málið því erfiðara sem um hærri upphæðir er að ræða, en afstaðan til þessa grundvallaratriðis, að breyta ekki eða raska grundvelli kjarasamninga með lagasetningu, hefði verið nákvæmlega hin sama.

Þetta vil ég sérstaklega undirstrika aftur, þóttist gera það nægilega í gær, en vil enn undirstrika það.

Þá sagði hv. þm. einnig að gerð hefði verið tilraun til að ná samstöðu um fjáröflun til landhelgisgæslunnar. Hvenær hefur þessi tilraun verið gerð? Ég harmaði það í ræðu minni í gær að Alþýðusambandið, sem óhjákvæmilega hlýtur að vera aðili í þessu máli, fékk ekki að sjá þetta frv. fyrr en á sunnudaginn var, þ.e.a.s. daginn áður en það var lagt fram hér á hv. Alþ., og þá er málið fullbúið. Ég fullyrði það að ef gerð hefði verið tilraun til þess að ná samstöðu um fjáröflun til handa landhelgisgæslunni og það hefði verið gert í tíma og menn hefðu tekið sér tíma til þess, þá hefði það tekist. Því er hér einvörðungu um að kenna að hæstv. ríkisstjórn hefur haldið svo á málum að menn stóðu frammi fyrir orðnum hlut sem verkalýðshreyfingin gat alls ekki samþ. Þetta kom í veg fyrir það — og þetta eitt — að um samstöðu væri að ræða.

Þetta er einvörðungu um það sem snertir fjáröflun til landhelgisgæslunnar. Um almenna fjárþörf ríkissjóðs að öðru leyti gegnir auðvitað allt öðru máli. Þar er um að ræða þann veigamikla þátt sem stjórn allra efnahagsmála landsins hlýtur að vera. Það er á ábyrgð ríkisstj. Um það verður hún að sjálfsögðu að fjalla og klóra fram úr. En um fjáröflun til landhelgisgæslunnar, sem allir eru sammála um að er nauðsynleg, hefði getað tekist algjör eining og þjóðarsamstaða ef slíkrar einingar hefði verið leitað. En að slíkt er ekki nú fyrir hendi, það er á ábyrgð ríkisstj. en ekki Alþýðusambandsins.