04.05.1976
Neðri deild: 97. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3567 í B-deild Alþingistíðinda. (2942)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Vilborg Harðardóttir:

Forseti. Þótt liðið sé á kvöld get ég ekki látið hjá líða að mótmæla hér þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefur markað, og því fordæmi, sem gefið er með því að leggja á vörugjald þegar aðkallandi er fjáröflun. Þetta fordæmi má nota síðar meir, ég vil benda á það og ég vara við þessu. Hér er um að ræða svívirðilega árás á kjör launafólks, 10–11 stiga hækkun framfærsluvísitölunnar, og ekki nema von að fólk almennt í bænum og í landinu spyrji: Var ekki nóg komið? Ég vil minna á það að í síðustu kjarasamningum var ekki samið um bætur vegna þeirra kjaraskerðinga sem höfðu orðið undanfarið samningstímabil. Það var fyrst og fremst leitast við að mæta komandi verðhækkunum eftir mati Hagstofunnar og Þjóðhagsstofnunar samkv. þeim forsendum sem ríkisstj. hafði gefið. En í reynd hafa verðhækkanirnar orðið mun meiri og svo fljótt, að sumir voru ekki einu sinni búnir að fá kauphækkunina sína útborgaða áður en verðbólgan var búin að éta hana.

Og enn er gengið til atlögu við alþýðu manna. Nýja árásin jafngildir, eins og fram hefur komið, 10–11 stiga hækkun á framfærsluvísitölunni. Stóran hlut átti ekki einu sinni að reikna inn í kaupgjaldsvísitöluna samkv. frv. ríkisstj., og þótt ég geti að mínu leyti fagnað því að ríkisstj. hafi vegna hálfgerðra hótana Alþýðusambands Íslands neyðst til að falla frá þessu ákvæði, þá stendur hitt óbreytt eftir sem áður, að einni stétt í landinu á að færa á silfurdiski meira en helming þeirrar upphæðar sem almenningur á að láta af hendi til landhelgisgæslunnar, milli 400 og 500 millj. eftir því sem reiknað hefur verið út. Og þessi stétt er auðvitað kaupmenn. Hafi einhver efast um það hingað til fyrir hvaða stétt þessi ríkisstj. vinnur, þá getur hann sannfærst nú. Þessir sérstöku skjólstæðingar ríkisstj. fá sem sé að leggja ofan á vörugjaldið sömu álagningarprósentu og áður, fyrst í heildsölu og síðar í smásölu. Svo lúaleg sem þessi árás er, sem hér er gerð á kjör almennings, er þó aðferðin kannske enn svívirðilegri, sú aðferð að koma þannig aftan að samtökum stéttarfélaganna rétt eftir lausn langra vinnudeilna og langvinnra kjarasamninga. Sjálfsagt er það heldur engin tilviljun að komið er fram með þetta frv. eftir baráttudag verkalýðsins, 1. maí. Hver veit nema jafnvel sendisveinar íhaldsins, sem komið hafa sér inn í samtök verkafólks, hefðu ekki talið stætt á því að kljúfa samstöðu gegn slíkri árás ofan á allt annað sem dunið hefur yfir þessar vikur?

Ef þessar álögur voru nauðsyn, voru þær þá ekki löngu fyrir séðar? Var það ekki þegar fyrir séð í haust, löngu fyrir afgreiðslu fjárl., að fé vantaði til landhelgisgæslunnar?

Ég vil minna á það að þm. Alþb. fluttu hér till. um fjárframlag til landhelgisgæslunnar. Svarta skýrslan var komin löngu fyrir afgreiðslu fjárl. Þörfin fyrir Hafrannsóknastofnunina og þörfin fyrir Landhelgisgæsluna hefur verið viðurkennd af flestum, a.m.k. í orði, þótt hv. þm. stjórnarliðsins hafi ekki veitt till. um aukin framlög til Landhelgisgæslunnar fylgi. Skýringin á afstöðu þeirra felst e.t.v. í aths. með þessu frv. Ég vil benda á það að í kaflanum um eflingu landhelgisgæslunnar stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Var þá gert ráð fyrir að aðgerðir Íslendinga til verndar fiskstofnum yrðu mjög bráðlega viðurkenndar réttmætar og deilur við önnur ríki yrðu til lykta leiddar.“

Hvernig var gert ráð fyrir að þær yrðu til lykta leiddar? Ætlaði hæstv. ríkisstj. sem sagt að vera búin að semja — og hvernig þá? Hvaða svikasamningar voru það sem þeir gerðu ráð fyrir að vera búnir að gera? Ég spyr.

Sú aðferð, sem beitt hefur veríð við tilbúning þessa frv., hlýtur að vekja furðu, ekki síst þegar litið er til þess að á raun og veru eru allir sammála um að afla þurfi fjár til landhelgisgæslunnar og til fiskleitar. Hvers vegna í ósköpunum var þá ekki leitað samráðs við stjórnarandstöðu og þá ekki síður við samtök launafólks? Með því að kýla í gegn afgreiðslu slíks kjaraskerðingarfrv. á tveim dögum án þess að hafa kynnt þessum aðilum málið fyrst er ríkisstj. að gefa stjórnarandstöðunni frí. Við getum verið „stikkfrí“ frá þessu frv. Við erum firrt þeirri ábyrgð að þurfa að benda á aðrar leiðir.

Ég ætla nú ekki að fara í einstakar greinar þessa frv., en vil að lokum vekja athygli á nafni frv., hvort þar er ekki verið að leiða athyglina frá eiginlegu inntaki þess. Frv. heitir: „Frumvarp til laga um fjáröflun til landhelgisgæslu og fiskverndar, ríkisfjármál og fjármögnun“ o.s.frv. Ég held að ég vildi leggja til, a.m.k. munnlega, að undirfyrirsögnin í I. kafla gildi sem fyrirsögn frv., að þetta heiti „Frumvarp til laga um vörugjald“ — og ekki einu sinni um tímabundið vörugjald, því að það er nú bara eins og hver annar brandari vikunnar að tala um tímabundið gjald. Slíku trúir enginn íslendingur lengur eftir reynslu undanfarinna ára þegar allar tímabundnar álögur hafa verið framlengdar ár frá ári. Þess er skemmst að minnast á næturfundum hérna fyrir jólin þegar þm. voru látnir samþykkja framlengingu hverrar álögunnar á fætur annarri.