10.11.1975
Neðri deild: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

12. mál, orkulög

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til að lengja þessar umr. mjög mikið. Þetta er 1. umr. málsins og ég tel mjög æskilegt að frv. fari nú. fljótlega til n. og verði rækilega athugað í n. Ég mun því í því, sem ég segi nú, leitast við að gefa ekki sérstakt tilefni til öllu lengri umr. Þó get ég ekki látið hjá líða að mæla nokkur orð til viðbótar við það, sem ég sagði á dögunum við samþm. minn, hv. 5. þm. Reykn. En áður en ég kem að honum vil ég einungis segja það um ræðu hæstv. iðnrh., að ég fagna því að hann ræddi mál þetta á allt öðrum grundvelli og með allt öðru orðbragði en hv. 5. þm. Reykn., Ólafur G. Einarsson, og mér virtist að hæstv. iðnrh. vildi með þeim orðum, sem hann sagði hér, e. t. v. ekki síst sýna að það eru ekki allir sjálfstæðismenn fyrir aftan árið 1914 í sambandi við eignarréttarhugmyndir að því er varðar auðlindir í iðrum jarðar.

Hæstv. ráðh. taldi að það væru viss atriði í þessu frv. sem þyrftu nánari athugunar við, og það er vafalaust sjálfsagt að athuga það í n. Það hefur raunar fengið verulega athugun í n. á undanförnum árum, að ég hygg, en það verður nú enn athugað í nefnd.

Hæstv. ráðh. taldi að ekki væri nægilega vel um það búið í ákvæðum frv. að sveitarfélög, sem eigi jarðhitaréttindi, gætu hagnýtt sér þau. Ég hygg að með ákvæðum 2. gr. sé það gert í sambandi við hagnýtingu jarðhita. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þau sveitarfélög, sem land eiga á háhitasvæði við gildistöku laga þessara, skulu hafa forgangsrétt til vinnsluleyfis á því landi og vera undanþegin leyfisgjaldi fyrir vinnslu á því landi, enda hafi þau sótt um vinnsluleyfi innan 15 ára frá gildistöku laganna.“

Hér er að vísu fyrst og fremst talað um vinnsluleyfi, en ekki eignarrétt, en mér virðist þetta vera nægjanlegt fyrir sveitarfélög. En sjálfsagt er að athuga þetta atriði nánar.

Hæstv. iðnrh. viðurkenndi í þeim orðum, sem hann sagði hér áðan, að í núgildandi orkulögum séu alls ekki glögg og skýr lagaákvæði um þau mál sem eru kjarni þess frv. sem hér er flutt. Þess vegna hygg ég að hann sé sammála flm. að því leyti, að það sé ekki vanþörf á að um þetta verði í lögum skýrari ákvæði en verið hafa og enn eru.

Hv. 5. þm. Reykn. var nú ekki alveg eins ákafur í málflutningi sínum og hann var í síðustu viku þegar hann hélt ræðuna sína miklu, er ég taldi að a. m. k. önnur slík afturhaldsræða hefði ekki verið haldin síðustu 60 árin. Það er náttúrlega alltaf erfitt að sanna þetta. Og ég skal koma til móts við hann að því leyti til, að þegar ég fór að glugga í eitt og annað, sem sagt var í hinum hörðu deilum sem hér urðu um vatnalögin, sérstaklega á þingunum 1921 og 1922, þá dreg ég mjög í efa að þetta hafi verið rétt fullyrðing hjá mér og vil þessa vegna setja markið við árið 1923. Leiðréttist það hér með.

Það eru furðulegar röksemdir sem hv. 5. þm. Reykn. ber á borð fyrir suðurnesjamenn og aðra þegar hann fullyrðir hvað eftir annað að þetta vandræðamál, sem ég vil kalla svo, sem þarna hefur komið upp í sambandi við Svartsengi, hafi ekki tafið, og hann fullyrti raunar í útvarpi fyrir fáum kvöldum að það mundi ekki heldur með nokkru móti geta tafið hitaveituframkvæmdir á Reykjanesi. Eins og ég hef áður bent á var ráð fyrir því gert, þegar lög um Hitaveitu Suðurnesja voru samþ. fyrir 11 mánuðum, að verulegar framkvæmdir gætu hafist þegar snemma á þessu ári og að hitaveita gæti verið komin til Grindavíkur áður en þessu ári lyki.

Þetta er staðreynd. Og þó að talað sé um að það hafi dregist að ljúka við að ganga frá einhverjum tæknilegum atriðum, þá hygg ég að skýringin á því geti verið sú að þegar málið var fast vegna deilunnar um eignar- og umráðaréttinn, þá töldu menn e. t. v. ekki ástæðu til að flýta sér svo mjög með að ljúka einhverjum þeim tæknilegum atriðum sem kunna að hafa verið eftir.

Ég vil svo aðeins, bæði í gamni og alvöru, minnast á það sem virðist hafa farið töluvert fyrir brjóstið á hv. 5. þm. Reykn., að ég sagði hér á dögunum að ég gerði ráð fyrir því og mundi, ef þörf væri á, koma þessari ræðu hans, sem mér þótti satt að segja og þykir nokkuð furðuleg, rétta boðleið til Suðurnesja ef á þyrfti að halda. Hann telur að trúlega hafi ég gert það með þeim útdrætti sem birtist úr ræðu hans í Þjóðviljanum fyrir nokkrum dögum. Svo er nú ekki. Það er blaðamaður, þingfréttaritari Þjóðviljans, sem það hefur gert, og mér sýnist af því, sem hv. þm. las, að þarna væri um að ræða kannske ekki alveg hárnákvæman, en stuttan og nokkuð réttan útdrátt úr því, sem hv. þm. sagði og þar komi í rauninni fram kjarni málsins. Hins vegar vakti það fyrir mér að þessi ræða hv. þm. birtist væntanlega í Alþt. nú í þessari viku og þá hafði ég hug á því að koma henni eitthvað áleiðis, ekki á neinn hátt afbakaðri því að ég held að sé ekki nein ástæða til þess.

Að svo mæltu vil ég aðeins segja það, að ég vænti þess að þó að mál þetta hafi nú vafist fyrir hv. Alþ. alllengi, þá megi nú á þessu þingi og það helst fyrir jól fást úr því skorið hver er vilji hv. Alþ. í þessu máli. Hér er um stórmál að ræða, eins og ég hef áður vakið athygli á og ég held að allir skilji. Það er ekki þar um að ræða fyrst og fremst Hitaveitu Suðurnesja. Hún kom aðeins inn í þetta mál þar sem þar er nokkuð glöggt dæmi um hvernig getur farið og hvernig hætt er við að fari ef ekki eru alveg glögg og skýr ákvæði um þessi eignarréttarmál í lögum. En sem sagt, ég vona að nú megi takast svo til með störf hv. iðnn., sem fær þetta frv., þar sem hún er búin að hafa það oft til meðferðar áður, að hún geti lokið athugunum sínum á ekki allt of löngum tíma og það fáist nú loksins úr því skorið hver er vilji Alþ. í þessu máli.