04.05.1976
Neðri deild: 98. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3572 í B-deild Alþingistíðinda. (2950)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Eðvarð Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég verð að finna að því með hvaða hætti umr. þessa máls er látin bera að. Hér er um mjög þýðingarmikið mál að mínum dómi, og það er nú tekið fyrir hér á kvöldfundi þegar hv. þm. eru búnir að vera á löngum fundum. En þrátt fyrir það að þetta beri að með þessum hætti, þá skal ég ekki skorast undan því að flytja framsögu fyrir minni hl. landbn. um þetta mál.

Eins og fram hefur komið varð landbn. ekki sammála um afgreiðslu málsins og við hv. 2. landsk. þm. stöndum að minnihluta áliti.

Þetta mál er búið að vera til mjög vandlegrar skoðunar hjá landbn., og eins og fram kom hjá frsm. meiri hl. n. hafa ýmsir aðilar verið til kallaðir og við þá rætt og ýmsar breytingar gerðar á frv. En ég vil byrja á að segja það, að mér finnst þetta frv., eins og það var lagt hér fyrir, einkar hroðvirknislega unnið, og kannske bera vitni um það þær brtt. sem meiri hl. landbn. flytur og ég verð að telja að yfirleitt allar séu til bóta á frv., að svo miklu leyti sem þær snerta ekki það viðkvæma mál sem helst varð að deiluefni milli meiri og minni hl. landbn. Ég ætla ekki að fara að telja hér upp þær ávirðingar sem ég tel að séu á frv. eins og það var lagt fram, kem þó siðar að sérstaklega einu atriði sem ég tel mjög ámælisvert.

Þetta frv. fjallar um breyt. á l. um Framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl. og efni þess má kannske skipta í þrjú höfuðatriði. Það er í fyrsta lagi lítilvæg breyting á skipan Framleiðsluráðsins. Hún er eðlileg og ég get verið sammála um hana. Það eru einnig minni háttar breytingar varðandi stórgripaslátrun sem ég get einnig verið sammála. Aðalefnisþættir þessa frv. eru einkum tveir. Það er í fyrsta lagi hið svokallaða mjólkurmál sem felur það einkum í sér að einkaréttur mjólkurbúa og Mjólkursamsölu til dreifingar á mjólk í smásölu er nú afnuminn og einkarétturinn er nú einvörðungu bundinn við heildsölustigið. Í öðru lagi er svo sá þáttur sem er um annað alveg óskylt efni í lögum um Framleiðsluráð. Helstu nýmælin í þeim breytingum, sem þær greinar fjalla um, er að verðjöfnunargjald af öllum búvörum skuli teljast til dreifingarkostnaðar og þegar verðjöfnunargjald er ákveðið, þá skuli heimilt að taka tillit til fjármagnskostnaðar sláturhúsa og mjólkurbúa. Þetta eru tveir höfuðefnisþættir frv. sem hefur verið fjallað um mjög mikið í hv. landbn. og að lokum náðist ekki samstaða um afgreiðslu málsins.

Varðandi mjólkurmálið, eins og ég vil nefna það hér, þá er það mál sem er búið að ræða býsna mikið og er búið að vera áður til umfjöllunar hér á hv. Alþ. Það mál er þannig að við, sem skipum minni hl., hefðum getað staðið að einhuga afgreiðslu þessa frv. ef ekki hefði komið til hinn annar veigamikli efnisþáttur þess, sem fjallar um verðjöfnunargjöldin, dreifingarkostnaðinn og fjármagnskostnaðinn. Við buðum samkomulag í n. um afgreiðslu mjólkurmálsins út af fyrir sig og hefðum ekki sett fyrir okkur þær breytingar, sem ég hafði hér fyrst orð á, varðandi skipan Framleiðsluráðsins og önnur atriði sem þar koma til. En þessu samkomulagstilboði okkar var hafnað, og það gerir það að verkum að við leggjum til að þetta frv. í heild sinni verði fellt.

Varðandi mjólkurmálið er það að segja, að við erum samþykkir því að sú skipan verði tekinn upp að einkasala í smásölu fyrir mjólkurbúin og Mjólkursamsöluna verði numin úr lögum, og reyndar má segja að þetta sé þegar orðið þannig í reynd. Það eru æðimörg ár síðan matvöruverslanir hér í Reykjavík fóru að hafa mjólk til sölu í smásölu, og nú er svo komið að meiri hluti allrar mjólkursölunnar hér í Reykjavík er kominn í hendur kaupmannanna, þannig að hér er í rauninni ekki um neitt annað að ræða en að játa staðreynd sem þegar er orðin. Ég þarf ekki að hafa um það mörg orð, er sammála um lýsingu á þeirri þróun sem orðið hefur í þessum málum bæði varðandi meðferð mjólkurinnar sjálfrar, líka varðandi umbúðir sérstaklega og svo alla aðstöðu til þess að geyma mjólk í kæli í venjulegum matvörubúðum. Allt er þetta orðið með allt öðrum hætti en áður var og gerir það mögulegt að mjólkin sé í venjulegum matvörubúðum. Þetta erum við sjálfsagt öll alveg sammála um.

En þó að við værum sammála varðandi þennan hluta mjólkurmálsins, þá gerðum við hins vegar aths. við framkvæmd málsins, framkvæmd þessarar breytingar. Það mætti kannske segja að hún varðaði ekki þetta frv. sjálft. Það er einvörðungu um að afnema þennan einkarétt Mjólkursamsölu og mjólkurbúa. Hins vegar fylgir þessari ráðstöfun það að Mjólkursamsalan í Reykjavík og Kaupmannasamtökin hafa gert með sér samning um framkvæmd málsins sem felur það í sér að Mjólkursamsalan leggur niður allar sínar mjólkurbúðir og kaupmenn ýmist yfirtaka þær, þær verða sameinaðar öðrum búðum kaupmanna, og í sennilega örfáum tilvikum — mjög fáum — verða þær áfram reknar sem mjólkurbúðir. Þetta hefur tvennt í för með sér: Í fyrsta lagi að sá fjöldi kvenna sem hefur haft atvinnu í mjólkurbúðum Mjólkursamsölunnar, þessar konur munu vera eitthvað á bilinu 160–170 talsins, þær missa sína atvinnu. Við höfum lagt á það verulega áherslu að það hefði þurft að sjá fyrir atvinnuöryggi þessara kvenna. Að vísu liggja fyrir yfirlýsingar frá hálfu forráðamanna Kaupmannasamtakanna að þessar konur skuli hafa forgang til vinnu við þau störf sem þær geta við tekið í þeirra verslunum. En það er ákaflega langt frá því að hér sé um nokkra tryggingu að ræða, og ég reikna frekar með að það verði alla vega minni hluti þessara kvenna sem geti áfram fengið vinnu við sitt hæfi í verslunum. Æðistór hluti þessara kvenna er orðinn nokkuð fullorðinn, eru þessu starfi mjög vel vanar og mjög hæfar til þessa starfs, en engan veginn að vita hvernig til tækist hins vegar ef þær ættu að ganga í óskyld verslunarstörf. Það verður að átelja að ekki skuli hafa verið séð fyrir þessum þætti málsins þegar Mjólkursamsalan og Kaupmannasamtökin gerðu þennan samning sín í milli.

Í öðru lagi höfum við bent á að allveruleg hætta sé á að a.m.k. sum bæjarhverfin hér í Reykjavík og þó einkum eldri bæjarhverfin nú orðið, — þetta var öfugt áður, þá voru það fyrst og fremst nýju bæjarhverfin sem voru afskipt, — en með þessari breytingu núna teljum við sem sagt verulega hættu á því að einkum ýmis hverfi í gamla bænum hér í Reykjavík verði afskipt um þjónustu þegar búðir Mjólkursamsölunnar verða lagðar niður. Þetta kemur í ljós þegar skoðað er hvernig staðsetning verslana er. Og það ber sannarlega að hafa í huga að stærsti hluti mjólkursölunnar mun sennilega framvegis verða í stórum verslunum, svokölluðum mörkuðum, stórum mörkuðum og stórum kjörbúðum. Þessar verslanir eru ekki á þessu svæði, og í gamla bænum býr mikið af fullorðnu fólki sem enga aðstöðu hefur til að sækja þessa stórmarkaði, það er ekki auðvelt að setja ákvæði í þetta frv. varðandi þessi atriði sem ég hef nú nefnt. Það er í raun og veru, má segja, kannske ekki verkefni frv. sjálfs og þó mætti það vera hið síðara a.m.k. En maður skyldi vona þó að Mjólkursamsalan gengi ekki lengra í þeim efnum að leggja niður sínar búðir, þrátt fyrir þann samning sem hún hefur gert við Kaupmannasamtökin, en svo að þjónustu við þetta fólk verði borgið.

Í þriðja lagi höfum við lagt áherslu á atriði sem kemur fram í umsögn borgarlæknisins í Reykjavík varðandi frv. Í umsögn hans koma fram ýmis athyglisverð atriði, og ég vil leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að nefna hér tvö atriði og lesa þá úr hans umsögn. Hann hefur þá getið þess að alltaf hafi verið hið ágætasta samstarf milli heilbrigðisyfirvalda borgarinnar og Mjólkursamsölunnar varðandi allan útbúnað, geymsluaðstöðu og afgreiðsluaðstöðu fyrir mjólk og mjólkurvörur í búðum Samsölunnar. Og það verður áreiðanlega að segjast að einmitt búðir Samsölunnar langflestar hafa verið til fyrirmyndar á þessu sviði. Síðan segir í umsögn borgarlæknis á þessa leið:

„Það hefur komið fram af hálfu Kaupmannasamtakanna að æskilegast væri að öll mjólkursala ætti sér stað úr matvöruverslunum, en ekki verði sérstakar mjólkurverslanir, svo sem verið hefur hingað til mjög víða. Með því að allar mjólkurbúðir Mjólkursamsölunnar verði seldar er möguleiki á að hinum sérstöku mjólkursöluverslunum fækki mjög, en í staðinn sæki kaupmenn um að fá að selja mjólk og matvöru úr öllum nýlenduvöruverslunum sínum. Fram til þessa dags hefur mjólkurdreifing úr verslunum kaupmanna verið leyfð á allmörgum stöðum í borginni. Aðstaða til mjólkursölu í þessum verslunum er mjög misjöfn og viða ófullnægjandi, en þar hefur heilbrigðiseftirlitið orðið að láta undan kröfum um leyfi til mjólkursölu vegna skorts á mjólkurbúðum í viðkomandi hverfum. Síðari ár hafa eingöngu stærstu verslanir fengið leyfi til mjólkursölu og þá gerðar strangar kröfur til aðstöðu og alls útbúnaðar sem ekki hefur verið hægt að fullnægja í minni verslunum.“

Síðan ræðir borgarlæknir um þau skilyrði sem muni verða sett af hálfu heilbrigðisráðs til þess að búðir fái leyfi til mjólkursölu. Og hann ræðir síðan um í framhaldi af þessu að fjöldi kaupmannaverslana, sem hingað til hafi haft leyfi til mjólkursölu, verði nú að sækja um leyfi að nýju ef mjólkurbúðir Samsölunnar verði lagðar niður. Hann lýkur síðan umsögn sinni á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Er það því eindregin ósk mín að hv. þn. afgreiði ekki fyrirliggjandi frv. án þess að tryggt verði með einhverjum hætti að sem flestir núverandi mjólkurútsölustaðir Mjólkursamsölunnar verði reknir áfram sem slíkir, því að ella væri hætta á að notaður yrði sá þrýstingur sem áður getur um af hálfu kaupmanna og leiddi til þess að veruleg afturför ætti sér stað í sambandi við þær miklu úrbætur sem átt hafa sér stað á undanförnum árum varðandi geymslu og hreinlætisaðstöðu á útsölustöðum þeirrar viðkvæmu vöru sem mjólk og mjólkurafurðir eru.“

Þarna, kemur sem sagt fram hjá borgarlækni verulegur uggur um að það muni slakna verulega á því, að nægjanlegar heilbrigðiskröfur verði gerðar til þeirra verslana sem með mjólkina fara í smásölu nú, þegar þessi umskipti hafa átt sér stað. Á þetta höfum við lagt ríka áherslu, að þetta yrði verulega athugað, og með þeim lengda umþóttunartíma, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., trúi ég að það ætti að vera hægt að ganga frá þessum málum ef allir þeir aðilar, sem eiga að sjá um framkvæmd, ganga vel fram í því efni.

Þegar n. ræddi við forustumenn Kaupmannasamtakanna kom fram mjög eindregin vilji hjá þeim til þess að séð yrði til þess að allir heilbrigðis- og hollustuhættir svöruðu til fyllstu krafna sem heilbrigðisyfirvöld gerðu. Ég vil vænta þess að það standi ekki á að þetta verði svo í framkvæmd. Það er talið t.d. að í þessum stórmörkuðum eigi að vera mjög hægur vandi að hafa þetta í sem bestu lagi. Nú er mér kunnugt um að í einni allra stærstu versluninni, sem afgreiðir mjólk núna, vantar ákaflega mikið upp á að hún hafi nægar kæligeymslur fyrir þá mjólk sem hún tekur á móti, t.d. á föstudögum, sem er langhæsti söludagurinn, því að í þessum verslunum kaupir fólk mjólkina jafnan til heillar viku. Og þá er mörg þúsund lítrum hrúgað inn á gólf verslunarinnar og látið standa þar í stofuhita. Þetta er náttúrlega atriði sem undir engum kringumstæðum má viðgangast, ekki undir neinum kringumstæðum. Við leggjum sem sagt mikla áherslu á að við framkvæmd þessarar breytingar verði mjög stranglega fylgst með því að þær verslanir, sem fá leyfi til mjólkursölu, uppfylli ströngustu skilyrði á þessu sviði heilbrigðismálanna sem heilbrigðisyfirvöld gera.

Þetta eru helstu aths. sem við höfum gert við framkvæmd þess sem verður með breytingunni á mjólkurlögunum sjálfum eða framleiðsluráðslögunum. En þrátt fyrir þær aths., sem við höfum gert hér að lútandi, hefðum við verið reiðubúnir til þess að samþykkja þessa breytingu á lögunum, breytinguna á því að einkarétturinn á smásölu til handa Mjólkursamsölu og mjólkurbúum yrði afnuminn, og teljum það eðlilega þróun.

En þá kem ég að þeim kafla frv. sem við með engu móti getum orðið sammála meiri hl. um, og það eru breytingarnar sem felast í síðari greinum frv. Við hefðum getað orðið samferða meiri hl. varðandi þær breytingar sem eru í frv. aftur að 8. gr. þess, eða 9. gr. sem verður ef brtt. eru samþykktar, þ.e.a.s. breyting á 30. gr. laganna. Og þó einkum og sér í lagi getum við ekki fallist á þær miklu breytingar á framleiðsluráðslögunum, sem felast í breytingunni á 40. gr., og þær hreytingar, sem liggja fyrir í brtt. meiri hl. við 9. gr. frv., sem yrði þá 10. gr., en þetta eru allt saman breytingar á 40. gr. laganna. Ég ætla ekki í neinum smáatriðum að fara að telja þetta upp, en það, sem hér er um að ræða, er að við mótmælum algerlega að þau nýmæli og þær breytingar verði nú á lögunum gerðar sem fela það í sér að verðjöfnunargjald af öllum búvörum skuli reiknast inn í dreifingarkostnaðinn, það skuli skilyrðislaust tekið fram í lögunum að þetta skuli gert. Ég bið menn að athuga að þetta eru alger nýmæli í lögunum ef samþ. verður.

Í öðru lagi er einnig tekið fram um fjármagnskostnað sláturhúsa og mjólkurbúa að það skuli heimilt að reikna fjármagnskostnað þessara vinnslustöðva inn í verðjöfnunargjaldið og þar með í dreifingarkostnaðinn. Um hve stóra hluti hér getur verið að ræða skal ég ekki fullyrða, en ég hygg að nú sé t.d. í undirbúningi á Norðurlandi, á Akureyri, mjólkurstöð sem muni kosta 140 millj. Þetta er einnig algert nýmæli í lögum. Nú ætla ég ekki að fullyrða að það geti ekki komið til álita að taka þennan kostnað að einhverju leyti inn í afurðaverðið til neytenda, búvöruverðið. En að gera það svona afdráttarlaust í lögum eins og hér er gert og við þær aðstæður sem nú eru, það teljum við algerlega fráleitt.

Þá vil ég koma að því atriði líka sem er náttúrlega það alversta, sem var í þessu frv. þegar það er lagt fram og sýnir hvers konar vinnubrögð hafa verið viðhöfð við samningu þessa frv., sem má alveg með endemum teljast. Ég vil þá byrja á því að minna á 12. gr. laga um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu o.fl. Það var svo hér á árum áður að æðimikið var um útflutning á búvörum, útflutning sem ekki var á því verði sem svaraði til þess verðlags sem ákveðið var hér innanlands, Þetta var orðið svo að það var með öllu óbærilegt að bæta ofan á verðlagið innanlands öllum þeim upphæðum sem þurfti til að bændur fengju það grundvallarverð, sem svaraði til þess tilgangs laganna að þeir hefðu sambærilegar tekjur við aðrar vinnandi stéttir. Þetta leiddi síðan til þess að í árslok 1958 var að kröfu verkalýðssamtakanna og fyrst og fremst Alþýðusambandsins gert samkomulag við þáv. ríkisstj., og landbrh. í þeirri ríkisstj. var hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfur Jónsson, — samkomulag sem felst í því að 12. gr. var þá sett inn og í henni segir, með leyfi hæstv. forseta: „Óheimilt er að bæta upp söluverð landbúnaðarvara á erlendum markaði með því að hækka söluverð þeirra innanlands.“ Síðan var tekin upp sú regla að 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar, útflutningur á því skyldi verðbættur úr ríkissjóði með útflutningsuppbótum. Þetta fyrirkomulag hefur síðan verið í gildi og er náttúrlega alger grundvöllur þess að neytendur geti sætt sig við það fyrirkomulag á verðlagningu búvara sem verið hefur. En í þessu frv., eins og það var lagt fyrir hér í upphafi, breytingunni við 40. gr. laganna, þ.e. 9. gr., segir svo:

„Heimilt er að taka verðjöfnunargjald af öllum búvörum til að jafna halla af útflutningi, ef verðábyrgð samkv. 12. gr. nægir ekki.“ Í þessu sama frv. er svo ákvæði um það að verðjöfnunargjald af búvörum skuli fara inn í dreifingarkostnaðinn, reiknast inn í hann alveg skilyrðislaust. Með þessu ákvæði var augljóslega að því stefnt að afnema þetta grundvallaratriði sem felst í 12. gr. sem ég áðan las.

Ég verð að segja það, að ég vona að hér hafi verið um afglöp hæstv. landbrh. að ræða, en ekki ásetning, og vil ég þó spyrja hreinlega um hvort svo hafi verið. Hérna er um geysilega mikilvægt atriði að ræða. Þessu var breytt í meðferð n. og tekin af tvímæli um að þetta raskar ekki 1. mgr. 12. gr. sem ég las hér áðan. En þegar svona hlutir geta gerst og lagt er fram frv. af hæstv. landbrh., stjfrv., sem auðvitað ríkisstj. öll er búin að leggja blessun sína yfir, — þegar svona afglöp geta gerst í frv., — ég vona að það séu afglöp, sé ekki annað verra, — þá er ekki alveg að ástæðulausu að maður sé tortrygginn þegar á að setja hvers konar verðjöfnunargjald af búvörum inn í dreifingarkostnaðinn, þá geti leynst tilhneiging til þess að hafa verðjöfnunargjaldið kannske svo hátt að eitthvað væri upp á að hlaupa í þeim tilgangi, sem felst í e-liðnum sem ég hér las áðan, breyting á 40. gr. Ég vil enn fremur undirstrika það — að Framleiðsluráðið, sem um þessi mál fjallar, er einvörðungu skipað fulltrúum Stéttarsambands bænda og sumum þeirra tilnefndum af vinnslustöðvunum, stærstu vinnsluaðilunum í þeim greinum sem hér er um að ræða. Ég vona að mér fyrirgefist það þó að það læðist nokkur tortryggni að.

Þessi nýmæli eru sett inn í lögin núna á sama tíma og má segja næstum á sömu stundu og verið er að setja á laggirnar og kalla til starfa nefnd manna sem á að hafa það verkefni að endurskoða lög um Framleiðsluráð, en endurskoða þó sérstaklega allt verðmyndunarkerfi landbúnaðarvaranna. Verkalýðshreyfingunni hefur verið boðið að eiga aðild að þessari endurskoðun og Alþýðusambandið, sem er sá aðili, hefur fyrir allnokkru skipað fulltrúa sinn í n. En einhverra hluta vegna hefur þessi n. ekki enn verið kölluð til starfa. Það gefur auga leið að vissulega hljóta allir neytendur og verkalýðssamtökin kannske alveg sérstaklega að hafa mikinn hug á því að eiga aðild að þessari endurskoðun. En það læðist að manni sá grunur að þetta starf sé ekki enn þá hafið, kannske einmitt til þess að áður en það hæfist væri búið að keyra í gegn þá breytingu á lögunum, sem hér er að stefnt. Ég sé þá ekki til hvers væri í raun og veru fyrir t.d. Alþýðusambandið að eiga fulltrúa í slíkri n. Ég sé ekki annað en það sé vísvitandi með þessum breytingum stefnt að því að eyðileggja störf þessarar n.áður en hún hefur þau, sem sagt að rifta þeim grundvelli sem gæti verið til einhverrar vitlegrar stefnumótunar í þessum efnum.

Það er af þessum sökum sem við hv. 2. landsk. þm., sem skipum minni hl. landbn., getum ekki með nokkru móti fallist á, að frv. verði samþ. eins og það nú er, og leggjum því til að það verði fellt. Og þá er engin samstaða heldur um mjólkurmálin sem vel hefði þó verið hægt að koma hér á. Ég tel alveg fráleitt, þegar verið er að reyna að leita samstöðu um afgreiðslu mjólkurmálsins, að rugla þá saman jafnóskyldum hlutum og gert er með þessu frv.

Hv. frsm. meiri hl., Stefán Valgeirsson, gat þess í sinni framsögu að það ríkti nú engin bjartsýni hjá bændum um breytingar á framleiðsluráðslögunum í sambandi við þá endurskoðun sem hugsuð er. Hann sagði að ég hefði talað í miklum hneykslunartóni fyrir nokkrum dögum um þær breytingar sem fælust í þessu frv. Ja, hvort það hneykslar einn eða annan, það læt ég mér í léttu rúmi liggja. En ég hef endurtekið hér það sem ég sagði þá og kannske með enn þyngri orðum.

Hann talaði um að frv. og þær breytingar, sem í því felast, verkaskiptingin milli búanna o.s.frv., eins og hann hafði orðað það, kölluðu á aukna verðjöfnun, þ.e.a.s. meira verðjöfnunargjald. Og þá er komið að því, sem mörg okkar hafa kannske haldið og borið í huga sínum að sú breyting, sem verið er að gera á framleiðsluráðslögunum með því að fá kaupmönnunum alla mjólkursöluna í hendur, verði einmitt til þess að verðlagið á búvörunum og mjólkinni alveg sérstaklega verði hærra til neytenda vegna breytingarinnar. Þetta liggur í orðum hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, vegna þess að allt verðjöfnunargjald á samkv. frv. að fara inn í dreifingarkostnaðinn, auk þess, — ég skal ekki fara nánar inn á það, ég tel að það muni fljótlega sýna sig — að kaupmenn þurfa að fá meira fyrir smásöluna á mjólkinni en Samsalan hefur látið sér nægja. Og það verður að segja Samsölunni og yfirleitt þessum fyrirtækjum til hróss að dreifingarkostnaði hefur verið haldið hér mjög í skefjum. Það skal ég fyllilega viðurkenna. En ég tel verulega hættu á því að þarna verði breyting einmitt með því að fá kaupmönnunum mjólkina einvörðungu í hendur.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson lagði á það þunga áherslu að allar þessar ráðstafanir, með fjármagnskostnaðinn, með verðjöfnunargjaldið, ættu að verða til þess að tryggja bændum það sem lögin eiga að tryggja þeim, þ.e.a.s. sömu tekjur og viðmiðunarstéttirnar hafa. Ég hef alltaf út af fyrir síg verið mjög hlynntur þessu ákvæði í lögum, að bændur skyldu bera úr býtum fyrir störf sín eitthvað svipað og vinnandi fólk í bæjunum hefur. Ég hef hins vegar alla tíð verið mjög efins um, — og ekki efins um, ég er alveg sannfærður um að þessu marki á ekki að ná einvörðungu með því að ákveða útsöluverð á búvörum og með því skuli þeir, sem verst eru settir, fá þessar viðmiðunartekjur. Samsetning bændastéttarinnar er á þann veg að þetta er röng aðferð, hreinlega röng aðferð. Við skulum hugsa okkur að það þyrfti að hækka búvörurnar um — það er alveg sama hvaða upphæð maður nefnir, við skulum segja 10%, þá er alveg öruggt að þriðjungur af bændastéttinni, til þess að hann fengi það sem hann virkilega þyrfti að fá, þá er þessi aðferð með verðlagningu búvaranna algerlega ófær. Þessi þriðjungur fær kannske, ja hvað eigum við að segja, í hæsta lagi 10% af þeirri hækkun sem væri ákveðin, í hæsta lagi það og sennilega þó minna, á meðan hinir, 2/3, fá langt umfram það sem þeir þyrftu á að halda. Þess vegna á ekki að hafa þennan hátt á. Það á að breyta hér um. Og það er m.a. þetta sem væri verkefni þeirrar endurskoðunarnefndar að fást við sem gert er ráð fyrir, að hefji störf bráðlega.

Ég verð nú að spyrja hv. þm. Stefán Valgeirsson og mættu nú raunar fleiri svara hér um það, hvort þeir telji í raun og veru verðlagsmálín einhlít til þess að jafna kjör bændastéttarinnar innbyrðis, eins og þyrfti að gera. Ég held að það sé fráleit leið og allt of dýr. Það er hægt að fara aðrar leiðir sem ná markinu betur og eru ódýrari.

Ég get nú látið máli mínu lokið, en vil aðeins undirstrika það, að með þeirri samsetningu á frv. og þeim ákvæðum öllum, með því að blanda saman svona óskyldum málum eins og ég hef hér rakið, þá sjáum við okkur ekki fært að standa að samþykkt þess og leggjum til að það verði fellt. Það væri í raun og veru hægt að tala hér miklu lengra mál um þetta og ýmis atriði, sem hann kom inn á, en ég ætla ekki að teygja tímann frekar núna.