04.05.1976
Neðri deild: 98. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3579 í B-deild Alþingistíðinda. (2951)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv., frsm. minni hl., sem var að ljúka hér máli sínu, flutti ræðu sína eins og hans er von og vísa að mestu leyti með hófsemi og kurteisi, eins og hann er þekktur að. Hins vegar voru nokkur atriði sem hann vék að mér sérstaklega, sem ég mun samt ekki fara að taka neitt illa upp, enda voru þau á misskilningi byggð. En til þess að taka af allan vafa um það, þá vil ég taka fram strax að það var aldrei með mínu samþykki gert að þetta ákvæði komst inn í frv., að verðjöfnunargjaldið, sem tæki til útflutnings búvara, ætti að ganga inn í verðlagið. Það hefur farið af vangá í gegnum prentun. Mér var algerlega ókunnugt um það, enda aldrei komið til hugar að það væri hægt að halda hvoru tveggja: gamla ákvæðinu, sem ég man vel eftir frá mínum fyrstu þingárum hér og reyndar úr mínum búskap, og svo hinu, sem síðar kom til þess að tryggja það. Hins vegar hefur alltaf verið ákvæði um að mega jafna þetta hjá stéttinni innbyrðis, og það, sem í raun og veru skorti þar helst á, var að mega jafna á milli vöruflokka þar sem ekki hefur verið gert. Þetta vil ég nú segja alveg afdráttarlaust og skal þá um leið játa það, að auðvitað má segja að ég hefði átt að gæta þess arna. En ég velt að þessi hv. þm. er það þingvanur og það sanngjarn maður að hann gerir sér grein fyrir því að það er ómögulegt fyrir ráðh. að fylgjast með prófarkalestri á hverju frv. sem hann kann að flytja. Hitt verð ég náttúrlega að játa að mér hefur yfirsést að taka eftir þessu í upphafi. (Gripið fram í.) Ja, það gerir maður nú yfirleitt ekki, að lesa yfir handritið, það verður maður yfirleitt að láta sína samstarfsmenn gera. Og auðvitað gæti manni líka yfirsést eins og þeim, þótt maður læsi yfir handrit. Ráðh. leggur aftur línurnar þegar frá þessu er gengið. Og venjan er sú, þegar um breytingar er að ræða, að fara yfir það sem breytt er og maður er búinn að leggja fyrir að breyta ætti, en ekki önnur atriði, og ég er nú ekki algerlega með á því hvernig þetta hefur getað skeð. Ég hygg að það hafi bara fallið niður viðbótin þarna um að þetta ætti ekki að gerast með þessum hætti.

Út af því sem hv. þm. ræddi um skipun n. til þess að endurskoða framleiðsluráðslögin og af hverju það væri ekki komið í verk, þá skal ég einnig gefa skýringu á því. Það er af þeirri einföldu ástæðu að tilnefning þeirra aðila, sem átti að tilnefna, hefur gengið mjög seint og það var rekið mjög eftir þessu. Síðast voru vinnuveitendur búnir um páskana að tilnefna aðalfulltrúa sinn, en eru nú loksins búnir að tilnefna varafulltrúa, svo að nú liggur þetta fyrir og er ekki annað eftir en ganga frá bréfinu til þeirra aðila sem skipaðir verða í n. Ég hafði ætlað mér að vera við það riðinn að semja það bréf, en síðustu dagar hafa ekki verið rólegir dagar til þeirra verka svo að ég mun nú gera það eins fljótt og ég hef tíma til.

Hins vegar vil ég segja það út af því sem hann sagði hér, að eins og hann man, meðan fyrrv. stjórn sat, þá flutti ég frv. um þetta efni eftir að n. hafði þá unnið að því og var sammála um að gera þessa breytingu. Og ég er honum sammála um það atriði, að þó að Mjólkursamsalan hafi unnið mikið og gott verk, og ég þakka honum lofsamleg ummæli um hennar störf, þá er okkur það báðum ljóst að sú breyting hefur orðið á að það er ekki hægt að komast hjá því að breyta því skipulagi sem nú er. Áður en ég fór að fara með þessi mál sem ráðh., þá var mér þetta ljóst, m.a. af kynnum mínum af dreifingu mjólkur hér í bænum. Eftir að ég fór að halda hér nokkurs konar heimili, þá sá ég að þetta gat verið óheppilegt og ekki alls kostar ánægjulegt. T.d. kynntist ég því að ágæt kjörbúð, sem hefði að sjálfsögðu átt að selja mjólk, en er kannske farin að selja mjólk núna, mér er ekki kunnugt um það, — hún hafði ekki mjólkursölu, en lítið bakarí, sem var þarna skammt frá, hafði aftur mjólkursöluna í sínum höndum. Ég er nú ekki fyrir að fara oft í búðir, en þurfti þess þá stundum vegna þess að konan mín var þá ekki hér, og þá hafði ég aldrei farið í þetta bakarí til innkaupa, heldur bara í kjörbúðina sem var þarna í grenndinni og var mjög skemmtileg. En vegna mjólkurkaupanna varð að gera það. Svona smáhlutir geta auðvitað alls staðar gerst og hljóta alltaf að gerast og eru ekki til að benda á nema sem lítið dæmi um hvernig þróunin hefur breytt þessu.

Sama er að segja um umbúðirnar á mjólkinni nú og þegar Mjólkursamsalan hóf sitt lofsverða starf. Þar er náttúrlega orðin geysileg breyting. Þá var mjólk mikið seld í lausu máli, síðar í flöskum. Nú er hún seld í hyrnunum, eins og kunnugt er, og er allt annað og getur farið vel í hvaða búð sem er. En hitt er alveg rétt, að nauðsynlegt er að kæling sé þarna í lagi.

Út af konum þeim, sem vinna að dreifingu mjólkur, þá ræddi ég það á sínum tíma við forstjóra Mjólkursamsölunnar þegar var verið að vinna að þessum málum að það bæri brýna nauðsyn til að huga að því að þær þyrftu ekki að missa sína atvinnu við þessa breytingu og yrði því að fara að þessu með gát í öllum atriðum. Hann tók mjög vel undir það, og ég vona því að það verði reynt af fremsta megni og það muni takast að reyna að bæta úr því. Að vísu er ekki hægt í því sambandi frekar en í öðru að tryggja þetta fullkomlega og það hefði ekki heldur verið hjá Samsölunni sjálfri, því að auðvitað hefði hún orðið að gera breytingu á rekstri sínum í einstaka tilfellum þó að hún hefði haldið þessu svona áfram, og eins og hv. 7. þm. Reykv. tók fram, þá hefur breytingin orðið veruleg þrátt fyrir þetta einkasöluleyfi. Ástæðan til þess að ég bar þetta fram nú í vetur, því að ég hafði hugsað mér að tengja þetta endurskoðun á aðallögunum, var samþykkt sem ég fékk frá stjórn Samsölunnar þar sem hún óskaði eindregið eftir því að frv. yrði flutt, og það taldi ég að væri gert frá hennar hendi vegna hugsanlegs samkomulags um þær breytingar sem hún þyrfti að sjá um á sinum eignum sem hún hættir að starfrækja eftir þessa breytingu. Það er af þeim ástæðum sem þetta frv. var nú fram borið. Og það er ekki heldur að mínu mati neitt verra, þó að þessi breyting sé fram komin um leið og heildarlögin eru endurskoðuð því að það má þá taka tillit til þeirra framkvæmdagalla sem geta komið fram við þessa breytingu. Ég geri ráð fyrir að heildarendurskoðunin taki sinn tíma.

Ég vil taka undir það með hv. 7. þm. Reykv. að brýna nauðsyn ber til að gæta eins og fyrr fullkomins og hins mesta eftirlits með hreinlæti og hollustuháttum, og ég sé enga ástæðu til að það ætti ekki að vera hægt hér eftir sem hingað til. Heilbrigðisyfirvöld bæjarins hljóta að sjálfsögðu að segja til um það, og hraðinn í þessu verður að vera með þeim hætti að það má ekki ganga út á það. Mér finnst þau ummæli heilbrigðisyfirvalda um framkvæmdir Samsölunnar mjög þakklætis- og lofsverð, en ég sé ekki ástæðu til annars en það ætti að vera hægt að líta eftir hinu. Auðvitað eru í þessu veilur eins og hv. 7. þm. Reykv. gat um í einni stórverslun, þar sem hann taldi að ekki væri nógu vel fyrir kælingu á mjólkinni séð nú þegar vegna þess hve mikið magn væri selt þar. Þetta er að sjálfsögðu eitt af þeim atriðum sem þarf að hafa mjög í huga í sambandi við þessa breytingu og þá þróun sem hún kann að hafa í för með sér.

Út af þeim þætti sem hann vék að áðan og ég er nú búinn að skýra og mun ekki fara neitt að munnhöggvast um það hvort vísvitandi hafi verið stefnt að einhverju sem maður taldi sig ekki vera að gera, þá tel ég míg nú hafa gert grein fyrir því og ætla ekki að fara að orðlengja frekar um það. En út af dreifingarkostnaðinum, þá tel ég að það eigi með þessu frv. að vera tryggt að honum verði haldið í skefjum þar sem sami aðilinn, sem ákveður dreifingarkostnaðinn nú, á að gera það, því að Sexmannanefnd á að ákveða dreifingarkostnaðinn, og ég held að það mundi verða álíka hér eftir sem hingað til. Auðvitað hefur hún í verðlagningu sinni á búvörum orðið að taka tillit til dreifingarkostnaðarins bæði í sambandi við mjólk og kjöt, og stundum hefur verið að Mjólkursamsölunni höggvið um það að dreifingarkostnaðurinn væri óeðlilega mikill. Mér finnst hins vegar mjög ánægjulegt að heyra að hv. 7. þm. Reykv. segir það hér og nú að það verði að viðurkennast að dreifingarkostnaði af hálfu Mjólkursamsölunnar hafi verið haldið í skefjum. Ég get svo sem tekið undir það að ég treysti henni betur heldur en kaupmönnum almennt. En ég held að það sé jafnljóst, að hvað sem því líður, þá var ekki unnt hjá þessari breytingu að komast því að þróunin leiddi til þess. Það er þannig að húsmæðurnar fara yfirleitt orðið í stærri búðirnar og þá vilja þær fá mjólkina þar líka. Þessu held ég að við verðum að gera okkur grein fyrir.

Út af fjármagnskostnaðinum, þá veit ég ekki betur en tillit til hans hafi verið tekið í framkvæmd í sambandi við ákvörðun Sexmannanefndar um langt árabil. Og ég þykist muna það frá því að ég fór í fyrsta sinn í framboð í Vesturlandskjördæmi, — það var ekki þegar ég fór í fyrsta sinn í framboð í. Mýrasýslu, — þá var það einn af frambjóðendunum sem ræddi mikið um byggingu Mjólkurbús flóamanna sem honum fannst firn mikil og fráleitt að vera að framkvæma, þó að allir muni nú telja að gott hafi verið að þá hafi verið gert og ljóst er nú að Mjólkurbú flóamanna er ódýr bygging. Þess vegna held ég, enda fannst mér það koma fram í ræðu hv. 7. þm. Reykv., að þetta hafi verið gert. Hins vegar taldi hann líkur fyrir því að þetta yrði gert með meiri hörku en áður hefur verið, og sé ég ekki ástæðu til að ætla það. Auðvitað er aldrei hægt að fortaka neitt í slíkum efnum. Það getur verið bundið við einstaklinga á hverjum tíma sem um fjalla. En í Sexmannanefnd verður þetta meðhöndlað og þannig hefur það farið að í langtum fleiri tilfellum hefur orðið samkomulag í Sexmannanefnd um verðlagningu heldur en til árekstra hafi komið. Það finnst mér sönnun þess að það megi reikna með að svo muni einnig verða hér eftir þrátt fyrir þessa breytingu.

Út af því sem hv. 7. þm. Reykv. sagði, að hann hefði verið fylgismaður þess að bændur hefðu sömu tekjur og viðmiðunarstéttirnar, þá efast ég ekkert um að hann mælir þar rétt. En á hitt vildi hann benda, að vöruverðíð með þeim hætti sem gert væri, þar sem ég gat ekki skilið annað en hann áliti að það væri miðað við að tryggja hinum minnsta að hann næði þessu marki, það hlyti að leiða til þess að sá stærsti hefði miklu meira. Nú tel ég ekki að um það sé að ræða í sambandi við vísitölubúið, því að vísitölubúið er stærra bú en minni búin, en aftur minna bú en stærri búin. Það hefur líka komið í ljós við athugun, sem Búreikningaskrifstofan og starfsmenn Búnaðarfélags Íslands hafa gert á þessu, að það eru meðalbúin sem gefa bestu raun í raunverulegum tekjum bænda. Það er líka afskaplega einstaklingsbundið á marga vegu hvar nettótekjurnar verða mestar. Ég held að þetta eigi við í atvinnurekstri yfirleitt. Ég held að það séu ekki allaf þeir, sem aflahæstir eru, sem koma með bestu útkomuna í sambandi við útgerð á skipunum, það sé margt fleira sem komi þar til, eins og nýtni og aðgæsla og fleira þess háttar sem einnig getur verið hjá þeim aflamiklu, en þarf ekki alltaf að vera það. Ég held að það sé líka alveg sama í hvaða stéttir við förum. Það eru misjafnar tekjur hjá öllum stéttum. Og ég held að það sé t.d. mjög áberandi í iðnaðarstéttunum að þar séu misjafnar tekjur manna. Þess vegna eru öll slík meðaltöl eins og þetta auðvitað ekki hið raunverulega verðlag, heldur er það viðmiðunaratriði sem notað er til verðákvörðunar. Eins er það svo, að það eru mörg ár sem þetta viðmiðunarverð hefur ekki náðst og það hefur verið misjafnt eftir héruðum. Á s.l. ári mun það ekki hafa náðst nema á einstaka stöðum og mun hvorki hafa náðst í mjólk né kjöti. Og það er enginn vafi á því að sumar eins og s.l. sumar hefur veruleg áhrif á afkomu bænda á þessu ári, eins og náttúruöflin hafa í sambandi við þá sem slíkan atvinnurekstur stunda. Þetta veit ég að hv. 7. þm. Reykv. er ljóst og hann gerir sér fullkomlega grein fyrir. Ég verð að segja það, að ég harmaði alltaf þegar hann hætti störfum í Sexmannanefnd á sínum tíma og tel að það hefði verið betur farið að Alþýðusambandið hefði haldið áfram að eiga þar fulltrúa.

Hv. 7. þm. Reykv. kom einnig inn á að það gæti verið fleira en verðlagsmálin, það væru ekki þau einhlíða sem væru afgerandi um að tryggja kjör bænda miðað við aðrar stéttir. Þetta er alveg rétt. Í frv. að framleiðsluráðslögum, sem ég lagði hér fram á sínum tíma, þá sem landbrh. í vinstri stjórninni, kom þetta fram. Þá var tekin upp sú hugmynd að gera að reglu að semja við ríkisvaldið um verðlagið og meta þá fleira en verðákvörðunina til tekna í því skyni. Þessi regla, sem þar var sett fram, er notuð í Noregi og fyrirmyndin að henni var fengin þar. Ég er ekki svo sem neitt öruggur um að sú aðferð muni reynast betur en sú að semja stétta á milli um þetta verðlag. En það hlýtur að verða eitt af þeim atriðum sem kemur til skoðunar hjá n. þeirri sem fjallar um framleiðsluráðslögin, einmitt þetta, hvort á að fara inn á þá braut að semja við ríkisvaldið eða semja við neytendur vörunnar. En þar er einnig hægt að koma þessari hugmynd að sem hv. 7, þm. Reykv. drap hér á áðan.

Ég skal nú ekki fara að þreyta menn með lengra máli um þessi atriði sem komu fram í ræðu hv. 7. þm. Reykv. Ég vona að ég hafi tekið það fram sem mestu máli skiptir í því sem hann sagði hér áðan og það sem sagt hafi komið til skila þar sem mér fannst að misskilnings gætti. En ég vil að lokum taka það fram að ekkert er mér nær skapi heldur en að samstarf geti verið á milli neytenda og framleiðenda um þessi efni, og ég hef alltaf haft trú á því að farsælasta leiðin væri sú að samningar gætu verið þar í milli og það væri hagsmunamál beggja aðila. Hins vegar er mér það fullkomlega ljóst að í kröfuþjóðfélagi nútímans er kannske mjög erfitt að koma því við, jafnvel þótt að bestu manna yfirsýn á báða vegu væri reynt að halda slíku til haga og koma því saman. Ég efast ekkert um að þeir, sem hafa mikla reynslu úr stéttabaráttu, verða oft og tíðum að haga hlutum á annan veg en þeir sjálfir kysu, ef þeir mættu ráða, og þeim sýndist til mestu farsældar. Ég hef alltaf litið svo á að bændastéttin og fólk í þeim stéttum, sem við köllum í þessu tilfelli viðmiðunarstéttirnar, hafi um marga hluti sameiginlegra hagsmuna að gæta. Þess vegna ætti að vera hægt að koma þessum málum vel fyrir. Það er því von mín að þeir aðilar, sem fjalla um endurskoðun á þessari löggjöf sem ég reikna með að taki nokkurn tíma, jafnvel þó að þeir hafi oft og tíðum lent í kasti og deilum, þá gæti þeir fyrst og fremst þess að reyna að finna farsæta lausn á þessu máli. Ég vona að það verði gert. Og sá aðilinn, sem ég hef ætlað mér að skipa formann í þessari n., er maður sem ég þekki að því að reyna að leita að leiðum með sanngirni og hyggindum og hefur hófsemi í frammi í málflutningi sínum og málsmeðferð. Þess vegna treysti ég því nú, að svo fari að þetta frv., sem hér er til afgreiðslu og ég vona að verði að lögum nú, verði neytendunum og framleiðendunum til gagns og endurskoðun framleiðsluráðslaganna verði það einnig og ekki síður þegar henni er lokið og hún verður að lögum orðin, hvort sem það verður í mínum höndum eða annarra manna sem með þessi mál kunna að fara.