04.05.1976
Neðri deild: 98. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3594 í B-deild Alþingistíðinda. (2955)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörk orð um þetta merkilega frv. sem hér liggur fyrir. Eins og hér hefur verið bent á, er eitt af meginatriðum þess mjög umdeilt mál, um afnám á einkarétti Mjólkursamsölu til að dreifa og selja mjólk til neytenda. Ég hygg að það stefni í rétta átt að leyfa almennum kaupmönnum að hafa þessa vöru til sölu. Það hefur raunar tíðkast nú þegar að einstakir kaupmenn hafa haft þessi réttindi, og mér virðist að þar hafi ríkt nokkuð handahófskennt val á hverjir hafi fengið að selja og hverjir ekki, þannig að það er eins gott að þarna gangi það sama yfir alla heildina, svo fremi að nauðsynlegum skilyrðum sé fullnægt hvað heilbrigðisaðstæður snertir o.fl.

Það, sem ég ætlaði að minnast á hér aðeins í örfáum orðum, var sú brtt. sem hv. 4. þm. Vestf. hefur borið fram á þskj. 608.

Mér er satt að segja óskiljanlegt vegna hvers meiri hl. hv. landbn. hefur ekki getað fallist á þessa till. því að mér finnst hún í eðli sínu sjálfsögð og í rauninni í nákvæmlega sama anda og fyrri mgr. þeirrar gr. í frv. sem um er að ræða, þ.e.a.s. 8. gr. Í 2. mgr. gr., sem brtt. er gerð við, er talað um að Framleiðsluráði sé heimilt að styrkja flutninga á mjólk milli einstakra byggðarlaga þar sem um sé að ræða mjög kostnaðarsama flutninga. Þetta er eðlilegt og sjálfsagt og hefur raunar verið tíðkað í mjög miklum mæli og að manni finnst óeðlilega miklum mæli. Ég hygg að hann muni nema tugum millj. þessi kostnaðarsami flutningur á mjólk milli landssvæða. Hins vegar virðist ákaflega miklu skynsamlegra og jákvæðara að koma í veg fyrir mjólkurskort með því að stuðla að mjólkurframleiðslu á þessum hlutaðeigandi svæðum, þannig að ekki þurfi þessir kostnaðarsömu flutningar til að koma.

Það er vitað mál, eins og kemur fram í fyrri mgr. þessarar 8. gr., að það hefur nú þegar verið sýndur nokkur skilningur á þessum erfiðu aðstæðum, og í tillgr. er lagt til að stuðla að aukinni mjólkurframleiðslu eftir ýmsum leiðum með bættum samgöngum, félagsbundinni sölu og enn fremur að fyrirskipa misjafnt mjólkurverð til framleiðenda eftir árstíðum. Allt þetta eru að mér virðist eðlilegar ráðstafanir einmitt til þess að mæta þeim erfiðu aðstæðum sem skapast á hverjum einasta vetri hér og þar um landið. Ég hygg að hv. 4. þm. Vestf. hafi ekki borið þetta fram einungis með Mjólkursamlag ísfirðinga í huga, heldur skapast þessar aðstæður viða á landinu. Ég veit ekki betur en á milli Akureyrar og Reykjavíkur fari fram stórkostlegir mjólkurflutningar á hverjum vetri, jafnvel með flugvélum og eftir öðrum kostnaðarsömum leiðum.

Það er vitað mál að mjólk er sú neysluvara sem enginn neytandi vill án vera og getur verið án, og því er það augljóst hagsýnismál að mínu mati að framleiðslan fari fram á eins nálægu svæði við markaðinn og nokkur tök eru á. Það er hæpið að mínu mati að leggja of mikið upp úr stórmjólkurframleiðslubúum á þeim landssvæðum sem heppilegust eru til nautgriparæktar og mjólkurframleiðslu. Það hefur réttilega verið bent á hér að meðalbúin eru hvað notadrýgst og bera sig að jafnaði og þegar á heildina er litið betur en stóru búin. Þess vegna eigum við að styðja við þá búskaparháttu, þar sem þeir eiga við.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Pálmi Jónsson benti á, að þessi litla brtt. um að stuðla að aukinni mjólkurframleiðslu á svæðum, sem eiga erfitt uppdráttar, leysir engan veginn allan vandann. Það er gefið mál. En þetta er einn hluti af þeim ráðstöfunum sem hægt er að gera til þess að örva menn á þessum svæðum til að stunda þessa framleiðslu sem neytendur á aðliggjandi markaði nauðsynlega þurfa með. Og ég vil undirstrika það, sem kom fram í máli hv. 4. þm. Vestf., þetta er ekki eingöngu mál bændanna, heldur ekki síður fólksins sem þarf mjólkurinnar með. Ég vil þess vegna að þessum orðum loknum mæla eindregið með því að þessi litla brtt. verði samþ. Hún stuðlar að mínu mati að hagkvæmari lausn þessara mála heldur en það að leggja sífellt aukið fjármagn í flutninga á mjólk milli svæða.