04.05.1976
Neðri deild: 98. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3596 í B-deild Alþingistíðinda. (2956)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Eðvarð Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Það eru nokkrar aths. vegna þeirra ummæla sem hér hafa komið fram í umr.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson sakaði áðan að í raun og veru væri ekki verið að breyta neinu með þeim ákvæðum frv. að taka verðjöfnunargjaldið inn í dreifingarkostnaðinn, og í því efni vitnaði hann til núverandi 40. gr. laganna og las þar upp b-liðinn, þar sem ákvæði er um að taka skuli sérstakt verðmiðlunargjald af allri mjólk mjólkurbúanna o.s.frv. Þetta er búið að vera í lögum alla tíð og einnig varðandi kindakjötið. En það, sem er nýtt, og það, sem ég hef verið að leggja áherslu á í öllum mínum málflutningi, er að nú á að reikna skilyrðislaust þetta verðmiðlunargjald inn í dreifingarkostnaðinn. Þetta er það nýja sem felst í frv., en ekki að verðjöfnunargjald hafi ekki áður verið lagt á það vita allir, og það er máske eitt af veigamestu ákvæðum þessara laga.

Það hefur fleira komið fram í þessu efni. Hæstv. landbrh. taldi að það hefði ævinlega verið tekið tillit til fjármagnskostnaðarins í dreifingarkostnaðinum. Ég skal ekkert fullyrða um að hve miklu leyti tekið hefur verið tillit til fjármagnskostnaðar vinnslustöðvanna. En ég skal fyllilega viðurkenna það að með einhverjum hætti og að einhverjum hluta kemur fjármagnskostnaður inn í framleiðslukostnaðinn og þar með sjálfsagt inn í endanlegt verð vörunnar. En það, sem er nýtt í þessu frv., er að nú er alveg ótvíræð heimild, sem ég hygg nú að verði óspart notuð, til þess að taka fjármagnskostnaðinn inn í verðjöfnunargjaldið. Ég minnist þess þegar það mikla fyrirtæki, Mjólkurbú flóamanna, var á sínum tíma byggt, þá var það ákaflega umdeild ráðstöfun, eins og hér kom fram hjá hæstv. fjmrh. Og ég veit ekki betur en að bændur á Suðurlandi hafi tekið drjúgan þátt í kostnaðinum við byggingu mjólkurbúsins, og allt andrúmsloft var þá þannig að það hefði ekki verið með neinu móti hægt að setja allan þann fjármagnskostnað inn í smásöluverðið. Á þessu tímabili fengu bændur á Suðurlandi aldrei grundvallarverð fyrir mjólkina. En á sama tíma var norður við Eyjafjörð greitt árum saman langt yfir grundvallarverðið til bænda. Hins vegar er röðin nú komin að þessum byggðarlögum að reisa mjög dýrt fyrirtæki til mjólkurvinnslunnar. Er máske ætlunin að sá kostnaður skuli nú allur koma inn í dreifingarkostnað, sá fjármagnskostnaður? Hefði þá ekki verið nær með einhverjum hætti að byggja upp, — það er kannske erfitt að byggja upp sjóði á þessum ógnartímum, en manni finnst a.m.k. hafa verið ástæða til að hafa einhverja tilburði í þá átt, en borga ekki alltaf út. (Gripið fram í.) Eru miklir sjóðir til? Það er þetta sem ég hef verið að reyna að benda hér á. Og þessi ákvæði, að reikna verðjöfnunargjaldið og fjármagnskostnaðinn inn í dreifingarkostnaðinn, eru þau atriði þessa frv. sem að mínum dómi, eins og mál nú standa, eru aðalefni frv. og gera það að verkum að ég get ekki með nokkru móti staðið að samþykkt þess og hlýt að mótmæla harðlega.

Hv. þm. Pálmi Jónsson sagði að aðalefni frv. væri breytingin á mjólkursölunni. Í raun og veru ætti það að vera aðalefni þessa frv. En hins vegar eru þessar viðhengingar við sjálft mjólkurmálið þess eðlis að þær eyðileggja að samstaða geti orðið um málið, enda þótt menn séu sammála um að með mjólkursöluna, smásölu mjólkurinnar, sé rétt og tímabært að fara á þann hátt sem frv. gerir ráð fyrir.

Hæstv. landbrh. sagði að það hefði verið beint að ósk Mjólkursamsölunnar að þetta frv. væri nú flutt. Það kemur fram í grg. frv. Og ég skil út af fyrir sig vel þá stöðu sem Mjólkursamsalan er komin í varðandi smásölu á mjólk. Hins vegar tel ég ekki að hún hefði átt að ganga jafnlangt og gert er með því að undirgangast það í samningum við kaupmennina í Reykjavík að leggja niður allar sinar búðir. Það er of langt gengið. En Samsalan getur hvenær sem er aftur tekið upp smásölu á mjólk. Það er ekki verið að taka neinn rétt af henni til þess og ég vil sannarlega undirstrika það.

Varðandi þennan e-lið, sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni, í breytingu við 40. gr. laganna, þ.e.a.s. að verðbæta innanlandshallann á útflutningi, við hann vill nú enginn kannast og mér þykir það ákaflega eðlilegt. Það er a.m.k. mannlegt, en kannske, eins og stundum er sagt, ekki stórmannlegt. Einhvers staðar hlýtur þetta að hafa orðið til. Enginn veit hvar þetta hefur gloprast niður eða hvernig á því stendur að ákvæðin voru svona þegar frv. var lagt fram. Ég ætla ekki að fara um það fleiri orðum. En hins vegar tekur það ekki úr mínum huga þá tortryggni sem er fullkomlega leyfileg, hvernig hægt væri að nota verðjöfnunargjaldið þegar slíkt hefur verið sýnt í stjórnarfrv.

Það eru ýmis atriði önnur sem vert væri að taka hér til umr., en nú er orðið býsna áliðið kvölds og ég hef áður gagnrýnt þann tíma sem þessi umr. nú fer fram á.

Hæstv. landbrh. taldi að bað ætti að vera fullkomlega tryggt að dreifingarkostnaði yrði haldið í skefjum þar sem hann væri enn ákveðinn af sama aðila og hingað til, þ.e.a.s. Sexmannanefnd. Það er út af fyrir sig rétt. En Sexmannanefnd hafa alla tíð verið settar æði þröngar skorður við ákvörðun verðlags búvaranna, og með þeim breytingum, sem nú er verið að gera, ef þetta frv. nær fram að ganga, er starfssvið Sexmannanefndar takmarkað miklu meira en áður. Þess vegna er engin trygging fyrir því að hægt verði að halda dreifingarkostnaði í skefjum — ekki nokkur trygging fyrir því.

Ég ætla ekki að fara í neinar allsherjarumr. hér um landbúnaðarpólitíkina, verðlagsmálin yfirleitt, eins og hæstv. landbrh. þó gaf tilefni til. Það hefur ákaflega lengi verið vitað að það er viss bústærð sem er hagkvæmust í búrekstri og gefur mestan arð. Það eru ekki litlu búin og það er ekki heldur stærstu búin, það liggur þarna einhvers staðar á milli. Það fer að sjálfsögðu eftir aðstæðum, hvernig aðstæður eru með vinnuafl á búunum, en áreiðanlega er það rétt, það er sem sagt svona nálægt vísitölubúinu sem er hagkvæmasta búið, ef svo mætti segja. Ég ætla ekki heldur að fara að ræða hér nánar um það atriði sem ég kom hér inn á, að hve miklu leyti rétt sé að nota verðlagsmálin til þess að ná því markmiði sem lögin kveða á um, að bændur skuli hafa sömu tekjur og viðmiðunarstéttirnar. En þær umr. og þau orð, sem hér hafa fallið, hafa ekki á neinn hátt breytt þeirri sannfæringu minni að verðlagsmálin á ekki að nota ein til þeirra hluta. Það er algerlega röng stefna.

Varðandi þá brtt., sem hv. þm. Gunnlaugur Finnsson hefur lagt hér fram, vil ég aðeins segja það, að þar er áreiðanlega hreyft við mjög miklu vandamáli, — vandamáli sem gerir vart við sig víða á landinu og í vaxandi mæli af ýmsum ástæðum. En kannske er einna ríkust ástæðan sú að mjólkurframleiðsla í næsta nágrenni við þorp og bæi hefur mikla tilhneigingu til þess að minnka verulega, og ég held að ástæðurnar til þessa séu augljósar. Á síðustu árum hefur vinna aukist mjög mikið í þorpum víða úti um landið og bæjum, og möguleikarnir til þess að ná upp verulegum tekjum við vinnu í þorpunum hafa áreiðanlega orðið til þess að búskapur í nágrenni þessara staða hefur minnkað og lagst niður jafnvel. Þetta er svona í næsta nágrenni Reykjavíkur. Þetta er svona í sveitunum hér austan Hellisheiðar, t.d. í Ölfusinu og Flóanum trúi ég líka. Þetta er svona á Austurlandi og einnig á Vesturlandi. Þetta er vandamál sem sjálfsagt er býsna erfitt að taka á, en engu að síður vandamál sem ég út af fyrir sig er alveg sammála um að sú nefnd, sem á að fjalla um endurskoðun laganna, ef af henni verður, ætti að taka til rækilegrar athugunar. En till. hv. þm. Gunnlaugs Finnssonar get ég ekki verið með og þá fyrst og fremst vegna þess að upp í hana er tekin ein af þessum fjármagnstill. Hann tekur þá till. upp, og af þeirri ástæðu einni get ég ekki samþykkt þessa till. En þetta er vandamál sem tvímælalaust þarf að fjalla um og reyna að leysa.

Hæstv. landbrh. og raunar fleiri hafa hér látið falla fögur orð um að samvinna ætti að vera á milli neytenda, verkamanna, bænda, og hæstv. ráðh. lét í ljós þá skoðun að þeir aðilar, sem um endurskoðunina á lögunum ættu að fjalla, nái samstöðu þessum aðilum öllum til góðs. Það er ákaflega fallegt að segja svona orð. En þau verða ákaflega marklaus á sama tíma og er verið að gera þær ráðstafanir sem felast í þessu frv. og að mínum dómi a.m.k. gera það að verkum að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar koma með beiskan hug til starfa í slíkri endurskoðunarnefnd, ef þetta frv. nær fram að ganga, þ.e.a.s. þessi fjármagnskafli þess allur. Og ég verð að segja það, að ég ber ekki mikla virðingu fyrir fögrum orðum þegar slíkar athafnir fylgja eins og hér er nú verið að leggja grunn að að gera.