04.05.1976
Efri deild: 96. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3609 í B-deild Alþingistíðinda. (2963)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Samkv. því frv., sem liggur fyrir hér, er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs verði á árinu 1976 um 6.7 milljörðum kr. hærri en áætlað var við samþykkt fjárlaga fyrir síðustu áramót. Þessi niðurstaða kemur fram um það leyti sem nærri nákvæmlega tvö ár eru liðin síðan hæstv. núv. fjmrh. lýsti því yfir hér á hv. Alþ. að það væri hægðarleikur að lækka útgjöld ríkisins og þar með skattheimtuna um 4.5 milljarða kr. Þessi upphæð, sem hæstv. núv. fjmrh. fannst algjörlega ofaukið í ríkisútgjöldunum, samsvarar líklega um 8.5 milljörðum kr. í dag. Í ljósi þessara fyrirheita var naumast að undra að Sjálfstfl. þætti slíkur þm. efnilegur til að gegna starfi fjmrh. þegar formaður Framsfl. myndaði ríkisstj. fyrir hæstv. núv. forsrh. nokkrum mánuðum eftir að þessi minnistæðu fyrirheit um stórfellda og auðvelda lækkun ríkisútgjalda voru flutt hv. Alþ. og þjóðinni allri.

Ferillinn síðan er öllum kunnur. Ef miðað er við hina nýju áætlun, sem birtist í því frv. sem hér er til umr., hafa ríkisútgjöld hækkað frá fjárlögum ársins 1974 um nær 38 milljarða kr., ef tekið er tillit til tilfærslu á útgjöldum til sveitarfélaga sem samþ. var í árslok 1975. Útgjöld hafa hækkað á tveim árum, frá fjárlagatölu ársins 1974, sem var 29.4 milljarðar, í hina nýju áætlunartölu, að viðbættum útgjaldaliðum sem fluttir voru á sveitarfélögin, samtals í 67.1 milljarð kr. eða um 128% frá því 1974. Þessi gífurlega útgjaldaaukning hefur átt sér stað langt umfram tekjur ríkissjóðs. Slíkur stórfelldur halli og skuldasöfnun hefur m.a. valdið mjög mikilli hækkun vaxtagreiðslna og afborgana. Sífellt hærri hluta skattheimtunnar er varið til greiðslu þessara útgjaldaliða ríkissjóðs. T.d. má geta þess að vaxtagreiðslur í A-hluta fjárlaga, sem námu 714 millj. kr. 1975, eru á fjárlögum þessa árs áætlaðar 1666 millj. kr. eða hafa hækkað um næstum 1 milljarð kr. á einu ári, Hækkun vaxta í A-hluta á einu ári nemur næstum því þeirri upphæð sem með því frv., sem hér liggur fyrir, er verið að samþ. til landhelgisgæslu og hafrannsókna. Sé hins vegar miðað við fjárlög 1974 hafa vextir í A-hluta hækkað úr 413 millj. kr. í 1656 millj. eða riflega fjórfaldast. Vaxtagreiðslur í A- og B-hluta nema samtals á þessu ári vegna gífurlegrar skuldasöfnunar 4564 millj. og hafa hækkað um nær 3 milljarða kr. frá árinu 1974 — um nær 3 milljarða á tveim árum. Þessi frammistaða í ríkisfjármálum, stórfelldur hallarekstur og skuldasöfnun, er með slíkum eindæmum að allur almenningur er hættur að undrast ný afrek hæstv. ríkisstj. á þessu sviði.

Samhliða þessum dæmalausa árangri hefur yfirsýn yfir ríkisfjármálin verið slík að forsvarsmönnum ríkissjóðs virðist vera fyrirmunað að gera sér ljóst hver hinn raunverulega staða er á hverjum tíma. Þess vegna verður að taka öllum tölum og áætlunum í þessu frv. með miklum fyrirvara, þar talar reynslan. Í stuttu máli mætti t.d. rekja það hvernig þingheimi og þjóðinni birtist vitneskja hæstv. fjmrh. um stöðu ríkissjóðs og hvert stefndi í ríkisfjármálum á s.l. ári. Um miðjan júlí í fyrra töldu ráðamenn ríkissjóðs að búast mætti við 1850 millj. kr. halla á ríkissjóði á því ári að óbreyttum tekjustofnum. Þá var lögfest 12% vörugjald sem koma átti í veg fyrir hallann, og skýrt var tekið fram að það ætti að falla niður um áramótin 1975–1976. Þegar fjárlagafrv. var lagt fram þremur mánuðum síðar var talið í grg. þess að þrátt fyrir álagningu vörugjalds, sem í júlí var talið að tryggði hallalausan rekstur, yrði samt 770 millj. kr. halli á ríkissjóði. Um hálfum mánuði siðar flutti hæstv. fjmrh. fjárlagaræðuna og fannst þá vissara að nær tvöfalda áætlunina um hallann og taldi að hann yrði um 1270 millj. kr. Um 50 dögum síðar, eða 18. des. s.l., fór fram umr. um framlengingu vörugjaldsins. Þá nefndi formaður meiri hl. fjh.- og viðskn. töluna 3.5 milljarðar í halla. Þá liðu enn 12 dagar ársins og skömmu eftir áramót gaf fjmrn. út tilkynningu um afkomu ríkissjóðs á árinu 1975 og taldi hallann hafa numið — ekki 3.5 milljörðum kr. eins og 12 dögum áður, heldur hvorki meira né minna en 5000 millj. kr. Á þessum 12 dögum hafði áætlunin um hallann hækkað um 1500 millj. kr. Enn er því við að bæta, að jafnvel má búast við því að hallarekstur ríkissjóðs á s.l. ári hafi verið verulega meiri en upp var gefið fyrst eftir áramótin og gæti orðið nær 6 en 5 milljörðum kr.

En vissulega væri forvitnilegt fyrir hv. þdm. að heyra hvaða tölu hæstv. ráðh. telur líklegasta þessa stundina. Hann hefur að vísu fengið að reyna að það er erfitt að spá og „einkum um framtíðina“, eins og þar stendur, en e.t.v. tækist honum betur upp að segja til um liðna tíð þannig að upplýst verði hver afkoma ríkissjóðs reyndist raunverulega á s.l. ári.

Í því ráðleysi, sem ríkt hefur í ríkisfjármálum hjá hæstv. ríkisstj., hefur Seðlabankinn verið látinn halda ríkisbúinu gangandi með stöðugri seðlaprentun og þrotlausum lánveitingum til ríkissjóðs. Á fyrsta heila árinu í stjórnartíð hæstv. fjmrh., árinu 1975, jók hann skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann úr 3866 millj. kr. í 9932 millj. eða um 6066 millj. kr. Það svarar til þess að skuldaaukningin hafi numið 17 millj. kr. á hverjum degi allt árið eða að hæstv. fjmrh. hafi aukið skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann um 70d þús. á hverri klukkustund allt árið 1975. Það koma 700 þús. kr. á hverja klukkustund, ekki aðeins í vinnutíma hæstv. ráðh., heldur líka meðan hæstv. ráðh. svaf.

Þetta eru hálfnöturlegar staðreyndir. Og ekki er ánægjulegri saga af stríði hæstv. fjmrh. við vörugjaldið sem hér er sérstaklega verið að fjalla um. Þetta gjald átti að duga til að tryggja hallalausan ríkisbúskap 1975 og átti síðan að hverfa úr sögunni eftir þá dyggu þjónustu. Niðurstaðan varð svo sú, sem ég var að gera grein fyrir áðan. Þrátt fyrir vörugjaldið nemur hallinn líklega 6 milljörðum kr. Hæstv. ríkisstj. varð að vekja drauginn upp og hinir vísindalegu útreikningar um, að gjaldið yrði að vera 10% í 8 mánuði og síðan 6% í 4 mánuði, standast ekki fremur en annað. Það fer allt á eina leið um fyrirheit hæstv. fjmrh.

Það, sem aðallega brast við afgreiðslu fjárlaga ársins 1975, var að tekjur voru stórkostlega ofáætlaðar. Þar var gert ráð fyrir auknum neyslusköttum samtímis því sem lífskjör almennings voru að stórrýna. Efnahagsráðstafanir til að auka tekjurnar ollu síðan stórfelldum verðhækkunum og útgjaldaaukningu og hallarekstri ríkissjóðs. Nú þegar er komið í ljós að við afgreiðslu fjárlaga ársins 1976 voru útgjöld verulega vanáætluð. Vanáætlunin er langt umfram þá útgjaldahækkun sem hlýst af almennum verðlagsbreytingum, en þær hafa til þessa ekki orðið af sérstökum efnahagsráðstöfunum. Nú er lagt til að auk þess 4000 millj. kr. tekjuauka, sem almennar verðlagshækkanir færa ríkissjóði, verði aflað 1920 millj.. kr. nýrra tekna, 304 millj. kr. útgjöldum verði síðan ýtt yfir á sveitarfélögin og 300 millj. kr. verði teknar að láni hjá því hátekjufólki sem telur tekjur sínar fram til skatts.

Afstaða Alþb. til þessa frv. og þessara till. hefur komið rækilega fram í umr. og nál. í Nd. og í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. hér áðan og ástæðulaust að ég fari að hafa um þá afstöðu mörg orð.

Stjórnarflokkarnir hafa nú fallið frá þeim ásetningi sínum að vöruverðshækkunin vegna fjáröflunar til landhelgisgæslu og hafrannsókna kæmi ekki fram í kaupgjaldsvísitölu. Er ástæða til að fagna þeim árangri stjórnarandstöðuflokkanna og Alþýðusambands Íslands og annarra launþegasamtaka, að knýja þá breyt. fram aðsamþykkt frv. raski ekki að því leyti kjarasamningum í landinu. Ég tel ekki óeðlilega þá breyt. á skattalögum, að komið sé í veg fyrir að sveitarfélög leggi útsvör á lífeyrisþega og námsfólk í því skyni að ríkissjóður greiði skattinn, en tryggja verður að slíkur skattur verði ekki á þessa aðila lagður. Hins vegar tel ég ámælisvert að velja þennan tíma til lagasetningarinnar þegar sveitarfélög hafa samþ. fjárhagsáætlun fyrir þetta ár. Eðlilegra væri að raska þessum reglum á öðrum tíma árs eða þegar fjárhagsáætlanir hafa ekki verið samþ. Þetta þyrfti að samþ. að hausti til, þannig að þær gildi næsta ár.

Það kemur í ljós við afgreiðslu þessa frv., sem búast mátti við, að eina ráð hæstv. ríkisstj. til að mæta auknum útgjöldum er ný skattheimta. Sparnaður í rekstri er ekki lengur svo mikið sem hugleiddur. Þetta er í fullu samræmi við þá frammístöðu sem hæstv, ríkisstj. sýndi með því að standa ekki við yfirlýsta stefnu hæstv. fjmrh. um niðurskurð fjárlagaútgjalda um 3500 millj. kr. á s.l. vori. Enda þótt fjvn. hefði þá lagt fram till. um niðurskurð upp á 2000 millj. kr. tókst hæstv. fjmrh. þó ekki að koma í framkvæmd nema um 1000 millj. kr. lækkun á þessum fjárlagaliðum og efast þó ýmsir um að sú tala hafi náðst.

Á sama tíma og skattar eru sífellt hækkaðir til að hafa upp í hítina heldur útþensla áfram á rekstrarliðunum, og það er í rauninni í samræmi við þetta og einkar táknrænt um fjármálastefnuna að sama dag og þetta frv. um 2400 millj. kr. auknu skattheimtu vegna bágrar stöðu ríkissjóðs var lagt fram í Nd., þá var tekið á dagskrá hér í Ed. frv. til l. um að stofna nýtt embætti biskups á Hólum, frv. um að fjölga biskupum í landinu upp í tvo, sjálfsagt með tilheyrandi fjölgun biskupsritara og aukningu skrifstofuhalds. Að sjálfsögðu fylgdi ekki orð í grg. um áætlaðan kostnað að þessu nýja embætti eða embættum. Þetta er nákvæmlega í stíl við alla fjármálastefnuna til þessa og sýnir að áfram verður haldið á óheillabrautinni.

Hæstv. ríkisstj. hefur því miður nægilegt atkvæðamagn á Alþ. til þess að halda sóunarstefnu sinni og stjórnleysi í efnahagsmálum áfram, og við það verður þjóðin að búa um sinn. En lærdómsrík ættu henni að vera þessi tvö ár sem Sjálfstfl. hefur farið með fjármálastjórnina.

Ég vil svo að lokum aðeins fara fram á það við hæstv. fjmrh. í sambandi við þann kafla sem fjallar um ríkisábyrgð á lánum vegna orkuframkvæmda sveitarfélaga að hann upplýsi, ef honum er það kleift, hver er nú áætlaður framkvæmdakostnaður við Hitaveitu Suðurnesja á árinu 1976 og hvernig fjármögnun fyrirtækisins stendur, hve mikið fjármagn hefur verið tryggt til framkvæmdanna og hvaðan það er fengið.