04.05.1976
Efri deild: 96. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3612 í B-deild Alþingistíðinda. (2964)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Allt er þá þrennt er, og þrátt fyrir ágætar ræður þeirra hv. þm., flokksbræðra minna, sem hér hafa talað, þá vil ég nú við 1. umr. leggja nokkur orð í belg og tefja þá ekki tímann aftur síðan, þegar líða tekur á kvöldið.

Ekki þótti mér það fallegt hér á dögunum, þegar ég var austur á landi, þegar ég hitti þar gamlan bónda sem ég veit ekki annað en sé enn þá ágætur framsóknarbóndi, sem líkti núv. hæstv. ríkisstj. við afvelta kind. Kvað hann það eitt ólíkt með þeim að svo virtist sem lífslöngunin væri annars eðlis eða hreinlega væri ríkisstj. svo róleg að hún lægi aðeins og biði þess sem verða vildi, kindin hreyfði þó fæturna, einkum ef hún yrði einhvers vör kringum sig, það gerði ríkisstj. hins vegar ekki á hliðstæðan hátt. Ég reikna þó með því að þessi ágæti bóndi hefði fallist á að þetta frv. væri þó fjörkippur af svipuðu tagi og fótahreyfingar hinnar afvelta kindar. Ekki skal ég dæma um réttmæti þessarar lýsingar, en víst er um það að í þessum orðum speglast býsna vel afstaða almennings til hæstv. ritstj. nú þessa dagana.

Eftir hina stórkostlegu verðhækkanaskriðu undanfarinna vikna munu fáir hafa reiknað með því að ríkisstj. hugsaði enn til sérstakra nýrra álagna á fólk almennt án þess um leið að gera einhverjar tilraunir til sparnaðar, þess margumrædda sparnaðar sem hæstv. fjmrh. er víðfrægur fyrir að hafa jafnan á orði, þegar hann ræðir þessi mál. Ég hygg að fleirum hafi farið svo sem formanni verkalýðsfélagsins á Fáskrúðsfirði sem margrengdi mig fyrir helgina um það að ég segði satt frá þessum nýju álögum, enda fannst honum sem flestum öðrum fullnóg komið af slíkum góðgerðum. Hann hafði fyrir skömmu staðið í ströngum vinnudeilum fyrir hönd sinna félagsmanna og stendur reyndar enn á vissum sviðum.

Ég held þó að aðalatriðið í hugum fólks nú sé spurningin um það hvort engin önnur leið hafi verið fær til að ná því marki að afla nægra tekna til þeirra tveggja þátta sem almenningur er sammála um að þurfi að efla með einhverjum hætti, þ.e.a.s. landhelgisgæsluna og framlög til fiskleitar og tilraunaveiða. Það er svo annað mál, að fólk sér það auðvitað glögglega að hvoru tveggja hefði mátt sjá fyrir að mestu leyti við afgreiðslu fjárlaga, enda stóð þá ekki á því að fella till. alþb.- manna um 350 millj. kr. hækkun framlags til landhelgisgæslunnar sem þá var kölluð hrein yfirborðstill., sýndartill. Sú upphæð reyndist þó, miðað við þetta frv., aðeins tæpur helmingur þess sem nú er talið þurfa. En hvað um það, fólk spyr um aðrar leiðir en að ganga beint að hinum almenna launamanni hverju sinni, leggja á launafólk almennt þær byrðar framar öðrum. Almenningi sýnist einfaldlega að svo virðist sem til séu þeir í þessu landi sem þyldu allvel að bera þessar byrðar. Á þetta hefur verið bent það rækilega af talsmönnum Alþb. og sér í lagi af formanni flokksins með sérstakri tillögugerð hér á Alþ. að fólk er farið að sjá að til eru þeir sem hæstv. ríkisstj. hlífir ótæpt á sama tíma og hún knýr enn dyra hjá alþýðufólki. Þessar till. hafa nú komið hér beint fram frá talsmönnum Alþb,

Oft er því haldið fram að stjórnarandstaðan sé ábyrgðarlaus gagnvart þörfum eins og hér um ræðir, krefjist framkvæmda og athafna, en bendi ekki á tekjur á móti. Alþb. hefur hér gert meira en að vísa á fullnægjandi tekjur. Það hefur bent á tekjur frá þeim aðilum sem betur mega við því að bera þessar byrðar en það fólk sem álögur ríkisstj. leggjast þyngst á, einmitt mörgum þeim sem almenningur saknar sárlega að sjá ekki á skattskránum vegna ýmissa þeirra fáránlegu reglna sem firra þá eðlilegum framlögum til samfélagslegra þarfa. Eftir þessu verður sannarlega tekið nú. Fólk ber saman þessar tvær leiðir, á því er enginn vafi. Það er heldur enginn vafi á því hvora leiðina almenningur kýs, hvor leiðin er sanngjarnari og réttlátari. Þetta vildi ég undirstrika hér.

Ég skal ekki lengja umr. hér. Vinnúbrögð öll eru forkastanleg. Þrátt fyrir það að stjórnarandstaðan hafi lýst yfir því að hún væri fús til viðræðna um tekjuöflun til landhelgisgæslunnar, þá er ekkert samráð við hana haft. Frv. er fleygt á borð þm. og þar má nær engu breyta og í raun engu utan þess ákvæðis sem beint snertir kjarasamninga verkafólks sem numið var brott af ótta við þá alvöruþrungnu aðvörun sem alþýðusamtökin sendu frá sér við þessari hátíðargjöf, þessari 1. maí-gjöf ríkisstj. Það væri svo eftir öðru varðandi þessa hæstv. ríkisstj., sem gamli framsóknarbóndinn lýsti svo fagurlega sem ég vék að hér í upphafi, að sú líking við fótahreyfingu kindarinnar mundi helst eiga við um þann fjörkipp sem felast mundi í nokkur hundruð millj. kr. gjöf til kaupsýslumanna hér á landi sem sýnist eiga að færa þeim á silfurdiski jafnhliða þessari 1000 millj. kr. fjáröflun til landhelgisgæslu og fiskverndar. Það er svo annað mál hvort þessum aldna bónda þykir sá fjörkippur til bóta. Það dreg ég stórlega í efa, vægast sagt.