04.05.1976
Efri deild: 97. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3616 í B-deild Alþingistíðinda. (2969)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég skal í eins stuttu máli og ég get gera grein fyrir álíti og störfum fjh.- og viðskn. og því álíti sem meiri hl. hefur skilað.

Það hafa verið haldnir sameiginlegir fundir n. beggja þd. og hafa ýmsir aðilar komið til fundar við n. og útskýrt sin sjónarmið og gefið ýmsar upplýsingar, og kemur það fram í nál. hvaða aðilar það voru. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins og meiri hl. skilar sérstöku áliti, en minni hl. skilar séráliti og flytur brtt.

Í fyrsta lagi fór nokkur tími n. í að gera sér grein fyrir þeirri fjárþörf sem hér er um að ræða, og á fyrsta lagi útskýrði ráðuneytisstjóri í dómsmrn. fjárþörf Landhelgisgæslunnar. Hann gat þess að það hafi verið áætlað fyrir tveimur mánuðum tæpum að Landhelgisgæslan þyrfti um 500 millj. vegna útgjalda sinna til almenns rekstrar á þeim skipum, sem fyrir eru, 270 millj., til tækjakaupa 50 millj., til leigu á skipinu Baldri og rekstrar þess 150 millj. og leigu á flugvél 30 millj. Auk þess hefur bæst við rekstur og leiga á varðskipinu Ver sem er áætlað um 120 millj., aukinn launakostnaður vegna kjarasamninga 90 millj. og umframkostnaður vegna ársins 1975, seinni hluta árs, um 40 millj., eða samtals um 750 millj. kr. Það kom greinilega fram að hér er um áætlun að ræða og erfitt að fullyrða um hvort hún stenst að öllu leyti, en því verður reynslan að skera úr. Það er hins vegar ljóst að hér er ekki um ofáætlun að ræða.

Hæstv. sjútvrh. kom á fund n. og gerði grein fyrir fjárþörf Hafrannsóknastofnunar og ýmissa annarra stofnana til fiskileitar og veiðitilrauna. Hann gerði grein fyrir því í fyrsta lagi að það yrði sendur togari til að leita fyrst og fremst að karfa, og hann áætlaði að kostnaður af því yrði ekki minni en 45 millj. kr. Í öðru lagi gat hann þess að það væri fyrirhugað að taka einn bát á leigu til að gera tilraunir með veiði á grálúðu með línu, í þriðja lagi að leigja lítinn bát til að kanna skarkolamið, í fjórða lagi leit að loðnu í júlí til sept. og leigja skip til að reyna þessar veiðar, í fimmta lagi leit að djúpsjávarrækju og það kæmi mjög til greina að styrkja 2–3 skip til þessara veiða og þá eitt frá Austfjörðum, eitt frá Norðurlandi og eitt frá Vestfjörðum, án þess að það væri endanlega afráðið, í sjötta lagi leit að kolmunna, og í sjöunda lagi gat hann þess að það væri vart á dagskrá nú leit að spærlingi þar sem væri mjög slæmur markaður fyrir þann fisk. Auk þess gat hann um ýmsa aðra liði, eins og fjárvöntun hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, einnig markaðsleit, humarrannsóknir o.fl., o.fl. Það kom því mjög skýrt fram í máli ráðh. að hér var ekki of í lagt að áætla 250 millj. til þessara þarfa. Hann gat þess að það væru uppi óskir um mun meira fé, en það væri því miður ekki hægt að verða við því, en þörfin væri mjög brýn.

Þá kemur fram í frv. ýmis önnur fjárþörf, til vegagerðar m.a. Er gert ráð fyrir því að framkvæmdir við nýja vegi verði óbreyttar að krónutölu frá því sem gert var ráð fyrir, en hins vegar hefur viðhald hækkað mjög vegna aukinnar dýrtíðar, snjómoksturs o.fl. sem skapar mikinn fjárhagsvanda Vegagerðarinnar. Er ljóst að hér er um allmikinn vanda að ræða þótt það megi líta á það ýmsum augum hvort sé rétt að mæta þeim vanda með aukinni fjáröflun. En það er a.m.k. skoðun mín að það verði ekki undan því skotist að hafa þá vegi okkar, sem til eru í þessu landi, sæmilega færa, hefla þá og halla þeim við, auk þess sem vegagerð á þessu ári er í mjög miklu lágmarki miðað við mörg undanfarin ár.

Ég sé ekki ástæðu til þess að gera frekar grein fyrir fjárþörfinni, hún kemur mjög skýrt fram í aths. við frv. Og þegar menn ræða um að það sé fremur ástæða til þess að spara í ríkisútgjöldunum, þá mættu menn hafa í huga hvernig síðustu fjárlög voru afgreidd. Það var reynt að gæta þar ítrasta aðhalds og koma í veg fyrir að fjárl. hækkuðu mjög í meðförum þingsins. Hljóta menn að hafa það í huga þegar það er gagnrýnt að ekki skuli vera reynt að spara meira í ríkisútgjöldunum, að það var reynt hið ítrasta að mínum dómi til að gera það þegar fjárl. voru afgreidd. Hins vegar hefur því miður komið í ljós að það þarf að afla heldur meiri tekna, og það er vissulega gagnrýnisvert að ekki skyldi unnt að ganga betur frá fjárlagafrv. Það hefði að mínum dómi mátt sjá fyrir að það væri mun meiri þörf á fjármagni til Vegagerðarinnar strax þá, og það hefði vissulega mátt með betri afgreiðslu á fjárl. og betri vinnubrögðum koma í veg fyrir að það þyrfti meiri tekjuöflun nú en aðeins til landhelgisgæslunnar. En við hljótum að viðurkenna staðreyndir og haga okkur í samræmi við það, nú þegar það kemur í ljós að hér er um allmikla fjárvöntun að ræða.

Það má um það deila hvernig þessa fjár skuli aflað. Það koma vissulega margar leiðir til greina. Það er hugsanlegt að afla þess með beinum sköttum eða óbeinum sköttum, þá söluskatti, vörugjaldi eða tollum. Hér er valin sú leið, að leggja á viðbótarvörugjald. Ég get ekki stillt mig um að láta í ljós þá skoðun að ég hefði talið að mörgu leyti heppilegra að fara hér blandaða leið og bæta að einhverju leyti við beina skatta og að einhverju leyti óbeina skatta. Það má hins vegar segja að það sé meginatriðið að afla þessara tekna, en þó verður ætið að hafa í huga á hvern hátt það skuli gert. Það er einnig hugsanlegt að gera það með breytingum á skattalöggjöf. En að mínum dómi er fráleitt að ráðast nú í breytingar á skattalöggjöf í miðjum önnum skattstofanna. Þegar þær eru að leggja á fólkið í landinu og fyrirtækin, þá er ekki hægt að framkvæma breytingar á skattalöggjöfinni. Ég sé hins vegar að minni hl. n. gerir till. um að gera breytingar á skattalögum, leggja sérstakan skatt á skattskyldan rekstur. Í þeim hópi eru ýmsir aðilar sem hafa ekki miklar tekjur og má. t.d. nefna bændur landsins. Ég býst við og það var upplýst á fundi í fjh.- og viðskn. að þeirra hluti í þessum stofni væri a.m.k. 4 milljarðar plús einhverjar afskriftir. Ég er ekki þeirrar skoðunar að þessi stétt manna þoli mjög verulegar álögur. Hún er ekki það tekjuhá í dag að það sé hægt að ætla henni að hún geti greitt verulegar álögur umfram aðra. En um það eru sjálfsagt skiptar skoðanir, og ég sé að fulltrúar minni hl. álíta að svo sé. (Gripið fram í.) Ég biðst afsökunar á því, vegna þess að brtt. liggur aðeins hér fyrir eins og hún var flutt í Nd. (Gripið fram í.) Já, ég skal ekki hafa fleiri orð um það, en aðeins benda á að þetta kemur við fleiri en þá sem vel eru settir, og það verða menn að hafa í huga þegar eru gerðar breytingar á skattalögum, auk þess, sem ég tel að það sé allt of seint að ráðast í slíka breytingu nú.

Það komu ýmsir aðilar til fundar við n., m.a. fulltrúar Alþýðusambands Íslands. Það hefur verið gerð mjög góð grein fyrir ályktun þeirra í mörgum ræðum hér í þinginu og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um það, en aðeins benda á að Alþýðusambandið fellst á að fjárins sé aflað með tímabundinni hækkun vörugjalds, þ.e.a.s. 1000 millj. kr. til landhelgisgæslunnar, en lagði hins vegar á það ríka áherslu að þessi hækkun verði ekki á neinn hátt tengd riftun gildandi kjarasamningsákvæða um „rauðu strikin“. Það hefur nú verið fallið frá þeirri ákvörðun og gengið til móts við þau sjónarmið og óskir Alþýðusambandsins. En þetta minnir okkur á að það er nú svo með skattheimtu til ríkisins að það verður því miður ekki alltaf hægt að koma því svo fyrir að skattheimta til ríkisins sé bætt í auknum launum. Og það getur aldrei mótast hér heilbrigð efnahagsstefna ef skattheimta hefur ávallt áhrif á vísitöluna. En hitt er svo annað mál, að ég er á engan hátt að mæla því í mót að laun séu vísitölutryggð, þvert á móti. Hins vegar verða menn að hafa það í huga að til þess að ná góðri stjórn á efnahagsmálum verður fjármálavaldið og ríkisstjórn að hafa þar visst svigrúm án þess að hækkun opinberra gjalda komi inn í vísitölu.

Fulltrúar Alþýðusambandsins lögðu einnig á það mikla áherslu, að álagningarprósenta verslunar haldist óbreytt, og gerðu grein fyrir því í sinni ályktun. Þetta mál var rætt í Nd. og þá svaraði hæstv. viðskrh. því þannig, með leyfi hæstv. forseta, að um þetta atriði verði fjallað í verðlagsnefnd af réttum verðlagsyfirvöldum, og þegar ákvörðun verður tekin um álagningu, þ. á m. um hvort eða að hvað miklu leyti eigi að breyta álagningu vegna þessa vörugjalds, þá koma ýmis atriði til skoðunar og hljóta að koma til skoðunar. Ég er þess vegna ekki á þessu stigi reiðubúinn til þess að gefa neina yfirlýsingu um það efni sem þeir settu fram, þeir sem spurðu um þetta atriði. Þetta er atriði sem verður fjallað um í verðlagshefnd. Það er sá vettvangur þar sem ber að fjalla um þetta atriði. Það verður að sjálfsögðu að hafa í huga að það leggst einnig ýmis kostnaðarauki á verslunina, svo sem fjárfestingakostnaður o.fl., og verður sjálfsagt fjallað um öll þau atriði í verðlagsnefnd. Vænti ég þess að þau mál geti fengið farsæla afgreiðslu þar, þar sem fullt tillit verði tekið til. þessara sjónarmiða.

Einnig komu til fundar við n. fulltrúar BSRB og skiluðu einnig ályktun til n. Þeir voru að miklu leyti samþykkir ályktun Alþýðusambandsins, en lögðu á það áherslu að reynt yrði að spara svo sem unnt væri í ríkisbúskapnum. Ég hef nú því miður ekki tekið þetta álit með mér, en m.a. lögðu þeir til að það yrði frestað framkvæmdum við Kröflu, frestað framkvæmdum við Borgarfjarðarbrú og reynt að sýna ítrasta sparnað. Það er hins vegar ljóst að við megum ekki blanda saman um of lánahreyfingum annars vegar og rekstrarútgjöldum ríkissjóðs hins vegar, eins og oft vill verða þegar talað er um sparnað. Lán eru því miður ekki tekjur, þótt menn séu nú orðnir svo ruglaðir í peningamálum að það séu margir farnir að álíta svo að lán séu tekjur. En því miður verður ekki hægt að líta svo á og þess vegna verða menn að hafa það í huga, þegar rætt er um sparnað, að benda þá fyrst og fremst á rekstrarútgjöld, en ekki á lánahreyfingar.

Þar komu einnig fulltrúar frá Vinnuveitendasambandi og Verslunarráði Íslands og iðnrekendum. Verslunarráð Íslands sendi n. ályktun þar sem það leggur í stuttu máli áherslu á að það dragi ekki í efa að það sé þörf á fjáröflun til eflingar landhelgisgæslu, en hins vegar vilji það benda á, að það sé hægt að mæta þessum fjárhagsvanda á tvennan hátt: í fyrsta lagi með aukinni skattheimtu og í öðru lagi með niðurskurði ríkisútgjalda. Það leggur til að þessum vanda verði mætt með niðurskurði ríkisútgjalda og frestun ótímabærra framkvæmda. í þriðja lagi bendir það á, að í frv. sé gert ráð fyrir að fjmrh. geti heimilað sveitarfélögum verðbréfaútgáfu vegna hitaveituframkvæmda, og varar við þeirri þróun þar sem það álítur að nóg sé komið af slíkri verðbréfaútgáfu.

Það komu einnig til fundar við Ed.-nefndina fulltrúar frá Bandalagi háskólamanna og þeir lögðu á það áherslu að þeir kysu fremur að þessu vandamáli væri mætt með sparnaði í ríkisrekstrinum.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta frv. Ég vil taka undir orð fjmrh. um að hagstjórnargeta fjárl. og tekjuöflunar ríkisins sé orðin mjög vafasöm. Það er afskaplega lítill hreyfanleiki í tekjuöfluninni. Það er afskaplega erfitt að auka við beina skatta, þar sem það verkar ekki fyrr en ári síðar, og það gæti vissulega bætt þar úr ef tekið væri upp staðgreiðslukerfi. Mér er alveg ljóst að hér verður að vera meiri teygjanleiki, bæði varðandi útgjaldahlið og tekjuöflun, ef vel á að fara í stjórn efnahagsmála. Ég vil einnig ítreka það að bæði fjmrh. og fjvn. beiti sér fyrir því að það sé vandað mun meir til fjárlagagerðarinnar. Það hefur í bæði þau skipti, sem ég hef tekið þátt í afgreiðslu fjárlaga, ekki verið að mínum dómi vandað eins til fjárlagagerðarinnar og æskilegt hefði verið og eiga sjálfsagt ýmsir á því sök. En það er mjög mikilvægt að þessi vinna verði vönduð og Alþ. geti treyst mun betur þeim tölum, sem þar eru fram settar, heldur en raun hefur orðið á. Ég veit að það er oft erfitt að spá fram í tímann, en með vönduðum vinnubrögðum má örugglega gera betur.

En ég vil að lokum ítreka það, að meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt eins og það var afgr. frá Nd.