10.11.1975
Neðri deild: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

41. mál, söluskattur

Lárus Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja umr. um þetta frv. um of, en aðeins gera við það örfáar aths. Ég á sæti í þeirri n. sem kemur til með að fjalla um þetta mál, þannig að ég þarf ekki að vera langorður í þessari hv. d. um þetta frv.

Ég vildi aðeins benda á það í upphafi máls míns að í þessu frv. er gert ráð fyrir allverulegri minnkun tekna ríkisjóðs, en í frv. er ekki stafkrókur um það hvernig afla eigi tekna í staðinn eða hvaða þjónustu ríkissjóður eigi þá að leggja niður af því sem hann veitir þegnunum í dag. Það er gert ráð fyrir því að draga verulega úr skatttekjum ríkissjóðs, en ekki sem sagt minnsta tilraun gerð til þess að sýna fram á hvernig þetta eigi að vera mögulegt. Slíkan tillöguflutning er því miður ekki unnt að taka alvarlega, jafnvel þótt málefni, sem hann eigi að leysa, sé í mínum huga þess eðlis að það þarf að leysa. En ég fæ ekki séð að tillöguflutningur á borð við þetta geri annað en að sýna mönnum fram á það að menn grípa til ýmissa bragða í pólitíkinni til þess að koma sér í mjúkinn hjá fólki á mjög „billegan“ hátt.

Ég vil svo í framhaldi af því, sem ég hef sagt hér, benda á að ég veit ekki til þess að þessari aðferð hafi verið beitt í neinu nágrannalanda okkar, sem öll eiga við byggðavanda að elja, að fara þá leið sem lagt er til í þessu frv. Hv. 1. flm. Ólafur Ragnar Grímsson, taldi ekki ástæðu til þess að skýra fyrir hv. þm. hvernig þetta yrði framkvæmt í einstökum atriðum, að leggja á mismunandi söluskatt í mismunandi landshlutum. Ég held þó að það hefði verið ástæða til þess fyrir hv. þm. að skýra það nánar, vegna þess að ég fæ ekki betur séð en það geti orðið dálítið erfitt í framkvæmd. Við skulum taka sem dæmi byggðarlög sem liggja kannske við hliðina hvort á öðru, en annað býr við hærri söluskatt en hitt. Þess vegna vil ég mælast til þess við hv. þm. að hann reyni að einhverju leyti að skýra það fyrir hv. d. hvernig hann mundi leysa slík mál eða hvort hann teldi að hægt væri með einfaldri kjördæmaskiptingu að gera þannig upp á milli nágrannabyggðarlaga.

Ég held, virðulegi forseli, að þetta frv. sé því miður yfirborðsfrv., yfirborðstill., það sé því miður þannig undirbyggt að ekki sé verulegt mark á því takandi. Ef hins vegar hv. flm. geta fært því nánari stað, sýnt fram á hvernig á að afla fjár til að framkvæma það, þá er ég reiðubúinn til að taka það til fyllstu athugunar í þeirri n. sem ég á sæti í.