05.05.1976
Sameinað þing: 84. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3629 í B-deild Alþingistíðinda. (2980)

318. mál, utanríkismál

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Svo sem að venju mun verða gefin Alþ. skýrsla um utanríkismál og samskipti Íslands við aðrar þjóðir, bæði tvíhliða viðskipti og þátttöku í alþjóðastofnunum.

Þessi skýrsla, sem nú verður flutt, hefur legið frammi nokkra hríð. Hún var afhent hv. Alþ. fyrir páskahlé og ég vona þess vegna að hv. alþm. hafi að þessu sinni gefist nægur tími til þess að athuga hana og gera þá við hana þær aths. sem þurfa þykir.

Ef ég ætti að benda á eitt atriði, sem er einkennandi fyrir ástandið í alþjóðamálum í dag, mundi ég telja að það væri ákvörðun Fords Bandaríkjaforseta að hætta að nota franska orðið „detente“ um samskipti austurs og vesturs, en segja í stað þess að koma verði á friði í skjóli valds, þ.e. að forsendan fyrir því að dregið sé úr spennu í samskiptum stórveldanna sé nægur hernaðarmáttur og vígbúnaður.

Á þessu ári eru forsetakosningar í Bandaríkjunum. Hefur það að sjálfsögðu sín áhrif á samskipti austurs og vesturs og þróun í alþjóðamálum almennt. Fram hefur komið að hinn almenni kjósandi í Bandaríkjunum er óánægður með stefnu Bandaríkjanna gagnvart Sovétríkjunum. Mönnum finnst Sovétríkin hafa unnið hvern sigur á fætur öðrum í viðskiptum landanna og vitnað er til framleiðslu eldflauga, skriðdreka og skipa meðan talað er um afvopnun, róið undir deilum í Austurlöndum nær, reynt hefur verið að ná yfirráðum í Portúgal gegnum minni hl., sem þó ekki tókst, stuðningur við samþykktina í Sameinuðu þjóðunum um zíonisma og nú síðast að kúbanskir hermenn voru sendir til Angóla.

Afstaða Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi virðist fara harðnandi, en framtíðin mun skera úr því hvaða áhrif þetta kann að hafa á hinar svonefndu SALT-viðræður (takmörkun langdrægra kjarnavopna) í Genf og eins umræður um niðurskurð herstyrks í Mið-Evrópu sem farið hafa fram í Vínarborg. Það er skoðun mín að verði ekki áframhaldandi minnkun spennu milli austurs og vesturs í mynd SALT-samnings og frekara samkomulags um afvopnun hafi harla lítið áunnist með Öryggismálaráðstefnunni í Helsinki og í öryggismálum almennt.

Tvennt er það sem gleðjast ber yfir í þróun mála hér í Evrópu. Ég á þar við í fyrsta lagi þær breytingar sem orðið hafa á Spáni, sem vonandi leiða til að stofnuð verði þar lýðræðisstjórn og komið á pólitísku frelsi án þess að til blóðsúthellinga komi. Í öðru lagi er það hinn mikli pólitíski þroski sem portúgalska þjóðin hefur sýnt í hinni snöggu umhverfingu sem varð á högum hennar. Nú er nýlokið hinum fyrstu frjálsu kosningum sem haldnar hafa verið þar í landi í 50 ár. Það er allra von að vel takist með stjórnarmyndun í landinu svo að lýðræðið fái að þróast þjóðinni til farsældar.

Vonandi á sá dagur eftir að renna upp að friður ríki í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Nú geisar borgarastyrjöld í Líbanon og hætta er á að hún breiðist út og úr verði styrjöld á svæðinu. Ég tel alveg nauðsynlegt að Sameinuðu þjóðirnar grípi þegar inn í þetta mál og komi á vopnahléi svo að hægt sé að byrja að reyna að finna lausn á þessu sorglega vandamáli Líbanonþjóðarinnar. Eins og ég hef margsagt áður, þá er það skoðun mín að eina lausn mála sé sú að framkvæmdar verði samþykktir Sameinuðu þjóðanna, því að eini möguleikinn á varanlegum friði á þessu landssvæði er að fullt tillit sé tekið til allra aðila og þ. á m. lögmætra réttinda Palestínumanna og tilveruréttar allra ríkja á svæðinu.

Það ber að harma þegar bornar eru fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna tillögur sem þjóna þeim tilgangi einum að spilla fyrir möguleikum á samkomulagi á þessum erfiðu deilum. Hér á ég við till. er lagði að jöfnu zíonisma og apartheid í kynþáttamálum. Ég mun rekja hér á eftir nokkuð nákvæmlega sögu þess máls í Sameinuðu þjóðunum, en þó tæpast eins rækilega og í prentuðu skýrslunni segir til að tefja ekki tímann um of. Einnig verð ég að láta í ljós vonbrigði yfir meðferð Kóreumálsins hjá Sameinuðu þjóðunum á síðasta Allsherjarþingi. Samþykktar voru tvær tillögur sem gengu í berhögg hvor við aðra, en slík afgreiðsla stuðlar ekki að því að auka áhrif Sameinuðu þjóðanna í heiminum. Ég lagði áherslu á þetta atriði á fundi utanrrh. í Stokkhólmi nú fyrir skömmu og hvatti til þess að Norðurlandaþjóðirnar ynnu saman að því að koma í veg fyrir slíka málsmeðferð í framtíðinni.

Nú er nýlokið borgarastyrjöld í Angóla og hefur Ísland viðurkennt Angólaríkið.

Stórveldin hafa enn styrkt aðila með vopnum og herafla og verður að líta á þá þróun sem mjög varhugaverða, enda virðist hún þegar vera farin að hafa áhrif á samskipti þeirra. Það hlýtur að vera ósk allra að hinum undirokuðu þjóðum í Afríku, sem enn ekki hafa fengið frelsi, auðnist að ná því sem allra fyrst og án þess að til bardaga komi. Ísland mun styðja allar tillögur og ráðstafanir sem Sameinuðu þjóðirnar beita sér fyrir í þessum efnum.

Sérfræðingar telja að ýmislegt bendi til þess að ástandið í efnahagsmálum í heiminum fari nú aðeins batnandi. Virðist nokkuð vera að draga úr áhrifum hinna geysilegu hækkana á olíu, þó að enn þá búi mörg iðnaðarríkin við mikið atvinnuleysi. Vonandi er að þessi þróun haldi áfram á öllum sviðum efnahags- og þróunarmála í heiminum.

Ég mun nú víkja að þátttöku Íslands í hinum ýmsu alþjóðastofnunum og utanríkisþjónustunni almennt.

30. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna stóð yfir í New York frá 16. sept. til 17. des. 1975 eða í 3 mánuði, eins og venja er. Ég sótti þingið í byrjun og flutti þar ræðu í almennum umr. hinn 29. sept. Í þessari ræðu gerði ég nokkra grein fyrir afstöðu okkar til ýmissa alþjóðamála og starfa allsherjarþingsins. Gerði ég jafnframt ítarlega grein fyrir útfærslu fiskveiðilögsögu Íslands í 200 mílur og grundvallarsjónarmiðum okkar á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Meðal hörðustu deilumála þingsins voru, eins og á 29. Allsherjarþinginu, Palestínumálið og ástandið í Suður-Afríku. Eins og ég gat um í inngangsorðum mínum, vakti till. um að leggja „zionisma“ að jöfnu við kynþáttastefnu og apartheid mesta athygli og deilur, og fjalla ég nánar um meðferð þessa máls hér á eftir. Einnig var fjallað um Kýpurdeiluna og Kóreuvandamálið.

Palestínumálinu var eins og áður vísað beint til Allsherjarþingsins án fyrri afgreiðslu í n. Hófust umr. um það 3. nóv. og stóðu í 5 daga. Rösklega 44 lönd tóku þátt í umr., sem voru á köflum mjög hatrammar.

Að lokinni umr. samþykkti Allsherjarþingið tvær ályktunartillögur í málinu.

Egyptar lögðu fyrstir fram tillöguuppkast, sem flest önnur Arabalönd gátu ekki sætt sig við fyrr en gerðar höfðu verið á því verulegar breytingar. Till. kveður svo á um að bjóða skuli frelsishreyfingu palestínumanna (PLO) á jafnréttisgrundvelli að taka þátt í öllum fundum og ráðstefnum sem haldnar eru á vegum Sameinuðu þjóðanna um deilumálin í Austurlöndum nær. Jafnframt er lagt til við Öryggisráðið að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að Palestínuþjóðinni verði kleift að njóta þjóðernisréttinda sinna í samræmi við ályktunartillögur frá síðasta Allsherjarþingi. Till. var samþ. með 101:8 atkv.

Síðari till. fjallar einkum um að Allsherjarþingið kjósi nefnd 20 ríkja sem gera skuli till. um á hvern hátt Palestínuþjóðin nái réttindum sínum í samræmi við ályktun frá síðasta þingi. N. á að skila skýrslu til Öryggisráðsins fyrir 1. júní 1971. Öryggisráðið hefur fjallað um þá skýrslu skal n. ganga frá skýrslu fyrir 31. Allsherjarþingið. Till. þessi var samþ. með 93:18 atkv., 27 ríki sátu hjá. Ísland greiddi atkv. á móti.

Ástandið í Austurlöndum nær var á dagskrá 28. og 29. Allsherjarþingsins, en á báðum þeim þingum var afgreiðslu þessa máls frestað. Á 30. Allsherjarþinginu var þessi dagskrárliður hins vegar tekinn fyrir að tilhlutan Arabalandanna. Umr. um málið hófust á Allsherjarþinginu 1. des. Um 40 ríki tóku þátt í umr. og voru það flest sömu ríki og töluðu í umr. um Palestínumálið sem greint er frá hér á undan.

Arabalöndin og Austur-Evrópulöndin höfðu sig langmest í frammi og var umr. því mjög einhliða gagnrýni á Ísrael og raunar að mestu endurtekning á Palestínuumr. Nokkur óháð ríki og ríki frá Austur-Evrópu báru fram till. í málinu sem að mestu byggði á tillöguuppkasti frá Arabalöndunum. Arabaríkin gerðust ekki meðflytjendur að till. þegar ljóst var að óháðu ríkin vildu ekki samþykkja að ganga lengra í kröfum um að Ísraelsmenn drægju sig til baka frá arabísku landssvæðunum en þeim sem hernumin voru eftir 1967.

Í till. er lýst þungum áhyggjum yfir áframhaldandi hernámi Ísraelsmanna á arabískum landssvæðum. Fullyrt er að nauðsynlegt sé til varanlegrar lausnar á vandamálunum að kalla Genfarráðstefnuna saman sem fyrst með þátttöku allra viðkomandi aðila, þ. á m, frelsishreyfingar palestínuaraba. Hvatt er til, að öll ríki forðist að láta Ísrael í té hernaðarlega og efnahagslega aðstoð, og farið fram á það við Öryggisráðið að það geri nauðsynlegar ráðstafanir samkv. ákveðinni tímaáætlun að framkvæmdar verði allar ályktanir Allsherjarþingsins og Öryggisráðsins sem miða að varanlegum friði á svæðinu.

Till. var samþ. með 84:17 atkv., 27 ríki sátu hjá, Ísland greiddi atkv. á móti. Fastafulltrúi gaf skýringu á atkv. Íslands eftir atkvgr. um till. og sagði m.a. að réttlát og varanleg lausn vandamálanna yrði að grundvallast á ályktunum Öryggisráðsins. Hann sagði að afstaða Íslands í þessu máli markaðist af ósk um að lögmæt réttindi Palestínuþjóðarinnar næðu fram að ganga, en jafnframt að réttindi allra ríkja á svæðinu yrðu tryggð. Hann kvað Ísland hafa greitt atkv. á móti till. einkum vegna þess að í hana vantaði nauðsynlegt jafnvægi.

Samkv. ályktun 29, Allsherjarþingsins hefur framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna gengist fyrir viðræðum milli Kýpurstjórnar og fulltrúa tyrkneska minni hl. á Kýpur. Þessar viðræður báru takmarkaðan árangur og leystu engin pólitísk vandamál.

Þrjár efnistilll. komu fram í málinu: Í fyrsta lagi till. frá Kýpur sem lýsir tyrki algerlega ábyrga fyrir ástandinu á Kýpur. Í öðru lagi till. frá Tyrklandi þar sem ekki var minnst á að erlent herlið skyldi dregið til baka frá eyjunni og hvorki vísað til samþykkta Öryggisráðsins um málið né til ályktunar síðasta Allsherjarþings. Í þriðja lagi báru 5 óháð ríki fram till. sem í aðalatriðum var byggð á málamiðlunartill. þessara sömu landa á síðasta þingi. Í till. þessari er nokkuð farið bíl beggja, en þess þó eindregið krafist að erlent herlið hverfi frá Kýpur. Till. óháðu ríkjanna var samþykkt með 111:1 atkv.

Samkomulag varð um málamiðlunaryfirlýsingu varðandi Kóreumálið á 28. Allsherjarþinginu þar sem hvatt var til að viðræður ríkjanna um sameiningu með friðsamlegum hætti héldu áfram á grundvelli sameiginlegrar yfirlýsingar þeirra frá 4. júlí 1972. Þær vonir, sem bundnar voru við þessa yfirlýsingu, hafa með öllu brugðist og samskipti ríkjanna farið versnandi s.l. tvö ár. Mörg ríki tóku þátt í þessum umr, Kína og Sovétríkin m.a. töluðu máli Norður-Kóreu og gagnrýndu Bandaríkin harðlega. Af hálfu Bandaríkjanna var lýst yfir eindregnum stuðningi við Suður-Kóreu og ítrekuð till., sem utanrrh. Bandaríkjanna bar fram í almennu umr. á Allsherjarþinginu, þess efnis, að kölluð yrði saman sérstök ráðstefna um Kóreumálið með þátttöku Norður og Suður-Kóreu, Kína og Bandaríkjanna. Tvær till. voru lagðar fram í málinu og tókst ekki að ná samkomulagi á milli deiluaðila um málamiðlunartexta. Niðurstaðan varð svo sú,að báðar þessar till. voru samþykktar sem þó ganga hvor í sína áttina.

Að því er varðar efnahags- og þróunarmál urðu störfin í 2. nefnd á 30. Allsherjarþinginu af eðlilegum ástæðum eins konar framhald af 7. aukaþinginu sem fjallaði um þróunarmál og alþjóðlega efnahags- og viðskiptasamvinnu. 7. þinginu lauk daginn sem 30. þingið var sett. Á 7. aukaþinginu tókst að ná málamiðlunarsamkomulagi um ályktun um þessi málefni. Ekki tókst þó að ná einingu um stærsta málið sem var til meðferðar hjá n., þ.e. um endurskoðun áætlunarinnar um annan þróunaráratug Sameinuðu þjóðanna. Greinilegt var að þróunarlöndin vildu stíga skref fram á við frá því málamiðlunarsamkomulagi sem náðst hafði á 7. aukaþinginu um þróunar- og efnahagsmálefni. Sum iðnvæddu ríkin voru hins vegar ekki tilbúin enn til að ganga lengra en þau höfðu gert með samkomulaginu á 7. aukaþinginu. Þessi ríki vildu m.a. bíða eftir niðurstöðum Parísarráðstefnunnar og 4. ráðstefnu UNCTA áður en þau féllust á frekari tilslakanir. Hópur ríkjanna 77 lagði fram í 2. nefnd uppkast að till. um endurskoðun þróunaráætlunarinnar. Ákveðið var að þetta uppkast yrði grundvöllur í samningaviðræðum í óformlegri vinnunefnd innan 2, nefndar þar sem þau lönd, sem þess óskuðu, gátu tekið þátt. Þrátt fyrir langar og strangar samningaviðræður heppnaðist ekki að ná einingu án atkvgr. um ályktun og endurskoðun á markmiðum 2. þróunaráratugs Sameinuðu þjóðanna N. samþykkti ályktunina um endurskoðunina með 94 atkv., enginn á móti, 7 ríki sátu hjá. Fjöldi ríkja, fyrst og fremst úr hópi hinna iðnvæddu, gerðu fyrirvara um fjölmargar greinar ályktunarinnar og töldu sig þar með ekki vera bundin af ákvæðum þeirra.

Allsherjarþingið samþykkti ályktunina með 123 atkv., enginn á móti, en 8 ríki sátu hjá.

Er till. Efnahags-. og félagsmálaráðsins um áætlunina um framkvæmd áratugsins gegn kynþáttamisrétti kom til umr. í 3. nefndinni lögðu nokkur ríki fram brtt. sem fól í sér að stimpla zíonisma sem hliðstæða kynþáttastefnu og apartheid. Þar af leiðandi skyldi áratugnum og baráttunni gegn kynþáttastefnu og kynþáttamisrétti ekki síður beint gegn zionísma en gegn apartheid. Er þessi brtt. hafði verið lögð fram tilkynntu nokkur fleiri ríki til viðbótar sig meðflutningsaðila að brtt. Í umr. um brtt. lýsti fulltrúi Ítalíu fyrir hönd Efnahagsbandalagsríkjanna yfir því, að yrði brtt samþ. mundu ríkin 9 greiða atkv. gegn till. í heild svo breyttri. Bandaríkin lýstu því sama yfir, og kom fljótt í ljós að mikill meiri hluti hinna vestrænnu ríkja var sömu skoðunar. Þessi brtt. olli klofningi í hópi Afríkuríkja. Mörg þeirra lýstu því yfir að þau óttuðust að samþykkt brtt, gæti eyðilagt áætlunina um baráttuna gegn kynþáttastefnu og kynþáttamisrétti sem full eining hafði náðst um í Efnahagsog félagsmálaráðinu.

Að beiðni flytjanda brtt. var umr. um áætlunina gegn kynþáttamisrétti frestað um nokkra daga í n. Fljótt kom í ljós að Arabaríkin höfðu í hyggju að draga brtt. til baka, en leggja í stað þess fram nýja sjálfstæða till. er fól í sér efni brtt. Ágreiningur kom upp milli Arabaríkjanna og Afríkuríkjanna um orðalag á þeirri till. Afríkuhópurinn lagði á það áherslu að Arabaríkin flyttu þetta mál eftir öðrum dagskrárlið í von um að það mundi fremur firra áætlunina um árangur gegn kynþáttamisrétti tjóni, en Arabaríkin urðu ekki við þeim óskum Er málið kom að nýju til umr. í n. kom upp vandamál í sambandi við þingsköp, og eftir langar umr. um það efni var samþykkt að leggja mætti fram hina sjálfstæðu till. sem kvað á um að zionismi væri eitt form kynþáttastefnu.

Síerra Leone lagði fram formlega till. um að till. yrði frestað til 31. þingsins. Zambía lýsti strax yfir stuðningi við þessa till. Umr. um till. urðu hins vegar stuttar þar sem Arabaríkin lögðu fram dagskrártill. um lok umr. og atkvgr. um till Sierra Leone. Till. um að fresta málinu til 31. þingsins var felld með 68:45 atkv., 16 ríki sátu hjá. Öll vestræn ríki greiddu atkv. með frestuninni að undanteknum Portúgal og Tyrklandi. Spánn og Grikkland voru fjarstödd. Afríkuhópurinn klofnaði í atkvgr. Afríkuríkin fyrir sunnan Sahara skiptust þannig að 12 greiddu atkv. með frestuninni, en 16 voru á móti, Allmörg vestræn ríki kusu að flytja atkvæðaskýringar fyrir atkvgr. um þær þrjár till. undir dagskrárlið 68 sem nú lágu fyrir n. Fulltrúi Svíþjóðar flutti atkvæðaskýringu af hálfu norrænu landanna 5. Minnt var á að norrænu ríkin væru meðal hinna dyggustu í baráttunni gegn kynþáttastefnu og kynþáttamisrétti. Hins vegar mundi samþykkt zíonismatillögunnar hafa í för með sér róttæka breytingu á markmiðum áætlunarinnar um áratuginn gegn kynþáttamisrétti. Norrænu ríkin mundu þess vegna greiða atkv. með Ecosoc-tillögunum tveimur, en gegn till. varðandi zionisma. Yrði zíonisma-till. samþykkt í n. áskildu norrænu löndin sér rétt til að endurskoða afstöðu sína til Ecosoctill. tveggja þegar þær kæmu til afgreiðslu á þinginu.

Ecosoc-till. um áætlunina um áratuginn gegn kynþáttamisrétti var samþ. í n. með 124:1 atkv. og 2 sátu hjá. Ecosoc-till. um alþjóðaráðstefnu í sambandi við áratuginn var samþ. með atkvæðatölunum 126, 1 á móti og 1 sat hjá. Þá kom til atkv. till. varðandi zionisma. Till. var samþ. með atkvæðatölunum 70, 29 og 27 sátu hjá. Öll vestræn ríki greiddu atkv. gegn till. að undanteknum Spáni, Portúgal og Tyrklandi sem greiddu atkv. með henni. Þegar till. kom til afgreiðslu á þinginu lagði fulltrúi Belgíu fram till. um að zíonisma-till. yrði frestað til 31. þingsins. Till. Belgíu var felld með 67:55 atkv. Zíonisma-till. í heild var síðan samþ. á þinginu með 72:35 atkv. og 32 sátu hjá. Till. um alþjóðaráðstefnu í sambandi við áratuginn gegn kynþáttamisrétti var samþ. í þinginu með atkvæðatölunum 116, 18, 7. Norrænu ríkin voru meðal þeirra sem greiddu atkv. gegn till.

Þá kemur hér nokkur kafli um Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Ég held að ég vísi til skýrslunnar að því er varðar upphaf þess máls, en greini þá aðeins frá því að Ísland hefur frá upphafi stutt hugmyndina um Háskóla Sameinuðu þjóðanna og látið í ljós áhuga á að kanna möguleika á þátttöku í starfsemi hans. Var í fyrstu einkum hugleidd samvinna við háskólann varðandi rannsóknir á auðlindum hafsins, en athyglin beinist nú frekar að samvinnu við háskólann um rannsóknir og kennslu á sviði jarðhitaorku. Í þessu sambandi má geta þess að á fundi auðlindanefndar Sameinuðu þjóðanna í Tokíó í mars 1975 hafði Ísland frumkvæði að flutningi till., sem samþ. var einróma, um að Háskóli Sameinuðu þjóðanna beitti sér fyrir rannsóknum og fræðslu varðandi nýtingu jarðhita. Þessari hugmynd hefur verið mjög vel tekið og má nú telja verulegar líkur á að eitt af verkefnum háskólans verði á þessu sviði. Komið hefur verið á framfæri við rektor háskólans fyrstu hugmyndum íslenskra stjórnvalda um hugsanlega samvinnu um þessi mál og jafnframt leitað eftir viðbrögðum háskólans, m.a. um kostnaðarhliðina. Til grundvallar umr. um málefni háskólans í 2. nefnd lágu skýrslur háskólaráðsins og var þeim fylgt úr hlaði í n. af rektor háskólans. Skýrði hann frá að unnið væri nú að því að setja saman nákvæma framkvæmdaáætlun um starfsemi háskólans í framtíðinni. Rektor lýsti vonbrigðum sínum yfir því, að aðeins 5 ríki hefðu fram til þessa lagt háskólanum til fé, og lét í ljós vonir um að fleiri ríki sýndu stuðning sinn við háskólann í verki með fjárframlögum.

Í almennu umr. um málefni háskólans gáfu allmörg ríki ádrátt um fjárframlög til skólans. Nokkur ríki létu í ljós áhuga á að taka upp samvinnu við skólann. Fastafulltrúi Íslands tók þátt í almennu umr. og skýrði þar m.a. frá að ríkisstj. Íslands hefði í athugun till. um samvinnu við háskólann á sviði rannsókna og fræðslu um nýtingu jarðhitaorku.

Sem kunnugt er hefur verið samstarf milli Íslands og Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1972. Á þessum tíma hefur Ísland fengið að jafnaði 200 þús. dala framlag á ári frá stofnuninni, en heildarfjárframlag var ákveðið 1 millj. dala á 5 árum. Fé þetta hefur runnið til 20 verkefna á ýmsum sviðum þjóðlífsins, þ. á m. málmleitar, ferðamála, útflutningsstarfsemi iðnaðarins, lax- og silungarannsókna, fiskvinnslurannsókna, landbúnaðarrannsókna o.fl. Samkv. áætluninni var ráðgert að framlagi Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna yrði lokið í árslok 1976, en í marsmánuði s.l. bárust þær fregnir frá Þróunarstofnun að allar greiðslur til verkefna á Íslandi hefðu verið stöðvaðar þar sem upphaflegt fjárframlag hefði þegar verið greitt í árslok 1975 og auk þess hefðu greiðslur farið sem svaraði rúmlega 404 þús. dölum fram úr áætlun. Hefur þetta komið nokkuð illa niður á vissum verkefnum hérlendis sem ráðgert var að ljúka með fjármagni frá stofnuninni.

Ég skýrði frá því í skýrslu um utanríkismál á s.l. ári að þar sem styrkir Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna væru fyrst og fremst ætlaðir hinum fátækari þróunarlöndum hlyti það að vera kappsmál að Ísland stefndi að því að árlegt framlag þess yrði sem svari því sem stofnunin greiðir hérlendum aðilum. Svo hefur ekki orðið í framkvæmd og sem fyrr segir erum við nú í 400 þús. dala skuld við stofnunina umfram þá 1 millj. dali sem okkur var úthlutað.

Þá kemur hér kafli um Hafréttarráðstefnuna sem ég held að sé rétt að lesa.

Á fundi ráðstefnunnar, sem hófst í New York 15. mars og mun standa til 7. maí, — það eru sem sagt tveir dagar eftir af þessum tíma þegar þessi orð eru töluð, — eru til umr. þeir þrír kaflar frv. að hafréttarsáttmála sem fyrir lágu frá formönnum aðalnefndanna þriggja, svo og fjórði kaflinn sem forseti ráðstefnunnar hefur lagt fram og fjallar um lausn deilumála. Ekki er gert ráð fyrir að störfum ráðstefnunnar verði lokið á þessum fundum, heldur verði annar fundur að koma til og er hann ráðgerður í Genf frá 15. júlí fram í septemberbyrjun. Standa vonir til að á þessum síðari fundi verði hægt að komast að heildarniðurstöðu, þannig að undirritun hafréttarsáttmála geti farið fram í Caracas skömmu síðar. Ekkert verður þó fullyrt um hvort sú áætlun muni standast.

Störfin á New York-fundinum fara fram á óformlegum fundum í aðalnefndunum þremur, en auk þess í starfshópum sem öll þátttökuríki geta átt fulltrúa í. Mun þá hver hópur ræða tiltekinn málaflokk. Auk þess hefur Evensen-nefndin haldið reglulega fundi og stöðugír fundir eru í hinum ýmsu svæðahópum og strandríkjahópum. Málum verður þannig smám saman þokað áfram til afgreiðslu í aðalnefndum og loks á allsherjarfundi. Þar sem öll málin eru nátengd og eiga að leysast í heild, verður ekki um það að ræða að sérstakir þættir séu afgreiddir öðruvísi en sem liður í heildarlausn. Verður þá aðallega um það að ræða að finna málamiðlanir í einstökum atriðum. Er þá líklegt að gefa þurfi eftir á ýmsum sviðum til að fá önnur atriði tryggð og mun sú hugsun ganga í gegnum alla málaflokka og einnig milli þeirra, en alls liggja nú fyrir ráðstefnunni um 400 greinar.

Enda þótt störf í undirbúningsnefnd Hafréttarráðstefnunnar og störf á ráðstefnunni sjálfri hafi farið fram síðan 1970 hefur aldrei verið gripið til atkvgr., heldur hafa störfin miðast við það að reyna að ná endanlegri heildarlausn með samkomulagi. Hafa þá allir gert sér grein fyrir því að enda þótt e.t.v. væri hægt að ná 2/3 hluta atkv. fyrir ýmsum þáttum málanna, jafnvel einhvers konar heildarlausn, þá mundi sú lausn ekki binda þau ríki sem ekki vildu gerast aðilar að endanlegum hafréttarsáttmála. Það er einmitt þess vegna sem allan tímann hefur verið unnið að þessum málum með heildarlausn fyrir augum sem gæti hlotið stuðning sem allra flestra. Verður því að hafa í huga öll atriði málsins til þess að hægt sé í ljósi þess að finna þann farveg sem allir eða flestallir geta átt samleið í.

Í stórum dráttum er aðstaðan á ráðstefnunni nú þessi:

Alþjóðahafsbotnssvæðið: Hér eru enn mikil átök um völd fyrirhugaðrar hafsbotnsstofnunar. Þróunarríkin hafa alltaf viljað að stofnunin sjái sjálf um hagnýtingu auðlinda á svæðinu og hafi þar algera yfirstjórn, en iðnþróuðu ríkin hafa frá upphafi talið að stofnunin ætti aðeins að úthluta leyfum til ríkja eða fyrirtækja. Auk þess er mikill ágreiningur um fyrirkomulag stofnunarinnar sjálfrar, þ.e. samsetningu einstakra deilda hennar, þings, ráðs o.s.frv. og völd þeirra. Ýmsar málamiðlunartillögur hafa verið ræddar og hefur málið þokast talsvert áfram. Er þá jafnframt miðað við það bak við tjöldin að einhver afsláttur af hálfu þróunarríkjanna komi til greina til að tryggja réttindi í sambandi við efnahagslögsöguna. Inn í allt þetta blandast svo spurningin um stærð svæðisins þar sem þau ríki, sem víðáttumikil landgrunn hafa, vilja hafa yfirráð yfir þeim einnig utan 200 mílna svæðisins, en t.d. Afríkuríkin vilja að svæðið utan 200 mílna verði eign alþjóðahafsbotnsstofnunarinnar. Rætt er um þá málamiðlun, að einhvers konar arðskipting komi til greina á landgrunnssvæðinu utan 200 mílna, þannig að alþjóðahafsbotnsstofnunin fái þaðan tekjur. Væntanlega verður niðurstaðan sú áður en lýkur, en allt hangir þetta sem sagt saman.

Yfirráðasvæði ríkja: Hér koma til reglur um grunnlinur, landhelgi, landgrunn og efnahagslögsögu. Miðað er við svipaðar grunnlínur og á 1958-ráðstefnunni, þ. á m. beinar grunnlínur og allt að 12 mílna landhelgi. Þá er miðað við allt að 200 mílna efnahagslögsögu er taki til lífrænna og ólífrænna auðlinda í landgrunni og hafi. Hins vegar eru mikil átök um nánara efni efnahagslögsöguhugtaksins og eru þar þrjár höfuðstefnur: Í fyrsta lagi að strandríki hafi mjög viðtæk réttindi, sem nánast mundi þýða sama og landhelgi. Í öðru lagi að strandríki hafi aðeins rétt til hagnýtingar auðlinda, en að öll önnur réttindi tilheyri alþjóðasamfélaginu. Í þriðja lagi ern svo mismunandi blæbrigði af millileiðum þar sem átök eru um að hvað miklu leyti strandríki geti haft yfirráð yfir vísindalegum rannsóknum og ráðstöfun gegn mengun. Á ráðstefnunni er unnið eftir þriðju leiðinni og reynt að finna milliveg er tryggi bæði hagsmuni strandríkisins og hagsmuni hins alþjóðlega samfélags á siglingafrelsi o.s.frv. Allt er þetta í deiglunni og málamiðlanir eru skoðaðar í samhengi við aðra málaflokka. Hér koma einnig til kröfur um réttindi annarra ríkja innan efnahagslögsögu strandríkis. Er þar aðallega um að ræða kröfu frá landluktum ríkjum og landfræðilega afskiptum ríkjum sem ekki hafa aðstöðu til að koma upp slíku svæði hjá sér. Mikil átök eru um þessar kröfur.

Reglur á úthafinu utan efnahagslögsögu: Hér kemur til endurskoðun á reglum frá 1958-ráðstefnunni, bæði um siglingafrelsi, verndun fiskstofna og ráðstafanir gegn mengun o.s.frv.

Umferð um sund: Mikið hefur þokast í áttina til samkomulags um þessi efni og er þar um að ræða jafnvægi milli siglingafrelsis annars vegar og hins vegar að tryggðir séu hagsmunir strandríkja. Vonir standa til að samkomulag geti náðst um þetta atriði.

Lausn deilumála: Í áðurnefndum kafla um lausn deilumála er gert ráð fyrir mjög viðamiklu kerfi varðandi lausn deilumála, og er þá gert ráð fyrir sérstökum dómstóli og sérstökum nefndum er fjalli um ágreining. Eins og nú standa sakir er gert ráð fyrir því í 18. gr. þessa uppkasts að ágreiningur varðandi þau atriði, sem úrskurðarvald strandríkisins nær til samkv. samningnum, verði ekki borinn undir þessar stofnanir nema sérstaklega standi á. Uppkastið var rætt á almennum fundi ráðstefnunnar 5. og 6. apríl, en ekkert verður fullyrt á þessu stigi um það hver niðurstaðan verður. Uppkastið verður rætt lið fyrir lið í sérstakri n. þar sem allir eiga sæti.

Eins og áður segir eru öll þessi mál enn í deiglunni. Aðalverkefni:íslensku sendinefndarinnar hefur frá upphafi verið að vinna að heildarlausn er tryggi yfirráð strandríkis yfir auðlindum allt að 200 mílum frá ströndum, þannig að strandríki ákveði sjálft leyfilegan hámarksafla fiskstofna og möguleika sína til að nýta hann, svo og að úrskurður þriðja aðila um ágreining í því efni komi ekki til greina. Varðandi öll önnur atriði er stefnan sú að hafa samvinnu við aðrar sendinefndir um alls konar málamiðlanir er þoki málum áfram áleiðis að þessu höfuðmarki. Er því nauðsynlegt af Íslands hálfu að fylgjast sem best með öllu sem er að gerast bæði á fundum og bak við tjöldin og taka þátt í hinum ýmsu starfshópum og undirnefndum. Er það feiknamikið starf, en árangurinn hefur verið góður hingað til. Þetta verður áfram verkefni íslensku sendinefndarinnar og verður enn að leggja höfuðáherslu á að fyrirbyggja að þau atriði, sem okkur varða mestu, fari úr böndum. Sérstök athygli beinist þá að kaflanum um lausn deilumála sem óneitanlega er nú í aukinni hættu eftir þau átök sem átt hafa sér stað á Íslandsmiðum. Verður sendinefndin að sjálfsögðu að vaka vel á verðinum og láta engin tækifæri ónotuð. Og ég vil nota þetta tækifæri til þess að flytja þeim mönnum, bæði þm. og embættismönnum, sem þessa n. hafa skipað, sérstakar þakkir fyrir vel unnin störf, bæði þeim sem hana skipa nú og áður hafa gert það. Þeir eiga vissulega stóran þátt í því hvernig okkur hefur þó tekist að þoka málum áleiðis á þessari mikilsverðu ráðstefnu.

Frumdrög þau, sem nú eru til umr., voru lögð fram eftir að störfum síðasta fundar var lokið. Síðustu fréttir, sem ég hef frá formanni íslensku sendinefndarinnar á Hafréttarráðstefnunni, Hans G. Andersen sendiherra, eru skeyti sem hljóðar svo:

„Ekki búist við að endurskoðað frumvarp að hafréttarsáttmála verði lagt fram fyrr en á fimmtudag eða jafnvel föstudag.“ Það er sem sagt á morgun eða daginn eftir morgundaginn. „Líklegt er að hagsmunir Íslands verði þar tryggðir þannig:

a. Strandríkið ákveði sjálft leyfilegt aflamagn og möguleika sína á að hagnýta það og úrskurður þriðja aðila komi þar ekki til.

b. Réttindi landfræðilega afskiptra ríkja nái ekki til þróaðra ríkja eða a.m.k. ekki til svæða þar sem þjóð byggir afkomu sína á fiskveiðum.

Ákvörðun um næsta fund ráðstefnunnar verður ekki tekin fyrr en á föstudag. Afríkuríkin og ýmis ríki í öðrum heimshlutum vilja fresta fundum til næsta árs, en sæmilegar líkur eru á að Genfarfundur næsta sumar verði ákveðinn. Þetta er þó alls ekki öruggt. Símum nánar þegar endurskoðaður texti liggur fyrir.“

Þetta skeyti er dags. 3. maí eða sem sagt í fyrradag, og ekki hefur komið annað skeyti, þannig að sýnt er að textinn liggur enn ekki fyrir.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að landhelgismálinu.

Hinn 25. nóv. 1975 ákvað breska ríkisstj. að senda herskip inn fyrir fiskveiðilandhelgi Íslands til þess að aðstoða breska togara við veiðar og vernda þá gegn íslenskum varðskipum. Í þriðja skipti á 17 árum notaði breska ríkisstj. hervald til þess að neyða íslendinga til að láta undan í deilumáli sem viðkemur lífshagsmunum íslendinga, — ég vil nú segja: reyndi að nota hervald til að knýja okkur til undanhalds. Breska ríkisstj. notaði einnig herflugvélar af Nimrod-gerð, þyrlur, dráttarbáta, birgðaskip og önnur aðstoðarskip til þess að aðstoða herskipin. Ein af þeim aðferðum, sem herskipin og dráttarbátarnir beita, er að sigla á íslensku varðskipin og hafa þau á þann hátt endurtekið valdið miklum skemmdum á varðskipunum og stofnað lífi áhafna þeirra í mikla hættu, oft víðs fjarri breskum togurum. Eitt slíkt atvik átti sér stað innan óvefengjanlegrar lögsögu Íslands, aðeins 2 sjómílur frá landi.

Íslenska ríkisstj. hefur að sjálfsögðu sent ströng mótmæli gegn innrás breskra herskipa inn í íslenska fiskveiðilögsögu og lýst yfir að íslensk varðskip muni halda áfram að framfylgja íslenskum lögum og reglum eftir bestu getu innan íslensku fiskveiðilandhelginnar. Um leið var tilkynnt að engar viðræður gætu átt sér stað fyrr en herskipin hefðu verið kölluð út úr landhelginni.

Enda þótt ljóst hafi verið að íslenski fiskstofninn var þegar kominn í hættu á s.l. ári var íslenska ríkisstj. reiðubúin að hefja samningaviðræður um víss fiskveiðiréttindi innan fiskveiðilögsögunnar. Hinn 28. nóv. 1975 var undirritaður samningur við Belgíu og Vestur-Þýskaland um fiskveiðiréttindi. Hinn 10. mars 1976 var undirritaður samningur milli Noregs og Íslands þar sem norska ríkisstj. viðurkennir rétt íslensku ríkisstj. til þess að ákveða hámark afla innan 200 mílna fiskveiðilögsögunnar. Jafnframt var undirritað samkomulag við landsstjórn færeyinga hinn 20. mars s.l. Þessar samþykktir þekkjum við því að þær eru einmitt á dagskrá þessa fundar og verða væntanlega ræddar síðar á honum.

Eina ríkið, sem ekki hefur viljað viðurkenna hið sérstaka vandamál Íslands, er Bretland. Hinn 17. nóv. 1975 var bresku ríkisstj. tilkynnt að ríkisstj. Íslands væri reiðubúin að hefja viðræður enda þótt ljóst væri orðið að íslenski togaraflotinn gæti auðveldlega veitt allan þann fisk sem fiskifræðingar álíta að öruggt sé að veiða í nágrenni við landið á árunum 1976 og 1977.

Hinn 7. jan. 1976 átti sér stað mjög alvarlegur atburður á íslensku fiskimiðunum þegar bresku freigátan Andromede sigldi á varðskipið Þór og olli miklum skemmdum. Síðdegis þann dag lýsti forsrh. íslands því yfir að ef önnur slík ásigling ætti sér stað mundi íslenska ríkisstj. vera tilneydd til að slíta stjórnmálasambandi við Bretland. Svar breska flotans var að sigla enn einu sinni á íslenskt varðskip hinn 9. jan. og olli sá árekstur jafnvel meira tjóni heldur en áreksturinn þann 7.

Hinn 8. jan. 1976 ákvað íslenska ríkisstj. að gera vissar ráðstafanir í deilunni, m.a. að gefa ríkisstj. hinna NATO-landanna skýrslu um hið alvarlega ástand, sem upp hefði komið vegna ólöglegrar valdbeitingar breska flotans, og til að leita stuðnings þeirra innan Atlantshafsbandalagsins. Einnig var ákveðið að biðja hr. Joseph Luns aðalframkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins að koma til Íslands til viðræðna. Dr. Luns kom til Íslands hinn 14. jan. 1976 og ræddi vandamálið við íslenska stjórnmálaleiðtoga, en hélt síðan til London þar sem hann ræddi málið við breska stjórnmálaleiðtoga. Hinn 16. jan. tilkynnti forsrh. Íslands á blaðamannafundi að ef bresku herskipin yrðu kölluð út úr landhelginni væru íslendingar reiðubúnir til að hefja viðræður við breta um hugsanlega lausn á deilunni. Ef hins vegar bresku herskipin hefðu ekki verið kölluð út úr fiskveiðilandhelginni innan tveggja til þriggja daga mundi íslenska ríkisstj. slíta stjórnmálasambandi við breta.

Hinn 19. jan. 1976 lýsti íslenska ríkisstj. því yfir að ef bresku herskipin og Nimrod-þoturnar héldu áfram starfsemi sinni innan íslensku 200 mílna fiskveiðilandhelginnar eftir miðnætti 24. jan. mundi ríkisstj. líta svo á að stjórnmálasambandi milli Bretlands og Íslands hefðu verið sagt upp. Þennan sama dag tilkynnti breska stjórnin að hún mundi kalla herskip sín út úr landhelginni og að forsrh. Íslands væri boðið til London til að ræða við breska forsrh. Forsrh. Íslands heimsótti Bretland dagana 24.– 27. jan. ásamt fylgdarliði tiI að kanna möguleika á samkomulagi við breta. Eftir að till. breta um mögulega samninga við íslendinga höfðu verið rannsakaðar nákvæmlega af íslensku ríkisstj., stjórnmálaflokkum og utanrmn. Alþ., flutti forsrh. breska sendiherranum á Íslandi eftirfarandi svar hinn 3. febr. 1976:

„Með tilvísun til viðræðna milli forsrh. Íslands og Bretlands skal eftirfarandi tekið fram:

Eftir að hafa íhugað meginatriði viðræðnanna álítur íslenska ríkisstj. að þær till., sem komu fram af breskri hálfu um hámarksafla breskra togara, séu óaðgengilegar. Íslenska ríkisstj. er samt sem áður tilbúin að hefja viðræður við ríkisstj. Bretlands um samning til skamms tíma.“

Breska ríkisstj. lýsti því yfir að hún væri reiðubúin að hefja viðræður við íslendinga um skammtímasamning. En að kvöldi 5. febr. 1976 höfðu bresk herskip enn á ný farið inn fyrir íslenska fiskveiðilögsögu og Nimrod-þoturnar fylgdu brátt í kjölfarið. Breska ríkisstj. notaði það yfirskin að íslenskt varðskip hefði þann dag skorið á togvíra breska togarans Loch Eriboll. Togari þessi var þá á veiðum innan friðaða svæðisins norðaustur af Íslandi, en þetta svæði er lokað öllum skipum, þ. á m. íslenskum skipum, allt árið og er talið eitt af mikilvægustu hrygningarsvæðum og uppeldisstöðvum fyrir fisk í nágrenni við Ísland. Varðskipið skar ekki togvíra togarans fyrr en honum höfðu verið gefnar margítrekaðar aðvaranir um að draga inn net sin og færa sig út af svæðinu. Allan þann dag, eins og síðar, voru bresku togurunum gefin stöðug fyrirmæli af skipstjórnarmönnum verndarskipanna og þá sérstaklega dráttarbátsins Lloydsman að hlýða ekki fyrirskipunum íslensku varðskipanna. Íslenska ríkisstj. mótmælti harðlega þessum endurteknu afskiptum breska flotans og lýsti því yfir að enginn grundvöllur væri fyrir frekari viðræðum meðan herskipin héldu sig innan íslensku fiskveiðilögsögunnar.

Eftir að bresku freigáturnar höfðu enn einu sinni farið inn fyrir íslensku fiskveiðilögsöguna hefði íslenska ríkisstj. getað framkvæmt yfirlýsingu sina frá því í jan. um að slíta strax stjórnmálasambandi við Bretland. En þar sem aðalframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, dr. Luns, hafði boðið aðstoð sína við að reyna að fá herskipin kölluð enn einu sinni út úr landhelginni og vegna þess að hann hafði hvatt íslensku ríkisstj. til þess að fresta einhliða aðgerðum þar til hann hefði kynnt sér málið rækilega var ákvörðuninni um stjórnmálasambandsslit frestað í næstum tvær vikur.

Hinn 6. febr. 1976 tilkynnti utanrrn. Bretlands að breska togaraútgerðin hefði samþykkt að fækka togurum sínum við Ísland úr 139 í 105 og að minnka heildarafla sinn niður í 100 þús. tonn á ári eða 7 þús. tonn af þorski á mánuði. Rétt er að benda á að það er athyglisvert að í jan. 1975 var meðalfjöldi breskra togara á Íslandsmiðum 15 togarar á dag og í febrúarmánuði 1975 var sambærileg tala 26 togarar. Í jan. og febr. 1976 var tala þessara togara um það bil 40 og stundum um 50 og þar yfir. T.d. var hinn 16. jan. 1976 51 breskur togari að veiðum við Ísland, og 17. jan. voru þeir 52. Með hliðsjón af því að bresk togaraútgerð er á undanhaldi og breskum togurum fækkar stöðugt er aðeins hægt að líta á þessa fjölgun sem beina ógnun við íslendinga.

Hvað viðvíkur þeim hámarksafla, sem bretar leggja til, þ.e. 100 þús. tonn á ári, skal ég geta þess að árið 1975 var heildarafli þeirra um 113–115 þús. tonn, þannig að sú yfirlýsing breta að takmarka afla sinn við 100 þús. tonn hefur enga þýðingu.

Hinn 7. febr. 1976 hélt breski togaraflotinn undir vernd breskra herskipa inn á friðuðu svæðin norðaustur af Íslandi. Togaraflotinn hefur síðan að mestu leyti stundað veiðar sínar innan þess svæðis, og nýleg úttekt á svæðinu, sem gerð var 13. febr. 1976, staðfesti það, sem lengi hefur verið vitað, að langstærsti hlutinn af veiðinni er ungur fiskur og fiskur undir lágmarksstærð. Þetta er þess vegna ekkert annað en rányrkja af verstu tegund. Það friðaða svæði, sem minnst er á hér að ofan, er lokað fyrir allri veiði allt árið samkv. nýjum reglugerðum sem gengu í gildi 5. febr. 1976, en svæði þetta var áður lokað yfir tímabilið frá apríl fram í júní ár hvert. Breska ríkisstj. lýsti því yfir að henni hefðu ekki verið tilkynntar þessar nýju friðunarreglur íslendinga. Þetta er rétt. Þar sem bretum hafa ekki verið veitt leyfi til þess að veiða innan 200 mílna fiskveiðilögsögu íslendinga getur það ekki talist rökrétt að þeim séu tilkynnt hvaða reglugerðir séu í gildi á þessu svæði. En engin afsökun er þetta þar sem breskum embættismönnum var skýrt frá þessum nýju reglum í sambandi við viðræður forsrh. í London í jan., auk þess sem reglugerðirnar voru birtar opinberlega á Íslandi á venjulegan hátt og breska sendiráðið í Reykjavík hlýtur að hafa tilkynnt ríkisstj. sinni þessar reglugerðir. Að lokum má geta þess, að íslenska landhelgisgæslan hefur hvað eftir annað tilkynnt breskum togurum að þeir væru að veiða innan friðaðs svæðis.

Ásiglingar á íslensk varðskip hafa verið tíðar. Hinn 6. febr. 1978 sigldi breska freigátan Juno tvisvar á varðskipið Tý. Hinn 12.febr. 1976 sigldi breska freigátan Diomede á varðskipið Baldur norðaustur af Íslandi og urðu töluverðar skemmdir á varðskipinu. Gerði freigátan fjórar tilraunir til viðbótar til þess að sigla á Baldur, en varðskipinu tókst í hvert skipti að forðast árekstur. Sú ásökun breska varnarmálaráðuneytisins, að Baldur, sem aðeins gengur 17 sjómílur á klukkustund, hafi siglt fyrir stefni Diomede, sem gengur mun hraðar eða um það bil 30 sjómílur, er auðvitað fráleit.

Hinn 14. febr. 1976 fékk íslenska ríkisstj. skýrslu frá dr. Luns um viðræður hans við breska ráðh. í London nokkrum dögum áður um nýjar hugmyndir breta til að semja við íslendinga. Þessar hugmyndir voru athugaðar nákvæmlega, en iðurstaðan varð sú að þær gætu ekki skapað grundvöll fyrir samkomulagi.

Íslenska ríkisstj. taldi ekki fært að halda áfram stjórnmálasambandi við Bretland sem hvað eftir annað beitir íslensku þjóðina hervaldi, og var stjórnmálasambandi þess vegna slitið hinn 19. febr. 1976.

Á fundi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn hinn 28. febr. til 4. mars 1976 sendi forsætisnefnd samtakanna frá sér yfirlýsingu til ríkisstj. Norðurlanda þar sem hún tekur m.a. fram að nærvera bresku freigátanna við Ísland komi í veg fyrir friðsamlega lausn og nauðsynlegt sé að kalla þær í burtu til þess að auðvelda lausn fyrir báða aðilana.

Í fréttatilkynningu, sem birt var að loknum fundi utanrrh. Norðurlandanna, sem haldinn var í Stokkhólmi dagana 25. og 26, mars s.l., kom hið sama fram, og hefur stuðningur bræðraþjóðanna aldrei komið skýrar í ljós.

Bretar halda áfram árásum sínum á íslensku varðskipin og virðast þær frekar hafa færst í aukana undanfarna daga, þegar þetta er ritað, en síðan hefur orðið breyting á og íslensku varðskipin hafa hvað eftir annað getað hindrað veiðar bresku togaranna. Nú eru bresku togararnir á heimleið og við óskum þeim góðrar heimferðar og góðrar heimkomu og vonum að þeir verði sem allra lengst heima hjá sér.

Allir íslendingar eru sammála um gildi norrænnar samvinnu. Má vera að sú sé ástæða þess hversu tiltölulega lítið er um hana rætt. Hvað sem um það má segja er ljóst að þátttakan í Norðurlandasamvinnunni er einn helsti hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu.

Norðurlandaráð er samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlandanna, svo sem kunnugt er. Forsætisnefndin hefur viðamiklu hlutverki að gegna milli funda Norðurlandaráðs. Mikinn hluta þess tíma, sem skýrsla mín nær yfir, hefur frú Ragnhildur Helgadóttir alþm. haft það vandasama verk með höndum að vera fyrst norrænna kvenna forseti ráðsins. Fimm fastar undirnefndir starfa mikið allt árið um kring. Fjalla þær um efnahags-, menningar-, félags-, samgöngu- og lagamál. Fer mikilvægt starf fram í þessum nefndum, starf sem stöðugt eflir norræna samvinnu.

Á vegum Norðurlandaráðs hafa ýmsar stofnanir verið settar á laggirnar viða um Norðurlöndin. Má t.d. nefna Kjarnorkumálastofnunina, Þjóðfélagsmálastofnunina, Samastofnunina, Eldfjallastofnunina og Norræna húsið. Af meiri háttar norrænum skoðanaskiptum er skemmst að minnast 24. þings Norðurlandaráðs, sem haldið var í Kaupmannahöfn 28. febr. til 4. mars s.l. Verður stuðningsyfirlýsing þess þings við málstað Íslands í fiskveiðilögsögudeilunni við breta lengi í minnum höfð, eins og ég áðan gat um. Og á fundi utanrrh. Norðurlandanna 25. og 26. mars s. I. var samþ. yfirlýsing hliðholl málstað okkar í landhelgisdeilunni. Var þar endurtekið það norræna álit að bresku herskipin verði að yfirgefa íslensku fiskveiðilögsöguna til þess að hægt sé að leysa deiluna. Eru þessar tvær yfirlýsingar um utanríkismál sérlega eftirtektarverðar og marka að sumu leyti tímamót í sögu Norðurlandaráðs.

Auk 24. þings Norðurlandaráðs, reglubundinna ráðherrafunda og nefndafunda má nefna samningastörfin sem ávallt eru mikil á hverju ári. Sem dæmi má taka Norðurlandasamning um stofnun Norræna fjárfestingarbankans og staðsetningu hans í Helsingfors sem undirritaður var í des. Einnig má nefna Norðurlandasamning um erfðir og skipti á dánarbúum sem annað dæmi um samning sem ekki lætur mjög mikið yfir sér, en styrkir engu að síður ásamt mörgum öðrum svipuðum það margslungna samstarf, sem Norðurlöndin hafa komið sér upp.

Norðurlönd hafa komið ár sinni vel fyrir borð með nokkuð mismunandi hætti í milliríkjaskiptum, en þau eru einhuga að því er viðvíkur eflingu norræns samstarfs. Mismunandi fyrirkomulag á samskiptum þeirra við önnur ríki hefur að sjálfsögðu fyrst og fremst sprottið af viðleitni Norðurlandanna hvers um sig til að gæta sem best eigin hagsmuna, en um leið hefur þessi fjölbreytni á vissan hátt orðið þeim sem heild styrkur. Og með hinu nána samstarfi sín í milli um alþjóðamál, t.d. á Sameinuðu þjóða-þingum, hefur þeim oft tekist að hafa áhrif til farsællar þróunar langt umfram það sem ætla mætti um ekki fjölmennari ríki. Þess er að vænta að norrænt samstarf haldi áfram að eflast og dafna.

Nokkur orð um Evrópuráðið: Eins og ég hef minnst á í fyrri skýrslum mínum um utanríkismál hafa á undanförnum árum átt sér stað allmiklar umr. um framtíðarhlutverk Evrópuráðsins. Var það einkum stækkun Efnahagsbandalagsins á öndverðu árinu 1972 sem kom þessum umr. á stað. Hafa þær haldið áfram síðan með nokkrum hléum, en niðurstaða þeirra virðist ótvírætt vera sú að Evrópuráðið muni um ófyrirsjáanlega framtíð hafa mjög gagnlegu hlutverki að gegna sem vettvangur frjálsra skoðanaskipta á sviði stjórnmála álfunnar.

Umr. þær, sem hér er vikið að, um verksvið og framtíð Evrópuráðsins hafa að sjálfsögðu verið mjög tengdar umr. um aukin völd Evrópuþingsins sem er ráðgjafarþing þeirra níu landa er aðild eiga að Efnahagsbandalagi Evrópu. Hafa þar verið uppi hugmyndir um að kjósa fulltrúa á Evrópuþingið beinni kosningu og fá því í hendur aukin völd, jafnvel ráðgjafarvald. Svipaðar hugmyndir hafa af og til einnig skotið upp kollinum varðandi ráðgjafarþing Evrópuráðsins, en þær hins vegar fengið misjafnar undirtektir.

Landhelgismál Íslands hefur öðru hverju komið til umr. á vegum Evrópuráðsins, bæði í einstökum nefndum, svo sem fiskveiðinefndinni, sem er undirnefnd landbúnaðarnefndar, og sömuleiðis á fundum ráðgjafarþingsins sjálfs. Á þetta jafnt við um deiluna um fiskveiðar milli Íslands og Vestur-Þýskalands, áður en samningar tókust um lausn þeirrar deilu, sem um núverandi deilu Íslands og breta um fiskveiðiréttindin. Er óhætt að fullyrða að þessar umr. hafa getað talist jákvætt innlegg í lausn deilunnar milli Íslands og Vestur-Þýskalands á sínum tíma, en auk þess hefur Evrópuráðið verið ágætis vettvangur til þess að kynna málstað Íslands á sviði landhelgis- og fiskveiðimála og hefur hvert tækifæri, sem gefist hefur, verið notað til þess að koma á framfæri skoðunum er styðja hinn íslenska málstað í þessu máli. Deila Íslands og Bretlands um fiskveiðar hefur nokkrum sinnum verið á dagskrá hjá Evrópuráðinu í vetur og er það enn.

Eins og ég hef áður getið um hefur Evrópuráðið látið Kýpurdeiluna mjög til sin taka og reynt eftir megni að koma fram með gagnlegar till. til þess að leysa þá hörðu og erfiðu deilu. Þá hafa atburðirnir í Portúgal og ástandið í stjórnmálum þar verið mjög til umræðu, einkum innan ráðgjafarþingsins. Virðist svo sem Evrópuráðið hafi haft góð áhrif á þróun þessara mála, og nú nýlega undirritaði stjórn Portúgals aðild að menningarsáttmála Evrópuráðsins og líta sumir á það sem fyrsta skref í þá átt að Portúgal gerist fullgildur aðili að þeim lýðræðislegu samtökum sem Evrópuráðið er. Ef Portúgal skyldi gerast aðili að Evrópuráðinu, þá verður það 18. landið sem tengist þeim samtökum með fullri aðild.

Eins og kunnugt er eiga 3 fulltrúar Alþ. sæti á ráðgjafarþingi Evrópuráðsins og eru það alþm. Ingvar Gíslason fyrir Framsfl., Þorvaldur Garðar Kristjánsson fyrir Sjálfstfl. og nú Jónas Árnason fyrir Alþb. Varamaður í þessari þingmannanefnd er Pétur Sigurðsson alþm.

Fulltrúar Íslands í Mannréttindadómstóli Evrópu og í Mannréttindanefndinni voru þeir sömu og áður, þ.e.a.s. prófessor Þór Vilhjálmsson og dr. Gaukur Jörundsson.

Á árinu 1976 voru gerðir þrír nýir viðskiptasamningar við Sovétríkin, Pólland og Kúbu. Samningurinn við Sovétríkin gildir í 5 ár, frá 1. jan. 1976 til 31. des. 1980, og er með honum lagður grundvöllur undir áframhaldandi viðskipti við Sovétríkin með sömu vörutegundir og svipað magn og undanfarin ár. Helsta breytingin, sem leiðir af nýja samningnum, er sú að viðskipti landanna greiðast í frjálsum gjaldeyri og hætt er við jafnkeyrisfyrirkomulagið samkv. eindreginni ósk Sovétríkjanna. Í reynd hefur ekki tekist að halda jöfnuði í viðskiptum milli landanna síðan heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði 1973, og er ekki búist við að þessi breyting hafi í för með sér nein veruleg áhrif á viðskiptin.

Nýi viðskiptasamningurinn við Pólland gildir einnig í 5 ár, frá ársbyrjun 1976 til ársloka 1980. Hann er í öllum aðalatriðum samhljóða fyrri viðskiptasamningi við Pólland. Bæði löndin skuldbinda sig til að veita innflutningi hvors annars bestu kjör samkv. GATT-sáttmálanum. Allar greiðslur milli landanna fara fram í frjálsum Bandaríkjadollurum eða öðrum skiptanlegum gjaldmiðli.

Viðskiptasamningurinn við Kúbu var undirritaður 24. nóv. 1975 og gildir til ársloka 1977. Síðasti viðskiptasamningur við Kúbu rann út 3. okt. 1964, en þá höfðu engin viðskipti átt sér stað milli landanna í 3 ár. Er þess vænst að samningsgerð þessi greiði fyrir sölu á saltfiski til Kúbu sem legið hefur niðri í mörg ár, en enn sem komið er hafa engin viðskipti tekist á grundvelli nýja samningsins.

Samkv. aðildarsamningi Íslands að EFTA og fríverslunarsamningi Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu lækkuðu verndartollar á iðnvörum innfluttum frá aðildarríkjum þessara samtaka um 10% um síðustu áramót og eru því nú 40% af þeim tollum sem giltu fyrir inngönguna í EFTA. Allir tollar á íslenskum vörum, sem falla undir EFTA-samninginn, féllu strax niður við inngöngu Íslands í EFTA, en tollar á iðnaðarvörum frá Íslandi hafa lækkað í Efnahagsbandalaginu um 80%. Þessar tollalækkanir ná þó ekki til sjávarafurða sem samið var sérstaklega um í bókun nr. 6 sem fylgdi fríverslunarsamningnum. Tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það. Það er mönnum mjög kunnugt hér.

Á vegum GATT í Genf fara nú fram viðræður um tollalækkanir og afnám annarra viðskiptahamla. Hófust þessar viðræður með ráðherrafundi GATT í Tokíó í sept. 1973 og var gert ráð fyrir að þeim lyki á árinu 1975. Það hefur ekki reynst mögulegt og er núna búist við að samningnum ljúki árið 1977 eða jafnvel 1978. Í þeim almennu umr., sem fram hafa farið, hefur Ísland haft samstöðu með Finnlandi, Noregi og Svíþjóð og staðið að sameiginlegum yfirlýsingum um nauðsyn frjálsra og óháðra viðskipta. Hafa þessi lönd lagt á það mikla áherslu að áríðandi sé að komast hjá nýjum innflutningshöftum og takmörkunum á viðskiptum á þeim erfiðleikatímum sem gengið hafa yfir undanfarin ár.

Þá nokkur orð um öryggismál:

Eins og að framan greinir hefur fastaráð Atlantshafsbandalagsins og aðalframkvæmdastjóri þess komið mikið við sögu í landhelgismálinu. Fastafulltrúð Íslands þar upplýsir ráðið stöðugt um þróun mála og framferði breta við strendur Íslands. Framkvæmd á samkomulagi ríkisstj. við stjórn Bandaríkjanna, sem gert var hinn 22. okt. 1974, gengur nokkurn veginn að óskum. Framkvæmdir standa yfir við byggingu 132 húseininga á Keflavíkurflugvelli og verður þeim lokið í okt. 1976. Auk þess hefjast framkvæmdir við 200 húseiningar á næstu víkum og er áætlað að þær verði tilbúnar til íbúðar í árslok 1977. Jafnframt er unnið að því að fá fjárveitingu fyrir 160 íbúðareiningum frá Bandaríkjaþingi sem ráðgert er að komnar verði upp í árslok 1978. Verður þá að fullu séð fyrir húsnæðisþörfum varnarliðsmanna og fjölskyldna þeirra innan Keflavíkurflugvallar.

Unnið er að því að aðskilja almennt farþegaflug frá starfsemi varnarliðsins og mun varnarliðið sjá um að byggja veg að nýju flugstöðinni, aðkeyrslur að flugbrautum og eldsneytisgeymslur, en íslendingar standa sjálfir straum af kostnaði við flugstöðvarbygginguna. Nýr flugturn verður byggður á vegum varnarliðsins, en hann kemur í stað núverandi flugturns sem orðinn er úreltur.

Fækkun í varnarliðinu um 420 hermenn gengur samkv. áætlun. Verkefni, sem áður voru í höndum varnarliðsmanna, eru nú framkvæmd af íslenskum aðilum og íslendingar hafa verið ráðnir í störf varnarliðsmanna. Sem dæmi má nefna að Póstur og sími hefur tekið að sér að manna lóranstöð strandgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, Flugleiðir hafa tekið að sér þjónustu við farþegaflug varnarliðsins og samningar standa yfir um að Flugleiðir sjái einnig um vöruafgreiðslu fyrir varnarliðið. 139 íslendingar hafa verið ráðnir í störf varnarliðsmanna og auk þess verða 76 íslendingar ráðnir í störf varnarliðsmanna á næstu mánuðum. íslenskir starfsmenn á vegum varnarliðsins er nú um 900 talsins. 70–100 manns verða ráðnir yfir sumarmánuðina, eins og venja hefur verið. Um það bil 260 stöður varnarliðsmanna hafa verið lagðar niður og er það samkv. áætlun.

Beinu sambandi hefur verið komið á allan sólarhringinn milli varnarliðsins og landhelgisgæslunnar til að tryggja fulla samvinnu við björgun úr sjávarháska. Gerðar hafa verið ráðstafanir til að koma fyrir bensínleiðslum í varðskipum fyrir björgunarþyrlur til að lengja flugþol þeirra í björgunarleiðöngrum. Einnig er gert ráð fyrir samvinnu við þjálfun íslendinga í tækniskólum landhelgisgæslu Bandaríkjanna.

Ráðstafanir hafa verið gerðar til að hafa samvinnu milli varnarliðsins og flugmálastjórnar Íslands um aukið öryggi í flugmálum er snerta báða aðila í senn. Gerð hefur verið úttekt af varnarliðinu er varðar flugöryggi og gerð áætlun til úrbóta. Fyrsti hluti áætlunarinnar er bygging nýs flugturns og radars á Keflavíkurflugvelli sem hefst í okt. 1976, og mun sérstök samstarfsnefnd sjá um að öllum öryggisþörfum verði fullnægt, bæði fyrir farþegaflug og flug varnarliðsins. 5 ára áætlun hefur verið gerð til að bæta lendingarskilyrði á Keflavíkurflugvelli, sem mun gera flugvöllinn hæfari til lendingar við slæm veðurskilyrði.

Varnarliðið hefur undanfarið haft samvinnu við almannavarnir ríkisins um aðgerðir vegna náttúruhamfara og stórslysa og gerð hefur verið áætlun um björgunaraðgerðir vegna stórslysahættu á Keflavíkurflugvelli og Reykjanesi.

Svo sem kunnugt er hefur utanrn. til umráða húsnæði að Hverfisgötu 115, Reykjavík. Núverandi húsnæði er þó aðeins hugsað sem bráðabirgðalausn. Langtímalausnin mun haldast í hendur við þær úrbætur sem gerðar verða á húsnæðismálum stjórnarráðsins alls.

Oft hefur það valdið erfiðleikum hve starfsmenn utanrrn. eru fáir því að almennum verkefnum fer stöðugt fjölgandi. Auk þess hefur margt aukið störfin á undanförnum árum. Má þar fyrst og fremst nefna landhelgismálið, en einnig fjölmörg önnur verkefni sem sinna verður. Á móti má að vísu nefna að telexsamband við öll íslensku sendiráðin gerir það að verkum að þau eru nú í miklu nánari tengslum við utanrrn. en áður var. Sendiráðin fá á hverjum degi símskeyti með helstu fréttum að heiman. Og fleira mætti nefna sem sýnir upplýsingamiðlun innan utanríkisþjónustunnar.

Ísland hefur nú formlegt stjórnmálasamband við 60 lönd. Auk þess höfum við ræðissamband við nokkur lönd. Við höfum nú ræðismenn í 147 borgum í 43 löndum. Á tímabilinu 1. febr. 1975 til 31. mars 1976 tók Ísland upp stjórnmálasamband við eftirtalin ríki: Bangladesh, Bahamaeyjar, Thailand, Tanzaníu, Angólu, Albaníu og Írak. Ekki er hægt að segja, að hér sé um afdrifaríka atburði að ræða þar sem hér eiga fjarlæg ríki hlut að máli, en engu að síður er það athyglisvert, er Ísland viðurkennir 5 þriðja heims ríki í einu.

Í utanríkisþjónustu allra landa er það talíð auka starfshæfni starfsmanna að þeir séu fluttir milli landa með nokkurra ára fresti. Það er talið heppilegt að þeir kynnist sem flestum stöðum og störfum og víkki þannig sjóndeildarhringinn.

Samkv. forsetaúrskurði 22. mars 1976 um sendiráð, fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og sendiræðisskrifstofur eru íslensk sendiráð enn 11 að tölu og umdæmi þeirra eru talin upp á bls. 39 í hinni fjölrituðu skýrslu þar sem getið er um forsetaúrskurðinn, en í þessum forsetaúrskurði er nú það nýmæli að sendiherra í fjarlægum löndum er staðsettur eða búsettur hér í Reykjavík.

Að lokum, herra forseti, vil ég þakka utanrmn. fyrir samstarfið á liðnu ári eða síðan ég flutti hér skýrslu síðast. Ég hef reynt að sitja sem flesta fundi nefndarinnar til að skýra afstöðu ríkisstj. til hinna ýmsu mála og eins til að n. fái að fylgjast sem best með gangi utanríkismála. Segir í skýrslunni: Ég hugsa gott til samstarfsins við n. í framtíðinni. Ég veit nú ekki hvað ég á að leggja mikið upp úr því, en ég alla vega þakka mjög vel fyrir samstarfið sem liðið er.

Er þá lokið að flytja skýrsluna.