05.05.1976
Sameinað þing: 84. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3678 í B-deild Alþingistíðinda. (2985)

318. mál, utanríkismál

Sigurður Blöndal:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir það sem aðrir ræðumenn í þessum umr. hafa hafið mál sitt á, þ. e. að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá greinargóðu skýrslu og á margan hátt ítarlegu sem hann hefur flutt hér. Ég tek enn fremur undir það sem aðrir hafa sagt, að ég tel að það sé eitt af því í starfsháttum Alþ. sem til bóta hefur verið nú síðustu ár að hæstv. utanrrh. tók upp þessa venju. Á hinn bóginn vil ég gjarnan láta það í ljós, að ég hygg að það séu mjög réttmætar og skynsamlegar aths. sem hv. 3. landsk. þm. kom með áðan í sambandi við efnisjafnvægi í skýrslunni og það mundi vera mjög gagnlegt að fá yfirlit um stefnu ríkisstj. í alþjóðamálum frekar en er í skýrslunni, en eitthvað á þann hátt sem hv. 3. landsk. rakti hér áðan.

Hv. 3. þm. Reykn. gat þess í dag við umr. að hann mundi ekki koma í ræðu sinni sérstaklega inn á þann kafla í skýrslu hæstv. utanrrh. sem fjallar um Sameinuðu þjóðirnar, það mundi annar gera. Það hefur nú fallið í minn hlut að segja nokkur orð um þann kafla. Þau verða svo sem ekki mjög mörg og ekki tæmandi, en ég ætla þó að fara um þennan kafla sérstaklega nokkrum orðum og er það höfuðefni þess sem ég segi hér.

Þar til vinstri stjórnin tók við 1971, þá held ég að ég megi segja að Ísland hafi verið meðal þjóða heims einn af mestu aftaníossum Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Strax á árinu 1971 tekur Ísland að rífa sig undan áhrifavaldi Bandaríkjanna og verður á dögum vinstri stjórnarinnar verulega sjálfstæðara í utanríkismálum en áður var. Og ég hygg að samtímis hafi í raun og veru styrkst tengslin milli Íslands og hinna Norðurlandanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þau höfðu auðvitað alltaf verið mikil í flestum málum, en þó minnist maður þess, að oft og tíðum skar Ísland sig úr hópi Norðurlandaþjóðanna í afstöðu til mála á Allsherjarþinginu þegar Bandaríkin voru á öðru máli. Þetta var fyrir tíma vinstri stjórnarinnar hér.

Þessi stefnubreyting íslensku ríkisstj. eða íslendinga á þessum tiltekna vettvangi, það má segja að hún fari nokkurn veginn saman við þá staðreynd að einmitt á þessum sömu árum linast tök risaveldanna og þá einkanlega Bandaríkjanna á fylgiríkjum sinum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Sameinuðu þjóðirnar eru alveg tvímælalaust góður vettvangur á sviði alþjóðasamskipta, og ég hef trú á því að hann sé raunverulega einn sá besti sem við eigum ef hann er notaður rétt til þess. Og þá vil ég gjarnan láta í ljós þá skoðun, sem ég hef öðlast við það að sitja tvisvar sinnum á Allsherjarþinginu, hluta af því með tveggja ára millibili, að ég held að það væri þörf á því að styrkja sendiráð okkar hjá Sameinuðu þjóðunum meira en gert er yfir allsherjarþingstímann. Að vísu er venjulegast einn maður frá rn. hér sendur vestur á þessum tíma, en það er í rauninni varla nóg. Ég held að það mætti mjög gjarnan taka mann úr öðru sendiráði, þar sem kannske er lítið umleikis á þessum árstíma, og senda vestur mann eða menn á Allsherjarþingið. Mér hefur sýnst að ýmsar þjóðir geri þetta. Að vísu geta fulltrúar þingflokkanna, sem fara á Allsherjarþingið og hafa gert það nú líklega um nær 10 ára skeið, vissulega létt verulega undir með fastanefndinni þó að slíkt eigi alls ekki að vera aðaltilgangurinn með því að senda þá þangað.

Það er gaman að hafa verið vitni að því að atkv. Íslands á þessum vettvangi er alls ekki einskisvert, þarna á Allsherjarþinginu. Við verðum iðulega vör við það, er við störfum í sendinefnd okkar þar, að einörð afstaða okkar getur breytt afstöðu a.m.k. sumra hinna Norðurlandanna sem við höfum nánust samskipti við í ýmsum málum og kannske ekki síst þeim sem varða þriðja heiminn. Það er í þessum leik eins og mörgum öðrum: undirlægjan og auminginn er fyrirlitinn og einskis metinn, en sá, sem ber höfuðið hátt og sýnir í orðum og gerðum sjálfstæða skoðun og sjálfsvirðingu, er virtur þótt lítill sé. Það gátum við þó alltént lært í Biblíunni ungir, svo að maður tali ekki um hve ríkur þáttur það var í hinni fornu siðfræði norrænna manna. Við vitum raunar þessu til góðrar staðfestingar, og hv. 3. þm. Reykn. vitnaði einmitt til þess í dag við þessa umr., að margt stórt hjarta í litlu brjósti viða um heim hefur slegið hraðar yfir fréttunum af því hvernig litla Ísland hefur boðið Jóni bola, annáluðum ribbalda og yfirgangssegg um aldir, byrginn, þótt ég sé þess fullviss að það sama hjarta hefði slegið enn hraðar ef Ísland hefði verið hnarreistara og greitt högg sin af minna hiki og linku en oft hefur verið í þessu þorskastríði.

Mér virðist, ef maður tekur síðustu tvö ár, frá 1973–1975, ber þau saman, þá hef ég á tilfinningunni, - ég get kannske ekki stutt það beinlínis með tölum í fljótu bragði, hef ekki farið í það að bera saman atkvgr. frá þessum tveimur árum, — ef ég tek árið 1973 og svo aftur 1975, þá hef ég ekki farið í það að bera saman atkvgr. Íslands um ýmis mál á Allsherjarþinginu, en mér finnst þó að hún hafi breytt ofurlitið um svip. Ég mundi kannske ekki kalla að um stefnubreytingu væri að ræða, en mér hefur fundist hún hafa breytt nokkuð um svip, frekar í þá átt sem var fyrr, öllu meiri tilhneiging til þess að fylgja Bandaríkjunum í vissum málum. Ég verð að segja að það er kannske eitt tiltekið mál sem m.a. hefur komið inn hjá mér þessari skoðun. Það var atkv. Íslands í sambandi við palestínu-arabana haustið 1974. Ég verð að segja það að mér hnykkti ákaflega mikið við þegar ég frétti um hvernig atkv. Íslands hefði fallið í því máli, og mér fannst sú skýring, sem því fylgdi, ekki vera mjög sannfærandi, að ég noti ekki sterkara orð. Sem sagt, ég segi ekki að það sé um að ræða verulega stefnubreytingu enn þá, heldur sveigju hliðhollari Bandaríkjunum og fylgiríkjum þeirra. Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta atriði.

Ég ætla þá að víkja að því, sem raunar hefur verið gert af ræðumönnum á undan, þ.e. að máli Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Ég bar fram hér á hv. Alþ. fsp. í fyrra, fyrir nokkurn veginn ári, til hæstv. menntmrh. um hvað því máli liði, þátttöku Íslands eða afstöðu Íslands til Háskóla Sameinuðu þjóðanna, og fékk um það greið svör. En þar sem hér er um mjög merkilegt mál að ræða sem hefur fengið mun seinvirkari meðhöndlun en ég held að ástæða væri til, þá vil ég gjarnan fara um það nokkrum orðum.

Mér sýnist í fljótu bragði, en get auðvitað ekki staðhæft það, að fyrir seinlæti kunnum við að hafa misst af því að getað fengið hér deild frá Háskóla Sameinuðu þjóðanna varðandi hafrannsóknir þegar í upphafi, því að ég minnist þess að þá var t.d. önnur lítil eyþjóð, Malta, fljót á sér að bjóða fram nýlega stofnaða alþjóðlega hafrannsóknastofnun hjá sér til þess að tengjast Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Hins vegar hefur það gleðilega gerst að nú mun hafa verið athugað — og mun það mál vera í gangi — að bjóða Háskólanum samvinnu um nýtingu jarðvarma, og því vil ég vissulega fagna. Það lá fyrir þegar fyrir ári að yfirmaður auðlindadeildar Sameinuðu þjóðanna hafði mikinn áhuga á því að Ísland legði fram kunnáttu og reynslu á þessu sviði. Það er kannske ástæða til að minna á það hér að eðli þessa Háskóla Sameinuðu þjóðanna er dálítið sérstakt. Þetta er ekki venjulegur stúdentaháskóli, eins og okkur er tamast að hugsa um, heldur er háskólinn fremur hugsaður sem alþjóðlegt vísindasamfélag, og tenging Háskóla Sameinuðu þjóðanna við stofnanir hjá aðildarlöndunum er þess eðlis að það er hægt að byrja með mjög lítinn hlut, þannig að fjárútlát ættu ekki að þurfa að vera mjög mikil. Mér hefur sýnst eftir öllu, sem ég hef kynnt mér þetta mál, að það séu ákaflega miklir möguleikar til þess að sníða sér þarna stakk eftir vexti.

Háskóli Sameinuðu þjóðanna er vissulega samkv. stofnskránni einna fremst hugsaður í þjónustu þróunarlandanna. Við höfum fengið þarna möguleika til þess að flytja út kunnáttu, og eins og hv. 3. landsk. þm. benti á, það gæti siðar leitt til þess að við gætum flutt hana út í formi fjármuna með því að taka beinan þátt í verklegri nýtingu jarðvarma á öðrum svæðum jarðarinnar. En jafnframt hljótum við með þessu að flytja inn kunnáttu, þar sem sú deild, sem hér þarf að koma, hlýtur að verða sótt af vísindamönnum frá ýmsum þjóðlöndum og gefa þannig möguleika til þeirrar ómetanlegu snertingar út á við sem öllum vísindamönnum er nauðsynleg og nauðsynleg fyrir gengi í vísindastörfum.

Ég vonast til þess fastlega að hæstv. ríkisstj. sjái sóma og hag Íslands í því að hraða sem mest framgangi þess að Ísland gerist sem fyrst formlegur aðili að Háskóla Sameinuðu þjóðanna, en láti málið ekki daga uppi í hinum löngu og krókóttu göngum stjórnarráðsins.

Þá get ég ekki að lokum, herra forseti, stillt mig um að víkja að örfáum orðum sem hæstv. utanrrh. lét falla af sinni alkunnu hógværð og kurteisi í framsöguræðu sinni. Þegar hann var kominn að lokum langrar og ítarlegrar skýrslu sinnar sagðist hann ætla að segja aðeins nokkur orð um öryggismál, svona eins og í afsökunarskyni: Á ég að fara að hreyfa svo lítilfjörlegu máli? Í þessu orðalagi og þeim hætti, sem hæstv. utanrrh. notaði þarna, felst eiginlega dálítið merkileg þverstæða. Þetta mál hefur kannske meira en nokkurt annað klofið þessa þjóð í tvennt. Sjálfur hefur hæstv. utanrrh. lagt sitt af mörkum til þess að viðhalda hér herstöð Atlantshafsbandalagsins um ófyrirsjáanlegan tíma og jafnvel að auka þar umsvif á sama tíma og spenna milli risaveldanna hefur slaknað stórlega. Og þá má minna á, því til staðfestingar, einmitt það sem hv. 3. þm. Reykv. nefndi hér áðan um þessa, — ja, mér liggur við að segja: þessa frægu ræðu sem Sonnenfeldt, aðstoðarmaður Kissingers, flutti nýlega vestur í Bandaríkjunum um það. Þetta fyrirbæri, þ.e. herstöðina hér, hefur hæstv. ráðh. metið svo og látið í ljós frammi fyrir alþjóð að væri lífsnauðsyn íslendingum, annars mundi hann kasta þessu drasli út í hafsauga, eins og hann hefur jafnan látið liggja að í öðru orðinu. Sumir hv. alþm. hafa nýlega talið öryggið, þ.e.a.s. herstöðina, svo mikilvæga að fórna bæri hluta af sjálfri lífsbjörginni, þorskinum, í kjaft Jóns bola fyrir það. Ég veitti því sérstaka athygli um daginn ummælum sem höfð voru eftir hv. 4. þm. Austurl., Sverri Hermannssyni, á þingi Norðurlandaráðs í vetur í þessa átt. Úr orðum hans mætti smíða þokkalegt vígorð fyrir þá 55 þús. íslendinga sem á þjóðhátíðarárinu mikla lögðust á fjóra fætur og báðu um herstöð um aldur og ævi. Þetta vígorð gæti verið: „Heldur herstöð en þorsk,“ En þegar svo hæstv. utanrrh. kemur í ræðu sinni í dag að þessu lífakkeri, hinu svokallaða öryggismáli, þá lætur hann sér duga um það nokkur orð í hálfgildings afsökunartón. Og þá mundi maður kannske að lokum spyrja hvort það hafi verið samviska eða meðfæddur heiðarleiki hæstv. utanrrh. sem þarna skaut upp kollinum.