05.05.1976
Sameinað þing: 84. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3682 í B-deild Alþingistíðinda. (2987)

318. mál, utanríkismál

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil hefja þau fáu orð, sem ég ætla að segja hér að sinni, með því að þakka þeim hv. ræðumönnum, sem tekið hafa þátt í þessari umr., fyrir málefnalegar, skýrar og vel samdar ræður. Ég er alveg sammála því, sem fram kom hjá hv. 3. þm. Reykn., að umr. um utanríkismál mættu gjarnan skipa veglegri sess í störfum Alþ. heldur en þær hafa gert og gera raunar enn. Og það skal síst standa á mér að taka þátt í slíkum umr. meðan ég á hér sæti á þessu háa Alþ. Ég hygg að það sé til mikilla bóta að ræða þessi mál í þeim anda, sem þau hafa verið rædd hér í kvöld, og það sé til upplýsinga fyrir ýmsa sem ekki hafa kannske lagt allt of mikið að eyrun og leitt hugann að því sem er að gerast í kringum okkur og þar með stöðu okkar í umheiminum.

Í því sambandi vil ég þá fyrst víkja að því að ég tel eðlilegt að Alþ. setji utanrrh. nokkur tímamörk um það hvenær þings þessi skýrsla, sem honum er ætlað að flytja, sé á ferðinni. Það er vissulega alveg hárrétt, sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Reykn., að á stundum hefur þessi skýrsla verið of seint á ferðinni og þess vegna orðið hornreka í þeim umr. sem hér fara fram og stundum, eins og t.d. á s.l. ári, rædd hér eiginlega milli þátta, ef svo má segja, og þar af leiðandi umr. ekki gefinn sá gaumur sem hún hefði þó að mínu mati átt skilið.

Það hefur komið fram hjá flestum, sem hér hafa tekið til máls, að í þessa skýrslu vanti ýmislegt sem þar hefði átt að vera. Ég ætla alls ekki að bera á móti því að í henni hefði mátt vera miklu fleira og skýrslan þá þeim mun lengri og ítarlegri. En það er ávallt matsatriði, hygg ég, hvaða efnisatriði eru tekin í slíka skýrslu, og því er ekki að leyna að skýrslan hefur verið í nokkuð föstu formi frá því fyrst var byrjað að gefa hana hér á hv. Alþ., og ég hygg að mínar skýrslur séu ekki mikil undantekning frá því. Það hefur mest verið gert af því að lýsa því, sem er staðreynd, og því, sem gerst hefur frá því að síðasta skýrsla var flutt, fremur en að freista þess að gera úttekt á alþjóðamálunum. Þetta hefur ekki verið það sem á erlendu máli er kallað „analýsa“ á utanríkismálum almennt, heldur eins og ég segi, miklu fremur staðreyndaupptalning og nokkur skýring frá mér og þeim utanrrh., sem þessa skýrslu hafa gefið á undan mér, á því hvers vegna afstaða Íslands hefur verið þann veg sem hún hefur reynst. En það er náttúrlega vel hægt að bæta úr þessu, og ég segi fyrir mitt leyti að ef ég á eftir að gefa hér enn eina skýrslu um utanríkismál, þá er ég mjög fús til þess að hafa hliðsjón af þeim ábendingum sem hafa komið fram í dag og kvöld og mundi þá reyna eftir fremsta megni að gera þá úttekt sem hv. ræðumönnum hér hefur fundist skorta.

Ég er ekki ósammála því, sem hv. þm. hafa gert að umræðuefni, í neinum verulegum atriðum. Ég hygg að úttekt þeirra margra hverra hafi verið raunsæ og get tekið undir margt af því sem hér hefur komið fram um heimsmálin og það sem er að gerast. Ég vil þó leyfa mér að benda á það, að í þessari skýrslu er, að ég hygg, í fyrsta sinn gerð örlítil tilraun til þess að nefna þróun alþjóðamála, sem ekki hefur verið, að ég man, gert áður í sams konar skýrslum. Það kann að vera að það sé óskýr mynd og hornskökk,eins og hér hafa verið látin orð falla um. En þá er að taka ábendingum um það og reyna að gera myndina a.m.k. eitthvað skýrari, hvernig sem gengur svo um það að hafa hana hornrétta. Það verður sjálfsagt alltaf dálitið matsatriði hvenær mynd er hornrétt, eftir því hver horfir á hana og hvaðan horft er á hana.

Ef ég vík fyrst að því sem fram kom hjá hv. 3. þm. Reykn., þá beinist athyglin að Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna og samskiptum okkar við hana. Mér er engin launung á því að ég er fjarri því að vera ánægður með okkar hlutskipti í því sambandi. Ég hef ávallt, þegar ég hef lagt fram till. til fjárlaga, haft miklu hærri fjárhæð á óskalistanum heldur en þá sem samþykkt hefur verið, og ég ætla að bæta örfáum orðum við það sem ég sagði í skýrslunni.

Samkv. samkomulagi við Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna var ákveðið að stofnunin veitti framlag til íslands tímabilið frá 1972 til ársloka 1976 að fjárhæð samtals 1 millj. Bandaríkjadala. Greiðsla skyldi dreifast yfir þessi 5 ár eftir verkefnum, en nokkuð jöfnum greiðslum. Síðar var ákveðið að Ísland fengi aukaframlag sem nemur tæplega 343 þús. dölum. Þetta framlag átti að greiðast úr varasjóði UNDP, eins og stofnunin heitir á erlendu máli, en ekki koma til skuldar gegn hugsanlegri aðstoð eftir samningstímabilið 1972–1976. Gegn framlagi stofnunarinnar var ákveðið að kæmi mótframlag frá Íslandi sem nemur 8% af heildarframlagi hennar eða 80 þús. dollarar sem skyldu greiðast með jöfnum greiðslum, 16 þús. dölum á ári, yfir samningstímabilið. Rétt er að taka fram að þróunaraðstoð Sameinuðu þjóðanna er fyrst og fremst ætluð raunverulegum þróunarríkjum og hefur sætt vaxandi gagnrýni að veitt skuli fé til landa þar sem þjóðartekjur á mann eru tiltölulega háar, þótt viðurkennt sé að það sé ekki eini mælikvarðinn á þörf fyrir þróunaraðstoð. Hefur Þróunarstofnunin hvatt þá þiggjendur þróunaraðstoðar, sem betur eru stæðir, til þess að auka hin frjálsu framlög sín, þannig að þau nemi a.m.k. sömu fjárhæð og aðstoðin eða hærri. Ég hef drepið á þetta atriði í skýrslu minni til Alþ. undanfarin tvö ár og hvatt til að svo verði hvað Ísland varðar.

Mótframlagið, 16 þús. dollarar á ári, hefur ekki verið greitt af Íslands hálfu frá því árið 1974. Frjáls framlög Íslands til UNDP hafa hækkað nokkuð undanfarin tvö ár. Árið 1975 hækkaði frjálsa framlagið frá Íslandi um 60% frá árinu áður. Framlag Íslands nam 9 millj. 688 þús. ísl. kr. það ár og 12 millj. 943 þús. kr. árið 1976, sem svarar til um það bil 40% af framlagi stofnunarinnar til Íslands þessi tvö ár. Um nokkru lægri hlutföll er að ræða árin 1972–1974.

Hinn 2. mars 1976 barst utanrrn. bréf frá Sameinuðu þjóðunum þar sem frá því er skýrt að Þróunarstofnunin sjái sér ekki fært að greiða 342 949 dollara úr varasjóði sem minnst er á að framan og ákveðin var árið 1974. Hinn 22. mars 1976 barst Rannsóknastofnun landbúnaðarins skeyti frá Sameinuðu þjóðunum þar sem tilkynnt var að verkefni þau, sem fjármögnuð hefðu verið af UNDP yrðu stöðvuð þegar í stað vegna fjárskorts. Samkv. upplýsingum fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hafði stofnunin í jan. 1976 veitt Íslandi 98 þús. dali í aðstoð umfram þá eina millj. dala sem um var samið fyrir árin 1972–1976. Vegna 35 millj. dala halla á fjárl. UNDP árið 1976 og væntanlega helmingi meiri halla á árinu 1977 var sú ákvörðun tekin að skera niður framlög til styrkþega á árinu 1976. Þessi niðurskurður kom ekki beinlínis niður á upphaflegu framlagi til Íslands þar sem það var þá þegar uppurið, heldur kom það niður á loforði UNDP um umframaðstoð úr varasjóði, áðurnefndum 342 þús. dölum. Auk þess voru skorin niður verkefni til landbúnaðar- og skógræktarrannsókna sem ákveðið hafði verið að fjármagna fram til ársloka 1979 með gjaldfresti til næsta væntanlegs tímabils þróunaraðstoðar til Íslands, þ.e. 1977–1981. Nemur sú fjárhæð í Bandaríkjadollurum 40 950. Niðurstaðan hefur orðið sú, að ekkert framlag rennur til íslands á árinu 1976 að því undanskildu að sérfræðingar þeir, sem eru starfandi á bindandi ráðningarsamningum hjá stofnuninni, munu starfa út samningstíma sinn á Íslandi.

Þessi niðurstaða hefur komið sér illa fyrir ýmsa hérlenda aðila. Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Iðnþróunarstofnun Íslands standa nú í miðjum verkefnum og hefur þessi þróun þau áhrif að óvissa ríkir um framkvæmd verkefnanna og hætta er á að þeir fjármunir, sem lagðir hafa verið nú þegar í þessi verkefni, fari til spillis. Hafa þessar tvær stofnanir eindregið mælst til þess að einhverjar úrbætur fáist. Og þannig hefur þetta jafnan verið í minni ráðherratíð, að hin svonefndu fagráðuneyti hafa ávallt knúið á um framlögin þegar ég hef haft uppi tilburði til að afnema þau, og hygg ég að hv. 3. landsk. þm., sem á sínum tíma var ráðh., kannist vel við þetta. En hann gerði þetta sérstaklega að umræðuefni og því nefni ég hann til.

Þar sem núverandi áætlunartímabil rennur út í lok þessa árs þarf ríkisstj. að taka afstöðu til þess hvort leita skuli eftir áframhaldandi aðstoð næsta tímabil, árin 1977–1981, og þá til hvaða verkefna, eða hvort falla beri frá beiðni um aðstoð í núgildandi formi. Það kemur þarna ýmislegt til greina í þessu sambandi og það eru nokkrir kostir sem um er að tefla, en ég skal ekki tefja tímann á að fara út í að þessu sinni, en er fús til að ræða við þá þm., sem þess óska, utan fundar eða á fundi, ef þess er óskað, og alla vega við hv. utanrmn. áður en ákvörðun um það mál er tekin.

Þetta vildi ég segja um Þróunarstofnunina og jafnframt það, að Aðstoð Íslands við þróunarlöndin, stofnunin sem ber þetta nafn, á hér enga sök, eins og raunar hefur verið tekið fram. Það er einungis fjármagn, sem vantar, en hvorki vilji né geta til að vinna úr því.

Þá vil ég aðeins nefna það sem minnst hefur verið á um Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og sendinefnd Íslands þar. Ég held að ég hafi tekið það fram í frumræðu minni að þeir aðilar, sem sótt hafa Hafréttarráðstefnuna af Íslands hálfu, hvort heldur það eru embættismenn eða stjórnmálamenn, hafa unnið þar gott starf, og við vonum það öll áreiðanlega að uppskera þess starfs sé nú að koma í ljós á þann hátt að Hafréttarráðstefnan komist að þeirri niðurstöðu sem ég gat um Í skeytinu frá formanni n., Hans G. Andersen sendiherra, og tryggir sjónarmið og hagsmuni íslendinga eins og við höfum unnið að öll þessi ár. Ég held því að það sé alveg óhætt að taka undir það sem hér hefur verið sagt, að störf íslensku sendinefndarinnar á Hafréttarráðstefnunni hafi verið farsæl og unnin af fullum heillindum og mikilli festu og dugnaði. Og ég ætla ekki að biðja nokkurn mann afsökunar á því að hafa sent það sem hér er kallað fjölmenn sendinefnd á þessa ráðstefnu, því að á henni er fjallað um það mál sem okkur ríður allra mest á að komist farsællega í höfn. Og þegar við berum íslensku sendinefndina saman við allan þann aragrúa af sérfræðingum og stjórnmálamönnum sem hana sækja frá öðrum þjóðum, þá hygg ég að það megi nánast furðu gegna hversu Ísland hefur oft haft þar mikið að segja og hversu aðrir hafa hlustað vel og gaumgæfilega á það sem íslenska sendinefndin hefur haft fram að færa. Ég get vel endurtekið það, sem ég hef áður sagt úr þessum ræðustól, að formaður íslensku sendinefndarinnar nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar sem þjóðréttarfræðingur og það eru ýmsir sem sækja til hans ráð þótt frá stærri þjóðum séu.

Þá sagði hv. 3. þm. Reykn. að ríkisstj. og þá ég kannske sér á parti væri að festa herinn hér í sessi með meiri framkvæmdum og meiri samskiptum en áður hefði verið. Þessi skoðun kom einnig fram hjá nokkrum öðrum ræðumönnum og þá einkum hjá hv. 3. þm. Reykv. Ég vil nú enn einu sinni minna á það, að í samkomulagi því, sem gert var í okt. 1974, var ekki hróflað á nokkurn hátt við ákvæðum Atlantshafssáttmálans, þannig að enn þá er það óbreytt sem áður var, að hvaða ríkisstj. á Íslandi sem hefur þá stefnu að vilja herinn burtu getur gert það eftir þeim leiðum sem ávallt hafa verið frá því að samningurinn var gerður, þ.e. með því að leita umsagnar NATO-ráðsins fyrst og segja síðan samningnum upp með 6 mánaða fyrirvara, og þá er herliðið skuldbundið til að fara á einu ári, á 12 mánuðum. Það, sem gerst hefur, er því einungis að það var fallið frá 6 mánaða uppsagnarfrestinum. En ákvæðin eru ótvíræð, og eins og ég áðan sagði, þá getur hver sú ríkisstj. sem þess óskar notað sér þau, þannig að við höfum ekki á nokkurn hátt bundið hendur framtíðarinnar í þessu efni. En hitt er auðvitað rétt og sjálfsagt að viðurkenna, að frá stefnu vinstri stjórnarinnar var horfið, og það hef ég áður sagt hér og dreg enga dul á að ég harma og er með í þeim leik af öðrum ástæðum sem ég hef einnig gert grein fyrir úr þessum ræðustól og skal ekki tefja tímann á að rekja frekar.

En ég minni á það, að jafnvel í till. vinstri stjórnarinnar var þó gert ráð fyrir nokkurri vinnu af hendi íslenskra aðila. Íslendingar áttu samkv. þeim till. að taka að sér rekstur radarstöðva. Í þeim till. var einnig rætt um nokkra veru herliðs hér, þannig að hér er magnmunur, en síður efnis að mínu mati. Það er verið að fækka í hernum með þeim framkvæmdum og því fyrirkomulagi sem tekið var upp, og ég geri mér vonir um að áfram verði haldið á þeirri braut. Það er jafnframt verið að einangra herinn með því að flytja hann allan inn á svæðið og hætta þeirri sambúð íslendinga og bandarískra hermanna sem á sér stað hér á Faxaflóasvæðinu og þó fyrst og fremst á Reykjanesskaga. Það er ekki vegna þess að ég beri þvílíkan kinnroða fyrir þetta mál að ég þori tæpast að nefna það, eins og hér hefur verið gefið í skyn eða látið að liggja, að kaflinn er stuttur, en það skal ég viðurkenna, heldur vegna þess að þegar samningurinn var til umr. á sínum tíma, þá gerði ég grein fyrir innihaldi hans hér á hv. Alþ. og sú grg. er til í þingtíðindum og þar getur hver sem það vill skoðað hvað ég þá sagði. Og það er auðvitað matsatriði hversu oft þarf að segja sömu hlutina. Ég sá ekki ástæðu til þess að gera það, að endurtaka það sem ég hef hér áður sagt, en það er auðvitað hægt að gera það.

Hv. 3. þm. Reykv. fann að því að það vantaði upplýsingar um ýmislegt annað viðkomandi hernum heldur en það sem ég var hér að nefna: Efnahagsáhrifin, hve margir ynnu hjá öðrum atvinnuveitendum á Keflavíkurflugvelli og um tekjur einstakra stofnana og félaga af viðskiptunum víð herinn. Það hafa verið áður birtar upplýsingar a.m.k. um tölu starfsmanna á Vellinum og ég hef þetta ekki við höndina í kvöld. En það er alveg sjálfsagt að veita upplýsingar um þessi efni því að frá minni hálfu er hér ekki um nokkurt leyndarmál að ræða. Ég mun þess vegna við fyrsta tækifæri verða við ósk hv. 3. þm. Reykv. um að upplýsa þau atriði sem hún gerði að umtalsefni í sinni ræðu.

Hv. 2. landsk. þm. hélt hér langa og efnismikla ræðu, fann að ýmsu í skýrslu minni, eins og eðlilegt kann að vera og áður hafði komið raunar fram hjá hv. 3. þm. Reykn. Það vantar náttúrlega margt Í þessa skýrslu. T.d. er ekkert getið um hv. 9. þm. Reykv. í henni, en það er einmitt eitt af þeim atriðum sem hér hafa verið gerð að umtalsefni. Hv. 2. landsk. þm. óskaði þess að við upplýstum um viðhorfin í Efnahagsbandalagi Evrópu til þess atriðis að bókun nr. 6 gæti komið til framkvæmda, og svo vill til að sendiherra okkar hjá Efnahagsbandalaginu mun ganga á fund eins af framkvæmdastjórum þess í fyrramálið og þá vænti ég þess að nýjustu upplýsingar um það, sem þarna kann að vera að gerast, liggi fyrir.

Hv. þm. hélt því fram, að samþykkt Norðurlandaráðs í landhelgismálinu væri lítils virði, og nefndi því til staðfestingar að danskur utanrrh. hefði ekki viljað tjá sig í þinginu um afstöðu ríkisstj. til þess. Það er auðvitað alveg hárrétt hjá hv. þm. að Norðurlandaráð er ekki stefnumótandi aðill um utanríkismálastefnu aðildarþjóðanna. En það gerðist meira í þessu máli heldur en það að Norðurlandaráðsþing ályktaði eða forsætisnefndin þó öllu heldur, Það var einnig ályktað á utanrrh:fundi Norðurlandanna í mjög svipuðum dúr og gert var á Norðurlandaráðsþingi, og þar kemur stefna viðkomandi ríkis fram, því að það er óhugsandi að ráðh. geti samþykkt slíka ályktun nema hafa til þess samþykki sinnar ríkisstj. Ég fyrir mitt leyti geri því mikið með þennan stuðning. Ég tel hann mikils virði. Hitt er auðvitað alveg víst, að hann hefur ekki fengist átakalaust.

Um skiptingu verkefna milli viðskrn. og utanrrn. væri auðvitað ástæða til að ræða ítarlegt mál því að að mínu mati er sú skipting óeðlileg. En hún er ekki ný. Hún hefur viðgengist í mörg ár og ég hygg að hv. 2. landsk. sé ekki alveg ókunnugt um það hvenær hún hófst og kannske líka af hverju hún er eins og hún er. En þetta hefur nú verið sett Í lög af hv. Alþ. og það hafa ekki komið fram hér neinar ábendingar og þaðan af síður till. eða frv. um að breyta þessu fyrirkomulagi. En það er í sem stystu máli þannig að utanrrn. hefur þau afskipti ein af milliríkjasamningum að utanrrh. undirritar þá, að öllu öðru leyti eru þeir gerðir af viðskrn. og framkvæmdin er einnig í þess höndum. Og ég get fyllilega játað að sá kafli, sem fjallar um utanríkisviðskiptamál í skýrslu minni er saminn í viðskrn. vegna þess að þar eru málin til meðferðar.

Ég ætti kannske ekki að gera ræðu hv. 2. landsk. þm. að frekara umtalsefni. En vegna síðustu orða hans um að ráðherradómur minn væri nú ekki sérlega beysinn, Í minni ráðherratíð hefði það gerst að við hefðum orðið óvinir allra, allra ríkja, austan hafs og vestan, þá langar mig að segja það, að það er náttúrlega hægt að vera allra vinur. Það er tiltölulega vandalítið. Það var sagt hér á hv. Alþ. fyrir nokkrum árum að það væri siðleysi að færa út landhelgina einhliða. Ef það hefði ekki verið gert, þá værum við áreiðanlega góðir vinir breta og þjóðverja og Efnahagsbandalagsríkjanna og Austur-Evrópuríkjanna sem eru að sækja um grálúðuveiðar sem við getum ekki fallist á. Það hefur líka verið sagt að það kæmi ekki til mála að hrófla við aðild Íslands að NATO og veru bandarísks herliðs hér á landi. Ef það hefði aldrei komið til tals, ef enginn hefði nokkru sinni haft þá hugsun að breyta þessum atriðum, þá værum víð áreiðanlega enn þá í mjög góðu vinfengi við bandaríkjamenn. En ég held að þetta sé nú ekki svona, að við séum ekki óvinir allra þessara ríkja. Ég er nefnilega ekki frá því að a.m.k. sums staðar þyki það ekki óeðlilegt að íslendingar reyni að hafa uppi sjálfstæða tilburði og að framkvæma eitthvað af því sem þeir telja til heilla horfa í íslensku þjóðfélagi. Mér hefur aldrei dottið það í hug að ég væri sérlega góðir ráðh. eða mín störf væru ekki þannig að þau mætti gagnrýna. Og ég er ekkert viðkvæmur fyrir því að vera gagnrýndur, enda hef ég fengið að reyna það undanfarin 5 ár og úr ýmsum áttum. Ég vonast til þess að ég verði þó aldrei svo slakur ráðh. að enginn telji ómaksins vert að gagnrýna það sem ég geri.

Hv. 3. landsk þm. talaði um að ég hefði ekki minnst á atburðina í Asíu. Ég hygg að ég hafi gert það í síðustu skýrslu, fyrir ári, enda voru þeir þá nýafstaðnir. Og hann benti á ýmislegt í ágætri ræðu sem hann teldi ástæðu til að þessi skýrsla hefði fjallað um. Ég hef nokkuð gert það að umtalsefni áður að það er matsatriði hvað taka beri í slíka skýrslu, og það er nú svo að þetta var mitt mat, að þetta skyldi vera svona í þetta skipti, en það má vissulega endurskoða það og hafa skýrsluna með öðrum hætti næst og sjálfsagt að taka ýmislegt til greina sem hér hefur verið minnst á.

Ég vil svo aðeins að lokum segja það, að ég kannast ekki við það, sem hv. 2. þm. Austurl. hélt hér fram, að afstaða Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í atkvgr. hefði breyst mjög, eftir að núv. stjórn tók til starfa, frá því sem hún var í tíð vinstri stjórnarinnar. Hann nefndi ekki sérstaklega dæmi um þetta, en minntist þó á að hann hefði hrokkið við þegar hann sá hvernig atkv. Íslands hafði fallið í málefnum palestínuaraba. Ég skal alveg fúslega viðurkenna það að í sambandi við störfin á Allsherjarþinginu kemur það æðioft fyrir að í utanrrn. verður að taka ákvarðanir með mjög skjótum hætti. Það eru sífellt að koma fram nýjar till., brtt. og annað þess háttar, sem lítið sem ekkert tóm gefst til þess að skoða hér heima. Það verður að senda út fyrirmælin svo að segja samstundis, og það hefur komið fyrir, ég skal alveg viðurkenna það, að ég hef gefið fyrirmæli til sendinefndar um atkvgr. sem ég hef síðar við nánari skoðun álitið að hefði mátt gera á annan hátt. En í þessu máli er þessu ekki til að dreifa, því að nokkurt tóm gafst til að hugleiða viðfangsefnið. Og ég hygg að öll sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, þegar þetta mál var á döfinni, að einum meðlim undanskildum, hafi lagt til að atkv. Íslands félli á þann veg sem það gerði og með þeim rökstuðningi sem því fylgdi og er birtur í skýrslunni. Við erum þó ekki í lakari félagsskap en svo að Danmörk og Noregur, tvö Norðurlandanna af hinum fjórum, eru með okkur. Vissulega er það matsatriði hvernig atkv. á að falla í tilvikum sem þessum, og ég get vel skilið að ýmsir hefðu viljað ganga lengra til stuðnings við palestínu-araba heldur en þarna er gert. En það var mitt mat eftir að hafa hlustað á fyrst og fremst fastafulltrúann og aðra embættismenn okkar hjá Sameinuðu þjóðunum að svona skyldum við greiða atkv., og það er á mína ábyrgð að það var gert eins og það var.

Ég vil svo, herra forseti, ekki tefja tíma þingsins með frekari aths. um þær ræður sem fram hafa komið, en að endingu aðeins endurtaka það, að ég er þakklátur þeim, sem tóku þátt í þessum umr., fyrir málefnalegar og prúðmannlegar ræður og styð það eindregið að utanríkismál verði oftar rædd en gert hefur verið.