05.05.1976
Sameinað þing: 84. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3689 í B-deild Alþingistíðinda. (2990)

248. mál, samkomulag um takmarkaðar veiðar norskra skipa innan fiskveiðilögsögu Íslands

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Nú gerast margir atburðir í senn, og ég varð of seinn að biðja um orðið við fyrra dagskrármálið, en ég ætlaði þó ekki að nota þann ræðutíma, sem ég hér tek og skal verða mjög skammur, til þess að gera frekari grein fyrir þeim þáltill. sem til umr. eru. Þær hafa þegar verið rökstuddar. Ég reyndi að rökstyðja þær, hv. 2. landsk. rökstuddi þáltill. þá, sem hér er til umr., svo vel að ég get ekki gert það betur, og hv. 3. þm. Reykn. rökstuddi þá till., sem verið var að greiða atkv. um, svo vel að ég get ekki heldur bætt um það.

En það voru tvær fsp. sem hv. 5. þm. Suðurl. beindi til mín sem hann óskar svara við og er auðvitað sjálfsagt að reyna að veita.

Sú fyrri var um framlengingu samningsins við vestur-þjóðverja eða réttara sagt hvenær ætti að fresta honum. Ég vil vísa til þeirrar ræðu sem ég hélt í hv. Ed. til að svara fyrirspurn þar, að ég tel óhugsandi að það geti dregist ýkjalengi að ákvörðun um það verði tekin. En hún hefur enn ekki verið tekin. Og eins og ég sagði í ræðu hér áðan um annað mál, þá er að vænta nýrra upplýsinga um afstöðu Efnahagsbandalagsins til okkar mála á morgun.

Hin fsp. var um það hvort synjun loftskeytamanna á því að hafa samband við breskar freigátur væri brot á alþjóðlegum samningum. Ég hef beðið lögfræðing í utanrrn. að athuga það, og hann vísar til alþjóðasamkomulags um fjarskipti sem gert var í Malaga, Torremolinos 1973 og Ísland er aðili að, en hefur enn ekki fullgilt. Niðurstaða hans er sú að enginn grundvöllur hafi verið til að stöðva fjarskiptin.