06.05.1976
Efri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3691 í B-deild Alþingistíðinda. (2995)

258. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., á þskj. 572, fjallar um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Með því eru lagðar til veigamiklar breytingar á gildandi lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna að því er varðar félagsmenn innan vébanda Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.

Helstu breytingar, sem í frv. felast, eru að lagt er til að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fái takmarkaðan verkfallsrétt við gerð aðalkjarasamnings og að jafnframt falli niður þau sjálfvirku tengsl sem verið hafa á milli kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fjmrh. og kjarasamninga heildaraðila almenna vinnumarkaðarins, þ.e.a.s. Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands.

Þetta mál á sér langan aðdraganda og nokkuð langa sögu. Á mörgum þingum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hafa verið samþ. ályktanir og áskoranir í þá átt að opinberir starfsmenn fengju verkfallsrétt um launa- og kjaramál sín. Í þessu sambandi hefur gjarnan verið vitnað til kjarasamningalöggjafar á Norðurlöndum þar sem verkfallsréttur opinberra starfsmanna á sér nokkra sögu.

Í málefnasamningi fyrrv. ríkisstj. voru ákvæði er lutu að þessu. Þar var m.a. vikið að verkfallsrétti með þeim skilyrðum að æviráðning félli niður og sjálfkrafa tengsl við kjör annarra stétta í þjóðfélaginu yrðu rofin.

Þann 7. mars 1972 skipaði þáv. fjmrh., Halldór E. Sigurðsson, n. til að endurskoða lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 55 1962, og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38 1954. N. þessi, sem starfaði undir formennsku Benedikts Sigurjónssonar hæstaréttardómara, samdi síðan frv. til l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem varð að l. nr. 46 1973. Með þeim lögum var samningsrétti opinberra starfsmanna breytt í nokkrum veigamiklum atriðum. Helstu breytingarnar voru þær, að Bandalag háskólamenntaðra manna fékk í fyrsta sinn sjálfstæðan samningsrétt og að samningsréttinum var skipt milli heildarsamtaka opinberra starfsmanna og hinna einstöku aðildarfélaga innan þeirra. Um verkfallsrétt náðist ekki samkomulag að því sinni.

Kröfum um verkfallsrétt opinberra starfsmanna var þó haldið fram af samtökunum og um þær gerðar samþykktir sem kröfðust verkfallsréttar þegar á s.l. ári. Í framhaldi af því efndi, eins og kunnugt er, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja til fundarhalda um málið og setti fram á s.l. ári við stjórnvöld kröfu um óskoraðan verkfallsrétt við gerð aðalkjarasamninga sem gera átti haustið 1975, þ.e.a.s. s.l. haust. Ríkisstj. ákvað því í okt. s.l. að hef ja viðræður við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Bandalag háskólamanna um verkfallsréttarmálið til þess að kanna hvort unnt yrði að finna samkomulagsgrundvöll er allir aðilar gætu sætt sig við.

Eftir langvarandi og ítarlegar viðræður aðila náðist samkomulag milli viðræðunefndar ríkisins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þ.e. 1. apríl s.l., um nýjan aðalkjarasamning og samkomulagsdrög um verkfallsrétt o.fl. Í 18 liðum. Ríkisstj. samþ. þessi drög fyrir sitt leyti og ákvað að láta semja lagafrv. það, er hér liggur fyrir, á grundvelli þeirra draga, enda var meginsjónarmiði hennar um takmörkun og form verkfallsréttarins til skila haldið í drögunum.

Helstu efnisatriði samkomulagsdraganna eru eftirfarandi:

Í 1. gr. er ákvæði þess efnis að fram fari endurskoðun á lögum um réttindi og skyldur. Æviráðning verði þrengd frá því sem nú er, en þeir, sem þegar hafi æviráðningu, haldi henni. í þessu sambandi vil ég benda á að samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 12. des. 1974 hafa stjórnvöld nú nokkuð frjálsar hendur um að ráða starfsfólk með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Sú almenna skoðun, að allir ríkisstarfsmenn hafi æviráðningu eða æviráðningarrétt, er því á misskilningi byggð.

Í 2. gr. er kveðið á um að stefnt skuli að því að ný kjarasamningalög taki gildi frá og með 1. júlí 1977 að því er aðalkjarasamning varðar og megi segja honum upp miðað við þann dag. Verkfallsheimild fylgi nýjum kjarasamningi sem gerður er eftir það. Ákvæði um sérkjarasamninga taki þó gildi þegar í stað. Ákvæði frv. til bráðabirgða er í samræmi við þetta.

Í 3. gr., sbr. 7. gr. frv., er fjallað um gildissvið aðalkjarasamninga og sérkjarasamninga. Gildissvið aðalkjarasamnings er víkkað, en gildissvið sérkjarasamninga þrengt frá því sem nú er. Um aukatekjur og hlunnindi, sem líkt er farið, skal ákveða í reglugerð.

Í 4. gr., sbr. 8. gr. frv., segir að aðalkjarasamningur skuli gilda skemmst í 24 mánuði, uppsagnarfrestur skuli skemmst vera 3 mánuðir. Lögbundinn endurskoðunarréttur með gerðardómi eða verkfallsrétti fylgir ekki aðalkjarasamningi.

Í 5., 5. og 7. gr., sbr. 16. gr. frv., er fjallað um meðferð sérkjarasamninga. Þeim fylgir ekki verkfallsréttur og ganga þeir til úrskurðar kjaranefndar ef ekki næst samkomulag milli aðila. Kjaranefnd skipa 5 menn: þrír tilnefndir af Hæstarétti, einn tilnefndur af heildarsamtökum starfsmanna og einn af fjmrh. Verkefni kjaranefndar eru nánar tilgreind í VI. kafla frv.

8. gr. fjallar um samstarfsnefnd sem aðilar beina til einstökum deilumálum.

9. gr. fjallar um verkfallsheimildina og tekið fram að hún nái aðeins til aðalkjarasamnings.

Í 10. gr. eru taldir upp þeir einstakir starfsmenn sem óheimilt er að gera verkfall, en þeir eru einkum æðstu embættismenn dómsvalds og ákæruvalds, stjórnsýslu og sáttasemjara, allir starfsmenn Alþingis, skrifstofu forseta Íslands, forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis og ýmsir forstöðumenn ríkisstofnana og staðgenglar þeirra. Þessi upptalning er þó alls ekki tæmandi. Í 14. gr. eru almenn ákvæði um að skylt sé að halda uppi nauðsynlegri öryggisgæslu og heilsugæslu þrátt fyrir verkfall. Sérstök nefnd, kjaradeilunefnd, ákveður hvaða starfsmenn skuli starfa í verkfalli. Kjaradeilunefnd skal skipuð 9 mönnum og er skipunartími n. 4. ár. Formaður skal skipaður af Hæstarétti, tveir kjörnir af Sþ., þrír skipaðir af fjmrh. og þrír valdir af hlutaðeigandi heildarsamtökum launþega. N. getur skipt vinnuskyldu milli starfsmanna, en verkefni hennar er að sjá til þess að verkfall stofni ekki öryggis- og heilsugæsluþjónustu við borgarana í hættu. Ég vil taka fram að þetta meginatriði varð ekki að ágreiningsefni milli aðila. Formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja tekur t.d. fram í grein, sem hann skrifar í síðasta tölublað Ásgarðs, blað Bandalagsins, að það sé stefna Bandalagsins, sem leggja beri sérstaka áherslu á, að þrátt fyrir verkfall verði haldið uppi nauðsynlegri öryggisgæslu og heilsugæslu.

Í 11. gr. draganna segir hvernig ákveða skuli kjör þeirra starfsmanna sem taldir eru upp í 10. gr. Aðalreglan er sú, að náist ekki samkomulag um kjör þessara starfsmanna, á kjaranefnd að úrskurða um þau. Um þetta er fjallað í V. kafla frv. Þá er gert ráð fyrir að kjör hæstaréttardómara, ríkissaksóknara, sáttasemjara ríkisins og þeirra, sem eru utan vébanda heildarsamtaka, verði ákveðin einhliða af kjaranefnd.

Í þessu sambandi vil ég taka fram, að þar sem margir þeirra, sem taldir eru upp í 10. gr. draganna, eru utan vébanda Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þar af margir innan Bandalags háskólamanna, en geta þó orðið félagar í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, var talið rétt að taka upptalningu þessa upp í lög nr. 38 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en ekki inn í lagafrv. þetta sem einungis snýr að Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Frv. í þessa veru hefur þegar verið samið og liggur fyrir hv. þd. í tengslum við þetta frv. Í 1. gr. frv. er tekið fram að lögin taki ekki til ráðherra, hæstaréttardómara, saksóknara ríkisins og bankastarfsmanna, og gildir það þótt þeir séu félagsmenn í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.

Í 12. gr. draganna segir að um boðun verkfalls fari samkvæmt samþykktum heildarsamtaka. Í 13. gr. draganna, sbr. 15. gr. frv., segir að kjaradeila skuli ganga til sáttasemjara ríkisins ekki síðar en mánuði fyrir lok uppsagnarfrests og skuli hann þá kveðja tvo menn til starfa með sér að sáttum.

Í 14. gr. draganna, sbr. IH. kafla frv., eru ákvæði um framkvæmd verkfalls. Verkfall skal boða með skemmst 15 daga fyrirvara. Verkfall má ekki hefja fyrr en sáttatillaga hefur verið felld. Sáttanefnd skal leggja fram sáttatillögu a.m.k. 5 sólarbringum fyrir lok verkfallsboðunar frests. Þegar sáttatillaga hefur verið lögð fram getur sáttanefnd frestað verkfalli í allt að 15 daga. Eftir að verkfall er hafið getur sáttanefnd ávallt komið fram með miðlunartillögu. Sáttatillaga eða miðlunartillaga telst felld ef yfir 50% greiddra atkv. eru á móti henni, enda hafi yfir 50% atkvæðisbærra ríkisstarfsmanna greitt atkvæði. Annars telst till. samþ. Sáttanefnd stjórnar atkvgr. og talningu og úrskurðar endanlega um öll vafaatriði.

Í 16. gr. draganna, sbr. IX. kafla frv., eru ákvæði um trúnaðarmenn. Ákvæði frv. um trúnaðarmenn eru efnislega samhljóða gildandi samningum aðila um réttarstöðu og skyldu trúnaðarmanna.

Í 17. gr. draganna, sbr. 45. gr. frv., er fjallað um viðurlagaákvæði. Gert er ráð fyrir að brot geti varðað stöðumissi, sektum eða varðhaldi.

Í 18. gr. draganna segir að breytt verði ákvæðum um fjármögnun lífeyrisréttinda lífeyrisþega í hinum verðtryggðu lífeyrissjóðum starfsmanna ríkisins. Lífeyrissjóðirnir verði skyldaðir til að ávaxta 30% af heildarútlánafé sínu í verðtryggðum skuldabréfum ríkissjóðs. Miðað verði við að ríkissjóður ábyrgist og greiði einungis þann hluta lífeyrisins sem lífeyrissjóðirnir sjálfir geta ekki risið undir með tekjum sínum af vöxtum og verðbótum af ofangreindum verðtryggðum lánum. Gert er ráð fyrir að félmrh. ákveði með reglugerð sambærilegar reglur um lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga. Þá er og gert ráð fyrir að lögin um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna verði endurskoðuð og breytt til samræmis við þetta að því er varðar a.m.k. þá sjóðfélaga sem eru félagsmenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og frv. þetta tekur til.

Ég hef nú rakið efnisatriði samkomulagsdraganna frá 1. apríl s.l. Er lagafrv. það, sem hér liggur fyrir, á því byggt og frv. efnislega samhljóða drögunum svo langt sem þau ná. Ég tel þó rétt að rekja í stuttu máli efni einstakra kafla frv. Að öðru leyti vísa ég til aths. við frv.

I. kafli frv. fjallar um það til hvaða starfsmanna það nái, um fyrirsvar starfsmanna við gerð kjarasamninga og rétt starfsmanna til að vera aðilar að Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Aðalbreytingin frá I. kafla núgildandi kjarasamningalaga er sú, að frv. tekur einungis til starfsmanna innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og að starfsmenn Alþingis geti nú fallið undir lögin ef þeir eru félagar þar.

Í II. kafla er fjallað um gildissvið kjarasamninganna, uppsögn kjarasamninga, uppsagnarfrest og hvernig ljúka skuli ágreiningi um sérkjarasamninga. Í 17. gr. er ákvæði þess efnis að aðilar kjarasamnings beri fébótaábyrgð á samningsrofum sem þeir sjálfir eða lögmætir fulltrúar þeirra gerast sekir um í störfum sínum fyrir þá og um takmörkun á aðfararheimild í ákveðnum eignum aðila. Grein þessi er efnislega samhljóða 8. gr. l. nr. 80 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Í III. kafla frv. eru ákvæði um verkfallsrétt Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, framkvæmd hans og takmarkanir á honum. Í 4. tölulið 20. gr. er sérstaklega tekið fram að samúðarverkföll séu óheimil.

Í IV. kafla eru ákvæði um skyldur starfsmanna til að halda uppi nauðsynlegri öryggis- og heilsugæslu svo og ákvæði um kjaradeilunefnd. Í 2, mgr.

27. gr. er kveðið á um að neiti Bandalagið eða fjmrh. að nefna menn í kjaradeilunefnd, eða menn þeir, sem nefndir hafa verið, neiti að starfa, skuli þeir þrír, sem kjörnir eru af Alþingi og Hæstarétti, nefna menn í n. þannig að hún sé fullskipuð.

V. kafli fjallar um þá einstaka starfsmenn sem óheimilt er að gera verkfall og hvernig ákveða skuli kjör þeirra og hef ég áður komið að því.

VI., VII. og VIII. kafli fjalla um skipan kjaranefndar og starfssvið, um félagsdóm, úrskurðarvald og afskipti hans af deilumálum aðila, og um samninganefndir starfsmanna, samstarfsnefnd og rétt starfsmanna borgar-, bæjar- og sveitarstjórna til að fá samningsrétt samkvæmt lögunum, en eins og ég áður gat um setur félmrh. reglugerð um það efni. Ákvæði þessara kafla eru að mestu leyti óbreytt frá núgildandi kjarasamningum um sama efni og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

IX. kafli frv. fjallar um trúnaðarmenn, vald þeirra, réttindi og skyldur. Ákvæði þessi eru nýmæli í kjarasamningalögum, en byggð á ákvæðum í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938 og samkomulagi sem gert hefur verið við Starfsmannafélag ríkisstofnana um trúnaðarmenn. Greinar skýra sig að öðru leyti sjálfar.

Í frv. er gert ráð fyrir að ákvæði þess taki gildi 1. júlí 1977, sbr. ákvæði til bráðabirgða þar sem segir að ákvæði II., VI. og VIl. kafla skuli, eftir því sem við á, gilda um þá sérkjarasamninga sem gerðir verði í framhaldi af aðalkjarasamningi frá 1. apríl s.l. Ef gerð sérkjarasamninga, sem nú standa yfir, verður ekki lokið fyrir 1. júní n.k. skal kjaranefnd samkv. II. kafla taka deiluna til meðferðar og ljúka úrskurði um ágreiningsefni fyrir 1. júlí n.k. og gildir þá úrskurður hennar sem samningur frá og með 1. júlí n.k. Aðalkjarasamningi er hins vegar fyrst heimilt að segja upp miðað við 1. júlí 1977 og taka önnur ákvæði laganna gildi í samræmi við það. Kjaradeilunefnd samkv. IV. kafla frv. skal þó skipuð og taka til starfa eigi síðar en 1. jan. 1977.

Við Bandalag háskólamanna náðist ekki samkomulag um breytingar á kjarasamningalögunum að þessu sinni og nær frv. því ekki til félagsmanna þess. Lög nr. 46 1973, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og l. nr. 33 1915, um bann við verkfalli opinberra starfsmanna, gilda því áfram um félagsmenn þess bandalags. Ástæður fyrir því, að ekki náðist samkomulag við Bandalag háskólamanna, voru einkum þær að Bandalagið gat ekki sætt sig við ýmis ákvæði í drögunum, þ. á m. um tveggja ára samning án endurskoðunarréttar á samningstímanum. Talið var einnig að upptalning á þeim, sem undanþegnir væru verkfallsrétti, væri of viðtæk. En auk þess taldi Bandalag háskólamanna nauðsynlegt að fram færi heildarendurskoðun laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins jafnhliða kjarasamningalögunum. Af ríkisvaldsins hálfu er þó fullur vilji til að halda áfram viðræðum við Bandalag háskólamanna og mun verða stefnt að því að finna viðunandi lausn á deilumálum aðila, er allir geti við unað, fyrir 1. júlí 1977.

Þá munu samningsréttarmál Sambands íslenskra bankamanna að öllum líkindum koma til athugunar nú á næstunni, en frv. þetta tekur ekki til þeirra.

Með frv. þessu, ef að lögum verður, er stigið stórt skref í kjarasamningamálum opinberra starfsmanna. Hér er um áfanga að ræða sem markar þáttaskil í samskiptum ríkisins og Bandalags starfsmanna ríkisins. Krafan um verkfallsrétt er jafngömul samtökum starfsmanna hins opinbera þó að hún hafi ekki fengið hljómgrunn meðal ráðamanna fyrr en nú á síðustu árum. Af hálfu ríkisvaldsins hefur kröfum um verkfallsrétt jafnan verið mætt með kröfum um sjálfstæðari samningsgerð opinberra starfsmanna og afnám þeirra sérstöku réttinda sem opinberir starfsmenn hafa haft umfram aðra launþega. Með árunum hefur dregið úr þeirri sérstöðu sem opinberir starfsmenn hafa haft og einkum hefur verið fólgin í verðtryggingu lífeyris og æviráðningu. Annars vegar hafa aðilar vinnumarkaðarins náð samkomulagi um verðtryggingu lífeyris þeirra launþega sem eru í lífeyrissjóðum innan ASÍ, og hins vegar hafa stjórnvöld í vaxandi mæli ráðið starfsmenn með gagnkvæmum uppsagnarfresti.

Með samkomulagi því, sem liggur til grundvallar lagafrv. þessu, er gert ráð fyrir að dregið verði enn úr þeirri sérstöðu sem opinberir starfsmenn hafa haft um ráðningarform og fjármögnun lífeyrisréttinda sinna.

Afstaða ríkisstj. til þessa frv. réðst þó ekki síður af því að verkfallsréttur sá, sem það fjallar um, er háður skynsamlegum takmörkunum. Í fyrsta lagi er verkfallsrétturinn einungis á hendi heildarsamtaka til stuðnings kröfum um aðalkjarasamning sem gildir skemmst í tvö ár, en ekki sérkröfum einstakra hópa. Í öðru lagi er óheimilt að hefja verkfall nema áður hafi verið felld sáttatill. í atkvgr. sem a.m.k. helmingur atkvæðisbærra starfsmanna hefur tekið þátt í. Í þriðja lagi er verkfallsboðunarfrestur 16 dagar og sáttanefnd heimilt að fresta verkfalli í aðra 15 daga. Öll þessi atriði eiga að tryggja að það sé ekki gripið til verkfallsvopnsins nema að vel yfirveguðu máli og að undangenginni almennri könnun á vilja starfsmanna þar sem krafist er lýðræðislegrar lágmarksþátttöku. Síðast, en ekki síst eru í frv. ákvæði um að tryggja borgurunum nauðsynlega öryggis og heilsugæsluþjónustu þótt til verkfalls opinberra starfsmanna komi.

Eins og ég gat um áttu sér stað ítarlegar viðræður í vetur og vor við fulltrúa Bandalags starfsmanna ríkis og bæja um þetta mál og að lokum tókst það samkomulag sem kemur fram í grg. með þessu frv.

Marga mun sjálfsagt óa við því skrefi sem stigið er með þessu lagafrv. Frv. er vissulega stórt skref. En ég leyfi mér að vona að það sé skref í rétta átt og verði opinberum starfsmönnum og ríkisvaldinu og þjóðinni allri til heilla.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.