06.05.1976
Efri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3706 í B-deild Alþingistíðinda. (3007)

263. mál, biskupsembætti

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls held ég að það sé rétt að ég geri grein fyrir andstöðu minni við þetta frv., ekki síst með tilliti til þess að með nokkuð sérstæðum hætti hefur mitt nafn verið tengt kirkjulegum áhuga um skeið, þó að það geti nú kannske farið milli mála.

Ég hélt satt að segja að það væri nú engin tilviljun að þetta frv. var lagt fram, að því er ég held best, 30. apríl. Sá dagur er oft hliðstæður 1. apríl varðandi ýmsar tiltektir. En þó kann það vel að vera að hér sé um fulla alvöru að ræða í þessu efni, þó mér fyndist satt að segja lítill sannfæringarkraftur í orðum hæstv. ráðh., svo eiginlegt sem einmitt þessum hæstv. ráðh. er að tala fyrir sínum málum á mjög sannfærandi og trúverðugan hátt. En hæstv. ráðh. fullyrðir að þarna sé um fullkomna sannfæringu að ræða, alvörumál og ekkert aprílgabb.

Það er mikið talað um það nú og ekki að ófyrirsynju að við lifum á erfiðum tímum. Með tilliti til þess eru næstum dag hvern nýjar álögur lagðar á þjóðina. Og eins er mikið talað um það að við þurfum að koma á auknum sparnaði í okkar ríkisrekstri, þar þurfi að spara. Það er því von að fólk sé nokkuð undrandi þegar fram kemur frv. sem beinist alveg í þveröfuga átt

og að því er ég held að flestir telji í algjörlega þarflausa átt. Ég hef hlaupið yfir þessa ítarlegu grg. Satt er það, ítarleg er hún, og hún er ákaflega ágæt vegna þess að þetta rifjar upp fyrir manni söguna og er að því leyti til ljómandi lesning. En þessi grg, hefur ekki á nokkurn hátt sannfært mig um nauðsyn þess að fjölga biskupum hér á landi.

Nú er það hins vegar tekið fram af hæstv. ráðh., að þetta sé aðeins sett fram til kynningar nú, og eins er tekið fram í 1. gr. að sú skipan, sem hér um ræðir, skuli komast á þegar fé er veitt á fjárlögum í þessu skyni. Má þá kannske vera að á þessu geti orðíð alllöng bið og því ekki ástæða til að hafa mjög mörg andstöðuorð hér við. En óneitanlega skýtur þetta frv. mjög skökku við allt tal ráðamanna í dag um að við eigum að halda að okkur höndum, við eigum að spara í ríkisrekstrinum og við lífum á erfiðum tímum. Það er þetta sem ég hef fundið að fólk er töluvert undrandi á, alveg sérstaklega frá hendi þessa hæstv. ráðh.

Ég held að það sé alveg öruggt mál að biskupi Íslands séu ekki ofviða þau verkefni sem hann hefur í dag. Mér sýnist starfssvið hans ekki á nokkurn hátt vera slíkt. Hann hefur sér við hönd öruggan og ágætan biskupsritara, og ég hygg að hann sé ekki heldur ofhlaðinn störfum þó að hann sinni málefnum landsins alls. Ég ræddi þetta mál á sínum tíma við fyrrv. biskupsritara og hann taldi að hér væri síður en svo um það að ræða að starfið væri á nokkurn hátt ofviða fyrir þetta embætti. En það var afkastamaður, það skal játað.

Varðandi málið að öðru leyti vil ég segja það, að hæstv. ráðh. vék hér að hefðinni, og það er kannske það eina sem að baki stendur sem hægt er að líta á með nokkurri sanngirni varðandi virðingu þess ágæta Hólastaðar. En mikið þætti mér nú viturlegra, af því að það er auðveldara og kostnaðarminna, að byrja á byrjuninni og byrja þá á Skálholti og flytja biskupinn þangað. Í svokallaðri stofnananefnd gerðum við einmitt till. um það ákveðið að biskupsembættið yrði flutt austur í Skálholt, svo sem mun hafa verið mikið áhugaefni núv. biskups, þ.e.a.s. áður en hann varð biskup. Og ég hef heyrt þær mótbárur helstar við því að flytja þetta embætti héðan úr Reykjavík í Skálholt að það væri svo geysilega kostnaðarsamt. Hvað þá um nýtt biskupsembætti á Hólum sem ætti að standa undir nafni, ég tala nú ekki um undir virðingu hins forna Hólastaðar? Ég er hræddur um að það kæmi allduglega við pyngju skattborgaranna ef væri farið að endurreisa þá virðingu alla sem Hólastað fylgdi á sínum tíma þegar hann var Í blóma.

Ég vil sem sagt byrja á því og treysti hæstv. kirkjumrh. til þess að hefja þetta starf í sambandi við biskupsembættið á þann veg að flytja biskupsembættið austur í Skálholt. Það væri góð byrjun. Síðan skyldi ég vera til viðræðu einhvern tíma seinna, þegar við lifðum á batnandi tímum vonandi, að endurreisa hinn forna Hólastað. En ég verð bara að segja nákvæmlega eins og er: Mér þykir virðing Hóla ágæt eins og hún er með sinn bændaskóla. Það snertir ekki kirkjuleg málefni, satt er það. En ég dreg í efa að virðing Hóla yrði nokkru meiri þótt þar sæti biskup. Það færi mjög eftir mönnum og aðstæðum öllum. En virðing Hóla gæti orðið mikil ef bændaskólinn þar væri stórefldur og honum veitt betri og meiri aðstaða en nú er og þar komið á fót framhaldsmenntun fyrir bændur og búnaðarráðunauta í landinu. Ég sem sagt mundi miklu fremur kjósa þá skipan mála heldur en að fara að bæta þar við einni silkihúfunni í okkar þjóðkirkju.