06.05.1976
Efri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3713 í B-deild Alþingistíðinda. (3024)

222. mál, fjölbýlishús

Frsm. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki, þó að málið sé viðkvæmt og tiltölulega nýjung í lagasmíði hér á landi, að hafa um það langa framsöguræðu, málið var rætt svo skýrt og skilmerkilega við 1. umr. Þar kom fram, sem einnig er óþarft að vera að fjölyrða um, að meginundirstaðan undir þessu frv. eru breyttir byggingarhættir sem átt hafa sér stað hjá þjóðinni á síðari árum eða jafnvel áratugum eftir að farið var að byggja fleiri en eina íbúð á tiltekinni lóð. Samábyrgð í þessum efnum, sem er óhjákvæmileg afleiðing af slíkum byggingum, hefur valdið viðkvæmum þrætum meðal manna sem búið hafa á þessum lóðum, og allar líkur benda til að ört vaxandi byggðarlög sæki meira til þess að byggja fjölbýlishús í náinni framtíð heldur en þegar hefur verið gert.

Það er því augljóst að nauðsyn ber til að þreifa sig áfram með löggjöf og reglugerðir til þess að gera þetta sambýli bærilegra en í mörgum tilfellum hefur reynst, og um það fjallar þetta frv. Það er svo ekkert nema reynslan sem sker úr um það hvort þarna hefur verið hitt á nákvæmlega réttu leiðina, þá einu réttu. Það er sjálfsagt að þessi lög taki breytingum með hliðsjón af þeirri reynslu sem af lagasetningunni fæst. En ég hygg að enga greini á um það, enda hefur það ekki komið fram, að lagasetning um þetta efni er mjög brýn nauðsyn.

Félmn. þessarar hv. d. kallaði á sinn fund þá aðila, sem að frv. þessu stóðu eða það sömdu, og reyndi eftir föngum að kynna sér hvað lá til grundvallar einstökum greinum þess. Betur þótti fara á því að gera tvær breytingar, sem nánast eru aðeins orðalagsbreytingar og fram koma á þskj. 622. Er brtt. annars vegar flutt að ósk húsnæðismálastjórnar um tilgreinda staðla á byggingum. Hins vegar þótti n. sjálfri fara betur á því, að fengnum umsögnum, að í stað þess að hægt væri að krefjast þess að sá, sem ekki hefði staðið í skilum og færði þannig ábyrgð yfir á sambýlismenn sína, það stendur í frv. að honum sé gert að flytja úr viðkomandi íbúð, þá sé sagt að hægt sé að krefjast þess að hann flytji. Það er kröfuréttur þeirra sem í skilum standa o.s.frv.

Aðrar breytingar leggur félmn. ekki til að gera á frv. Eins og ég sagði, tel ég ekki ástæðu til að tyggja hér upp aftur það sem um málið var sagt við 1. umr., það er mönnum það vel kunnugt, og vísa því til álits þdm., sem fram kom í þeim umr., og þá ekki síst framsöguræðu hæstv. félmrh. fyrir frv.

N. var einróma samþykk því að frv. yrði samþ. með þessum tveimur breytingum á orðalagi.