06.05.1976
Neðri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3723 í B-deild Alþingistíðinda. (3036)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Þó að það kæmi fram í framsögu hjá 1. flm. frv. við 1. umr.flm. væru allir með fyrirvara um einstök atriði, þá er það alveg rétt sem einnig hefur komið hér fram, bæði í framsögu hans og hjá öðrum hv. þm., sem um málið hafa talað og einnig hefur það mjög greinilega komið fram í þeirri n. sem undirbjó frv., að í grundvallaratriðum eru menn almennt efnislega sammála, þ.e.a.s., því er varðar verndun og friðun fiskistofnanna.

Hér er um mjög stórt, viðamikið og þýðingarmikið mál að ræða sem oft hefur valdið miklum umr. á Alþ., þegar það hefur verið til umr. Þykir mér rétt í mjög stórum dráttum að fara nokkrum orðum um þær lagasetningar eða þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögum um bann við botnvörpuveiðum.

Á árunum milli 1960 og 1968 var mjög sótt á það af ýmsum þm., bæði mér og öðrum, að fá nokkra rýmkun á þessum lögum til handa smærri fiskibátum. Um þetta varð aldrei samkomulag á Alþ. fyrr en með frv. sem flutt var af okkur þremur þm. í þessari hv. d. 1968, þar sem gerð var mjög einföld breyting á lögunum, en þó mjög róttæk. Hún var þess efnis að leyfðar skyldu togveiðar á svæðinu frá Horni og austur um að Rauðunúpum inn að 4 mílum fyrir skip allt að 200 brúttótonnum að stærð. Engar till. voru í þessu frv. um breytingar á svæðinu fyrir Austurlandi, en á svæðinu frá Stokksnesi að Reykjanesi var gerð sú breyting að skipum allt að 200 brúttótonn að stærð skyldu heimilaðar veiðar allt inn að þremur mílum frá fjöruborði meginlandsins. Frv. þetta náði fram að ganga, var samþ. einróma, mótatkvæðalaust í þessari hv. d. og ég held einnig í hv. Ed, hinn 18. des. 1968. Var þetta fyrsta breytingin sem um langan tíma hafði verið gerð á lögum um bann gegn botnvörpuveiðum og fór þannig í gegn, þó að um mjög róttæka breytingu hafi verið að ræða, eins og ég sagði áðan. Það var engu breytt á svæðinu frá Reykjanesi að Horni, var látið standa óbreytt eins og svæðið fyrir Austurlandi, eins og ég gat um áðan.

Næsta breyting, sem gerð var á lögunum, var einnig mjög viðamikil, en það var sú breyting sem gerð var síðari hluta árs 1969. Það mál var undirbúið af n. sem þáv. sjútvrh. hafði skipað og vann sú n. mjög mikið og viðamikið starf, ferðaðist um landið, átti viðræður við aðila í öllum landsfjórðungum og hlustaði á þeirra umsagnir um þær breytingar sem n. var þá með í huga og stóð síðan að flutningi frv. sem náði samþykki, varð að lögum með til þess að gera litlum breytingum frá því sem það var þegar það var lagt fram.

1973 var enn gerð breyting á lögunum. Sú breyting var undirbúin á nákvæmlega sama hátt og breytingin sem gerð var 1969. Sjútvrh. skipaði n. til að undirbúa breytinguna á lögunum og var hún að mestu leyti skipuð sömu mönnum og skipuðu n. frá 1969. Hún hafði sama hátt á og hin fyrri nefnd. Hún ferðaðist um landið, hélt fundi í öllum landsfjórðungum og hlustaði enn á allt hagsmunaaðila og dró sínar ályktanir eftir því sem hún taldi eðlilegt, af því sem fram kom á þessum fundum.

Það þarf ekki að lýsa því, það hefur verið gert hér áður, að það kom greinilega í ljós strax 1969 að mjög skiptar skoðanir eru um þetta mál svo að segja innan hvers byggðarlags og einnig heildarsamtaka bæði sjómanna, útgerðarmanna og fiskvinnslumanna. En breytingin, sem gerð var 1973, náði einnig samþykki til þess að gera mjög lítið breytt frá því að frv. var lagt fram. Það var þá einnig lagt fram sem þmfrv.

Samkv. þeim lögum bar að endurskoða lögin og skyldi það gert fyrir árslok 1975, Sú endurskoðun eða undirbúningur þeirrar endurskoðunar fór fram á nokkuð annan hátt en áður hafði verið. Núv. hæstv, sjútvrh. skipaði n., að ég held 5 manna, frá hagsmunaaðilum, þ.e.a.s. útvegsmönnum, fiskiðnaðarmönnum og sjómönnum, og auk þess var fiskimálastjóri formaður n. Þessi n. lagði mjög mikið starf af mörkum, fór ítarlega í gegnum lögin og þær breytingar sem hún taldi að þyrfti á þeim að gera, enda tók hún sér mjög góðan tíma til starfa. En þessari n. tókst ekki að ljúka störfum á síðasta ári þó að breytingin hefði átt að vera orðin lögfest fyrir áramót, og að mig minnir í okt. voru skipaðir 7 þm. frá öllum flokkum í n. til viðbótar þeim aðilum sem þar voru fyrir. Umr. urðu miklar í n. og skoðanir þm. og nm., sem áður höfðu starfað, voru í mörgum atriðum mjög skiptar og misjafnar. En til þess að fá þó endi á málið og til þess að fá það út úr n. varð að samkomulagi að búið var til frv., sem nm. stóðu allir að, með fyrirvara hver fyrir sig um ýmis ákvæði frv., og var það þannig afhent sjútvrn. Það frv. hefur nokkuð verið unnið upp og kemur nú fram hér á Alþ. í meginatriðum eins og n. hafði gengið frá því, þó að nokkrar breytingar væru þar á.

Eins og ég sagði í upphafi, þá liggur það fyrir að þó að nm. hafi greint á um ýmis atriði og þó að flm. frv. hafi greint á um ýmis atriði, þá hafa allir haft það að leiðarljósi að hér væri það mikið nauðsynjamál á ferð, sérstaklega eins og nú stendur á með fiskistofna kringum landið, að menn yrðu að gæta mjög hófs í því að flytja brtt. sem kynnu að valda því að framgangur málsins tefðist og frv. næði kannske ekki fram að ganga á þessu þingi eða fyrir þinglok, sem ég held að við séum þó allir sammála um að sé alveg nauðsynlegt. Við erum allir mjög sammála um, eins og ég tók fram áðan, að herða beri ákvæði frá gildandi lögum að því er varðar verndun og friðun fiskistofna og að veita sjútvrh. og sjútvrn. meiri rétt til aðgerða heldur en þó felst í hinum fyrri lögum og er í gildandi lögum, því að það hefur sýnt sig að þau ákvæði, sem ætlast var til að veittu sjútvrh. nokkuð viðtækan rétt til ýmissa ráðstafana, reyndust of seinvirk í framkvæmd. Að því er stefnt í þessu frv. að Hafrannsóknastofnun og sjútvrn. hafi umboð og fullt leyfi til þess að gera mjög ákveðnar ráðstafanir ef svo ber við að þeir aðilar, sem best fylgjast með þessum málum, þ.e. starfsmenn Hafrannsóknastofnunar, telja til þess ástæðu í sambandi við bæði seiðadráp og smáfiskaveiði. Um þetta erum við allir sammála, eins og ég hef áður fram tekið. En okkur kann að greina eitthvað á um þær leiðir sem við teljum að best megi að haldi koma.

Hv. síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Vestf., vék hér nokkuð að netaveiðum og togveiðum. Ég get verið honum alveg sammála um það að reglugerðin, sem á sínum tíma var sett um takmörkun fjölda netaveiðarfæra hjá hverjum bát, hafi því miður ekki komið til þeirra framkvæmda, sem til var ætlast af þeim mönnum, sem þáltill. fluttu í því sambandi, og þeim mönnum, sem studdu framgang þess máls hér á Alþ. Þetta ber vissulega að harma. En ég held að við í dag, miðað við aðstæður og þegar við stöndum frammi fyrir því að þorskstofninn hefur minnkað svo mjög að menn eru almennt mjög uggandi um að það geti mjög illa farið ef ekki verði gripið til alveg sérstakra ráðstafana, þá hljóti mjög að koma inn í það dæmi og allar aðgerðir, sem gera þarf Í sambandi við veiðarnar, á hvern hátt dregið verði úr veiðum á smáfiski. Menn greinir mjög á um það hvað skuttogararnir nýju séu stórtækir í þessu sambandi. Því hefur verið haldið fram, bæði hér á hv. Alþ. og í þeirri n., sem undirbjó þetta frv., að það ættu sér stað slíkir hlutir í sambandi við veiðar skuttogaranna að þar yrði að beita mjög ströngum og ákveðnum aðgerðum. Við höfðum heyrt það í undirbúningsnefndinni af einum nm. að menn í landi á Vestfjörðum hefðu á það hlustað í tali á milli tveggja togara sem voru að ræða sin aflabrögð að þeir voru að fá 10–14 tonn í hali, en hirtu aðeins af þessum fiski 2–3 tonn, hinu var mokað í sjóinn aftur. Ef slíkt byggist á einhverjum staðreyndum, þá sjá allir hvert stefnir í sambandi við hugmyndir okkar um heildarveiðimagn af þorskstofninum eða það sem talið er að við megum taka af þorskstofninum á þessu ári. Og mér er alveg ómögulegt að skilja hvernig Hafrannsóknastofnunin og hæstv. sjútvrh. ætla að ákveða eitthvert heildarmagn ef eru rök fyrir því að smáfiskur sé drepinn í það stóru magni að það séu kannske allt að 2/3 hlutar í vissum tilfellum sem mokað er í sjóinn aftur af smáþorski sem inn á dekk skipsins kemur. Ég held að það hljóti að vera mjög erfitt fyrir aðila að ákveða heildarmagn nema það liggi alveg ljóst fyrir einnig hvað mikið af smáfiski er drepið og mokað út aftur, því að auðvitað verður það að takast inn í dæmið ef á að áætla stærð þorskstofnsins og ákveða það magn sem veiða má. Menn hafa verið í þessu sambandi með ýmsar hugmyndir um aðferðir sem að haldi mættu koma og nægilega róttækar væru. Ég vil í því sambandi leyfa mér — með leyfi forseta — að lesa hér upp samþykkt frá 34. Fiskiþingi sem haldið var á s.l. hausti, en þar segir svo í 7. gr. samþykktar Fiskiþings:

„Skipstjórnarmönnum er skylt að hirða og flytja að landi allan þann fiskafla, er þeir drepa við veiðarnar, og skila við löndun sundurliðaðri skýrslu um tegundir, magn og veiðisvæði. Fiski undir lágmarksstærð skal haldið aðskildum frá öðrum afla í veiðiskipi og landa honum í umsjá ferskfisksmats Framleiðslueftirlits sjávarafurða. Andvirði afla, sem umfram er 5% af heildarþunga og smærri er en lágmarksstærðir, skal renna til Landhelgissjóðs. Á sama hátt skal fara með allan afla sem ekki nær mati gæðaflokka í flokkun ferskfiskmatsins.“

Þessi samþykkt Fiskiþings frá því í haust kom mjög til umræðu á nefndarfundum við undirbúning þessa máls, en menn höfðu á þessu misjafnar skoðanir og það, sem vakti athygli mína, var að fulltrúar togaraeigenda töldu þetta mjög erfitt í framkvæmd. Þetta hefur einnig heyrst að ég hygg bæði hér á Alþ. og eins í sjútvn. þessarar hv. d., að togaraeigendur telji þessa samþykkt mjög erfiða í framkvæmd. En þá hlýtur að vakna sú spurning, ef þetta mál er erfitt í framkvæmd, að þá hljóti að eiga sér stað miklu meira smáfiskadráp heldur en við þó teljum okkur vita um, því að ef það væri aðeins um lítið magn af smáfiski að ræða sem togararnir fengju í vörpur sínar og innbyrtu, þá væri þetta ekkert vandamál.

Ég vil benda á að ef sett yrði inn í frv. eitthvert slíkt ákvæði, þá auðvitað mundi það jafnhliða ná til þeirra báta sem togveiðar stunda, því að vel kann að vera að einnig þeir fái smáfisk í sín veiðarfæri, og vitað er að þeir fá vissar tegundir af flatfiski sem þeir kæra sig lítið um að koma með að landi. En auðvitað yrði þetta einnig að ná jafnt til þeirra.

Í sambandi við aðrar ráðstafanir tel ég að hv. Alþ. hljóti að hafa þau sjónarmið sem ég hef verið áður að lýsa og vonast til að um verði alger samstaða, að það, sem auðvitað ber að gera, er er friða hrygningarsvæði þorsksins á svæðinu frá Stokksnesi og alla leið að Látrabjargi. Það er vitað að fiskur hrygnir á tilteknum svæðum á öllu þessu svæði. Það hefur verið með reglugerð tekið allstórt svæði af Selvogsbanka, ég man nú ekki alveg fermílnafjöldann á því, en hygg þó að hann muni vera á milli 500 og 700 fermílur. Þetta er mjög stórt svæði og er á miðju Selvogsbankahrauninu, og ég held að allir séu sammála um þessa aðgerð. Og við verðum að vona að með friðun á svo stóru svæði á aðalhrygningarstöðum þorsksins, þá beri það þann árangur að hrygning takist betur en ef veiðar væru stundaðar með netum óhindrað á öllu svæðinu. Ég hef persónulega trú á því að með öðrum aðgerðum verði það til þess að vinna þorskstofninn upp aftur þótt það að sjálfsögðu taki sinn tíma. Ég minnist þess í þessu sambandi að vestmannaeyingar samþykktu á sameiginlegum fundi skipstjórnarmanna, sjómanna og útvegsmanna í Eyjum þegar á árinu 1957 að fara fram á við þáv. hæstv. sjútvrh. að friða tiltekin hrygningarsvæði vestan við Vestmannaeyjar sem þá voru einvörðungu veiðisvæði Vestmannaeyjabáta. Á þeim tíma voru aðrir bátar ekki farnir að sækja á þetta svæði, en þrátt fyrir það óskuðu þeir, sem sjávarútveg stunduðu í Vestmannaeyjum á þessum tíma, þ.e. útgerðarmenn, skipstjórnarmenn og sjómenn, að tiltekin svæði á þeirra eigin veiðisvæði, sem þá var, yrðu friðuð um hrygningartímann. Því miður varð hæstv. ráðh. ekki við þessum tilmælum eftir að hafa fengið um það umsögn frá fiskifræðingum.

Ég tók þetta mál upp síðar með þáltill. 1961 og var málíð þá tekið til umr. í sjútvn. N, sendi það rétta boðleið til fiskifræðinga, en því miður kom þá aftur í ljós að þeir töldu á þeim tíma að netaveiðarfæri væru ekki það afkastamikil að þau gætu drepið það mikið magn af þorskstofninum, hrygningarstofninum, að það hefði nokkuð að segja, það færi aðeins eftir því hvernig til tækist með klakið hversu stór sá árgangur yrði sem út úr þeirri hrygningu kæmi. Þetta varð auðvitað til þess að n. treysti sér ekki til þess að skila áliti á þeim grundvelli sem þáltill. mín gerði ráð fyrir, en gerði þó um þetta almenna samþykkt um friðun hrygningarsvæða við landið. En það mál fékk aldrei neinn byr eða neinar undirtektir og því miður lá það allt of lengi í salti hjá þeim aðilum, sem auðvitað hefðu átt að taka það til skoðunar, og enginn skriður komst á þetta mál fyrr en reglugerð var sett, ef ég man rétt, 14. júlí 1973 um friðun hrygningarsvæðis á Selvogsbanka.

Þetta er nú allt liðin tíð. Mér þótti rétt í sambandi við þetta mál að benda á það sem áður hafði komið fram í sambandi við hugsanlega friðun hrygningarsvæða og auðvitað var gert í þeim tilgangi einum að koma við verndun á þorskstofninum, forðast ofveiði, ef hægt væri, með slíkum aðgerðum.

Í sambandi við hina hliðina á málinu, þ.e. verndun uppeldisstöðva ungfisksins, þá er sem betur fer kominn á það allverulegur skriður, búið að gera þar á undanförnum árum nokkuð róttækar ráðstafanir og ég vil mjög viðurkenna og þakka hæstv. núv. sjútvrh. fyrir þá afstöðu sem hann hefur tekið í því máli, því að það er með reglugerð, sem hann gaf út, að hið stóra svæði fyrir Norðausturlandi var allt friðað fyrir togveiðum allt árið. Áður hafði verið gefin út um það reglugerð að friða þetta svæði í aðeins tvo mánuði sem auðvitað segir að mínum dómi ekki neitt til um það hvort slíkar ráðstafanir bera árangur eða ekki. En við verðum að vona að bæði friðun þessa svæðis, þessa uppeldissvæðis ungfisksins, og önnur friðunarsvæði, sem nú hafa verið friðuð með útgáfu reglugerðar, sýni innan ekki of langs tíma að þessar ráðstafanir beri árangur.

Það, sem ég er nokkuð uggandi yfir og er það sérstaklega í sambandi við friðun á svæðinu hér við Suðurland, hrygningarsvæðinu, er að ekki hafi frá upphafi verið fylgst nægjanlega með hvort skip og bátar sæktu inn á þetta svæði.

Ég spurðist fyrir um það hjá hæstv. fyrrv. sjútvrh., hvaða ráðstafanir hefðu verið gerðar í sambandi við útgáfu reglugerðarinnar með eftirlíti af hendi Landhelgisgæslunnar sem þá eins og nú var störfum hlaðin og önnum kafin við önnur störf en gæslu hér á grunnslóðum. Hygg ég að það hafi farið mjög úrhendis að nægilegt eftirlit væri haft með veiðum á þessu svæði, og ég óttast að þetta hafi einnig átt sér stað nú undanfarin ár, bæði á s.l. vertíð og einnig nú í vetur, og hafi ekki verið komið í veg fyrir að bátar væru með veiðarfæri inn á þessu svæði. En eftirlit á þessu svæði getur verið mjög einfalt. Ég tel að það þurfi ekki nema einn bát af meðalstærð, 100 tonna bát, sem lægi inni á miðju svæðinu. Hann gæti gegnum sín radartæki fylgst með öllum skipaferðum um svæðið og mundi vera fljótur að átta sig á hvort um veiðiskip væri að ræða sem legðu net sín á þau svæði eða stunduðu þar togveiðar. En þetta hefur því miður ekki verið gert á þennan hátt, og ef ekki verður nægjanlegt eftirlit og alveg öruggt eftirlit með að ekki eigi sér stað veiðar á hinum friðuðu svæðum, þá auðvitað ber þessi viðleitni ekki árangur og við fáum skakka mynd út úr dæminu og rangar hugmyndir um hvers virði slíkar aðgerðir eins og hér hafa átt sér stað raunverulega eru. Mér er ekki heldur kunnugt um hvort fiskifræðingar hafa nokkuð fylgst með því t.d. hvort fiskmagn á hinu friðaða svæði á Selvogsbanka hafi aukist á undanförnum 3–4 árum sem reglugerð er búin að vera í gildi um bann við veiðum á þessu svæði. Ég hef aldrei heyrt neitt orð um það frá neinum aðila, hvort það hafi verið kannað hvort þetta hafi borið árangur eða ekki. En þetta er auðvitað mjög auðvelt að gera. Það er hægt með mælitækjum að kanna hvort meiri fiskur er á þessu svæði eða utan við það, og ég vil beina því eindregið til hæstv. ráðh., þó að nú sé nokkuð á tímann liðið sem þessi friðun stendur yfir, að það verði gerðar ráðstafanir til þess ekki aðeins að vernda svæðið, heldur einnig að kanna hvort fiskifræðingar telji að þetta beri þann árangur sem menn hafa verið að vonast eftir.

Ég var einn af þeim flm. sem áskildu sér rétt, bæði þegar við skiluðum nál. til rn. og eins þegar þetta frv. var lagt hér fram, til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kynnu að koma. En ég tel að nokkurt samkomulag í rétta átt hafi náðst í hv. sjútvn. Nd, sem nú hefur skilað áliti og brtt., og þar sem ég tel, eins og ég hef áður sagt, að allar breytingar kunni að tefja framgang málsins, þá hef ég tekið þann kostinn að flytja a.m.k. enn þá enga brtt., því að ég tel svo mikilvægt að málið nái fram að ganga nú á þessu þingi að ég tel að þm., þótt þeir hafi ýmsar skoðanir á ýmsum greinum frv. og telji að þær mættu á annan veg vera, þá beri þeim að stilla mjög í hóf að gera nokkuð í því að flytja till. sem gætu orðið til þess að tefja framgang málsins. Ég var frá upphafi t.d., svo að ég bendi á eitt atriði, mjög mótfallinn því að horfið væri frá hinum fyrri grunnlínupunktum sem voru í sambandi við veiðar íslenskra skipa innan fiskveiðilögsögunnar og ákveðnir voru í reglugerð þegar útfærsla hafði átt sér stað, og voru þeir við útgáfu reglugerðarinnar frá 1973 38 talsins, ef ég man rétt. Nú er bætt við nýjum viðmiðunarpunktum, sem n. kallar, 49 talsins. Ég held að úr þessu sé gerð allt of mikil flækja fyrir þá aðila sem eiga að hafa eftirlit með veiðunum og hjá þessu hefði greinilega mátt komast ef samkomulag hefði verið um það í undirbúningsnefndinni að halda sig að hinu einfaldara kerfi sem áður gilti. Sannarlega kom aldrei neitt Í ljós sem ég tel að ylli neinum vandræðum eða töfum Í sambandi við eftirlit hjá landhelgisgæslunni eða framkvæmd málsins.

Þá var annað atriði sem ég vildi nú óska upplýsinga um hjá hæstv. ráðh., en ég sé ekki að hann sé hér í salnum og ber að harma það að hann skuli ekki hafa aðstöðu til að vera hér þegar þetta mál er rætt við 2. umr. En vonandi kemst þó fsp, mín til hans eða henni verði komið á framfæri við hann, en hún er varðandi 14. gr., 2. mgr., hvernig sú heimild, sem frv. gerir ráð fyrir að honum verði veitt, verði framkvæmd. En 2. mgr. 14. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðh, getur einnig ákveðið í reglugerð að aðrar veiðar í tiltekin veiðarfæri skuli háðar sérstökum eða almennum leyfum.“

Það er áður í greininni búið að tilgreina þær veiðar, sem leyfum eru háðar, en það eru leyfi til að veiða humar, síld, loðnu, spærling, kolmunna. Var ekki ágreiningur um það. Þó að menn settu fram þá skoðun að eðlilegra væri að ákveða heildarmagn af hverri tegund sem veidd er, þannig að rn. í samráði við Hafrannsóknastofnun setti ákvæði um heildarmagn hverrar fisktegundar, þá urðu menn þó um það sammála að enn þá væri kannske ekki ástæða til þess að hverfa frá því kerfi sem í gildi hefur verið í sambandi við þessar veiðar. En ég held að að því hljóti að koma að inn á þá braut verði farið að vera ekki að skammta hverjum og einum bát veiðileyfi, heldur verði heildarmagnið ákveðið og útgerðarmenn og sjómenn séu látnir sjálfráðir um það hvernig þeir nota þá aðstöðu sína meðan heildarmagnið hefur enn ekki verið fullveitt.

Ég vil endurtaka fsp. mína til hæstv. sjútvrh., af því að hann er kominn hér í salinn, en hún var varðandi síðari mgr. 14. gr. þar sem sagt er:

„Ráðh. getur einnig ákveðið í reglugerð að aðrar veiðar í tiltekin veiðarfæri skuli háðar sérstökum eða almennum leyfum.“

Ég á við með þessu hvort það liggi fyrir að rn. sé með í huga að ákveða t.d. um tiltekin skip sem stunda togveiðar, hvort það er togari eða bátar, — hvort það muni verða ákveðið í leyfi sem þeir kunna að fá samkv. þessari heimild hve mikið magn þeir megi veiða annaðhvort á tilteknum tíma eða yfir árið og eins hvort þetta mundi gilda t.d. um netaveiðar, að það væri ákveðið í leyfi, sem kynni að verða gefið út til báta sem vilja stunda netaveiðar, að þeir mættu aðeins veiða tiltekið magn, en yrðu að hætta þegar því marki væri náð. Ég ætla að bíða með að segja álit mitt um þetta þar til ég heyri svar hæstv. ráðh. við því hvernig hann telur að þetta ákvæði verði framkvæmt, ef það verður samþ. eins og það kemur fram í síðari mgr. 14, gr.

Ég vil aðeins undirstrika það sem ég sagði, að ég tel í sambandi við bæði botnvörpuveiðar og hugsanlegar neta- og línuveiðar að ef þarf að ákveða hámarksmagn sem leyft er að veiða af þorski í þessi veiðarfæri, þá verði ekki farið út í að skammta það í smáum stíl handa einstökum veiðiskipum, heldur verði heildarmagnið ákveðið, að sjálfsögðu í samráði við Hafrannsóknastofnun, annaðhvort í tiltekinn tíma á ári eða heildarmagn yfir árið og síðan verði skip að hætta veiðum þegar því heildarmagni er náð, en þau hafi frjálsar hendur með að keppa innbyrðis um veiðarnar meðan verið er að veiða upp í fyrir fram ákveðið heildarmagn. Ég tel að ef á annan veg væri farið, þá mundi það setja mjög annan svip á allar veiðar. Það mundi draga úr hinum sæknu og sæknustu fiskimönnum og kannske setja veiðarnar niður á meira meðalmennskustig heldur en ég tel að beri að gera. Ég tel að menn eigi að hafa sem frjálsastar hendur um veiðarnar, það aflamagn sem þeir geta náð í með veiðarfæri sem þeir stunda, þó að ég viðurkenni að í einstökum smærri atriðum, eins og t.d. í sambandi við rækju og skelfisk og hinar viðkvæmustu tegundir, þá sé kannske enn ástæða til að vera með skömmtunarkerfið þó að vissulega beri að stefna að því að það verði afnumið.