06.05.1976
Neðri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3730 í B-deild Alþingistíðinda. (3037)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er eins og frsm. málsins gat um, 1. flm., búið að vera lengi í smíðum og ræða við allmarga aðila víðs vegar um landið, Það er mikið vandaverk að semja slíkt frv. sem þetta, og það fer aldrei svo að það sé hægt að gera alla ánægða með það frv. og þær ráðstafanir sem þarna verður að gera. En það er eins með þetta nú og jafnan áður, að þm. hafa reynt að skilja sjónarmið hver annars og slá af sínum kröfum, bæði fyrir sín byggðarlög og skoðunum sínum um viðhorf, bæði í hinum einstöku veiðigreinum og sömuleiðis í sambandi við stjórnun og skipulag veiða. Ég tel að þegar á allt þetta er litið hafi vel tekist til um samningu þessa frv., og um þær brtt., sem hv. sjútvn. flytur, er ég n. sammála í öllum atriðum. Ég tel að þar hafi verið gerðar skynsamlegar og eðlilegar breytingar og tekið mið að ákveðnum, tilfinnanlegum vandamálum sem ekki varð komist hjá að taka tillit til.

Ég vil fyrst og fremst þakka fiskveiðilaganefndinni fyrir störf hennar, bæði hinni upprunalegu n. og sömuleiðis þeim þm. sem unnu í n. Þetta er, eins og ég sagði áðan, mjög vandasamt starf. Og síðast, en ekki síst vil ég þakka flm. þessa frv. fyrir framlag þeirra og sjútvn. fyrir störf hennar við að koma þessu máli áleiðis.

Ég ætla ekki að ræða þetta mál neitt efnislega. Það hefur verið gert á svo margan hátt áður og þá ekki síst af 1. flm. frv. En út af fsp. hv. 3. þm. Suðurl. varðandi hvern skilning ég hefði á 14. gr. þessa frv., þá vil ég taka það fram að þær veiðar, sem eru háðar leyfum, eru ekki skammtaðar í raun og veru á hvern bát þannig að allir bátar fái jafnan afla. Þar er tekinn hámarksskammtur eins og á skelfiskveiðum. En það segir ekki, þegar veiði er treg, að hver bátur nái sínum hámarksskammti, enda er aflamunur mjög mikill á þessum veiðum viðast hvar og mjög mismunandi frá ári til árs. Hins vegar er ein veiðitegund sem hér er um að ræða, síldveiðarnar, sem hafa verið leyfðar aðeins á s.l. hausti, þar fengu öll skip sinn kvóta uppfylltan vegna þess að hér var um svo lítið magn að ræða sem var til skipta að auðvelt var fyrir hvern og einn að veiða sitt aflamagn og það á mjög skömmum tíma. Þetta fyrirkomulag varðandi síldveiðarnar verður vafalaust með mjög svipuðum hætti og það var á s.l. sumri. Sama er að segja um aðrar síldveiðar og sérstaklega síldveiðar í Norðursjó. Hins vegar er við veiðar á þeim fiski sem nóg er til af og engar slíkar takmarkanir þarf að setja, þar er sóknin leyfð alveg skilyrðislaust, eins og í loðnuveiðarnar, og þar er líka mjög mikill munur á aflamagni skipa. Það fer eftir stærð skips, gerð veiðarfæra og síðast, en ekki síst dugnaði skipstjórnarmanna og annarra skipverja.

Varðandi það ákvæði að ráðh. geti einnig ákveðið í reglugerð að aðrar veiðar í tiltekin veiðarfæri skuli háðar sérstökum eða almennum leyfum, um það get ég ekki fullyrt hvernig það verður útfært ef til þess þarf að koma. Það eru miklar líkur á að setja verði hömlur á þorskveiðarnar á meðan núverandi ástand varir. En það vil ég taka fram, að ég er því mjög mótfallinn að skipta aflamagni á þorskveiðum niður á skip þannig að það verði skornir helst niður þeir sem best hafa aflað á undanförnum árum, því að með því að taka upp slíkt fyrirkomulag værum við hreinlega að refsa þeim sem mest hafa aflað og sýndu mestan dugnað við veiðar, og það er aðferð sem ég mun ekki beita ef til þessara takmarkana kemur. Hitt er svo annað mál, að þær takmarkanir, sem gera þarf og ég tel hugsanlegt að verði gerðar, þær verði látnar ganga jafnt yfir alla, þannig að verði stöðvaðar veiðar tiltekinn dagafjölda, þá gangi það auðvitað jafnt yfir öll skip, hvar sem er á landinu og hvaða tegund veiðarfæra sem er. Hins vegar eru auðvitað hömlur settar á veiðar með gerð veiðarfæra og með takmörkuðu magni veiðarfæra, eins og t.d. netafjölda og með stækkun möskva í botnvörpu. Á þennan hátt hyggst ég reyna að ná þessari takmörkun fram og með stöðvun um nokkra daga eða nokkrar vikur í senn ef við sjáum að við þurfum endilega að taka þessar ákvarðanir til þess að ganga ekki of nærri þorskstofninum. Hitt tel ég, og það er mín afdráttarlausa skoðun, að það komi aldrei til greina að veiði duglegustu og mestu aflamannanna verði skorin meira niður en veiðar annarra. Þess vegna tel ég að það komi aldrei til greina að setja aflakvóta á hvern bát eða hvern togara.