06.05.1976
Neðri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3741 í B-deild Alþingistíðinda. (3041)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Jón Skaftason:

Virðulegi forseti. Ég skal nú ekki verða til þess að lengja þann tíma sem þetta merkilega frv. okkar hefur tekið hér í hv. d. Ég get tekið undir flest af því sem meðflm. mínir hafa sagt um frv. Á það ber að sjálfsögðu að líta sem nokkurs konar málamiðlun sjónarmiða höfunda og flm. sem að sjálfsögðu falla í sumum atriðum ekki algerlega saman við skoðanir hvers og eins ef færi væri á að koma þeim fram. En það er eðli málamiðlunar að allir verða að slá eitthvað af sínum ítrustu óskum og á því byggist frv. gerðin.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur verið sagt, að það yrði að mínu viti afskaplega erfitt ástand sem mundi ríkja ef þetta frv. næði ekki fram að ganga á þessu þingi. Raunar var gert ráð fyrir því í gildandi lögum að lögin skyldu endurskoðuð fyrir s.l. áramót hvað ekki tókst vegna þess að verkefnið er erfitt. Við erum nú að fá upplýsingar um lélegt ástand ýmissa helstu nytjafiska við landið sem gerir þessa frv. gerð enn þá erfiðari.

Ég vil taka undir það að tvö sjónarmið réðu fyrst og fremst afstöðu frv.-höfunda. Það er einlæg viðleitni þeirra að setja þær reglur sem til þess væru fallnar að koma í veg fyrir að smáfiskadrápið gengi Í jafnríkum mæli áfram eins og því miður hefur verið til þessa, og vil ég vitna til ræðu hv. þm. Garðars Sigurðssonar áðan, sem talaði að mínu viti afar skynsamlega um nauðsyn þess að leyfa þorskárganginum 1973 að komast upp. Og til þess er fyrst og fremst það ráðtekið að leggja til, þó að það hafi að vísu verið gert með reglugerð, að stækka mjög möskva í togveiðarfærum og enn fremur að reyna að draga úr sókninni á þeim veiðisvæðum sem vitað er að smáfiskurinn elst aðallega upp á.

En þessi var ekki ástæðan fyrir því að ég kem hér upp, að endurtaka neitt af því sem félagar mínir hafa um þetta sagt, að mínu viti flestallt mjög skynsamlega og réttilega, heldur var tilefnið ræða hv. síðasta ræðumanns, Páls Péturssonar, sem vék að ákvæði til bráðabirgða í brtt. sem sjútvn. flytur við frv. Hann sagði þar að ákvæði til bráðabirgða viki fyrir almennum lagagreinum og uppí væri visst vandamál á Sauðárkróki um veiðiheimildir, eins togskips vegna breytinga sem frv. hefur í för með sér. Ég veit að það er rétt sem hann segir. En hitt er rangt hjá honum, að ákvæði til bráðabirgða hafi ekki nákvæmlega sama lagagildi og aðrar brtt. n. Það hefur sama lagagildi og sjálfar frv.-gr. Þó viðurkenni ég að það er ekki alveg ljóst hvernig skilja beri ákvæði til bráðabirgða miðað við ákvæði í 3. gr. frv. Ég vil þó taka það fram og undirstrika að ákvæði til bráðabirgða er sett inn til þess að koma í veg fyrir að viss skip, sem eru á stærðarmörkunum og missa veiðiréttindi við þá breytingu sem nú á að taka upp, þ.e.a.s. að lengd skipanna á að ráða um veiðiheimildir í stað brúttósmálestatölu áður, að þau missi einskis í við þessa breytingu. Þegar á það er litið að það er megintilgangur þessa bráðabirgðaákvæðis, þá mundi ég vilja túlka það svo lagalega að þetta ákvæði ætti einnig að ná til þess skips sem hér hefur verið lítillega talað um. En ég viðurkenni að þetta er ekki alveg ljóst. Ég tel því að það ætti að fá sérstaka lagalega skoðun á milli 2. og 3. umr. hvort þessi skilningur minn er réttur eða ekki, því ef hann er rangur, þá er þarna um að ræða einstakt tilfelli, einstakt vandamál, sem skapast við það að breyta um stærðar mælingu, ef svo mætti segja, skipa. Grundvallarhugsun okkar í sjútvn. var sú, að þau fáu skip, sem lentu í vandræðum út af þessum breytingum, skyldi ekki missa réttindi. En sem sagt, ég tel að það sé eðlilegt að þetta verði athugað lögfræðilega á milli 2. og 3. umr., hvort þessi skilningur minn er réttur. Sé hann ekki réttur, þá kemur til athugunar hvað eigi að gera um þetta einstaka, takmarkaða tilfelli.