06.05.1976
Neðri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3742 í B-deild Alþingistíðinda. (3042)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð, með því sem ég hygg að þessari umr. sé að ljúka.

Ég er mjög ánægður með þær umr. sem hafa farið fram hér um þetta frv. því þær bera með sér að það er viðtækur stuðningur við frv. og gagnrýni í lágmarki. Aðeins vildi ég víkja að því sem hv. síðasti ræðumaður nú orðfærði og hv. þm. Páll Pétursson ræddi hér í sinni ræðu varðandi eitt sérstakt skip, Hegranes, fyrir Norðurlandi.

Í fyrsta lagi liggur ekki fyrir að skipið sé búið aflvél sem er rúmlega eitt þús. bremsuhestöfl. Eftir því sem hann gaf mér upp, þá er aðeins rætt um hestöfl og það kunna að vera, eins og venjulega er mælt, framleidd hestöfl í strokk, sem eru töluvert miklu hærri tala heldur en bremsuhestöfl eða afl á ás. Þetta þarf að kanna. Ég hef leitað úrskurðar skrifstofustjóra Alþ. um þetta atriði, og hans úrskurður er sá, að þar sem skipið er undir 39 metrum, eða 38.22 m í mesta lagi, gildi ákvæði til bráðabirgða um þetta skip. Verði enginn til þess að mótmæla þessari túlkun þá skoða ég hana gilda í sambandi við afgreiðslu þessa máls.

Hann minntist á flotvörpuna og var gagnrýninn á þau leyfi sem til hennar eru veitt. Ég vil upplýsa hann um það að Í reglugerð hefur verið bannað að beita flotvörpu á svæðinu frá Hvítingum og allar götur að Bjargtöngum. Og þetta er svæðið þar sem má segja alfarið er hrygningarsvæði og bannað að beita flotvörpu við þorskveiðar. Á það legg ég áherslu þar sem flotvörpunni má oft beita með miklum árangri við bæði ufsa- og sér Í lagi við karfaveiðar, t.d. hér á Reykjaneshryggnum. Flotvarpan hefur sýnt gildi sitt bæði fyrir Vestfjörðum og Norðurlandi og í hana hefur yfirleitt ekki veiðst smáfiskur, yfirleitt alls ekki.

Það er algengt að menn eru haldnir ýmsum fordómum um hin ýmsu veiðarfæri, en oftast er það á miklum misskilningi byggt. Menn verða að gá að því ef hrygningarfiskur er drepinn t.d. í net, þá gerir það að sjálfsögðu jafnmikinn skaða eins og hann væri drepinn með einhverjum öðrum hætti. Ég held þess vegna að vegna hinna miklu takmarkana eftir reglugerð á notkun flotvörpunnar á þessu stóra svæði til veiða á þorski, þá muni togaraútgerðarmenn ekki frekar ráðast í flotvörpubúnað á skipum sínum en orðið er. Ég held þess vegna að sú takmörkun, sem þegar liggur fyrir samkvæmt þessari reglugerð, sé alveg nægjanleg til þess að draga úr beitingu þessa veiðarfæris sem er ekki hættulegt að mínum dómi nema þegar hrygningarfiskur gengur á riðin því þá gengur hann oft í torfum miðsævis eða alllangt frá botni.

Fleira hefur komið fram í þessum umr. sem ég sé ekki sérstaka ástæðu til að orðfæra nú, en það kunna að vera einstök atriði sem nefndin þyrfti að athuga milli umr. Ég legg áherslu á það við hæstv. forseta, ef þess er nokkur kostur, að 3. umr, geti farið fram nú í dag eða á kvöldfundi.