06.05.1976
Neðri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3743 í B-deild Alþingistíðinda. (3043)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Páll Pétursson:

Virðulegi forseti. Ég ætla að þakka þær yfirlýsingar sem nm. hafa gefið um skilning sinn á þessu máli, og jafnframt lít ég svo á, þar sem ekki hafa komið mótmæli fram frá sjútvrh. við skilningi þeirra og túlkun, að þá liggi það alveg ljóst fyrir, að Hegranes SK-2 falli undir þetta ákvæði til bráðabirgða og sé tryggt að því séu heimilaðar veiðar eins og hliðstæðum skipum.

Hvað varðar flotvörpuna og það, sem síðasti ræðumaður nefndi í því sambandi, þá veit ég að það eru takmarkanir sums staðar á notkun flotvörpu hér syðra og vestra, en hún er leyfð fyrir Norðurlandi þar sem smáfiskurinn frægi virðist nú vera einna efst í hugum manna þegar talað er um lokun veiðisvæða. Og við erum alltaf ákærðir fyrir smáfiskadrápið fyrir norðan. En ég held að það væri ástæða til þess að fara varlega með flotvörpuna og ég er ekki alveg sannfærður um að smáfiskur veiðist ekki í flotvörpu þó að svo væri á hv. síðasta ræðumanni að skilja.

Það eru að vísu slegnir varnaglar í þessu frv. um notkun flotvörpunnar. Sjútvrh. eru veittar heimildir til þess að beita bönnum og skyndiráðstöfunum út af flotvörpunni og ég treysti honum raunar ljómandi vel til þess að láta að sér kveða í því efni.