06.05.1976
Neðri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3750 í B-deild Alþingistíðinda. (3047)

212. mál, upptaka ólöglegs sjávarafla

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér það beint þegar ég kom hingað á hið háa Alþ. í nokkra daga nú í lokin að skipta mér mikið af umr. hér á lokastigi umr. og afgreiðslu mála. Ég get þó ekki setið á mér að taka þátt í umr. um það mál sem hér er á dagskrá, frv. til laga um upptöku ólöglegs sjávarafla. Bæði er að mér finnst frv. þetta mjög vafasamt, þótt ekki sé meira sagt, og í athugasemdum við frv. er farið með sannleikann á svolítið sérstakan hátt.

Þeim orðrómi hefur verið haldið ótrúlega mikið á lofti að íslenskir fiskimenn væru að ganga af flestum fisktegundum við landið dauðum. Það er meira að segja svo, að stjórnmálamenn, sem haldið hafa ræður á sjómannadaginn, a.m.k. í fyrra og hitteðfyrra, hafa ekki nefnt á nafn hina margrómuðu og margföldu afkastagetu hvers íslensks sjómanns í því að drepa fisk miðað við sjómenn annarra þjóða. Það liggur við að manni hafi fundist það mikil ósvinna hjá íslenskum togarasjómönnum að fiska smáfisk á miðunum innan um enska togara. (Gripið fram í.) Af hverju fóru íslendingar ekki á önnur mið og lofuðu bretum að vera einum á smáfiskmiðunum? Manni fannst einhvern veginn að íslenskur fiskimaður væri vondur maður. Þeir fyrir norðan drepa smáfisk og þeir fyrir sunnan búa til netamorkur úr hrygningarfiskinum.

Það var nú svo hér um árið þegar þekktur stjórnmálamaður var með þær hugmyndir og till. að fækka þyrfti bændum, þeir væru of fjölmenn stétt hér á Íslandi, þá svöruðu bændur fyrir sig og gerðu út af við þessa hugmynd það rækilega að fækkun bænda hefur varla komist á dagskrá síðan. Mig furðar að sama skuli ekki hafa skeð í sambandi við sjávarútveg og sjómenn nú undanfarið. Ef svo hefði verið hefði frv. í líkingu við það frv., sem hér liggur fyrir til umr., aldrei séð dagsins ljós.

Það mætti tala langt mál um þá vondu íslensku sjómenn sem veiða í landhelgi, fara inn á friðuð svæði, veiða smáfisk, eru með of mörg net í sjó og gera ýmislegt ljótt af sér. En sumir þessara karla eiga málsbætur og þeir, sem ekki eiga málsbætur, eru pínulítill hluti af íslenskri sjómannastétt. Þeir eru kannske það lítill hluti af íslenskri sjómannastétt að bera mætti þá saman í hlutföllum við þá bændur í Húnaþingi, sem ekki vildu tvíbaða, og hina, sem böðuðu. Ég er svo ekki í vafa um að ekki væri erfiðara að fá þessa fáu sjómenn til að hætta lögbrotum en að fá Björn á Löngumýri til að baða.

Frv. að lögum eins og það, sem hér liggur fyrir, gerir frekar að æsa til lögbrota heldur en hitt. Skipshöfn á íslensku fiskiskipi er mjög mismunandi fjölmenn, getur verið frá einum manni upp í 30. Af hverri skipshöfn er sjaldan nema einn maður ábyrgur. Þar af leiðandi getur ekki orðið nema einn maður sekur í sambandi við þá ólöglegu atburði sem um getur í þessu frv. Mér sýnist því að þetta frv., ef að lögum yrði, næði ekki til annarra skipa en þeirra sem væru með einn skipverja, þ.e. trillukarla á skaki eða grásleppu, jafnvel þó að Gaukur Jörundsson lagaprófessor hafi látið sinn stimpil fylgja þessu lagafrv. hingað í þingið.

Ég hef litið í þau lög sem vísað er til í athugasemdum með lagafrv. þessu, reynt að finna hliðstæðu í málatilbúnaði. Í þeim lögum er tekið fram að skipstjóri sé ábyrgur og jafnvel útgerð. Í því frv., sem hér er til umr., er enginn ábyrgur aðili. Af 30 manna skipshöfn eru því allir samábyrgir og jafnt skaðabótaskyldir.

Ég get ekki látið mér detta í hug að hægt sé að gera upptækan aflahluta skipverja sem unnið hafa við veiðarnar, komið afla fyrir í lest, jafnvel á síldveiðum saltað síld í tunnur og gert hina aðskiljanlegustu hluti, allt án þess að hafa hugmynd um að um lögbrot sé að ræða og allt gert samkv. skipunum þess manns sem þeim ber að hlýða næstum skilyrðislaust samkv. íslenskum lögum. Eftir því sem ég veit best hefur háseti á skipi ekki heimild til að neita skipstjóra sínum um að gera flestöll störf sem gera ber á skipi og hefur enga heimild til að neita því og er jafnvel sekur maður ef hann gerir svo. Vera má að í sjómannalögum sé skipstjóri gerður ábyrgur fyrir slíkum verknaði sem um getur í frv. þessu. Það breytir því þó ekki að í þeim lögum, sem vísað er til í athugasemdum við frv. þetta, er skýrt tekið fram að skráðir skipverjar séu undanþegnir ábyrgð. Þetta á reyndar ekki alveg við um alla hluti sem ske í sambandi við það sem brotlegt er í þeim lögum sem vísað er til í sambandi við þetta. Það er tekið fram um þá aðila sem aðstoða við landhelgisbrot og þess háttar, að þar eru skráðir skipverjar á skipi algjörlega undanþegnir og saklausir menn fyrir rétti þar sem lítið er vitaskuld á það að þeim ber skylda til þess að hlýða sínum skipstjóra undir hvaða kringumstæðum sem er. Ég tel því að í frv., sem hér liggur fyrir, hefði þurft að vera ákvæði um að skipverjar allir, að undanskildum þeim sem ræður, væru undanþegnir skaðabótaskyldu eða upptöku á sínum aflahlut.

Í 3. gr. frv. er svo kveðið á að sjútvrn. skuli gerast lagalegur úrskurðaraðili, enda ekki vonum seinna að létt sé af löggæslu og dómsmrn. störfum. Svo sem heyrst hefur í vetur er það rn. störfum hlaðið. Sjútvrn. skal m.a. byggja úrskurði sína á upplýsingum starfsmanna Framleiðslueftirlits sjávarafurða. Hér mun vera átt við hið svokallaða ferskfiskmat. Eins og hv. alþm. muna sjálfsagt urðu nokkrar umr. bæði hér á hinu hv. Alþ. og í fjölmiðlum um framkvæmd ferskfiskmatsins á síðasta ári. Í þessum umr. kom í ljós að um marga annmarka var að ræða á ferskfiskmatinu og í nokkrum tilfellum var algjörlega gengið fram hjá því og ekkert mat framkvæmt. Liðið er nú meira en ár síðan þessar umr. fóru fram, en ég veit ekki til þess að framkvæmd ferskfiskmatsins hafi í neinu breyst. Um ferskfiskmatið mætti segja ýmislegt og það furðulegt, en ég læt það eiga sig nú. Ég vil þó láta þá skoðun í ljós að það sé mjög vafasamt að hægt sé að láta stofnun, sem meira og minna er sniðgengin vera upplýsingaaðila um hvað sé löglegur eða ólöglegur afli í sambandi við þau lög, sem hér er lagt til. að samþ. verði.

4. gr. margnefnds frv. er að mínu mati pínulítið brosleg og um leið að mestu leyti gagnslaus. Greinin er þó ætluð til þess að vera þungamiðja eða undirstaða undir það að hægt sé að framkvæma lögin. Gagnsleysi og broslegheit þessarar greinar gera það að verkum að greinarnar þrjár á undan eru mjög lítils virði. Hv. alþm. er sjálfsagt kunnugt um að þau eru ekki mörg íslensku fiskiskipin sem ekki hafa rekstrarlán hjá viðskiptabanka. 35% af afla þessara skipa er veðsettur viðskiptabanka. Auk þess er með lögum ráðstafað 10% af aflaverðmæti allra skipa til Stofnfjársjóðs fiskiskipa. Þar ofan í kaupið er oft um ýmsar aukaveðsetningar á afla að ræða, bæði í sambandi við afborganir af skipum og veiðarfærakaupum o.fl. Aðfararrétturinn samkv. 4. gr. er undir mörgum kringumstæðum algjörlega gagnslaus nema fram komi í lögunum að hann sé á undan öllum slíkum kvöðum sem ég hef nefnt hér. Ég fæ því ekki annað séð en jafnvel skriflegur upptökuúrskurður sjútvrn. í afla sé bæði haldlítið og broslegt plagg nema kannske gagnvart trillukörlum sem eru einir á trillum, eins og ég nefndi áðan. Það gæti verið. Þeir eru sjaldan með neinar miklar veðsetningar í kringum sinn afla. Það er kannske hægt að ná upp grásleppuafla og skaki.

Í meðförum hv. Ed. hefur frv. þessu bæst ný grein. Það er ekki gott að segja af hvaða hvötum hún er þar komin inn, en það er þó alltaf hægt að segja að hún gefi frv. aukna breidd. Hún gefur sem sagt ráðh. heimild til þess að gefa út reglugerð til að fylla út í frv. Það hefði verið lítils virði ef hún hefði ekki verið þarna með.

Þá er komið að athugasemdunum, og í upphafi máls míns gat ég þess að þar þætti mér frjálslega farið með sannleikann. Í athugasemdum þessum segir, með leyfi hæstv. forseta, í 2. mgr.:

„Brot á ýmsum veiðireglum, sem settar voru með stoð í lögum nr. 44 5. apríl 1948 eða lögum nr. 102 27. des. 1973, varða sektum, en ekki upptöku afla, og oft getur það gerst að slíkar sektir verða jafnvel mun lægri en andvirði þess afla sem fenginn er með því að brjóta veiðireglur.“ Nú fer nú að koma að aðalþungamiðjunni í þessu: „Síldveiðarnar við Ísland á s.l. hausti geta gefið dæmi um þetta. Eins og kunnugt er var hámarksafli sá, sem hver bátur mátti veiða, 215 tonn síldar. Margir síldarbátanna fiskuðu mun meira en þessum kvótum nam, mismunandi mikið, en allt upp í 144 tonn fram yfir kvótann.

Brúttóverðmæti umframafla þessa báts, miðað við að allt hafi farið í 1. flokk, mun nema 5 millj. 760 þús. kr.“ Og enn þyngir á: „Ekki er vitað til þess að neinn af skipstjórum þeim, sem kærðir voru fyrir að hafa brotið þessa reglu um hámarksafla, hafi enn hlotið sektardóm, en samkv. lögum nr. 44 5, apríl 1948 er ekki unnt að dæma þá í meira en 1 millj. kr. sekt, þannig að ljóst er að sumir hafa hagnast mjög verulega á þessum brotum,“ er sagt hér. „Þetta þykir alls ekki viðunandi, og heldur ekki að menn geti greitt sektir að öllu eða nokkru leyti með ólöglega fengnum afla. Þess vegna er lagt til í frv. þessu að „ólöglegur sjávarafli skuli gerður upptækur.“

Með þessum orðum er gefið beint í skyn að skipstjórar síldveiðiskipa hafi hagnast á ólöglega fengnum afla. Það er hægt að hafa þetta eins og sannleika ef því er slegið föstu að sektarákvæðum sé ekki beitt. En ef sektarákvæðum er beitt er þetta algjör rökleysa. Aflahlutur skipstjóra af 6 millj. kr. aflaverðmæti nálgast ekki að vera 1 millj. kr.

Ef athugasemdir með lagafrv. eru byggðar á slíkum rökum sem þessum, hvernig er þá frv. sjálft? Ég tel að svo sé með það mál, sem hér liggur fyrir, að ég vona að það verði dregið til baka eða, sem reyndar er réttari leið, tekið til endurskoðunar nú milli 2. og 3. umr. Ég var með hugmyndir um að flytja sjálfur brtt., en bæði er það að ég er óvanur þingstörfum og eðlilegra væri að fleiri kæmu þar saman til að laga til, að ég taldi það ekki rétt. En ég vil ítreka það, að ég tel alveg fráleitt að fara með lagafrv. þetta áfram eins og það er nú í pottinn búið og það sé útilokað að ætlast til þess að við getum gert upptækan sjávarafla hjá skipverjum veiðiskipanna. Það er heldur engin sekt, það er engin kvöð á skipstjóra þó að af honum, þegar hann í land kemur, skipstjóra og útgerð, sé tekinn aflinn og skipverjar hans þurfi að bera sektina með honum. En ef hann þarf að borga hásetunum sínum og skipverjunum eða útgerðin þarf að standa undir því að borga þeim hlutinn úr þeim afla sem er ólöglega fenginn, þá fer þeim að svíða. Annars svíður þeim ekki neitt. Og á hinn mátann, eru þessi lög gagnslaus ef 4. gr. á að vera eins og hún er. Ef 4. gr. er ekki bundin því að veðréttur banka og allra annarra aðila sé burt felldur, þá er hún gagnslaus, vegna þess um leið og ég sendi skipið mitt á síldveiðar, þá er ekkert auðveldara fyrir mig heldur en veðsetja Pétri eða Páli aflann. Þó þetta sé kannske ljót leið og þó ég þurfi ekki að gera þetta fara allt að 35% til bankans, við erum fæstir ríkir sem fáumst við þetta, og 14% í Stofnfjársjóð og svo fleira og fleira.

Ég skal fúslega viðurkenna þá þörf er liggur bak við framlagningu þessa frv. og fram kemur í 1. mgr. athugasemda við frv. Ég vil því ítreka enn að ég legg eindregið til að sjútvn. og ráðh. taki þetta frv. til athugunar og lagi það til 3. umr., þannig að það komi að því gagni sem því er ætlað, og sérstaklega þessi tvö atriði legg ég áherslu á. Ég vil benda á það einnig og láta vita um það hér á hv. Alþ. að ég hafði samband við Sjómannafélag Reykjavíkur og Sjómannasamband Íslands og spurði aðila þar að því hvort þetta hefði verið borið undir þá til umsagnar, og það kom í ljós að hvorki Hilmar Jónsson, formaður Sjómannafélags Reykjavíkur né Jón Sigurðsson formaður Sjómannasambands Íslands höfðu hugmynd um þetta frv. Að gera slíka hluti sem þessa án þess að bera þá undir þessa aðila, það finnst mér fjarstæðukennt.