11.11.1975
Sameinað þing: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

13. mál, fasteignamatslög og lög um sambýli í fjölbýlishúsum

Fyrirspyrjandi (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Á nokkrum undanförnum þingum hef ég minnt hér á hinu háa Alþ. á nauðsyn þess að endurskoða lögin una fasteignamat, sem að sjálfsögðu er sú hliðin sem e. t. v. snýr frekast að fjmrn., og í öðru lagi lögin um fjölbýlishús, sem ég var einnig nokkuð viðriðinn hér á Alþ. á sínum tíma.

Forsendurnar fyrir þessum tillöguflutningi og fsp. nú eru þær, að yfirleitt hefur mát þetta fengið mjög góðar undirtektir hér á hinu háa Alþ. og það komið svo langt að 1973 samþ. allshn. Sþ. eindregið að mæla með samþykkt till., en ekki vannst hins vegar tími til að taka hana á dagskrá þar sem skammt var eftir af þingi. Næsta ár á eftir flutti ég einnig fsp. um hvað þessu líði og þá á þeim forsendum að till. hafði í það skiptið verið vísað til ríkisstj. á mjög jákvæðan hátt og n. sem heild tók undir efni hennar.

Það liggur í augum uppi sú gjörbylting sem orðið hefur í byggingarháttum landsmanna frá því um og eftir aldamótin síðustu þegar meginhluti íbúðarhúsa var byggður úr torfi og grjóti, síðan byltingin yfir til timburhúsanna, en sameiginlegt áttu þessar byggingaraðferðir það þó, að nær eingöngu voru byggðar einnar fjölskyldu íbúðir á einni og sömu lóð. Um og eftir 1930 er svo vegna fjárhags bæjarfélaganna og hinna margnefndu vandræða að fullnægja eftirspurn um lóðir undir einbýlishús, þá er byrjað að byggja hin margnefndu fjölbýlishús og eru þá oft upp í 10–12 íbúðir á einni og sömu lóð. Innheimtu opinberra gjalda af þessum eignum er þannig háttað í dag að þar eru allir ábyrgir fyrir einn og einn fyrir alla, þ. e. a. s. af 12 íbúða eða 10 íbúða húsi, sem er á einu og sama götunúmeri, er ekki nægjanlegt að 9 hafi staðið í skilum ef einn af þessum 10 eigendum gerir það ekki, þá er húsið aðfararhæft samkv. núgildandi lögum.

Það sjá allir að sú þróun, er fram undan að áfram verður haldið að byggja slík hús. Er því nauðsynlegt að horfast í augu við staðreyndir um það efni. Og enn þá stækka þessi fjölbýlishús og enn þá fleiri íbúðir og fleiri fjölskyldur eru á einu og sama götunúmeri með byggingum allra síðustu ára. Hér er bæði um réttlætis- og sanngirnismál að ræða að mínu viti og þetta er einnig viðkvæmt tilfinningamál þeirra sem í skilum geta staðið og gera, og megintilgangur till. var að gera menn einungis ábyrga fyrir þeim hundraðshluta sem þeir eru samkv. þinglesnum skjölum taldir eigendur að í viðkomandi húsi. Það er ástæðan fyrir því að þessi fsp. er hér flutt, sem ég vænti að hæstv. félmrh. svari.