06.05.1976
Neðri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3770 í B-deild Alþingistíðinda. (3054)

212. mál, upptaka ólöglegs sjávarafla

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það hafa orðið nokkrar umr, um það frv. sem hér er til meðferðar í hv. d. um upptöku ólöglegs sjávarafla og er það ekki óeðlilegt út af fyrir sig. Hér hafa ýmsir þm. tekið að mínu viti nokkuð stórt upp í sig um nokkur atriði, og mér hefur fundist nokkuð á skorta um rökstuðning fyrir þeim stóryrðum sem þar hafa verið viðhöfð. Ég ætla ekki að fara að lengja þennan fund með því að víkja að mörgum þeim atríðum, skal raunar að mestu einskorða mig við eitt atriði sem mér finnst aðalatriði þessa máls og mér sem einum af lögfræðingum í sjútvn. þessarar d., sem mælir með frv., standi nokkuð nærri að skýra, á hverju ég byggi stuðning minn við þetta frv., þegar litið er til þeirra athugasemda og andmæla sem hér hafa verið höfð uppi, ekki síst frá hv. þm. Ellert B. Schram sem vildi að því láta liggja að frv. bryti gegn sjálfri stjórnarskránni, væri á vissan hátt í andstöðu við þann anda sem þar er að finna um þrískiptingu valdsins í þjóðfélaginu. Á þetta get ég ekki fallist með hv. þm. Ellert B. Schram, enda fannst mér rökstuðningur hans fyrir þessari staðhæfingu ekki vera beint sannfærandi. Ég viðurkenni að með þessu frv. er nokkuð mikið vald lagt í hendur sjútvrh. og sjútvrn., en enginn rökstuðningur hefur komið fram í þessum umr. fyrir því að það vald, sem færa á sjútvrn. með samþykkt þessa frv., brjóti gegn stjórnarskránni, hvorki beint né óbeint, enda liggur hér fyrir álitsgerð virðulegs prófessors við lagadeild Háskólans sem segir hið þveröfuga.

Hvað á að fara langt í þeim efnum að færa rn. vald er að mínu viti fyrst og fremst undir pólitísku mati komið sem við hér á hv. Alþ. erum að sjálfsögðu fullfærir um að meta hverju sinni. Mitt mat er það í þessu tilfelli, miðað við ríkjandi ástand fiskstofna og aðstæður allar, að eðlilegt sé að nokkuð mikið vald í þessum efnum geti veríð á hendi ráðh. og rn. Upptaka ólögmæts sjávarafla er að mínu viti ekki bein refsing og þarf þess vegna ekki að gera sömu kröfur til réttarverndar þess aðila sem kann að vera brotlegur eins og gert er í þeim tilfellum þegar um hreina refsingu er að dæma, t.d. fangelsi, sem að sjálfsögðu er þá hjá dómstólum.

En aðalatriðið í þessu, og það er ástæðan til þess að ég kvaddi mér hér hljóðs, er að mér virðist að staðhæfingar, sem hafa komið fram hjá nokkrum þm. um að taka eigi þau efni, sem frv. fjallar um, undan lögsögu dómstóla og færa til rn., þær fá ekki staðist. Aðalatriði þessa máls er í 4. gr. þar sem er kveðið alveg skýrt á um þetta:

„Ákvörðun rn. um upptöku afla skal tekin í skriflegum úrskurði. Málinu má vísa til meðferðar sakadóms, en ekki skal það fresta því að rn. geti innheimt andvirði þess ólöglega afla, sem það gerir upptækan hjá kaupendum eða seljendum þessa afla, eftir því sem við á hverju sinni.“ Það er sem sagt alveg ljóst samkv. efni frv. að ef útgerðarmaður skips eða skipstjóri, sem verður fyrir því að ólögmætur afli er hjá því gerður upptækur, telur að rn. hafi í sínum úrskurði farið offari og ekki byggt úrskurðinn á réttum rökum, þá hefur hann allar leiðir opnar til þess að fara með þetta fyrir dómstóla og það er aðalatriði þessa máls. Ég vil benda á að þetta er ekki einsdæmi íslenskri löggjöf. Það var a.m.k. fyrir nokkru ákvæði um það í lögum um tekju- og eignarskatt og ég held að það sé þar enn, að þar var lögtekin svokölluð skattsektanefnd, ef ég kann hana rétt að nefna. Hún hefur vald til að ákveða skattsektir. Vilji skuldari slíkra sekta ekki una þeim úrskurði sem skattsektanefnd ákveður, þá er hægt að bera hann undir dómstóla. Þetta tel ég hliðstætt að nokkru leyti því sem hér er talað um að skuli fara með varðandi ólöglegan sjávarafla.

Mér finnst að við séum með því að lögtaka ákvæði þessa frv. aðeins að svara á virkan hátt vissri þörf í þjóðfélaginu án þess að við séum á nokkurn hátt með samþykkt frv. að brjóta gagnvart þeirri helgu réttarvernd sem hver einstaklingur í lýðræðisþjóðfélagi á rétt á að njóta. Þess vegna, þótt ég viðurkenni að frv. færi nokkuð mikið vald á mjög takmörkuðu sviði til rn., þá tel ég að aðstæður allar geri það eðlilegt og af þeirri ástæðu er ég fylgjandi frv.