06.05.1976
Neðri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3774 í B-deild Alþingistíðinda. (3066)

145. mál, afréttamálefni

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Virðulegi forseti. Þetta frv. er komið frá Ed. N. hefur rætt frv. á fundum sínum og athugað umsagnir frá Búnaðarfélagi Íslands, Sambandi ísl. sveitarfélaga og Landgræðslu ríkisins, og voru þær allar jákvæðar. N. varð sammála um að mæla með samþykkt frv. með breytingu sem ég mun lýsa síðar.

Höfuðefni þessa frv., sem hér er lagt til að verði að lögum, er breyt, á lögum nr. 42 frá 1969, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., en þar eru tengd saman í einum lagakafla þau ávæði sem miða að því að tryggja verdun og skynsamlega nýtingu afrétta og heimalanda. Kaflinn nefnist því: Um verndun beitilands og um ítölu. Ítala er róttækasta ráðstöfunin sem gripið verður til auk beinnar friðunar landsins, og má margt gera til verndar og bóta á beitilandinu áður en henni er beitt.

Í 1. gr. þessa kafla er lagt til að stjórnum fjallskiladeilda verði lögð sú skylda á herðar að fylgjast með ástandi afrétta og heimalanda með tilliti til beitarálags. Skuli hafa um þetta samráð við gróðurverndarnefnd héraðsins og Landgræðsluna. Með þessu er því slegið föstu að hreppsnefndirnar séu ábyrgur aðili varðandi þessi mál.

Í næstu grein eru taldar þær aðgerðir sem stjórnun fjallskiladeilda er heimilt eða skylt að grípa til þar sem talin er þörf aukinnar gróðurverndar eða bættra aðferða við nýtingu beitilandanna.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða frv. nema í sambandi við 24. gr., en í henni er mælt fyrir um hver skuli hlutdeild hverrar jarðar í beitarrétti í sameiginlegum beitilöndum og afréttum. Eins og frv. var, var aðalreglan sú að réttur hvers býlis miðaðist við beitarþol heimalands jarðarinnar. Hafi það ekki verið ákvarðað fyrir einstakar jarðir og ekki eru tök á að láta mæla það skal miða við landverð jarðanna, þ.e.a.s. þess lands þeirra sem raunverulega er nýtt til beitar fyrir þann búpening sem almennt er rekinn á afrétt. Er þá átt við landverð óræktaðs lands og ræktaðs lands, að svo miklu leyti sem það er notað til beitar, en ekki til heyöflunar eða til vetrarfóðurs.

Þessi grein, eins og hún var í lögunum, mundi í mörgum tilvikum kippa búskaparaðstöðu undan jörðum ef ítölu yrði beitt. N. kallaði á sinn fund formann Stéttarsambands bænda og enn fremur erindreka Stéttarsambandsins og landgræðslustjóra, og eftir að búið var að velta þessu fyrir sér á ýmsa vegu, þá var sameiginleg niðurstaða n. að flytja brtt. við 3. gr.:

„Í stað „Réttur hvers lögbýlis skal vera í hlutfalli við beitarþol heimalands jarðarinnar“ í 4. mgr. 24. gr. komi: Réttur hvers lögbýlis, sem sérmetið var við fasteignamat árið 1932, skal að 1/3 vera jafn, en að 2/3 skal hann vera í hlutfalli við beitarþol heimalands jarðarinnar.“

Með þessari brtt. telur n. að það ætti ekki eða síður að vera hætta á því að þeim jörðum, sem kunna að hafa lítil heimalönd, sé mismunað þannig að það sé kippt búskaparaðstöðu undan fótum þeirra sem á þeim búa. Eftir að hafa rætt þetta mál við landgræðslustjóra, sem á að verulegu leyti að hafa áhrif á hvernig þessu er beitt og hvenær, teljum við að þeirri hættu, sem hefði e.t.v. getað verið fyrir hendi í vissum tilvikum, eins og greinin var, sé bægt frá.