06.05.1976
Neðri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3779 í B-deild Alþingistíðinda. (3074)

254. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Jón Skaftason):

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. síðasta ræðumanns. Ekki fannst mér hann fara mjög nákvæmlega með það sem gerðist í hv. sjútvn. þegar þetta mál var þar til umr. og fulltrúar Útvegsbankans voru þar og fulltrúar Fiskveiðasjóðs, því Jónas G. Rafnar sagði það og lýsti því þar yfir að sér hefði borist þetta uppkast að frv. nokkuð löngu áður en það var lagt fram á hv. Alþ. Sama kom fram hjá forstjóra Fiskveiðasjóðs, Sverri Júlíussyni, að hann hafði fengið frv.-drögin til athugunar áður en málið var lagt fyrir Alþ. Þannig er það fjarri lagi að þessir aðilar hafi ekki haft aðstöðu eða tíma til þess að kynna sér frv. og koma athugasemdum sínum að við sjútvrh. sem mun hafa haft frumkvæði að því að þessum aðilum bárust drögin að frv. Það er fjarri því að það sé rétt.

Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að orðlengja þessa umr., nema geta þess í lokin að því var yfirlýst af bankastjórum Útvegsbankans á þessum fundi, eftir að þeir höfðu gefið sínar upplýsingar um efni frv., að þeir óskuðu ekki eftir því að fá það sent til umsagnar.