06.05.1976
Neðri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3780 í B-deild Alþingistíðinda. (3075)

254. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Þetta er hér um bil nokkurn veginn rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði. En ég vil vekja athygli á því að það var kallað á framkvæmdastjóra Fiskveiðasjóðs og bankastjóra Útvegsbankans eftir fyrsta fund okkar um málið í n., þar sem ég gat alls ekki fellt mig við þá málsmeðferð að hafa ekki samband við þessa aðila og óskaði eftir því að það yrði gert. En eftir að þeir voru búnir að gera grein fyrir sínu máli í gærmorgun, þá sáu þeir ekki ástæðu til þess að tefja málið með því að við þyrftum bara að bíða eftir skriflegri umsögn frá þeim eða öðrum aðilum. En alla vega er málsmeðferðin heldur leiðinleg og þyrfti að haga þessu betur yfirleitt við meðferð slíks máls, og það held ég að hv. þm. Jón Skaftason hljóti að viðurkenna þó hann hafi gert þessa athugasemd áðan.