11.11.1975
Sameinað þing: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

291. mál, hæli fyrir drykkjusjúka á Vífilsstöðum

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég hefi leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbrrh., hvað valdi þeim óeðlilega drætti sem orðið hefur á því að hæli fyrir drykkjusjúka á Vífilsstöðum væri tekið í notkun.

Tilefni þessarar fyrirspurnar er í raun hið alvarlega ástand þeirra mála sem fsp. lýtur að, þ. e. ofdrykkjuvandamálanna. Það dylst engum að þótt æskilegra væri og heilladrýgra að taka fyrir meinsemdina og koma í veg fyrir að menn yrðu ofdrykkjunni að bráð, þá er þar nánast um óskhyggju eina eða draumóra að ræða. Hins vegar er svo staðreyndin og hin ríka þörf sem á því er að gera það sem unnt er til að liðsinna og e. t. v. bjarga þeim fjölda manna sem í dag má telja drykkjusjúka.

Hælið á Vífilsstöðum er þar veigamikið spor í áttina og er mér það ekki hvað síst ljóst eftir að ég fór að vinna í þeirri áfengísmálanefnd sem Alþ. kaus s. l. vor. Við þetta hæli eru miklar vonir bundnar, bæði af hálfu sérfræðinga þeirra, sem gerst þekkja, og eins þeirra, sem í dag eiga sér hvergi athvarf, en eygja þó e. t. v. enn von í að verða á ný hlutgengar manneskjur í þjóðfélaginu. Að þessari hælisstofnun hefur, að ég hygg, verið unnið allmyndarlega. Það var unnið að henni í tíð fyrrv. ríkisstj. og að ég held fram til s. l. vors, er heita mátti að hælið væri tilbúið til rekstrar. Ég hef a. m. k. sannfrétt það frá þeirri stjórnarnefnd, sem um þetta mál hefur aðallega fjallað, að herslumunurinn sé ekki meiri en svo, að hann sé ekki réttlætanlegur ef litið er til hrikalegs ástands þessara mála. Nú mun forstöðumaður hafa verið ráðinn, hinn hæfasti maður í hvívetna, en ég hygg, að við það eitt muni hafa verið látið sitja.

Nú veit ég ekki gjörla hvað þessum drætti veldur. Það á eflaust eftir að koma fram hér á eftir í svari ráðh. En einkum fýsir mig að vita hvort hér er um að kenna frekar einhverjum þröskuldum í kerfinu, svo sem mörg eru um dæmin, þó að vel sé rekið á eftir af hálfu stjórnvalda, eða hvort hér er um að ræða beinan fjárskurð, hvort þetta hæli sé ekki tekið í notkun vegna þess að það skortir hreinlega fé til þess að reka það og fyrir því hafi ekki verið séð. Vissulega er hæli sem þetta töluvert fyrirtæki. Hvort tveggja hefur heyrst, og þessi dráttur er að mínu viti orðinn svo óeðlilegur að fyllilega er tímabært að fá þar á þær skýringar sem hæstv. ráðh. hefur sannastar og réttastar.

Ég ætla aðeins að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í það að 13 jan. 1975 var skrifað bréf til stjórnarnefndar ríkisspítalanna frá þeirri n. sem hefur séð um byggingu þessa hælis, þar sem talið er að húsið verði fullbúið til rekstrar eftir u. þ. b. 3 mánuði þar frá og því æskilegt að undirbúningur að rekstri hefjist bráðlega. Nú ég hygg að það sé rétt að hælið hafi verið fullbúið í maí, en afhendingu og úttekt á því hafi verið frestað, — heyrst hefur að það hafi verið vegna hreinna smámuna, um það væri gott að fá upplýsingar. Það er rétt að upplýsa það einnig að bygging þessa hælis hófst 14. apríl 1973 og hún átti að vera tilbúin haustið 1974. Þarna hefur að vísu nokkru skakkað, en nú er líka komið meira en ár fram yfir og því rétt að fá á því skýringar hvernig á þessum, að ég segi óhæfilega drætti stendur, að þetta nauðsynlega hæli sé tekið í fulla notkun.