06.05.1976
Neðri deild: 101. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3781 í B-deild Alþingistíðinda. (3090)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég heyri að stjórnarliðar eru orðnir órólegir og vilja fara að komast til náða og ég skal ekki níðast á þeim í þeim tilgangi að þeir þurfi mín vegna að sitja hér öllu lengur. En það er nú svo, að það eru aðrir sem ráða hér ferðinni en ég, því miður. En ég ætlaði aðeins að segja hér nokkur orð nú við 3. umr. þessa máls.

Ég spurði hæstv. bankamrh. Búnaðarbankans um það við 1. umr., hvort hann gæti upplýst um það hvort rétt væri það sem haldið var fram af einum hv. þm. í Ed., hv. 7. landsk. þm., bankaráðsmanni úr Búnaðarbankanum, að þar hefðu verið teknar ákvarðanir í launamálum og fríðindum til handa bankastjórum án þess að um það hefði verið fjallað í bankaráði eða bankaráð samþ. það. Ég hef enga trú á öðru en hæstv. ráðh. verði við þeirri beiðni minni nú við 3. umr. málsins að upplýsa þetta. Ég veit að hann veit þetta, hlýtur að vita, en ég vildi mjög gjarnan að hann yrði við þessari beiðni nú þótt seint sé.

Ég dró enga dul á það við 1. umr. þessa máls að ég teldi margt nauðsynlegra í okkar þjóðfélagi, eins og málum er nú háttað, heldur en að grípa til þess ráðs að fjölga nú endilega bankastjórum. Ég hef reynt að fylgjast með því hver rök þeirra, sem að þessu frv. standa, eru fyrir því að svo mikið kapp er á það lagt endilega nú að þetta verði gert. Ég tók eftir því áðan við 2. umr.hv. þm. Stefán Valgeirsson, 3. þm. Norðurl. e., sagði að hér væri um að ræða næststærsta banka þjóðarinnar og að það væru m.a. þau rök sem leiddu til þess að ástæða væri til að gera þessa breytingu. Nú má vel vera að þetta sé rétt. En eftir því sem ég best veit og hef fylgst með málum og stöðu bankanna hér í þjóðfélaginu, þá skilst mér að tiltölulega best sé ástandið í Búnaðarbankanum, hann standi tiltölulega best og hafi kannske þróast hvað best með eðlilegum hætti, þrátt fyrir það eða kannske vegna þess að þar eru aðeins tveir bankastjórar. Ég sé ekki að hér sé um að ræða nein sérstök rök fyrir því að fjölga nú bankastjórum Búnaðarbankans í þrjá.

En ég tók eftir öðru hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, formanni bankaráðs Búnaðarbankans, sem hann taldi líka vera hvað veigamestu rökin fyrir því að fjölga þyrfti nú bankastjórum við Búnaðarbankann, sem sagt þeim, að hann sagði að báðir bankastjórarnir væru langtímum saman fjarverandi. Hann sagði að báðir bankastjórar viðkomandi stofnunar væru langtímum saman fjarverandi, og vissulega geta það verið rök ef svo er ástatt í stofnuninni að þetta sé með þessum hætti. (Gripið fram í: Hvar eru þeir?) Ja, það er nú spurning. Kannske vill hv. þm. spyrja formann bankaráðs Búnaðarbankans um það. En mér fundust þetta merkilegar upplýsingar. Ég ætlaði ekki að leiða það hér í umr., en mér finnst þetta merkilegar upplýsingar ef það er notað sem rök í þessu máli að báðir þessir bankastjórar séu það langdvölum fjarverandi að það út af fyrir sig geri nauðsynlegt að koma þeim þriðja að, og ég sé ekki neitt sem tryggi að hann geti ekki jafnframt verið jafnlengi fjarverandi og hinir tveir. Það þyrfti þá a.m.k. að setja einhverjar skorður við því ef þetta er með þessum hætti. Nú veit ég að ef hv. þm. Stefán Valgeirsson hefur mismælt sig áðan, þá kemur hann hér og leiðréttir þetta, og ég tek það fyllilega til greina. En þetta var sem sagt ein af aðalröksemdunum hjá honum fyrir þessari nauðsynlegu breytingu. (Gripið fram í.) Ég þarf þess ekki. Ég hlýddi með athygli á ræðu hv. þm., eins og ég geri alltaf þegar hann tekur til. máls. Það er ekki að ástæðulausu sem það er gert. Það er sérstakur húmor yfir ræðuflutningi, Í þeim stíl sem ástæða er til að veita athygli, og ég hef gert það. Að vísu skal það viðurkennt og þess saknað að það er nú mun sjaldnar en áður hefur verið sem við njótum þeirrar ánægju að heyra Í hv. þm. (Gripið fram í.) Já, það getur verið að það standi til bóta og þá er vel.

Þessu vildi ég koma að hér við 3. umr. málsins. Sem sagt, ég óska nú eftir að hæstv. ráðh. upplýsi þetta. Ef þetta er rétt, þá er auðvitað með ólíkindum ef það getur gerst að aðrir en þeir, sem í raun og veru eiga að ráða viðkomandi stofnun, taki þar svo mikilvægar ákvarðanir sem hér um ræðir án þess að stjórnendur, hinir raunverulegu stjórnendur stofnunarinnar, hafi þar lagt blessun sína yfir. Ég er ekki að fullyrða þetta, en þetta kom fram í hv. Ed. og ég vildi mjög gjarnan fá um það upplýsingar.

Auðvitað er það mjög einkennilegt að einmitt nú á þessum hörmungartímum undir handleiðslu hæstv. ríkisstj. skuli endilega vera lagt svo mikið kapp á að taka ákvarðanir um þessa hluti, á sama tíma og ráðandi menn í þjóðfélaginu berjast um á hæl og hnakka, nótt sem nýtan dag, Í þeim efnum að brýna fyrir þjóðinni sparnað á sparnað ofan. Og eins og hér var sagt í kvöld, þá hrúgast nú hér inn dagsdaglega stjórnarfrv, sem hafa inni að halda skuldbindingar til útgjalda fyrir ríkissjóð, svo að líklega hundruðum millj. skiptir, en þá er ekki að því er virðist séð nein ástæða til sparnaðar.

Það var sagt hér áðan, að auk þessa með bankastjórann telja menn nú brýna nauðsyn bera til, til þess að öllu siðgæði verði fullnægt, að bæta við einum biskupi, 15 dómurum var hér sagt, 27 — ef ég man töluna rétt — starfsmönnum hjá Vegagerðinni, hjá hæstv. samgrh., hann er iðinn við kolann eins og fyrri daginn, og svona mætti lengi telja. Þetta er sem sagt sú sparnaðarforsjá sem hæstv. ríkisstj, ætlar landsmönnum að hafa að leiðarljósi í öllu þessu tali. Nei, ekki er nú svo vel, það sjá aðrir um þá drykkju.

En ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég vænti þess að bæði hæstv. ráðh. og ég tala nú ekki um hv. þm. Stefán Valgeirsson — (Gripið fram í.) Það eru nú heldur léleg svör sem koma úr þeim herbúðum. En ég vænti þess að ef ég hef farið hér með rangt, þá verði það leiðrétt.