06.05.1976
Neðri deild: 101. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3782 í B-deild Alþingistíðinda. (3091)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef hingað til ekki skipt mér af þessum umr. um Búnaðarbankann, en þar sem eru nú síðustu forvöð að láta í ljós álit sitt, þá tel ég rétt að segja hér örfá orð.

Það er raunar ekki margt sem ég hef að þessu að finna. Það eru margar ágætar setningar í þessu frv. og sjálfsagðar, t.d. eins og að Búnaðarbankinn láti sér nægja að nota almanaksárið eins og annað fólk sem sitt starfsár. En það vekur furðu mína að yfirstjórn bankans skuli vera í höndum landbrh., en ekki viðskrh. eins og aðrir bankar eða bankamrh. Það er ekki vegna þess að ég vantreysti hæstv, landbrh. til að sinna þessu verkefni, því fer mjög fjarri. En þegar ég sá þessa grein, þá skelfdist ég mjög, þó ekki væri nema bara vegna þess að mér datt í hug að sjútvrh. hæstv, mundi fara að girnast Útvegsbankann, og ég hefði þess vegna frekar viljað breyta þessari grein heldur en að breyta starfsháttum þess banka.

Einnig er það ánægjulegt, það sem segir í 2. gr., að ríkissjóður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum Búnaðarbanka Íslands, og eru þær þá vel tryggðar. En aðalerindið var það, að í þessu frv. skuli það vera eitt höfuðatriðið að fjölga bankastjórum. Heyrst hefur það upp á síðkastið að alltaf vantaði meiri og meiri peninga og draga þyrfti úr útlánum o.s.frv., og kannske gæti skýringin verið sú að fleiri góða menn þyrfti til þess að útbýta litlum peningum heldur en miklum, því auðvitað er erfiðara að skipta milli litlu fé heldur en ef af nógu er að taka.

Það hefur verið mikið rætt um það að þyrfti að spara, það þyrfti að draga saman, en þenja ekki út kerfið o.s.frv. Þetta hefur verið mjög á dagskrá í þjóðfélaginu, ekki síst eftir að sá harmagrátur hefur verið syngjandi í eyrum landslýðs að hér væri allt að fara yfir um. Þess vegna finnst mér að síst hafi verið ástæða til þess að fjölga mönnum eins og bankastjórum, það væri það síðasta sem gera ætti, því þessir tveir bankastjórar hafa dugað til þess að stjórna bankanum hingað til, jafnvel þótt þeir væru eftir upplýsingum hv. þm. Stefáns Valgeirssonar langtímum fjarverandi. Kannski er þá skýringin á því að sá, sem á að ráða nú í viðbót, fari að leita að hinum, og það er betra að þá komi ekki fyrir hann að hann týnist í leitinni að hinum, sem eru farnir. Og dettur mér þá í hug gömul vísa, sem mun vera á þessa leið, með leyfi forseta:

„Týndur fannst, en fundinn hvarf,

að fundnum týndur leita þarf.

Þá týnist sá er fundinn fer

að finna þann sem týndur er.“