06.05.1976
Neðri deild: 101. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3784 í B-deild Alþingistíðinda. (3096)

154. mál, sálfræðingar

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. var ég fjarverandi afgreiðslu málsins. Á þeim fundi sem þetta mál var tekið til meðferðar í n., fyrsta fundinum sem málið var til meðferðar þar, óskaði ég eftir nokkurra daga fresti á afgreiðslu málsins vegna þess að ég vildi gera nánari athugun á því hvernig orðalag ákveðinnar greinar í frv. skyldi vera. Ég gat því miður ekki verið viðstaddur endanlega afgreiðslu málsins og gat því ekki komið athugasemdum mínum á framfæri í n., en vil því gera það hér nú.

Ég hef ekkert við frv. sem slíkt að athuga, efni þess eða megininnihald, heldur var það athugasemd varðandi orðalag 1. gr. sem ég vildi gera að umtalsefni, en þar segir, með leyfi forseta: „Rétt til að kalla sig sálfræðinga hér á landi hafa þeir einir sem til þess hafa fengið leyfi menntmrn. Öðrum aðilum er óheimilt að nota starfsheiti sem til þess er fallið að gefa í skyn að þeir hafi hlotið löggildingu sem sálfræðingar.“ Og í aths. með þessari gr. segir: „Með gr. er sálfræðingum, sem hlotið hafa viðurkenningu rn., veittur einkaréttur á að kalla sig sálfræðinga.“ M.ö.o., hægt er að gagnálykta út frá þessari setningu á þá leið að það séu fyrir hendi sálfræðingar sem ekki megi kalla sig sálfræðinga! Ég skil greinina svo. Ég held að það sé réttur skilningur að þarna sé um það að ræða að rn. veiti þessari stétt manna leyfi til starfa sem slíkri. Það er andkannalegt ef einstaklingur er búinn að ganga í gegnum nám við viðurkennda háskólastofnun og fá sin prófskírteini eins og námið gefur tilefni til og prófin og er orðinn fræðingur, annaðhvort verkfræðingur, lögfræðingur eða sálfræðingur, þá sé honum óheimilt að kalla sig sálfræðing nema fá til þess sérstaka heimild Í menntmrn. Ég efast um að það sé stætt á því. Ég held alla vega sé það ekki sanngjarnt eða skynsamlegt að orða lagagr. svo að mönnum sé óheimilt að kenna sig við það starf og við þá menntun sem þeir hafa öðlast. Þess vegna vildi ég gera breyt. á þessari grein þannig að allur vafi væri tekinn af um að þarna væri átt við starfsréttindi viðkomandi aðila. Ég mundi vilja að greinin væri orðuð eitthvað á þessa leið: „Þeir einir öðlast starfsréttindi sem sálfræðingar sem fengið hafa leyfi menntmrn. Óheimilt er að nota starfsheiti, sem til þess er fallið að gefa í skyn, að leyfi rn. liggi fyrir.“

Þetta vil ég nú leggja fram sem skriflega brtt., til þess að þetta sjónarmið komi hér fram, og vil mælast til þess að þetta atriði verði athugað svo ekki fari á milli mála hvað best væri að gera við þessa grein. Ég legg þessa skrifl. brtt, fram, en mun ekki óska eftir atkvgr. um hana við þessa umr., en fresta henni til 3. umr.