11.11.1975
Sameinað þing: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

292. mál, þátttaka ríkissjóðs í greiðslum til löggæslumanna

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Löggæslu er aðallega haldið uppí með föstu lögregluliði og er um þá löggæslu eins og aðra þætti ríkisrekstrarins að starfsemin er komin undir fjárveitingum. Er m. a. kveðið svo á um það í lögreglumannalögum að ekkí megi skipa í lögreglumannsstarf nema fé hafi verið veitt til þess á fjárl., bæði að því er varðar tölu lögreglumanna og starfsstig.

Fast lögreglulið hefur aðsetur í öllum kaupstöðum og mörgum kauptúnum, en auk þess gera lögreglumannalögin ráð fyrir því að ráðh. sé heimilt, að fengnum till. sýslunefndar að ákveða að í lögsagnarumdæmi skuli vera starfandi 2–8 héraðslögreglumenn. Hlutverk þeirra er að gegna almennum löggæslustörfum þegar á þarf að halda, þ. á m. að halda uppi reglu á mannfundum og skemmtunum. Er gert ráð fyrir því að ráðh. setji reglur um störf héraðslögreglumanna og um greiðslu kostnaðar vegna þeirra. Lögreglustjóri getur og heimilað héraðslögreglumönnum að taka sér aðstoðarmenn til að halda uppi reglu á skemmtistöðum. Héraðslögreglumenn eru starfandi í nær öllum umdæmum þar sem fast lögreglulið er ekki, og á nokkrum stöðum hefur héraðslögreglumönnum verið ákveðin föst þóknun fyrir að sinna almennum lögreglustörfum, en ella eru þeim greidd laun fyrir þau verkefni, sem þeir inna af hendi, auk ferðakostnaðar. Greiðsla fyrir löggæslu á dansleikjum er sums staðar ákveðin föst greiðsla, en annars staðar er greitt tímakaup. Þá er héraðslögreglumönnum séð fyrir einkennisfatnaði og þjálfun í lögreglustörfum.

Í lögreglumannalögunum eru ákvæði er heimila lögreglustjóra að binda skemmtanaleyfi því skilyrði, að lögreglumenn verði á skemmtistað. Skal leyfishafi þá greiða kostnað af þeirri löggæslu eftir reglum sem ráðh. setur. Einnig er heimilt að setja reglur um greiðslu kostnaðar af gæslustörfum vegna framkvæmda á almannafæri, þar sem lögreglustjóri telur nauðsynlegt að fyrirskipa slíka löggæslu. Lagaákvæði þetta er í aðalatriðum óbreytt frá eldri lögum og reglur um skipan þessara mála að meginefni frá árunum kringum 1960. Voru þá settar reglur um löggæslu á skemmtisamkomum í flestum sýslum landsins og ákvæði um þátttöku ríkissjóðs í þeim kostnaði. Þessar reglur eru að meginefni enn í gildi. Skv. þeim ákveður viðkomandi lögreglustjóri hvort löggæslu sé þörf á skemmtun og jafnframt fjölda lögreglumanna. Reglurnar miðast síðan víðast við það að ríkissjóður greiði 3/4 launa eins lögreglumanns og helming launa aðstoðarmanna og er þar miðað við fasta fjárhæð og ferðakostnað að fullu. Í nokkrum umdæmum ber skemmtanahaldari þó allan löggæslukostnað. Þegar um hefur verið að ræða meiri háttar útiskemmtanir hefur ríkissjóður þó að jafnaði greitt helming kostnaðar við löggæsluna. Eins og áður greinir, er það komið undir mati lögreglustjóra hversu mikla löggæslu þarf hverju sinni. Hlutverk lögreglumanna er að hafa eftirlit með samkomunni, en um það, hversu mikla löggæslu þarf, fer m, a. eftir fjölda samkomugesta og reynslu af fyrri skemmtunum, þ. á m. því hversu góðri reglu aðstandendum skemmtunar tekst að halda uppi með eigin eftirliti. Auk þess mótast það að nokkru af því hvernig háttað er almennri löggæslu á staðnum. Eru aðstæður því mismunandi á ýmsum stöðum. Þá skiptir líka máli, að víða má segja að skemmtun fari fram bæði innan dyra og utan, þ, e. að gestum er leyft að fara út úr samkomuhúsi og inn aftur meðan á skemmtun stendur, en húsi er ekki lokað á tilteknum tíma. Leiðir þetta til mismunandi löggæsluþarfar. Rétt er að undirstrika að í raun og veru ber sá, sem skemmtun heldur, ábyrgð á því að samkoman fari vel fram, og því væri æskilegast og raunar til þess ætlast að samkomuhaldari haldi uppi traustu eftirliti með eigin starfsliði. Reynslan mun hins vegar sú að slíkt eftirlit gefur ekki alltaf nógu góða raun. Er því oft nauðsyn að áskilja löggæslu á skemmtununum sjálfum, auk þess sem nauðsynlegt er að áskilja löggæslu vegna umhverfis skemmtistaðarins.

Eins og fram kemur af því, sem ég hef hér sagt, eru reglur um löggæslu á samkomum að meginefni til komnar til ára sinna. Hafa þær að nokkru þróast með mismunandi hætti í einstökum umdæmum, þannig að greiðsluhluti ríkisins er í reyndinni misstór. Þess vegna er þörf á endurskoðun á þessum reglum og samræmingu og verður unnið að því á næstunni. Ég vil geta þess í þessu sambandi að fyrir nokkru hefur einmitt dómsmrn. skrifað bréf til allra lögreglustjóra varðandi þetta efni og til undirbúnings setningu reglna um þetta efni, sem ég má e. t. v. lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta, ef ég er ekki búinn að fara yfir tímann. Það er svo hljóðandi :

„Skv. 8. gr. l. um lögreglumenn, nr. 56/1972, er lögreglustjóra heimilt að binda skemmtanaleyfi því skilyrði að lögreglumenn verði á skemmtistað og skal þá leyfishafi greiða kostnað af þeirri löggæslu skv. reglum sem ráðh. setur. Skipulag þessara mála er nú með nokkuð mismunandi hætti í hinum ýmsu lögsagnarumdæmum. Vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar og samræmingar á reglum um þetta efni er þess óskað að verði send grg. um það hvernig þessum málum er nú háttað í umdæmi yðar. Þyrfti þar m. a. að koma fram hvernig áskilnaður um löggæslu er í reynd, hvort löggæslunni er beint að fastráðnum lögreglumönnum eða héraðslögreglumönnum, hvert hlutverk lögreglumannanna er, svo sem hvort þeir annist eftirlit innan húss eða utan, hvernig öðru eftirliti er háttað, svo sem dyravörslu, hvernig háttað er greiðslum til lögreglumanna, svo og að hvaða marki áskilnaður er gerður um þátttöku skemmtanahaldara í kostnaði við löggæsluna. Óskað er eftir því að grg. um þetta efni berist rn. sem fyrst.“

Ég hef í þessu svari mínu ekki lesið upp tölur um það hvað er greitt á hverjum stað, en að sjálfsögðu getur hv. fyrirspyrjandi fengið upplýsingar um það, ef hann kemur í rn., og séð hvernig greiðslum í einstökum lögsagnarumdæmum hefur verið háttað, en eins og fram hefur komið er það með nokkuð mismunandi móti og lögreglustjórar hafa fylgt nokkuð mismunandi reglum. Sumir lögreglustjórar hafa haldið uppi þeirri góðu reglu, vil ég segja, að láta skemmtanahaldara greiða löggæslukostnað að fullu.