07.05.1976
Sameinað þing: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3793 í B-deild Alþingistíðinda. (3113)

196. mál, leir í Dalasýslu til iðnaðarframleiðslu

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Á Alþ. 1956 flutti ég till. til þál. um rannsókn á leir í Dalasýslu til iðnaðarframleiðslu. Þessi till. var samþykkt lítt breytt að orðalagi snemma á árinu 1957 sem ályktun Alþ. Till. þessi var upphaflega samin og unnin Í samráði við Guðmund Einarsson frá Miðdal og fylgdi henni grg. frá hans hendi. Þar skýrir hann m.a. svo frá, að árið 1927 hafi hann byrjað að athuga aðstæður fyrir leirbrennslu á Íslandi. Fyrstu sýningu á leirmunum hélt hann 1930. Síðar vann hann að rannsókn jarðefna og athugun á að reisa hér á landi bæði leir- og postulínsverksmiðju, ferðaðist um landið og safnaði sýnishornum og lét reyna þau. Landið allt varð honum nákunnugt. Í 25 ár kveðst hann hafa mestmegnis notað leir frá Búðardal og unnið hann bæði í vélum og til vandaðasta listiðnaðar. En hann taldi mest aðkallandi að koma á fót verksmiðju fyrir byggingarvörur og annan þungaiðnað, svo sem flísar, þakhellur, rör, stein til skreytingar og einangrunar. Enn fremur gæti slík verksmiðja unnið blómapotta, leir til heimilisþarfa og ýmsar vörur fyrir rafmagnsiðnað. Að sjálfsögðu þyrftu ýmis skilyrði að vera fyrir hendi á staðnum, svo sem næg hráefni, greiðir sjóflutningar, nægileg raforka.

Þó að ályktun Alþ. lægi fyrir voru skoðanir skiptar um þetta mál eins og raunar flest önnur. Margt þurfti að athuga. Áhugamenn héldu því þó jafnan vakandi. Ég nefni tvo verkfræðinga, sem lögðu því liðsinni: Aðalstein Júlíusson og Einar Sigurðsson, m.a. með því að stuðla að því að sænskur leirverksmiðjuforstjóri heimsótti Dalasýslu Í þessu skyni, Folke Calender. Honum leist vel á allar aðstæður þar. En það er margt sem rannsaka þarf og skoða áður en slíku fyrirtæki er ýtt úr vör, m.a. hin hagræna hlið og markaðsmál. Á síðustu árum hafa ýmsar athuganir farið fram á þessu sviði, skilyrði batnað á ýmsan veg og áhugi manna verið sívakandi á heimaslóðum. Því er þessi fsp. borin fram á þskj. 408 af hv.

2. þm. Vesturl., Ingiberg J. Hannessyni, er sat um tíma á þingi Í vetur„ og mér. Fsp. hljóðar svo:

„1. Leiðir könnun sú, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum á notagildi leirs í Dalasýslu; til þess að fyrirhuguð sé vinnsla leirsins með stofnun tilraunaverksmiðju í sýslunni?

2. Ef um jákvæðar niðurstöður er að ræða í þessu sambandi hvenær má þá vænta þess að hafist verði handa um stofnun og starfrækslu slíkrar verksmiðju?"