07.05.1976
Sameinað þing: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3795 í B-deild Alþingistíðinda. (3116)

195. mál, skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég ber hér fram fsp. á þskj. 427 til hæstv. forsrh. um flutning ríkisstofnana. Fsp. er í tveimur liðum og er á þessa leið:

„1. Hver er afstaða ríkisstj. til hugmynda um flutning ríkisstofnana út á landsbyggðina?

2. Er þegar af hálfu ríkisvaldsins hafinn undirbúningur að slíkum flutningi? Ef ekki, hvenær má þá vænta ákvörðunar í þá átt?“

Það fór ekki fram hjá neinum hv. þm. er bók ein mikil að vöxtum var lögð á borðið hjá þeim um jólaleytið Í vetur. Var hér á ferð nál. um flutning ríkisstofnana, ávöxtur af starfi ríkisskipaðrar 7 manna n, á árinu 1972 undir forsæti dr. Ólafs Ragnars Grímssonar. Skyldi n., eins og segir í skipunarbréfi til n., með leyfi forseta: „kanna staðarval ríkisstofnana og athuga hverjar breytingar komi helst til greina í því efni.“ Það er alveg ljóst að nm. létu hendur standa fram úr ermum og unnu mikið og merkilegt starf við söfnun margs háttar upplýsinga og gagna, athugun á þeim og síðan tillögugerð. M.a. skilar n. frá sér frv. til l. um flutningsráð ríkisstofnana, en því er m. a. ætlað að vera Alþ. og ríkisstj. til ráðuneytis í þessum málum í framtíðinni. N. kynnti sér 243 stofnanir og stofnanategundir, þar af 157 ríkisstofnanir í Reykjavík. Athugaðir voru þrenns konar möguleikar á flutningi ríkisstofnana.

1. Heildarflutningur, þ.e. öll stofnunin er flutt á einn stað.

2. Deildarflutningur. Einstakar deildir stofnunar með vel afmörkuðu starfssviði eru fluttar til annarra staða.

3. Útibúastofnun, þar sem stofnuninni er ætlað að veita landsmönnum staðbundna þjónustu og yrði því að starfrækja sams konar útibú í öllum landshlutum.

N. leggur til að 25 stofnanir verði fluttar í heild frá höfuðborgarsvæðinu, frá 9 stofnunum fari fram deildarflutningur og 36 stofnanir setji á stofn sérstök útibú utan höfuðborgarsvæðisins. Áætlar n.till. hennar á grundvelli tiltekinna forsendna feli í sér flutning á samtals 3700 íbúum frá þessu svæði.

Ég hef hér að ofan drepið á örfá meginatriði í hinum ítarlegu athugunum og niðurstöðum n. Enginn þarf að ganga þess dulinn að hér er annars vegar stórt og mjög vandasamt og viðkvæmt mál sem ekki verður afgreitt í skyndi. Það felur í sér marga agnúa og erfiðleika og jafnframt marga ótvíræða kosti. Of mikil samþjöppun opinberrar stjórnsýslu og þjónustu hér á höfuðborgarsvæðinu hefur í för með sér augljósa hættu og margvíslegt tilfinnanlegt óhagræði fyrir íbúa landsbyggðarinnar, ekki síst þar sem erfiðast er um samgöngur og ýmsa opinbera þjónustu, svo sem í símamálum, en símamálin hafa í vetur veríð mjög oft til umr. hér á hv. Alþ. Þegar hefur raunar verið farið inn á þessa braut. Vegagerð ríkisins hefur stofnað útibú um landið sem hafa gefist mjög vel. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur stofnað útibú á Ísafirði og í undirbúningi er annað slíkt í Neskaupsstað, Hafrannsóknastofnunin á Húsavík og fyrirhuguð eru útibú frá þeirri stofnun í öllum landshlutum. Þannig er þetta komið nokkuð á veg, en þarf greinilega frekar að huga að skipulagi og aðferðum í framtíðinni. Við, sem erum hlynnt valddreifingu í landinu og viljum jafna, eftir því sem kostur er, aðstöðu landsmanna til lífvænlegrar búsetu um landið allt, bæði í atvinnulegu, félagslegu og menningarlegu tilliti, teljum að hér sé annars vegar mjög mikilvægt mál sem nauðsynlegt sé að veita sérstaka athygli og skapa um almenna umr. Einmitt með það sjónarmið fyrir augum er þessi fsp. borin fram nú hér á Alþ., þ.e. til þess að fá vitneskju um hvort þegar hefur verið um þetta fjallað af hæstv. ríkisstj. og hverjar hafi verið undirtektir hennar og áform um frekari framgang málsins.