07.05.1976
Sameinað þing: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3799 í B-deild Alþingistíðinda. (3120)

195. mál, skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Því miður heyrði ég ekki nema niðurlag ræðu hæstv. forsrh. og ég ætla ekki heldur að ræða efnislega um þetta mál. Ég vil aðeins fara örfáum orðum almenns eðlis þar að lútandi.

Það hefur verið ljóst alllengi að þetta mál hefur verið mjög á dagskrá og talið eitt af a.m.k. mörgum þeim málum sem gætu orðið einn hlekkur í því að koma á frekara jafnvægi í byggð landsins, þ.e.a.s. til styrkingar dreifbýlinu, byggðastefnunni. Hér er augljóslega um mikið nauðsynjamál að ræða. Auðvitað er það vandmeðfarið. Það gera menn sér ábyggilega ljóst. En eigi að síður er nauðsyn á að hér verði breyting á, þannig að þjónustustofnanir ýmsar séu fluttar með starfsemi sína út til landsbyggðarinnar. Þetta hefur verið gert í einstaka tilvikum, að vísu í litlum mæli, en ég hef ekki heyrt annað á þeim stöðum og svæðum, sem þetta hefur verið gert, heldur en það sé talið að það hafi gefið mjög góða raun yfir höfuð að tala. En ég vil aðeins taka undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Helga F. Seljan, að það sé nauðsynlegt að kynna þetta miklum mun betur með skipulegum aðferðum, koma á stað umr. á stöðum og svæðum til þess að fá fram viðbrögð og umr. um þetta stórmál, að ég vil kalla, fyrir landsbyggðina. Ég held það sé mjög mikil nauðsyn á því. Og ég vil vænta þess að hæstv. forsrh. beiti sér fyrir því á þann veg sem talinn er líklegastur til árangurs.

Ég tók eftir því að hv. þm. Helgi F. Seljan talaði á þann veg að það var eins og hæstv. forsrh. núv. hefði gefið n. vítamínsprautu. Hann orðaði það á þann veg að hún hafi verið að veslast upp um það leyti sem hæstv. núv. forsrh. tók víð starfi. (HFS: Fjárhagslega séð.) Ég hefði gjarnan viljað fá frekari skýringu á því hver hin raunverulega veiki var sem var komin vel á veg með það að n. væri að veslast upp, þannig að vitin yrðu þá höfð til þess að varast þau í framtíðinni.