10.05.1976
Sameinað þing: 87. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3805 í B-deild Alþingistíðinda. (3127)

Minnst látins fyrrv. alþingismanns

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Eiríkur Þorsteinsson fyrrv. kaupfélagsstjóri og alþm. andaðist hér í Reykjavík s.l. laugardag, 8. maí, 71 árs að aldri.

Eiríkur Þorsteinsson var fæddur í Grófarseli í Jökulsárhlíð 16. febr. 1905. Foreldrar hans voru Þorsteinn bóndi þar, síðar ökumaður á Seyðisfirði Ólafsson bónda í Jórvík í Hjaltastaðaþinghá Jónssonar og kona hans, Jónina saumakona Arngrímsdóttir bónda að Vífilsstöðum í Hróarstungu Eiríkssonar.

Grófarsel var lítil jörð og hugðu foreldrar Eiríks, þegar fjölskyldan stækkaði, á búferli til Vesturheims, þangað sem móðurbræður Eiríks höfðu áður flust og vegnaði vel. Var Eiríki, sem þá var nokkurra mánaða gamall, komið í fóstur hjá móðurbróður sínum, Eiríki Arngrímssyni bónda að Surtsstöðum í Jökulsárhlíð, dugandi bónda og völundi á tré og járn. Ekki varð af vesturför, fjölskyldan ílentist á Seyðisfirði, en Eiríkur ólst upp hjá fósturforeldrum á Surtsstöðum. Hann stundaði nám einn vetur í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, innritaðist síðan í eldri deild Samvinnuskólans haustið 1927 og lauk samvinnuskólaprófi vorið 1928. Starfsmaður Kaupfélags Langnesinga á Þórshöfn var hann á árunum 1928–1931. Hann veitti 1931–1932 forstöðu Kaupfélagi Grímsnesinga að Minniborg, sem þá var verið að sameina Kaupfélagi Árnesinga. Kaupfélagsstjóri Kaupfélags Dýrfirðinga á Þingeyri var hann 1932–1960 og jafnframt framkvæmdastjóri útgerðarfélaga þar. Hann fluttist til Reykjavíkur og var starfsmaður Sambands ísl. samvinnufélaga 1960–1972. Vestra var hann um skeið formaður skólanefndar Núpsskóla og átti sæti í hreppsnefnd Þingeyrarhrepps, var oddviti 1946–1950. Hann var kjörinn alþm. Vestur-Ísfirðinga við aukakosningar 1952 og var þm. þeirra til vors 1959, sat á 7 þingum alls.

Meginþáttur ævistarfs Eiríks Þorsteinssonar var unninn á Þingeyri við Dýrafjörð. Þar tók hann á kreppuárum við stjórn kaupfélags, sem átt hafði í fjárhagserfiðleikum um árabil. Kaupfélaginu stjórnaði hann með gætni og tókst að sneiða hjá stóráföllum. Þegar batnaði í ári jukust umsvif kaupfélagsins undir styrkri stjórn Eiríks. Með miklum myndarbrag risu þar ný hús yfir verslun og vinnslustöðvar landbúnaðar og sjávarútvegs. Urðu framkvæmdir kaupfélagsins og stórhugur og hvatning kaupfélagsstjórans lyftistöng í framfarasókn byggðarlagsins til nýtingar á gæðum lands og sjávar. Á Alþingi vann hann vel kjördæmi sínu til hagsbóta. Þar bjuggu menn við erfiðar samgöngur, og þar lagði hann fram liðstyrk sinn með alkunnum dugnaði og varð mjög mikið ágengt.

Eiríkur Þorsteinsson var aðsópsmikill atorkumaður, hvar sem hann lagði hönd að verki. Hann var einarður málafylgjumaður, sem með harðfylgi og dugnaði varð frumkvöðull margra umbóta. Samvinnuhreyfingunni helgaði hann fyrst og fremst ævistarf sitt. Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Eiríks Þorsteinssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]