10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3806 í B-deild Alþingistíðinda. (3136)

254. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Með þessu frv. til l. um Fiskveiðasjóð Íslands eru gerðar allveigamiklar breyt. á núgildandi lögum. Höfuðbreytingin er breyting á stjórn sjóðsins, sem er á þann veg að nú eiga sæti í stjórninni 5 bankastjórar, einn frá Seðlabanka og tveir frá hvorum aðalviðskiptabanka sjávarútvegsins, Landsbanka og Útvegsbanka, en með þessu frv. er gert ráð fyrir að verði einn fulltrúi frá hverjum þessara þriggja banka, einn fulltrúi tilnefndur af Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sjávarafurðadeild SÍS og Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, einn tilnefndur af Landssambandi ísl. útvegsmanna og einn tilnefndur af Sjómannasambandi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Sjöundi fulltrúinn verði tilnefndur af sjútvrh. sem jafnframt skipar úr hópi stjórnarmanna form. og varaform. sjóðsstjórnar.

Þá er einnig nýmæli í þessu frv. að það er tekin upp heimild til að lána út á eldri skip, en það hefur ekki verið í lögum um Fiskveiðasjóð, heldur aðeins lánað út á verðmætisaukningu í eldri skipum. En ég vil taka fram að það getur varla komið til framkvæmda á þessu ári, þessi lánaflokkur, vegna þess að það er fyrir löngu búið að ákveða lánsfjárþörf og lánsfjármöguleika Fiskveiðasjóðs, svo að það er ekki hægt á miðju ári að taka þennan lánaflokk til framkvæmda, en verður eðlilega, ef þetta frv. verður að lögum, gert strax í byrjun næsta árs.

Þá er einnig heimild til þess að auka nokkuð ákvarðanavald forstjóra sjóðsins, þannig að öll minni mál þarf ekki að leggja fyrir stjórnina, eftir nánari ákvörðun stjórnarinnar þó um upphæð lána til þess að gera afgreiðsluna einfaldari og eðlilegri og reyna að hraða afgreiðslu mála.

Í frv. var upprunalega gert ráð fyrir nokkurri breyt. á núgildandi lögum þannig að tengslin við Útvegsbankann voru slitin með frv. Ég gat þess í framsögu fyrir málinu í Nd. að athuga þyrfti þessa hlið nokkru betur því að þótt tengslin hafi að verulegu leyti verið slitin við Útvegsbankann með lögunum frá 1866, sem síðan hafa gilt, er sjóðurinn í húsnæði Útvegsbankans og í vissum tengslum. Hér var því gerð nokkur breyt. á í meðförum Nd. á þessu máli. En höfuðbreytingin, sem þar var gerð, var að tryggt er að starfsmenn Fiskveiðasjóðs njóta sömu kjara og réttar og starfsmenn Útvegsbankans. Benti ég einnig á í framsögu fyrir frv. í Nd. að það þyrfti að tryggja betur. Sjútvn. Nd. varð við þessum óskum og frv. var breytt í Nd. samræmi við þetta. Ég má því segja að það er fullt samkomulag, eins og frv. er nú, við starfsmenn sjóðsins, að þeir haldi öllum sínum réttindum og öllum sömu réttindum og starfsfólk Útvegsbankans hefur.

Hér segir: „Stjórn Útvegsbanka Íslands ræður aðra starfsmenn sjóðsins en um ræðir í 7. gr. skv. till. forstjóra sjóðsins.“ Ég vil taka fram varðandi það, sem síðar segir: „Um laun og kjör þeirra gilda sömu ákvæði og um starfsmenn Útvegsbankans“ — að þá er auðvitað átt við alla starfsmenn sjóðsins, einnig forstjóra og aðstoðarforstjóra eins og aðra starfsmenn. Þannig lít ég á að skilja eigi þessar greinar, enda er það í fullu samræmi við óskir og vilja starfsmannafélags Fiskveiðasjóðs.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um efni frv. Ég tel að með þessu frv. sé stigið veigamikið skref í þá átt að taka upp útlán til eldri skipa, greiða þannig fyrir kaupum og sölum þessara skipa, en stefna ekki alltaf að því að byggja nýtt, fara í stóraukna fjárfestingu þess vegna í landi þar sem er jafnmikill skortur á fjármagni og hjá okkur. Því tel ég að þessi ákvæði séu til bóta, og sömuleiðis sú heimild sjóðsstjórnarinnar að stofna til tæknideildar Fiskveiðasjóðs. Ég tel að hér þurfi að brjóta í blað þótt verði ekki gert alveg strax, því að sjóður eins og Fiskveiðasjóður á að hafa að mínum dómi mun meiri hemil á því á hvern hátt skip eru byggð og þar eigi ekki að ríkja of mikið frelsi hjá hverjum einstaklingi, eftir að lán eru ákvörðuð og teikningar liggja fyrir verði takmörk fyrir því sett hvað slíkur stofnlánasjóður sem þessi á að fallast á veigamiklar breytingar, sem kosta orðið jafnvel marga tugi milljóna, frá því að afgreiðsla málsins á sér stað hjá sjóðsstjórninni.

Breytingarnar á stjórn sjóðsins er í fullu samræmi við óskir og vilja hagsmunaaðila í sjávarútvegi sem hafa hvað eftir annað farið fram á þessar breyt. Og í þeirri n., sem undirbjó þetta frv. og í áttu sæti fulltrúar fiskvinnslustöðva, útgerðar, fulltrúi Seðlabankans og tveir fulltrúar án tilnefningar, gerðu þeir þá till. að breyta stjórninni á þann hátt að hún verði áfram fimm manna stjórn, þrír frá bönkunum, einn frá fiskvinnslunni og fimmti frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Eina breyt., sem við í sjútvrn. höfum gert á frv. frá því að þetta nál. var lagt fram, var að fjölga í stjórninni úr 5 í 7 þannig að samtök sjómanna fengju þar fulltrúa. En til þess að það stæði ekki á jöfnu, fulltrúar hagsmunahópanna og fulltrúar bankanna, þá töldum við nauðsynlegt að oddamaður yrði fulltrúi ríkisvaldsins sem yrði þá skipaður eins og aðrir til tveggja ára. Ég tel að þetta sé til mikilla bóta og það er, eins og ég sagði áðan, komið til móts við alla þessa aðila.

Frv. var mjög vel tekið af fulltrúum allra flokka í Nd. og náðist um það fullt samkomulag í sjútvn. Nd., og þó að það sé seint á ferðinni, þá vænti ég þess að hv. þd. og sú n., sem fær það til afgreiðslu, geri sitt besta til að greiða fyrir framgangi málsins þannig að þetta frv. verði að lögum áður en þingi verður slitið.

Herra forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umr, verði frv. vísað til hv. sjútvn.