10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3808 í B-deild Alþingistíðinda. (3137)

254. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. sjútvrh. að eðlilegt var að endurskoða lög um Fiskveiðasjóð Íslands. Þetta er ákaflega stór og mikill sjóður, stærsti sjóður sem starfar á okkar landi. Mjög mikilvægt er að samræma útlán hans þeirri almennu útlánastefnu sem gildir hverju sinni og áreiðanlega þarf meiri heildarsamræmingar og skoðunar við en verið hefur. Ég fagna breyt. eins og t.d. á útlánum til eldri skipa og heimild til þess að setja á fót tæknideild. Ég vil hins vegar láta það koma fram strax að ég er ekki sannfærður um að sú breyt. sem gerð er á stjórn sjóðsins sé rétt. Ég sé ekki að þessi breyt. tryggi betri samræmingu heldur en verið hefur við aðra útlánastarfsemi, og ég er ekki þrátt fyrir till. þeirrar n., sem um þetta fjallaði, sannfærður um að þeir fjölmörgu aðilar í þjóðfélaginu, sem hagsmuna eiga að gæta í starfsemi sjóðsins, fái þarna aðild þannig að þeir verði ánægðir, einhver hópur þeirra verður það, en aðrir ekki, og ég er loks í ákaflega miklum vafa um hvort það er rétt að svona sjóður, með opinberu fjármagni að sjálfsögðu, sé að verulegu leyti afhentur hagsmunasamtökunum.

Ég vil að þetta komi fram. Mín spurning er sú, hvort ekki hafi verið athugað að slík sjóðsstjórn sé kosin hlutfallskosningu á Alþ. Ég held að þannig hefði aðild að stjórn sjóðsins verið betur í samræmi við vilja Alþ. og stjórnvalda. Ég er í fljótu bragði heldur á þeirri línu og vil láta koma hér fram sem sagt, að ég hef ekki, þegar þetta mál hefur verið nefnt í þingil. Framsfl., tjáð mig fylgjandi þeirri skipan stjórnar sem þarna er gert ráð fyrir.