10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3809 í B-deild Alþingistíðinda. (3138)

254. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil benda á það að stór hluti af tekjuöflun til Fiskveiðasjóðs er lagður á sjávarútveginn í útflutningi og þeir sem framleiða þann útflutning eru sjómenn, útgerðarmenn og þeir sem að fiskvinnslu starfa. Þeir leggja þetta fjármagn til. Þetta er skattur sem á þá er lagður. Ríkisvaldið leggur svo aftur á móti á fjárlögum 3/4, á móti þessu útflutningsgjaldi sjávarútvegsins, og það fylgir einnig sú kvöð á ríkisstj. á hverjum tíma að útvega þessum sjóðum, eins og Fiskveiðasjóði, gífurlega mixið lánsfé. Það, sem vakti fyrir þeirri n. sem hafði þetta frv. til endurskoðunar, var að fulltrúar sjávarútvegsins ættu sæti í þessari sjóðsstjórn af þeirri ástæðu að þeir leggja eigin stofnlánasjóði til svo mikið fjármagn sem raun ber vitni. Þannig er með ýmsa aðra stofnlánasjóði. Þeir eru ýmist í vörslu eða undir stjórn þess banka eða sjóðs sem fer með skyld málefni. Þar eiga menn sæti sem eru nátengdir þessum atvinnugreinum og starfa innan þeirra og í samtökum þeirra. Hins vegar hefur það verið í gildi hvað þennan eina sjóð snertir, stærsta stofnlánasjóð atvinnuveganna, að honum hefur verið stjórnað af bankastjórum frá byrjun, til 1966 af bankastjórn eins banka, eftir 1966 af bankastjórum þriggja banka. Ég tel fráleitt og ég er sammála hv. síðasta ræðumanni hvað það snertir, að það er útilokað að hagsmunasamtök eigi að fá meiri hl. í stjórn slíks sjóðs. En ég hef verið óánægður með það öll þessi ár að bankarnir eigi að hafa algjör yfirráð yfir slíkum sjóði sem þessum.

Það er ekki verið að gera litla breyt, með þessu sem hér er lagt til, að í staðinn fyrir að bankastjórar séu 100% stjórnendur þessa sjóðs, þá verða þeir ekki nema 3 af 7 ef þetta frv. nær fram að ganga. Hitt tel ég svo sjálfsagðan hlut, að bæði sjómenn, útvegsmenn og fiskvinnsla eigi þarna fulltrúa. Hins vegar ef við ætlum að fara að reyna að ná til hvers einasta manns í sjávarútvegi, þá mundum við enda kannske með 15 manna stjórn á Fiskveiðasjóði eða jafnvel 20 eða 25, og það verður aldrei mín tillaga. Ég tel þetta ágæta breytingu, mjög þarfa breytingu.

Ég er andvígur þeirri hugmynd að stjórn sjóðs eins og þessa sé kjörin af Alþ. og að atvinnugreinin sjálf eigi ekki að fá neinn fulltrúa. Og ég vil bæta því hér við, að við endurskoðun á sjóðakerfinu var það einróma ósk og krafa allra fulltrúa í þeirri n., og þar áttu launþegar sex fulltrúa, að breyting í þessa átt yrði gerð. Útvegsmenn tóku mjög undir þessa breytingu, og það er ekki síst fyrir það að ég geri þá breytingu á þessari grein frv. frá því sem n. lagði til, að fjölga úr 5 í 7. En ég tel að frekari fjölgun í stjórn sé til mikils óhagræðis og verður þung í vöfum. Víð getum vel haldið okkur við þessa tölu, finnst mér, en ekki að fjölga enn meira. Það held ég að verði þungt í vöfum í lánastofnun eins og þessari. Það ættu að duga 7 menn í stjórn Fiskveiðasjóðs, a.m.k. á meðan dugar að hafa 7 menn í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar og Byggðasjóðs.