10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3817 í B-deild Alþingistíðinda. (3144)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Í sambandi við þetta mál og raunar á þessu þingi hafa orkumálín almennt og skipulag þeirra mjög verið til umr. Ég tel ástæðu til að hefja mál mitt með því að ræða nokkuð um þau almennt því þannig skýri ég betur það sem ég mætti kalla vissa fyrirvara í sambandi við þá breyt. sem ég fylgi þó af heilum hug og gert er ráð fyrir í frv. til l. um orkubú Vestfjarða.

Orkumálin hér í landi tóku mikinn sprett við olíukreppuna svonefndu. Eðlilegt var að stjórnvöld og Alþ. legðu þá ríka áherslu á að nýta innlenda orkugjafa í stað olíu. E.t.v. var það þó af nokkru meira kappi en forsjá. Þá var ákveðin virkjun Kröflu, þá var veitt heimild nokkru síðar til virkjunar Bessastaðaár, Suður-Fossár, einnig ákveðin samtenging á milli Norðurlands og Suðurlands og Sigölduvirkjun hafði þegar verið ákveðin. Ég ætla ekki að ræða nú um þessar einstöku framkvæmdir. Ég hygg að þær hafi allar töluvert til síns ágætis. Þó óttast ég að við margar þeirra hafi orðið nokkur mistök sem hafa reyndar verið rædd hér á hv. Alþ. Ég held hins vegar að langsamlega alvarlegast í þessu máli hafi verið skortur á skipulagi sem tryggi samræmingu og hagkvæmustu framkvæmd í þessum mjög kostnaðarsama málaflokki.

Þessi mál voru í fáum orðum framkvæmd þannig að Landsvirkjun sér að sjálfsögðu um sína virkjun, Sigölduvirkjun, sérstök n. var sett á fót til að annast Kröfluvirkjun, sérstök n. til þess að annast undirbúning að Bessastaðaárvirkjun, sérstök n. til þess að annast Suður-Fossárvirkjun og sérstök n. til þess að annast lagningu norðurlínu. Þó skal það tekið fram að á því hafa orðið nokkrar breytingar, t.d. norðurlínan nú verið færð undir Rafmagnsveitur ríkisins. Meira að segja er það svo að í sumum spennistöðvum, sem eru stórar og kostnaðarsöm fyrirtæki, eiga allmargir aðilar hlut, þrír eða fjórir e.t.v., og er æði flókið að samræma óskir þeirra allra.

Þó ég nefni þetta hér veit ég fyllilega að hv. þm. gera sér grein fyrir því og ég tek það fram að hæstv. orkuráðh. hefur sjálfur lagt á það ríka áherslu að þetta þurfi að breytast. Ég er ekki með þessu að áfellast hann. Þetta er arfur frá nálægt því fyrri kynslóðum. Við höfum dreift þessum orkumálum okkar, t.d. er nokkuð langt síðan raforkuskrifstofan, sem var ágæt skrifstofa, var af einhverjum ástæðum klofin í sinar frumeindir. Henni var skipt í þrennt. Held ég að þannig hafi þróunin því miður verið um nokkuð langan tíma að skipta þessu á fleiri hendur en að sameina það til betri samræmingar.

Framsfl. hefur fjallað um þessi mál. Hafa þau verið þar á dagskrá lengi, m.a. mjög í sambandi við þáltill. sem lögð var fram hér 1972. Ég harma fyrir mitt leyti að sú þáltill. fékk ekki fram að ganga, því þótt ég væri ekki alveg á þeirri skoðun sem þar kom fram að öllu leyti, þá stefndi hún þó markvisst að því að reyna að sameina þetta betur en nú er.

Ég lýsi best minni skoðun á þessum málum með því að lesa hér — með leyfi hæstv. forseta — samþykkt, sem aðalfundur miðstjórnar Framsfl. gerði í gær um skipulag orkumála. Hún er svo hljóðandi:

„Stefnt skal að jöfnun orkuverðs um land allt. Í því skyni skal lögð áhersla á að tengja saman raforkukerfi einstakra landshluta og tryggja þannig sem hagkvæmastar framkvæmdir og rekstur með samkeyrslu allra orkuvera og dreifikerfa. Í þessum tilgangi skal stefnt að eftirgreindu skipulagi orkumála:

1. Unnið verði að því að koma á fót einu fyrirtæki, sem annist alla meginraforkuvinnslu og flutning raforku á milli landshluta. Ríkisstj. taki í þessu skyni upp samninga við Landsvirkjun, Laxárvirkjun, Andakílsárvirkjun, Rafveitu Vestmannaeyja, Rafveitu Siglufjarðar og aðrar rafveitur, sem eiga og reka orkuver, um sameiningu slíks reksturs í einni landsvirkjun. Aðilar að þessu fyrirtæki og stjórn þess verði ríkissjóður og landshlutaveitur. Eignarhluti ríkissjóðs skal aldrei vera minni en 50%. Fyrirtækið undirbýr virkjanir og lætur virkja annað.

2. Unnið verði að því að koma á fót landshlutaveitum sem annist alla dreifingu og sölu á raforku í viðkomandi landshluta. Landshlutaveitur þessar geti einnig annast rekstur hitaveitna. Þær sjá um framkvæmdir, sem nauðsynlegar eru vegna viðkomandi reksturs. Aðilar að slíkum landshlutaveitum og stjórnum þeirra verði sveitarfélögin og væntanleg Íslandsvirkjun. (Það nafn hefur þarna verið gefið því fyrirtæki sem var um rætt í 3. lið.)

3. Orkustofnun verði ríkisstj. til ráðuneytis um orkumál og annist upplýsingasöfnun hvers konar um orkulindir þjóðarinnar, geri áætlanir um nýtingu þeirra og annist frumrannsóknir fyrir virkjanir. Orkustofnun veiti Íslandsvirkjun og landshlutaveitum nauðsynlega þjónustu.“

Þetta er sú stefna sem mörkuð var samhljóða á þessu þingi, og eins og ég sagði áðan er ég henni mjög sammála. Þarna er mörkuð sú meginstefna að reyna að sameina raforkuvinnsluna á eina hendi og tryggja þannig þá mestu hagkvæmni sem við getum vænst Í slíkum framkvæmdum og jafnframt jöfnun orkuverðs um land allt. Hins vegar er hlutur heimamanna hvergi fyrir borð borinn. Þeim er ætlað það verkefni að taka við orkunni, dreifa henni, reka dreifistöðvar og dreifikerfi, að reka hitaveitur og vera þátttakendur í þeirri landsveitu sem lagt er til að komið verði á fót.

Nú mætti ætla að með slíka samþykkt sé mér erfitt að standa að því frv. sem hér liggur fyrir því að það er rétt að þetta frv. gengur að nokkru leyti gegn því sem hér er lagt til. Í frv. um Orkubú Vestfjarða er lagt til að eitt fyrirtæki annist bæði frumvinnslu raforkunnar og dreifingu hennar og jafnframt rekstur hitaveitna, þ.e.a.s. liðir 1 og 2 Í því, sem ég las upp áðan, eru raunar sameinaðir á Vestfjörðum í eitt fyrirtæki. Fjórðungssamband Vestfjarða tók þessi mál fyrir fyrir um það bil 11/2 ári og reið þar mjög myndarlega á vaðið. Skipulag orkumála á Vestfjörðum eru í ákaflega svipuðum vandræðum eins og við.a um landið. Þar eru fjórar sjálfstæðar rafveitur auk Rafmagnsveitna ríkisins og því alveg ljóst að þar var endurskipulagning mjög nauðsynleg. Þetta sáu heimamenn og tóku sig því til og hrundu af stað þeirri athugun og þeim undirbúningi sem orðið hefur til þess að þetta frv. var samþ. Þetta frv. er sem sagt miðað við þær aðstæður sem eru á Vestfjörðum nú og jafnframt miðað við þá staðreynd að við eigum ekki samræmda, ákveðna stefnu í skipulagi orkumála þessarar þjóðar.

Þetta frv. er einnig miðað við það að Vestfirðirnir eru aðskildir meira en aðrir landshlutar frá orkukerfinu og mun vera lengra í land, því miður, að þangað fáist lina og samtenging. Því er að sumu leyti og öllu leyti raunar, á meðan samtengingin fæst ekki, erfiðara að sjálfsögðu að tryggja samrekstur orkuvera þar og þeirra orkuvera sem Í öðrum hlutum landsins eru starfrækt. Á fund iðnn. mætti m.a. Aðalsteinn Guðjohnsen, formaður Sambands ísl. rafveitna, og lagði ég há þessa spurningu fyrir hann. Hann kvað það vera sína skoðun, að rekstur orkuveranna ætti að vera sjálfstæður og sameinaðar, eins og við leggjum til í till. sem ég las áðan, en hann taldi hins vegar að Vestfirðirnir væru undantekning af þeim ástæðum sem ég rakti áðan.

Mér sýnist því að þessi sameining á Vestfjörðum þurfi á engan máta, eins og nú er, að stríða gegn því sem lagt er til. Hins vegar legg ég á það ríka áherslu að ef slík stefna verður samþ. sem ég lýsti, þá ber að mínu mati að skoða mjög vandlega hvort Vestfirðirnir eigi ekki að falla inn í það kerfi einnig og þá stokkast upp það skipulag sem frv. um Orkubú Vestfjarða gerir ráð fyrir nú. Á þetta legg ég mikla áherslu, og þótt ég hafi ekki kosið að flytja um þetta till. eða ákvæði til bráðabirgða í frv. vil ég það komi skýrt fram hér.

Ég hef að sjálfsögðu ekki nema eitt markmið, og það er að Vestfirðirnir búi við þau hagstæðustu kjör sem hægt er að veita íslendingum í orkumálum. Ef þau kjör verða hagstæðari með þeirri sameiningu orkuframleiðslunnar sem við teljum forsendu hagkvæmra framkvæmda og rekstrar, þá eiga Vestfirðirnir að sjálfsögðu að njóta þess þótt þeir hafi riðið á vaðið og lagt til skipulag miðað við þær forsendur og aðstæður sem nú eru fyrir hendi.

Ég vil ekki hafa þetta mjög langt mál. Þó vil ég aðeins geta um tvær umsagnir sem komu til iðnn., sem hv. frsm. gat reyndar að nokkru, en ég vil fara um fáeinum orðum.

Ég gat því miður ekki verið á þeim fundi þar sem mættir voru þeir menn sem til voru kvaddir og nefndir hafa verið. Ég hef hins vegar rætt við þá flesta. Komið hafa fram atriði sem ég hef mjög hugleitt og mér finnst rétt að komi fram, og ekki síst þarf hæstv. ráðh. að hugleiða það þegar hann tekur mál þetta til framkvæmdar. Hjá formanni stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins og einnig hjá formanni stjórnar Landsvirkjunar hefur komið fram ákaflega sterk og ákveðin athugasemd við þá eignatilfærslu sem gert er ráð fyrir.

Í frv. er ákveðið að ríkissjóður eigi 40% í Orkubúi Vestfjarða. Það er ákveðið án tillits til þeirra eigna sem gert er ráð fyrir að flytja á milli. Fyrir þessu er ekki talið vera fordæmi og þetta þurfi að skoða mjög vandlega lagalega, og get ég út af fyrir sig samþ. það. En hins vegar, eftir því sem ég hef hugleitt það meir, virðist mér að þetta þurfi ekki að vera til fyrirstöðu. Að sjálfsögðu eru Rafmagnsveitur ríkisins þjóðareign og er Alþ. heimilt að ráðstafa þessu á þann máta sem íbúum landsins er hagkvæmast. Ég get ekki fallist á að ákveðinn hluti landsins eigi ákveðinn hluta Rafmagnsveitna ríkisins. Ég tel þetta sameign og því erfitt að taka upp skiptingu í einhverju hlutfalli t.d. við íbúafjölda. Það er t.d. ljóst að vissir landshlutar hafa notið í rekstri hagkvæmari rekstrar annarra landshluta, þannig hefur verið flutt á milli. Það er eignartilfærsla. Því hef ég ekki að athuguðu máli getað fallist á þessar ábendingar þó að ég komi þeim hér á framfæri.

Hins vegar tel ég mér skylt að fara nokkrum orðum um grg. sem kom undirskrifuð af forstjóra Rafmagnsveitna ríkisins og skrifstofustjóra þeirrar stofnunar. Reyndar mun vera fyrirliggjandi töluvert ítarlegri skýrsla sem þessir starfsmenn og fleiri hafa tekið saman.

Mér finnst nú margt í þessari skýrslu einkennast af fordómum og þannig að mér þykir undarlegt, að slíkt skuli fram boríð. Engu að síður er þar ábending sem er ákaflega nauðsynleg og menn verða að gera sér grein fyrir. Í útreikningum, sem fram komu í skýrslu þeirrar nefndar, sem undirbjó frv., og í frv. er gert ráð fyrir ákveðnu mati á eignum. Þetta er vefengt mjög sterklega, og ég vil — með leyfi forseta — lesa það. Þar segir: „Áður hefur verið minnst á að stofnkostnaður og skuldir, sem Orkubú Vestfjarða yfirtekur samkv. frv., sé pr. 31. des. 1.974 946 millj. kr. Pr. 31. des. 1975 mun þessi tala vera mjög nálægt 1 milljarður 587 millj. kr. Ef yfirtaka fer fram í lok þessa árs, pr. 31. des. 1976, má lauslega áætla að hér sé um 1 milljarð 800 millj. kr. að ræða. Ef afborgun og vextir af þessari fjárhæð eru reiknaðir 18%, þá er hér fjármagnskostnaðarupphæð 324 millj. kr. Þó er Suður-Fossárvirkjun ekki meðtalin, en Orkubú Vestfjarða reiknar með henni til yfirtöku. Kostnaður virkjunarinnar ásamt tengingu við Vestfjarðakerfið mun vera nálægt 500 millj. kr. og fjármagnskostnaður af þessum sökum einum um 90 millj. kr. eða alls eftir yfirtöku um 414 millj. kr. Þrátt fyrir niðurfellingu þessa fjármagnskostnaðar og enda þótt enginn rekstrarkostnaður sé talinn vegna þeirra mannvirkja, sem Orkubú Vestfjarða yfirtekur, kemur fram rekstrarhalli í áætlun þeirri að upphæð 299 millj. kr. Árið 1985 er reiknaður halli orðinn alls 727 millj. kr. án vaxta af þeim skuldum sem þannig skapast. Með 12% vöxtum er þessi halli þá orðinn um 1400 millj. kr. og ársvextir um 150 millj. kr.

Hér er þó ekki öll sagan sögð um það fjárhagsfen sem vestfirðingar hætta sér út í með stofnun Orkubús Vestfjarða. Í áætlun Orkubús Vestfjarða um rekstrarafkomu að slepptum áðurnefndum fjármagnskostnaði, 414 millj. kr., er reiknað með fjármagnskostnaði nýrra mannvirkja aðeins 12%, 40 ára lán. Ef hér er reiknað raunsærra, miðað við 18%, eykst útgjaldabyrði um nálægt 317 millj. kr. á ári. Halli Orkubús Vestfjarða er sem áður segir í grg. Orkubús Vestfjarða talinn verða 299 millj. kr. árið 1978, en ætti að reiknast 299 + 414 + 317 + 90 = 1120 millj. kr. samtals á því ári.“

Þetta er svo ljótur lestur að mönnum hlýtur að hrylla við. Ekki vil ég standa að því að beina vestfirðingum inn í slíkt öngþveiti sem þarna er lýst. Er, ég vil vekja athygli á því að þetta er ekki heldur fallegur dómur um rekstur Rafmagnsveitna ríkisins, því rekstur Rafmagnsveitna ríkisins á þessu svæði verður sannarlega ekkert arðbærri heldur en rekstur Orkubús Vestfjarða, og ég fæ raunar ekki betur séð en að með því frv., sem nú liggur fyrir, sé þó stefnt að meiri hagkvæmni. Stefnt er að sameiningu þeirra rafveitna, sem fyrir eru, og þar m.a. stefnt að því, sem ég tel mikilvægasta ákvæði þessa frv., að sameina á einni hendi rekstur hitaveitna eða fjarhitastöðva og raforkudreifingu. Þar næst miklu betri nýting á raforkunni heldur en fæst eins og nú er þegar þetta er á fjórum höndum og auk þess hitaveitur sérstaklega í höndum einstakra sveitarfélaga. Ég get því á engan máta séð að þessi afkoma verði lakari með því skipulagi, sem lagt er til, heldur hljóti hún að verða betri. En þetta er mjög athyglisvert og vekur menn til umhugsunar um það að viða hlýtur að vera pottur brotinn í rekstri Rafmagnsveitna ríkisins, ef slíkt ástand er á Vestfjörðum, og sannarlega mjög verðugt til umhugsunar. Hitt er svo alveg ljóst, að það er að sjálfsögðu ekkert vit í því fyrir vestfirðinga að taka við þessu feni ef það á allt að fylgja. Það er alveg ljóst að gera þarf upp dæmið við Rafmagnsveitur ríkisins og það sem verða eignir að yfirfærast á þann máta að rekstrargrundvöllur sé fyrir hendi.

Ég beitti mér þess vegna fyrir því í n. að 1. gr. frv. var breytt Í heimild. Ég þorði ekki — ég segi það í hreinskilni — að standa að því að festa í lög að þetta skuli gert, því að þetta er algjörlega háð því að þeir samningar náist við ríkisvaldið um yfirtöku eigna Rafmagnsveitna ríkisins sem skapa Orkubúinu rekstrargrundvöll. Án þess að það fáist er ekkert vit í að leggja í það fyrirtæki. En þá er einnig ekki síður nauðsynlegt að stokka upp rekstur Rafmagnsveitna ríkisins.

Ég vona að þessi orð hafi í fyrsta lagi skýrt mína afstöðu og einnig skýrt málið nokkuð. Ég vona að þetta frv. fái framgang á þessu þingi. Ég tek enn einu sinni fram að þetta er að mínu mati það skásta skipulag sem við eigum kost á á Vestfjörðum eins og nú er ástatt. En ég legg á það ríka áherslu aftur að þetta skipulag beri að endurskoða ef annað skárra verður upp tekið hjá þjóðinni almennt.