10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3825 í B-deild Alþingistíðinda. (3147)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Frv. það til l. um Orkubú Vestfjarða, sem hér er til 2. umr. í hv. Ed. hefur, eins og fram hefur komið í ræðum manna hér, verið til umfjöllunar í iðnn. Ed. og allir iðnnm. hafa skrifað undir nál. sem í sér felur þó nokkra breyt. á frv. frá því sem áður var, — þá breyt., að í stað þess að frv. gerði upphaflega ráð fyrir að ríkissjóður íslands og sveitarfélög á Vestfjörðum skyldu setja á stofn orkufyrirtæki, þá er þessu orðalagi breytt þannig að ríkissjóði Íslands og sveitarfélögum á Vestfjörðum skal heimilt að stofna orkufyrirtæki o.s.frv.

Ég vil strax segja frá því hér, að þessi orðalagsbreyting hafði veruleg áhrif á afstöðu mína til þessa frv., vegna þess að þrátt fyrir verulega umfjöllun í iðnn. og þrátt fyrir allítarlegar umr. hér á hv. Alþ. um þetta frv., þá er ég ekki í raun og veru enn þá sannfærður um að þetta sé rétta lausnin á orkuvandamálum vestfirðinga. Hins vegar álít ég að í sjálfu sér sé það skipulag, sem hér er gert ráð fyrir, til fyrirmyndar og mér finnst líklegt að svipað skipulag á orkumálum landsmanna allra væri heppilegt. Ég ákvað þess vegna, þrátt fyrir það að ég teldi að betra væri að hafa heildarskipan þessara mála yfir allt landið, að styðja að því að þetta frv. næði fram að ganga. Ég vil taka það skýrt fram að þau vandkvæði, sem kunna að vera á því að þetta mál nái fram að ganga eða þetta mál verði hæfileg lausn á orkuvandamálum Vestfjarða, eru miklu fremur því bundin, að svona fyrirkomulag kunni að verða of dýrt fyrir vestfirðinga sjálfa, heldur en að þetta skipulag skaði landið að öðru leyti með tilliti til skipulagsmála í þessu efni. En ég álít að það sé mjög nauðsynlegt, ef kemur til heildarskipulags á þessum málum, að þá gangi vestfirðingar inn Í það skipulag. Við nánari athugun sýnist mér að nauðsynlegt sé að athuga hvort ekki sé þörf á að gera nokkra breyt. á 15. gr. frv., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar eftir gildistöku laga þessara skal iðnrh. gangast fyrir að sameignarsamningur sé gerður milli aðila og stofnendur fyrirtækisins haldinn skv. reglum 9. gr., eftir því sem við á. Skal þessu lokið á árinu 1976.“ Mér finnst að þarna sé nokkuð fast að orði kveðið miðað við orðalag 1. gr., Og ég vil mælast til þess að eftir 2. umr. verði þetta atriði tekið til athugunar í n. með það fyrir augum að breyta hugsanlega orðalagi þessarar greinar svo að það samræmist betur en mér finnst nú vera orðalagi 1. gr. Og þá hefði mér þótt eðlilegt líka að viðaukatill. Ragnars Arnalds yrði tekin til athugunar í nefndinni.

Ég ætla ekki að tefja hv. þdm. með löngu máli um þetta, en þó get ég ekki stillt mig um að láta þess getið að ég tel mjög mikla nauðsyn á því að hraðað verði heildarskipulagningu raforkumála, bæði hvað snertir raforkuöflun og raforkudreifingu, og vil í því efni vísa til nýgerðrar samþykktar á miðstjórnarfundi Framsfl. sem reyndar hefur verið lesin hér upp. Ég held að þessi mál séu orðin svo brýn og það sé orðið svo ljóst hversu brýn þau eru, að mikil nauðsyn sé að gengið sé rösklega til verka um lausn þeirra.