10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3826 í B-deild Alþingistíðinda. (3148)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hlýt í upphafi máls míns að óska vestfirðingum til hamingju með ýmis grundvallaratriði í lagafrv. því sem hér er fjallað um núna. Ég varð strax við lestur þess og fylgiritsins, sem frv. fylgdi til okkar þm., hugfanginn af ýmsum atriðum þessa máls, m.a. mjög svo frumlegri lausn og lýðræðislegri á eignaraðildarvandamálinn, svo að aðeins eitt atriði sé nefnt. Mér er það ljóst að meðal vestfirðinga hefur náðst mjög mikil samstaða um þetta mál og gleðileg samstaða og raunar langt umfram það sem maður hefur átt að venjast þegar um þess háttar mál er að fjalla milli byggðarlaga með mismunandi aðstæður og mismunandi sjónarmið.

Ég vil á engan hátt tefja afgreiðslu þessa máls eða bregða fyrir það fæti. Hitt fór ég ekki dult með í iðnn. né heldur vil ég gera það núna, að ég hefði gjarnan viljað að lengri tíma hefði verið varið til undirbúnings þessa máls. Í meðferð n. komu ýmsir annmarkar í ljós, sem auðvelt hefði átt að vera að sneiða hjá, ýmsir agnúar sem hefði verið æskilegt að nema burt. Loks er það, að mér þykir að ekki hafi verið með öllu unnið nógu varlega að undirbúningi að hinni efnahagslegu hlið þessa frv. Það kemur t.d. í ljós að ekki hafði verið haft samráð við Rafmagnsveitur ríkisins, þessa stofnun sem er ekki ómerkilegri en svo, að hún á nú meiri hl. í þeim eignum sem hér er um að véla á Vestfjörðum.

Í þessu riti, fylgiriti sem við þm. fengum með frv. og ég lýsti áðan yfir ánægju minni með — ég ítreka það að ég hafði gott af því að lesa þetta rit, mér fannst það uppbyggilegt og ýmislegt, sem þar kemur fram, ákaflega athyglisvert — þar eru útreikningar sem voru vefengdir á nefndarfundi hjá okkur af form. Rafmagnsveitna ríkisins, framkvæmdastjóra og skrifstofustjóra. Ég tek undir það sem áður hefur verið sagt hér um skjöl sem þeir RARIK-menn lögðu fram á nefndarfundinum, að mér þótti ekki orðalag eða ýmsar aths. þar með öllu vingjarnlegar. En þó er þetta nú svo, að þegar skakkar t.d. í útreikningi á rekstrarkostnaði hins fyrirhugaða orkuhús árið 1978 svo mjög sem raun ber vitni hérna, að annars vegar reikna aðstandendur frv. með 299 millj. kr. rekstrarhalla, en sérfræðingar RARIK reikna þarna út 1120 millj. kr. rekstrarhalla þá hefði ég viljað að okkur hefði gefist tími til að láta fara ofan í þessa útreikninga aftur af þriðja aðila og fá grg. m.a. um það nákvæmlega í hverju skakkar þarna í útreikningunum og þá jafnframt fá áætlun um það með hvaða hætti hið nýja fyrirtæki, Orkubú Vestfjarða, eigi að yfirtaka eignir Rafmagnsveitna ríkisins á þann hátt að skuldirnar, sem eignunum fylgja, verði vestfirðingum ekki ofviða að rísa undir þeim og jafnframt á þann hátt að hið illa stæða fyrirtæki, Rafmagnsveitur ríkisins, verði ekki látið sitja uppi með skuldirnar, en svipt þessum eignum þannig að þessar skuldir færist þá yfir aðra þá sem eftir sitja með Rafmagnsveitur ríkisins.

Hv. frsm., Þorv. Garðar Kristjánsson, gerði — og lagði á það mjög mikla áherslu í lok ræðu sinnar — ítarlega grein fyrir þörf vestfirðinga fyrir, ef til þess kemur að komið verði á heildarskipulagi raforkumála fyrir landið allt, að fá aðild að heildardreifikerfinu, þar sem miðað yrði við það að raforka yrði seld á einu og sama verði um landið allt, ef slíkt reyndist hagkvæmara fyrir vestfirðinga heldur en að búa að sínu orkubúi, einkaorkubúi, sérstaklega. Það er náttúrlega því við að bæta, að ef vestfirðingar ætla sér að njóta hagnaðar af Landsvirkjun eða landsveitu á raforku, þá verða þeir að takast á herðar nokkrar skyldur gagnvart því fyrirtæki einnig. Má þá ætla að miða þurfi skipulag orkubúsins við það að auðvelt verði fyrir orkubúið að gerast aðili að þessu landsfyrirtæki.

Ég undirritaði nál., þar sem mælt er með samþykkt frv., án nokkurs fyrirvara. Ég er þeirrar skoðunar að breyt., sem gerð var á 1. gr. frv., bar sem kveðið er á um það, að hér sé um heimildarlög að ræða, skýrar en hv. frsm., Þorv. Garðar Kristjánsson, gerði grein fyrir að verið hefði í frv. Í hinni upprunalegu mynd þessi breyt. gerir það að verkum að hér sé ekki lagt Í neina áhættu að þessu leyti. Það er á valdi yfirstjórnar orkumála og síðan vestfirðinganna sjálfra, sem hér eiga mest í húfi, og á valdi Rafmagnsveitna ríkisins að haga svo málum að til hagsbóta verði ekki aðeins fyrir vestfirðinga, heldur verði einnig tekið tillit til hagsmuna annarra aðila.

Ég get tekið undir gagnrýni hv. þm. Inga Tryggvasonar á 15. gr. Ég held að rétt sé að taka hana til athugunar í n. með tilliti til hinnar breyttu 1. gr., og gefst þá jafnframt tækifæri til þess að fjalla um brtt. Ragnars Arnalds.

Ég ítreka svo aðeins þetta í lokin, að ég tel nauðsynlegt að þannig verði um hnútana búið af hálfu löggjafans að auðvelt verði fyrir vestfirðinga að gerast aðilar að því stóra landsfyrirtæki sem koma þarf til framleiðslu á orku og til orkurannsókna, — búið svo um hnútana að þetta lagafrv., sem við fjöllum um hér, verði síst til þess að torvelda það að slíkt heildarfyrirtæki megi komast á á landinu. Ég tel að samþykktir þær um raforkumál, sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson gerði grein fyrir að samþ. hefðu verið á miðstjórnarfundi Framsfl. og greinilega eru teknar upp úr samþykkt Alþb. um raforkumál, — ég tel, að þessar samþykktir horfi til hins betra, og ég vildi gjarnan að þessar samþykktir fengju að setja örlítinn blæ á þetta lagafrv. sem hér liggur fyrir.